Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:

Leiðrétt 4. maí 2007:
Í 30. gr. komi: „Breytingar á námsframvindureglum hugvísindadeildar skv. ákvæðum 27. gr. reglna þessara,“ í stað: „Breytingar á námsframvindureglum hugvísindadeildar skv. ákvæðum 2. gr. reglna þessara,“


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 338/2007

Nr. 338/2007 26. mars 2007

REGLUR
um breytingu (30) á reglum nr. 458/2000, fyrir Háskóla Íslands.

I. Breytingar á kafla um háskólakennara og sérfræðinga.

1. gr.

Öll gildandi ákvæði III. kafla reglnanna, sem fjallar um háskólakennara og sérfræðinga, breytast og verða þess efnis sem hér á eftir greinir (2.-19. gr.).

2. gr.

Heiti og ákvæði 28. gr. verða: Háskólakennarar og sérfræðingar.

Kennarar háskólans eru prófessorar, dósentar, lektorar, þar á meðal erlendir lektorar, aðjúnktar og stundakennarar. Heimilt er að ráða til háskólans eða stofnana hans fólk til vísinda- eða fræðistarfa án kennsluskyldu. Skulu starfsheiti þeirra vera vísindamaður, fræðimaður og sérfræðingur.

Þar sem rætt er um kennara í þessum kafla án nánari tilgreiningar er jafnframt átt við sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn, nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Þá á tilvísun til deilda og deildarforseta í þessum kafla jafnframt við um stofnanir sem heyra undir háskólaráð og forstöðumenn þeirra.

3. gr.

Heiti og ákvæði 29. gr. verða: Ákvörðun um ráðningu.

Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, þar á meðal erlenda lektora, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðinga. Deildarforseti ræður aðjúnkta og stundakennara. Engan má ráða í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sérfræðings án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið hann uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi.

Sömu reglur gilda um ótímabundnar og tímabundnar ráðningar í þessi störf nema annað leiði af lögum eða reglum þessum.

4. gr.

Heiti og ákvæði 30. gr. verða: Hlutastörf.

Heimilt er að ráða prófessora, dósenta, lektora, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðinga í hlutastarf (þ.e. með starfshlutfall á bilinu 20-74%) að deildum og stofnunum háskólans.

Rektor er heimilt með samningi að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans. Heimild þessi gildir án tillits til þess hvert starfsheiti kennara er.

Um auglýsingu hlutastarfa fer skv. 35. og 36. gr. reglna þessara.

Laun starfsmanna í hlutastarfi fara eftir úrskurði kjararáðs og kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra eða öðrum kjarasamningum, eftir því sem við á. Starfsmenn fá greitt í samræmi við það starfshlutfall sem þeir gegna. Fyrirkomulag launagreiðslna vegna kennarastarfa sem tengd eru ákveðnum fyrirtækjum eða stofnunum er samkomulagsatriði milli viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar og rektors og deildarforseta.

Í slíkum samningi skal kveðið á um starfsskyldur og réttindi starfsmannins við háskólann, hvar hann nýtur starfsaðstöðu og um starfslok hans, þ. á m. hvernig fari með starf hans hjá háskólanum hætti hann störfum hjá fyrirtæki eða stofnun áður en samningstímabilið er á enda.

Um ráðningar í hlutastörf gilda sömu reglur og ráðningar í fullt starf nema annað leiði af lögum eða reglum þessum.

5. gr.

Heiti og ákvæði 31. gr. verða: Ráðning.

Upphafleg ráðning í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sérfræðings við Háskóla Íslands skal að öllu jöfnu vera tímabundin og til fjögurra ára, hvort sem um er að ræða fullt starf eða hlutastarf.

Rektor getur þó ákveðið að upphafleg ráðning í starf kennara eða sérfræðings sé ótímabundin, enda hafi deild rökstudda ástæðu til þess að víkja frá meginreglu 1. mgr.

Starfsmaður öðlast ekki sjálfkrafa rétt til ótímabundinnar ráðningar að lokinni tíma­bundinni ráðningu. Valnefnd deildar veitir rektor umsögn um hvort árangur í rann­sóknum, kennslu og öðrum störfum sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar voru við ráðningu. Veita skal starfsmanni 14 daga frest til þess að tjá sig um umsögn nefndar­innar. Rektor tekur ákvörðun um það að fenginni tillögu valnefndar hvort ráðning verður ótímabundin. Stjórnir stofnana og námstjórnir fara með hlutverk valnefndar deildar þegar um er að ræða störf við stofnanir eða þverfaglegar námsleiðir.

