Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 600/2012

Nr. 600/2012 26. júní 2012
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

66. gr. orðast svo:

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands með það að markmiði að stuðla að kröftugu vísindastarfi sem stenst alþjóðlegan samanburð og samkeppni.

Deildir háskólans bera faglega ábyrgð á framhaldsnámi við skólann. Miðstöð framhaldsnáms hefur heildaryfirsýn yfir framhaldsnámið og starfar náið með fræðasviðum, háskóladeildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu. Miðstöðin er þannig vettvangur samráðs og samvinnu um námið innan háskólans og tengiliður við samstarfsaðila innan lands og utan. Þverfræðilegar námsleiðir geta átt formlegt aðsetur í miðstöðinni og eru skilgreindar í samstarfi við hlutaðeigandi deildir. Heimilt er að veita öðrum háskólum tiltekna aðild að miðstöðinni enda uppfylli þeir fagleg skilyrði til þess að standa fyrir doktorsnámi í viðkomandi fræðigrein að hluta eða öllu leyti og hafi tilskilda viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess. Um slíka aðild skal gerður sérstakur samningur.

Hlutverk Miðstöðvar framhaldsnáms er að tryggja og efla gæði meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Fræðasviðum og deildum ber að senda miðstöðinni upplýsingar og gögn sem hún kallar eftir. Hlutverk sitt rækir hún m.a. með því að:

a. hvetja til aukinna gæða og þjóna vexti og viðgangi framhaldsnámsins í hvívetna, einkum doktorsnáms,

b. skilgreina og fylgja eftir sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms, fylgjast með því að starfandi námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur, að framboð námskeiða sé fullnægjandi og staðfesta lýsingar deilda á nýjum námsleiðum í framhaldsnámi, sbr. verklagsreglur um undirbúning og stofnun nýrra námsleiða við Háskóla Íslands,

c. hafa eftirlit með því og eftir atvikum sannreyna, að deildir fylgi reglum um inntökukröfur, inntökuferli, inntökupróf fyrir doktorsnema ef því er að skipta, námsáætlun, námsframvindu og dagsetningar sem standast verður til að nemendur geti lokið framhaldsnámi, þ.m.t. að staðfesta inntöku doktorsnema, árlega námsframvinduskýrslu doktorsnema og að skráning eininga sé í samræmi við raunverulega námsáætlun,

d. fylgjast með því að nemendur í framhaldsnámi séu ávallt skráðir við háskólann á meðan á námi stendur, yfirfara og annast skráningu niðurstaðna deilda vegna umsókna um framhaldsnám, námsáætlana fyrir rannsóknatengt meistaranám og breytinga á þeim og yfirfara, skrá og staðfesta námsáætlanir fyrir doktorsnám og breytingar á þeim,

e. taka við erindum doktorsnema telji þeir að viðkomandi fræðasvið, deild eða námsleið fullnægi ekki settum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við háskólann,

f. hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum 4. töluliðar 69. gr. þessara reglna um að óheimilt sé að taka akademískan starfsmann í deild í doktorsnám við viðkomandi deild,

g. sannreyna hvort leiðbeinendur í framhaldsnámi uppfylli sett viðmið og kröfur og viðurkenna þá sem aðila að miðstöðinni,

h. veita umsögn um og staðfesta tillögur deilda um andmælendur við doktorsvörn, sbr. 2. tölulið 70. gr. þessara reglna,

i. vera vettvangur samráðs og samvinnu um framhaldsnám innan skólans og um kröfur til framhaldsnema og leiðbeinenda,

j. stuðla í senn að samhæfingu og fjölbreytni framhaldsnámsins við háskólann og fylgjast náið með þróun framhaldsnáms á alþjóðlegum vettvangi og beita sér fyrir því að framhaldsnám við háskólann sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur,

k. annast aðild Háskóla Íslands að Council of Graduate Schools í Bandaríkjunum og Council for Doctoral Education hjá Samtökum evrópskra háskóla (EUA) og eftir atvikum annarra alþjóðlegra samtaka um málefni framhaldsnáms,

l. hvetja til alþjóðlegs samstarfs og samvinnu við erlenda háskóla, m.a. varðandi sameiginleg rannsóknaverkefni og sameiginlegar prófgráður (joint degrees) og halda utan um sértæka samstarfssamninga um framhaldsnám og sameiginlegar prófgráður, í samráði við kennslusvið,

m. hvetja til samstarfs háskóla, atvinnulífs og rannsóknastofnana um rannsóknaverkefni meistara- og doktorsnema,

n. efla skilning á hagsmunum framhaldsnáms og framhaldsnema,

o. halda saman, greina og miðla gögnum og upplýsingum um alla helstu þætti framhaldsnáms við háskólann, þ.m.t. styrki og staðtölur um námið á íslensku og ensku, og birta á vefsíðu sinni handbók fyrir doktorsnema með ítarlegum upplýsingum og leiðbeiningum um doktorsnám við Háskóla Íslands,

p. stuðla að þátttöku félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands í alþjóðlegu samstarfi með sambærilegum félögum,

q. annast í samráði við deildir og kennslusvið umsýslu við kennsluskrá framhaldsnáms við háskólann,

r. gangast fyrir fræðslu, ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem varða hlutverk og markmið miðstöðvarinnar, framhaldsnám almennt og vísindastörf við háskólann og

s. gera eftir atvikum tillögur til háskólaráðs um reglur og/eða viðmið sem stuðla að gæðum meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Rektor ræður forstöðumann Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands til fimm ára í senn og setur honum erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans. Forstöðumaður skal hafa akademískt hæfi og víðtæka þekkingu á framhaldsnámi á háskólastigi.

Forstöðumanni til ráðuneytis skipar háskólaráð fimm menn í stjórn sem skipuð skal fulltrúum fræðasviða háskólans. Forstöðumaður miðstöðvarinnar er formaður stjórnar.

Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á misseri og boðar forstöðumaður miðstöðvarinnar þá bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði forstöðumanns. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor.

Verkefni stjórnar er að vera forstöðumanni til ráðgjafar um allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir miðstöðina, framkvæmd hlutverks hennar skv. 3. mgr. og veita honum umsagnir um starfsáætlanir og annað er lýtur að starfsemi hennar.

Forstöðumaður ber ábyrgð á fjármálum miðstöðvarinnar gagnvart rektor og háskólaráði, undirbýr rekstrar- og fjárhagsáætlun í samráði við stjórn og gerir tillögu til háskólaráðs um fjárveitingar og ráðstöfun þeirra ásamt skiptingu annarra tekna ef við á.

Forstöðumaður annast daglegan rekstur miðstöðvarinnar, þar á meðal starfsmannastjórnun ef við á, fjármál og verkefni.

Um ráðningu annars starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.

Formlegt mat á rekstri og starfsemi miðstöðvarinnar skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

2. gr.

1. og 2. málsliður 19. mgr. 111. gr. orðast svo:

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga að loknu meistaraprófi. Heimilt er að skipuleggja doktorsnám til allt að 240 eininga að loknu meistaraprófi séu til þess faglegar forsendur.

3. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 26. júní 2012.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 10. júlí 2012