Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 153/2011

Nr. 153/2011 4. febrúar 2011

REGLUR
um breytingu á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar.

1. gr.

II. liður 1. gr. orðast svo:

Inntaka nemenda í fyrri hluta meistaranáms í náms- og starfsráðgjöf.

Fjöldi nýrra nemenda í fyrri hluta meistaranáms í náms- og starfsráðgjöf takmarkast við töluna 35.

Nemendur sem hefja MA nám í náms- og starfsráðgjöf skulu hafa lokið fyrsta háskóla­prófi, BA, B.Ed, BS eða sambærilegu prófi, með fyrstu einkunn.

Umsækjendur sem lokið hafa námi, sem ekki er á einu af eftirtöldum þekkingarsviðum: sálfræði, menntun og menntakerfi, tengsl einstaklings og samfélags, eða hafa ekki lokið a.m.k. 10 ECTS einingum í megindlegri aðferðafræði, gætu þurft að ljúka einu til þremur námskeiðum (hámark 30 ECTS) á fyrrgreindum sviðum. Ef nemandi þarf að bæta við sig námskeiðum, skal það fara fram samhliða náminu. Það telst ekki vera hluti af eiginlegu meistaranámi. Nemandi getur valið að nýta 10 eininga val sitt í MA náminu í eitt viðbótar­námskeið.

Ef þeir sem sækja um að hefja MA nám í náms- og starfsráðgjöf, og uppfylla inntöku­skilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn skal val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónar­miðum:

  1. Einkunnum í háskóla.
  2. Starfsreynslu.
  3. Meðmælum frá vinnuveitanda ef umsækjandi hefur starfsreynslu, annars frá kennara umsækjanda í háskóla.
  4. Persónulegum greinargerðum um forsendur og áhugasvið.
  5. Viðtölum ef þurfa þykir.

Að auki er heimilt að líta til dreifingar umsækjenda hvað varðar fyrstu prófgráðu, þannig að hlutfall nemenda verði sem jafnast með tilliti til greina sem þeir hafa lokið til BA-, B.Ed.- eða BS-prófs.

Inntökunefnd, skipuð þremur kennurum deildarinnar, fjallar um umsóknir nemenda og annast val þeirra samkvæmt I. og II. lið 1. gr. reglna þessara. Telji inntökunefnd að um­sækjandi uppfylli ekki inntökuskilyrði hafnar hún umsókn. Nánari ákvæði um inntöku­skilyrði og inntöku nemenda er að finna í kennsluskrá og á vef félagsvísindasviðs.

2. gr.

2. gr. orðast svo:

Takmörkun á inntöku nemenda í námsgreinar félagsráðgjafardeildar

Fjöldi nýrra nemenda í MA nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf takmarkast við töluna 30. Allir nemendur skulu uppfylla inntökuskilyrði sbr. 1.-3. tölulið 2. mgr. að mati inntöku­nefndar. Við val á nemendum skal byggja á sjónarmiðum sem fram koma í 1. og 3. tölulið 2. mgr.

Nemendur sem hefja MA nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Hafa lokið BA námi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands með fyrstu einkunn (7,25).
  2. Námið felur í sér starfsnám þar sem m.a. er unnið með börnum og er af þeim sökum gerð krafa um að umsækjendur leggi fram sakavottorð sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla, 3. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, 4. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldskóla, 3. mgr. 10. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007 og 36. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
  3. Geta gert grein fyrir hæfni sinni til náms. Við mat á hæfni skal byggja á eftir­töldum viðmiðum:
    1. Persónulegri greinargerð um forsendur og áhugasvið.
    2. Starfsreynslu, staðfest af vinnuveitanda.
    3. Umsögn frá yfirmanni á stofnun á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu ef við á.
    4. Einkunnum í öðru háskólanámi.
    5. Annarri starfsmenntun.
    6. Persónulegum viðtölum þegar þurfa þykir að mati inntökunefndar.

Inntökunefnd, skipuð þremur fulltrúum deildarinnar fjallar um umsóknir nemenda og annast val þeirra samkvæmt 2. gr. reglna þessara. Telji inntökunefnd að umsækjandi uppfylli ekki inntökuskilyrðin sbr. 1.-3. tölulið 2. mgr. hafnar hún umsókn. Nánari ákvæði um inntökuskilyrði og inntöku nemenda er að finna í kennsluskrá og á vef félags­vísinda­sviðs.

3. gr.

3. mgr. 7. gr. orðast svo: Um val nemenda gilda reglur um val nemenda til náms í tannlæknisfræði og tannsmíði við tannlæknadeild Háskóla Íslands.

4. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð Háskóla Íslands hefur samþykkt, að fengnum tillögum fræðasviða og deilda háskólans, eru settar samkvæmt heimild í 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar taka þegar gildi.

Háskóla Íslands, 4. febrúar 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 18. febrúar 2011