Háskólaráð setur valnefndum verklagsreglur um hvernig standa skuli að mati á störfum starfsmanna með tímabundna ráðningu.

Þegar sérstaklega stendur á getur rektor framlengt ráðningarsamning, skv. 1. mgr., um eitt ár þannig að ráðningartíminn verði fimm ár.

6. gr.

Heiti og ákvæði 32. gr. verða: Starfsskyldur.

Starfsskylda kennara við háskólann skiptist í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun. Starfsskylda starfsmanns sem eingöngu er ráðinn til vísinda- og fræðistarfa skiptist í rannsóknir og stjórnun. Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Heimilt er í þeim reglum að kveða á um að starfsmaður sem er ráðinn til vísinda- og fræðistarfa skuli sinna ákveðinni kennslu. Deildarforseti ákveður hvernig starfsskyldur einstakra kennara eða þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa skiptast innan marka almennra reglna. Hann ákveður ennfremur til hvaða starfa við kennslu og stjórnun kennara er vísað.

7. gr.

Heiti og ákvæði 33. gr. verða: Rannsóknamisseri.

Rektor er heimilt, að fenginni umsögn deildarforseta, að veita kennara undanþágu frá kennslu- og stjórnunarskyldu í eitt til tvö misseri í senn, til þess að gera honum kleift að verja þeim hluta vinnutíma síns til rannsóknastarfa í samræmi við reglur sem háskólaráð setur um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands. Kennslu- og stjórnunarskylda á starfstíma kennarans, að meðtöldum þeim tíma sem hann nýtur undanþágu frá kennslu- og stjórnunarskyldu, skal þó eigi vera lægri en 50% af heildarvinnutíma hans. Framangreind undanþága er ekki veitt hafi kennari ekki staðið fullnægjandi skil á kennslu- og rannsóknaskýrslu.

Í umboði rektors er deildarforseta heimilt að veita kennara leyfi frá störfum á kennslutíma í allt að þrjár vikur, svo kennari geti farið utan til að taka þátt í ráðstefnu eða sinna öðrum störfum, enda sé sýnt að leyfisveitingin bitni ekki á kennslu hans. Sé óskað lengra leyfis skal deildarforseti senda rektor erindið ásamt umsögn sinni um hvort leyfið skuli veitt.

8. gr.

Heiti og ákvæði 34. gr. verða: Skilgreining starfs.

Deild eða stofnun skilgreinir starf í samræmi við stefnu deildar og háskólans. Þetta verkefni er falið deildarráði eða valnefnd deildar í umboði þess, stjórn stofnunar eða námsstjórn þverfræðilegrar námsleiðar, sbr. 44. gr. Skilgreining starfs skal ganga út frá einu tilteknu starfsheiti skv. 28. gr. Skýrt þarf að koma fram í auglýsingu hvaða hæfniskröfur farið er fram á að umsækjendur um starfið uppfylli, m.a. með tilliti til fræðasviðs og prófgráða. Í auglýsingu skal koma fram á hvaða sviði starfið á að vera. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði, nema að deild eða stofnun telji að því verði ekki við komið.

Þegar skilgreining deildar á starfinu liggur fyrir sendir skrifstofa deildar skriflega beiðni til skrifstofu rektors með ósk um staðfestingu á að nægilegt fé sé fyrir hendi til þess að ráða í starfið, ásamt tillögu að texta auglýsingar. Skrifstofa rektors sendir skrifstofu deildar staðfestingu á því innan 14 daga að auglýsa megi starfið og setur þar með ráðningarmálið af stað.

Starfsmaður er ráðinn til tiltekinnar deildar eða stofnunar. Deild er heimilt að breyta skilgreiningu starfsins í krafti stjórnunarheimilda.

9. gr.

Heiti og ákvæði 35. gr. verða: Auglýsing.

Rektor auglýsir á starfatorgi laus störf háskólakennara og þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa. Deildarforseti auglýsir störf aðjúnkta og stundakennara, eftir því sem við á.

Að jafnaði skal starf auglýst þannig að umsóknarfrestur sé fjórar vikur frá birtingu aug­lýsingar.

Til þess að tryggja að háskólinn eigi völ á sem hæfustum starfskröftum skulu deildir auglýsa á alþjóðlegum vettvangi og í innlendum dagblöðum eftir því sem ástæða er til. Starfsmannasvið skal annast allar auglýsingar bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Allar upplýsingar um laus störf hjá háskólanum skulu vera aðgengilegar á háskóla­vefnum.

