Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 63/2008

Nr. 63/2008 7. júní 2008
LÖG
um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, með síðari breytingum.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
    Á eftir 2. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálafyrirtæki er ekki heimilt að innheimta kostnað vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi ef slík gjaldtaka á ekki stoð í samningi. Kostnaður vegna óheimils yfirdráttar skal vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins.

2. gr.
    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Breytingar á gjaldtöku vegna lánssamninga samkvæmt lögum þessum skal tilkynna að lágmarki einni viku áður en þær taka gildi ef þær eru ekki til hagsbóta fyrir neytendur. Lánveitandi telst uppfylla skilyrði þessarar málsgreinar ef upplýsingar eru veittar með eftirfarandi hætti að vali neytanda:
    a.    á vefsíðu á vegum lánveitanda, enda hafi neytanda verið tilkynnt um veffang vefsetursins og hvar hægt sé að nálgast umræddar upplýsingar á því, eða
    b.    í netbanka á vegum lánveitanda, eða
    c.    með tölvupósti.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar getur neytandi óskað eftir því að upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein verði veittar skriflega.

3. gr.
    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
    Lánveitanda er óheimilt að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af láni í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt er upp fyrir þann tíma sem umsaminn er, ef upphaflegur höfuðstóll lánsins er að jafnvirði 50 millj. kr. eða minna.
    Lánveitandi getur ekki krafist uppgreiðslugjalds ef ástæða uppgreiðslu er gjaldfelling láns af hans hálfu.
    Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald skal kveðið á um slíkt í lánssamningi. Tilgreina skal upplýsingar um hvernig uppgreiðslugjald er reiknað út og hvenær slíkur kostnaður fellur á.
    Í þeim tilvikum sem heimilt er að semja um uppgreiðslugjald má fjárhæð gjaldsins að hámarki vera það tjón sem lánveitandi verður fyrir vegna uppgreiðslunnar fyrir þann tíma sem umsaminn er. Ef kveðið er á um heimild til endurskoðunar vaxta í lánssamningi með föstum vöxtum skal miða útreikning uppgreiðslugjalds við tímann fram að næsta endurskoðunardegi vaxta. Ráðherra skal setja nánari reglur um útreikning á tjóni vegna uppgreiðslu.

4. gr.
    2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Neytandi skal gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár innan tveggja ára frá afhendingu vöru eða þjónustu, eða innan fimm ára þegar um ræðir söluhlut sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti frá því að honum var veitt viðtaka.

5. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 7. júní 2008.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Björgvin G. Sigurðsson.

A deild - Útgáfud.: 11. júní 2008