Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 633/2008

Nr. 633/2008 19. júní 2008
AUGLÝSING
varðandi nýtt skipulag Háskóla Íslands.

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 85/2008 sem tóku gildi 30. maí 2008 hefur háskólaráð samþykkt eftirfarandi reglur:

I. Reglur um skipulagseiningar og starfsheiti stjórnenda.
1. Í stað heitisins skóli verður notað heitið fræðasvið í Háskóla Íslands, sbr. heimildarákvæði í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.
2. Í stað starfsheitisins forseti skóla verður notað starfsheitið forseti fræðasviðs, sbr. heimildarákvæði í 1. mgr. 15. gr. laganna. Rektor ræður forseta fræðasviða og setur þeim erindisbréf.
3. Í stað starfsheitisins formaður deildar verður notað starfsheitið deildarforseti, sbr. heimildarákvæði í 1. mgr. 15. gr. laganna. Í fyrstu setur rektor deild­ar­for­setum erindisbréf, en forseti fræðasviðs mun hafa þetta hlutverk með höndum þegar innleiðing nýs skipulags er að fullu komin til framkvæmdar.
4. Í stað heitisins skólafundur í lögunum verður notað heitið þing fræðasviðs.
5. Heimilt er að skipa deildum í minni skipulagseiningar, sbr. heimildarákvæði í 2. mgr. 4. gr. laganna, og verða þessar einingar nefndar námsbrautir. Gengið verður út frá því að innan námsbrautar verði að jafnaði nokkrar námsleiðir sem myndi faglega heild. Stjórnandi námsbrautar kallast námsbrautarstjóri. Forseti fræðasviðs setur námsbrautarstjóra erindisbréf. Ef námsbraut er mynduð í deild áður en forseti fræðasviðs hefur tekið til starfa setur rektor námsbrautarstjóra erindisbréfið.
6. Í stað heitisins háskólafundur í lögunum verður notað heitið háskólaþing.

II. Afmörkun ákvörðunarvalds forseta fræðasviðs um ráðningar akademískra starfsmanna o.fl.
1. Forseti fræðasviðs starfar í umboði rektors. Hann er æðsti yfirmaður og akademískur leiðtogi fræðasviðsins og stjórnar daglegri starfsemi þess. Hann ber ábyrgð á fjármálum og rekstri fræðasviðs sem og deilda og stofnana sem undir það heyra. Ákvörðunarvald forseta fræðasviðs í fjármálum afmarkast af ákvörðunum háskólaráðs.
2. Rektor veitir ótímabundin akademísk störf við Háskóla Íslands og framgang akademískra starfsmanna.
3. Forseti fræðasviðs veitir tímabundin akademísk störf við fræðasvið og stofnanir sem heyra undir fræðasvið í umboði rektors, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 17. gr. laganna. Forseta fræðasviðs er ekki heimilt að framselja þetta ákvörðunarvald.
4. Forseti fræðasviðs ræður starfsfólk stjórnsýslu og stoðþjónustu fræðasviðs og setur því erindisbréf eða starfslýsingar. Forseta fræðasviðs er ekki heimilt að framselja þetta ákvörðunarvald. Yfir stjórnsýslu og stoðþjónustu hvers fræðasviðs er rekstrarstjóri sem forseti fræðasviðs ræður til starfa.
5. Forseti fræðasviðs ráðstafar húsnæði sem rektor úthlutar fræðasviðinu.

III. Fræðasvið og deildir í Háskóla Íslands.
Háskóla Íslands er skipað í fimm meginskipulagseiningar, fræðasvið, sem hvert um sig skiptist í deildir. Gerð er grein fyrir námsleiðum í hverri deild og prófgráðum í kennsluskrá. Fræðasvið og deildir Háskóla Íslands eru eftirfarandi:


FÉLAGSVÍSINDASVIÐ

Félags- og mannvísindadeild

Félagsráðgjafardeild

Hagfræðideild

Lagadeild

Stjórnmálafræðideild

Viðskiptafræðideild


HEILBRIGÐISVÍSINDASVIÐ

Hjúkrunarfræðideild

Lyfjafræðideild

Læknadeild

Matvæla- og næringarfræðideild

Sálfræðideild

Tannlæknadeild


HUGVÍSINDASVIÐ

Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Íslensku- og menningardeild

Sagnfræði- og heimspekideild


MENNTAVÍSINDASVIÐ

Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

Kennaradeild

Uppeldis- og menntunarfræðideild


VERKFRÆÐI- OG NÁTTÚRUVÍSINDASVIÐ

Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Jarðvísindadeild

Líf- og umhverfisvísindadeild

Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

Raunvísindadeild

Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

IV. Dómnefndir, valnefndir, framgangur og ótímabundin ráðning akademískra starfsmanna.
Ákvæði 40. og 44. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 458/2000 breytast og verða grein­arn­ar í heild svohljóðandi:

40. gr.
Skipan og málsmeðferð dómnefnda.