Auglýsingar um laus störf kennara og þeirra sem eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa skulu vera í samræmi við leiðbeiningar rektors sem birtar skulu á vefsetri háskólans.

10. gr.

Heiti og ákvæði 36. gr. verða: Undantekningar frá auglýsingaskyldu.

Ekki er skylt að auglýsa starf, ef um er að ræða tímabundna ráðningu til afleysinga til tólf mánaða eða skemur, eða ef um er að ræða hlutastarf, þannig að starfið telst ekki vera aðalstarf í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ef ráðið er til afleysinga til tólf mánaða eða skemur er ekki heimilt að framlengja ráðninguna án auglýsingar í samræmi við reglur þessar.

Starf er ekki auglýst þegar um er að ræða flutning í starfi samkvæmt ákvæðum laga um Háskóla Íslands eða reglna þessara, sbr. 38.- 41. gr.

Starf er ekki auglýst þegar rektor býður vísindamanni í samræmi við 8. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, að taka við kennarastarfi við skólann.

Þá er heimilt að undanþiggja auglýsingu störf sem byggja á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknatengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings, sbr. 2. mgr. 30. gr. reglna þessara. Háskólaráð setur nánari reglur um undanþágur frá auglýsingaskyldu vegna ráðningar í störf við Háskóla Íslands.

11. gr.

Heiti og ákvæði 37. gr. verða: Umsóknir og meðferð þeirra.

Umsóknir um starf eiga að berast vísindasviði Háskóla Íslands. Æskilegt er að umsókn og umsóknargögn séu á rafrænu formi. Umsókn og umsóknargögnum sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti. Að umsóknarfresti liðnum staðfestir vísindasvið móttöku umsóknar.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur.

Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á.

12. gr.

Heiti og ákvæði 38. gr. verða: Framgangur kennara og sérfræðinga á milli starfs­heita.

Rektor er heimilt, án auglýsingar, að flytja lektor í dósentsstarf, dósent í prófessorsstarf, sérfræðing í starf fræðimanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir álit dómnefndar um að viðkomandi uppfylli lágmarksskilyrði til að gegna starfinu.

Umsókn skal lögð fram hjá viðkomandi deild, sem sendir rektor hana ásamt greinargerð deildar um hvort skipa skuli dómnefnd um hæfi umsækjanda. Við mat deildar skal líta til rannsóknavirkni, kennslustarfa, stjórnunar og annarrar starfsreynslu.

Umsókn um framgang skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til umsókna um laus störf samkvæmt reglum þessum, sbr. 37. gr. Dómnefnd er þó heimilt að takmarka umfjöllun sína við þau umsóknargögn sem lúta að störfum umsækjanda frá því hann var síðast metinn af dómnefnd.

Álíti rektor að umsækjandi hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum með þeim hætti að til greina komi að veita honum umbeðinn framgang er honum heimilt að hafna umsókninni án þess að skipa dómnefnd til að meta hæfi umsækjanda. Að öðrum kosti gengur mál til dómnefndar sbr. 40. gr.

Þegar álit dómnefndar liggur fyrir er það sent valnefnd. Valnefnd gerir rökstudda tillögu til rektors um hvort veita beri umbeðinn framgang eða ekki. Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði.

Hafi umsækjandi á síðustu fimm árum verið talinn uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna sambærilegu starfi og því sem hann óskar eftir að flytjast í er rektor heimilt að veita framganginn. Áður en rektor tekur ákvörðun skal hann þó leita álits valnefndar. Þessi heimild gildir einnig um ráðningar samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglna þessara ef umsækjandi er einn.

Háskólaráð setur reglur um framgang og skal þar m.a. kveðið á um lágmarks­rannsóknavirkni og árangur í starfi fyrir hvert starfsheiti og hvern starfsþátt.

13. gr.

Heiti og ákvæði 39. gr. verða: Flutningur sérfræðinga, fræðimanna og vísinda­manna í kennarastörf.

Rektor er heimilt, að undangengnu samkomulagi viðkomandi deildar og stofnunar, að flytja sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn í starf lektors, dósents og prófessors, enda hafi þeir þá kennslu- og stjórnunarskyldu í deild.

Ef sérfræðingur er fluttur í starf lektors, fræðimaður í starf dósents eða vísindamaður í starf prófessors og ekki liggur fyrir dómnefndarálit, þar sem fjallað er um kennslu við­komandi starfsmanns, ber fastri dómnefnd viðkomandi fræðasviðs að gefa rektor umsögn um færni viðkomandi til kennslustarfa.

14. gr.

Heiti og ákvæði 40. gr. verða: Skipan og málsmeðferð dómnefnda.

Rektor skipar fastar dómnefndir til þess að meta hvort umsækjendur um laus störf og framgang uppfylla lágmarksskilyrði fyrir því starfsheiti sem í hlut á. Skal ein dómnefnd skipuð fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans til þess að fjalla um öll ráðningar- og framgangsmál á viðkomandi sviði þar sem hæfnisdóms er krafist. Meginfræðasviðin eru félagsvísindasvið (félagsvísindadeild, lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild), heilbrigðisvísindasvið (hjúkrunarfræðideild, lyfjafræðideild, læknadeild og tannlækna­deild), hugvísindasvið (guðfræðideild og hugvísindadeild) og verk- og raun­vísinda­svið (raunvísindadeild og verkfræðideild). Fastar dómnefndir eru skipaðar til þriggja ára í senn.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er rektor heimilt að fallast á beiðni um skipun sérstakrar dómnefndar við mat á umsækjendum um einstakt kennara- eða sérfræðingsstarf, mæli sérstök rök með því.

Dómnefndir skulu skipaðar þremur mönnum á grundvelli tilnefninga og skal þess gætt, eftir því sem kostur er, að í þeim sitji bæði karlar og konur. Í því skyni skal þess farið á leit við tilnefningaraðila að þeir tilnefni hverju sinni bæði karl og konu til dóm­nefndarstarfa.

Um fastar dómnefndir gildir að háskólaráð tilnefnir einn fulltrúa í hverja fasta dómnefnd og menntamálaráðherra annan. Skal sá sem tilnefndur er af háskólaráði vera formaður dómnefndar og sá sem tilnefndur er af menntamálaráðherra varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Þriðji nefndarmaðurinn er sérfræðingur á við­komandi sviði, tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun, sem skipaður er sérstak­lega til þess að fara með hvert ráðningarmál.

Um sérstakar dómnefndir gildir að háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, mennta­mála­ráðherra annan og deild sú eða stofnun sem starfið er við hinn þriðja og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar.

Að minnsta kosti einn af þeim sem skipaður er í dómnefnd skal vera starfandi utan Háskóla Íslands.

Rektor sendir umsækjendum tilkynningu um það hverjir skipaðir hafa verið í dómnefnd.

Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla. Formaður fastrar dómnefndar skal hafa verið metinn hæfur til að gegna starfi prófessors. Formaður dómnefndar sem skipuð er sérstaklega skal hafa verið metinn hæfur til að gegna sambærilegu starfi og dómnefnd fjallar um. Rektor er þó heimilt að víkja frá þessu hæfisskilyrði fyrir formann dómnefndar sem skipuð er sérstaklega, ef sá sem skipaður er telst viðurkenndur sérfræðingur á sínu sviði, hefur lokið doktorsprófi og augljóst má telja að hann uppfylli að öðru leyti þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til háskólakennara.

Um sérstakt hæfi dómnefndarmanna fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nánari ákvæði um störf dómnefnda skulu tekin upp í verklagsreglur sem háskólaráð staðfestir, m.a. varðandi fresti við meðferð ráðningarmála.

Rektor ræður ritara dómnefnda. Hlutverk hans er að aðstoða dómnefndir og gæta þess að störf þeirra séu í samræmi við stjórnsýslulög, lög um Háskóla Íslands, reglur þessar sem og önnur lög og reglur er við eiga. Honum ber sérstaklega að gæta þess að dómnefndir starfi í samræmi við þau tímamörk sem kveðið er á um í reglum þessum og verklagsreglum staðfestum af háskólaráði.

Ritari dómnefndar undirbýr umfjöllun um umsóknir og tryggir að öll viðhlítandi umsóknargögn og eftir atvikum staðfestingar og vottorð liggi fyrir þegar dómnefnd fjallar um mál fyrsta sinni. Formaður dómnefndar stýrir starfi hennar og skiptir verkum með dómnefndarmönnum.

Dómnefnd er heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur telji hún þau nauðsynleg til að leggja mat á hæfi þeirra. Gæta ber jafnræðis milli umsækjenda. Dómnefnd er heimilt að leita eftir skriflegum umsögnum frá sérfræðingum um tiltekin verk eða störf umsækjenda almennt. Komi fram í gögnum, sem dómnefnd aflar, upplýsingar sem hún telur vera umsækjanda í óhag skal kynna honum efni þeirra, frá hverjum þær koma og veita honum tækifæri til þess að tjá sig um þær.