Rektor skipar fimm fastar dómnefndir til þess að meta hvort umsækjendur um laus störf og framgang uppfylla lágmarksskilyrði fyrir því starfsheiti sem í hlut á. Skal ein dómnefnd skipuð fyrir hvert af fræðasviðum háskólans til þess að fjalla um öll ráðningar- og framgangsmál á viðkomandi sviði þar sem hæfnisdóms er krafist. Fastar dómnefndir eru skipaðar til þriggja ára í senn.

44. gr.
Skipan valnefndar og málsmeðferð við val á milli umsækjenda
sem uppfylla lágmarksskilyrði til þess að gegna starfinu.

Í hverri deild skal starfa valnefnd. Hlutverk hennar er að gera tillögu til forseta fræðasviðs um veitingu tímabundinna starfa við deildina og stofnanir sem undir deildina eða viðkomandi fræðasvið heyra. Þegar um er að ræða störf við stofnanir sem heyra undir háskólaráð fer stjórn viðkomandi stofnunar með hlutverk valnefndar. Námsstjórnir fara með hlutverk valnefndar þegar í hlut eiga störf við þverfræðilegar námsleiðir.

Í valnefnd deildar skulu sitja fimm menn. Í valnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla.

Í deildum sem skiptast í námsbrautir er skipan valnefndar eftirfarandi:
a) Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.
b) Námsbrautarstjóri eða fulltrúi hans.
c) Einn fulltrúi námsbrautar, sem viðkomandi námsbraut skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.
d) Einn fulltrúi deildar, sem viðkomandi deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.
e) Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Í deildum sem ekki er skipt í námsbrautir:
a) Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.
b) Einn fulltrúi skipaður af deild til þriggja ára.
c) Tveir fulltrúar, sem deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skulu þeir vera sérfræðingar á sviði starfsins.
d) Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Þegar um er að ræða störf við stofnun sem heyrir undir deild eða fræðasvið:
a) Deildarforseti tilnefndur af forseta fræðasviðs, sem jafnframt er formaður valnefndar.
b) Tveir fulltrúar sem forstöðumaður stofnunar skipar hverju sinni og skulu þeir vera sérfræðingar á sviði starfsins.
c) Einn fulltrúi viðkomandi deildar, sem deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.
d) Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Þegar um er að ræða störf samkvæmt samstarfssamningi við stofnun utan háskólans:
a) Deildarforseti tilnefndur af forseta fræðasviðs, sem jafnframt er formaður valnefndar.
b) Einn fulltrúi sem forstöðumaður stofnunar skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.
c) Sviðsstjóri, þegar um er að ræða starf á grundvelli samnings við Landspítala, eða annar fulltrúi stofnunar.
d) Einn fulltrúi deildar, sem deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.
e) Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Æskilegt er að meirihluti valnefndar hafi hæfi prófessors og að í valnefndum sitji bæði karlar og konur. Varadeildarforseti er varamaður deildarforseta í valnefnd. Deild, námsbraut, stofnun og rektor velja varamenn fulltrúa sinna.

Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði. Valnefnd er heimilt að boða viðkomandi námsbraut, eða eftir atvikum grein eða stofu, á sinn fund.

Valnefnd og stjórn stofnunar geta ákveðið að valið takmarkist við þá umsækjendur sem best eru taldir uppfylla þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu starfsins. Tilkynna skal umsækjendum um þessa ákvörðun og veita rökstuðning fyrir henni sé eftir því leitað.

Valnefnd skal að jafnaði boða þá umsækjendur til viðtals sem valið stendur á milli. Valnefnd er heimilt að bjóða umsækjendum sem til greina koma að halda fyrirlestur.

Deildarforseti sendir forseta fræðasviðs rökstudda tillögu valnefndar um hvern ráða skuli. Tillagan skal send innan 30 daga frá því að gögn bárust valnefnd frá dómnefnd. Valnefnd er einungis skylt að rökstyðja val sitt á hæfasta umsækjandanum. Valnefnd getur lagt til að ekki skuli ráðið í starfið.

Rektor leggur valnefndum til ritara. Valnefnd er heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur.

Háskólaráð getur sett valnefndum nánari verklagsreglur.


Auglýsing þessi er birt með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka ákvæði hennar þegar gildi. Vegna breytinga á lögum verða allar aðrar reglur sem háskólaráð hefur sett á grundvelli laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 og reglur, sem háskólaráð Kennaraháskóla Íslands hefur sett á grundvelli laga um KHÍ nr. 137/1997, endurskoðaðar. Að breyttu breytanda gilda ákvæði reglna, sem háskólaráð Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands hafa sett á grundvelli eldri laga um viðkomandi háskóla, með áorðnum breytingum, að svo miklu leyti sem þau fara ekki gegn hinum nýju lögum, þar til háskólaráð hefur sett nýjar reglur samkvæmt ákvæðum nýrra laga. Ákvæði þessarar auglýsingar verða felld inn í reglur Háskóla Íslands að lokinni heildarendurskoðun þeirra.

Háskóla Íslands, 19. júní 2008.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 1. júlí 2008