Eftir að dómnefnd hefur vinnu við mat á umsóknum er nefndinni ekki skylt að taka við frekari umsóknargögnum, nema að þau séu til að votta gögn sem fylgdu umsókn. Dómnefnd skal hraða meðferð hvers máls eftir föngum og ber nefndinni að skila rektor drögum að áliti sínu innan 30 daga frá því að öll gögn lágu fyrir. Ef fyrirsjáanlegt er að störf dómnefndar muni dragast fram yfir framangreindan frest ber henni að senda umsækjendum tilkynningu um það, þar sem greint er frá því hverjar eru ástæður tafanna og hvenær vænta megi þess að dómnefnd ljúki störfum. Gangi sú áætlun ekki eftir ber að senda tilkynningu á nýjan leik. Dómnefnd skal senda rektor afrit af framangreindum bréfum. Ritari dómnefndar hefur eftirlit með því að dómnefndir sendi framangreindar tilkynningar.

15. gr.

Heiti og ákvæði 41. gr. verða: Mat dómnefndar á umsækjendum.

Í dómnefndaráliti skal rökstutt hvort ráða megi af ritum og rannsóknum umsækjanda svo og af námsferli hans og störfum, að hann uppfylli lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi á hlutaðeigandi fræðasviði, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 40. gr. Sá sem uppfyllir fyrrnefnd lágmarksskilyrði telst hæfur til þess að gegna starfinu í skilningi 3. mgr. 12. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.

Dómnefnd er heimilt að styðjast við eldri dómnefndarálit um umsækjanda að því tilskildu að þau séu ekki eldri en fimm ára gömul. Ef vitnað er til eldra dómnefndarálits ber að birta þá tilvitnun í dómnefndarálitinu og skal dómnefnd taka rökstudda afstöðu til þess sem þar greinir.

Að teknu tilliti til menntunar skal mat byggjast á eftirfarandi starfsþáttum: rannsóknum, kennslu og stjórnun.

Dómnefnd skal m.a. byggja mat sitt á umsækjanda á matsreglum kjararáðs um störf prófessora og samræmdum matsreglum Háskóla Íslands og Félags háskólakennara, eftir því sem við á. Þá ber dómnefndinni að taka mið af skilgreiningu deildarráðs eða eftir atvikum valnefndar deildar á því starfi sem auglýst hefur verið eða umsækjandi óskar eftir að flytjast í.

Ef umsækjandi uppfyllir augljóslega lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi, t.d. ef fyrir liggur eldra dómnefndarálit eða annað mat sem dómnefnd telur fullnægjandi þarf dómnefnd ekki að framkvæma nánara mat hvað hann varðar. Að öðru leyti skulu eftirfarandi sjónarmið lögð til grundvallar við matið:

  • Við mat á rannsóknum skal leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Við það mat ber að athuga frumleika rannsóknarverkefnis og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og ritverkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísindaleg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna. Kennslurit og önnur hugverk geta haft vísindagildi að því marki sem þau uppfylla þessar kröfur. Í fyrsta lagi skulu metin rit, bækur og ritgerðir, sem hafa verið gefin út eða samþykkt til birtingar í viðurkenndum tímaritum, innlendum eða erlendum, og hlotið hafa faglegt mat. Í öðru lagi er höfð hliðsjón af álitsgerðum og áfangaskýrslum sem umsækjandi hefur sent frá sér í frágenginni mynd. Í þriðja lagi er heimilt að taka tillit til verka í vinnslu.
  • Við mat á kennsluframlagi ber öðru fremur að athuga hversu mikla alúð umsækjandi hefur lagt við kennslustörf sín, svo sem við samningu kennsluefnis og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungar í kennsluaðferðum. Eins skal líta til frumkvæðis í uppbyggingu og endurbótum á tilhögun kennslu og viðleitni til að hvetja nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða.
  • Við framgang skal fara eftir reglum nr. 863/2001, um framgang kennara, sérfræðinga og fræðimanna við Háskóla Íslands. Framgangsreglurnar ber einnig að hafa til hliðsjónar þegar umsækjendur um auglýst störf eru metnir, en við nýráðningu skal þó ekki gera kröfu um lágmarksstig fyrir kennslu, sbr. 4. gr. áðurnefndra framgangsreglna. Þá er dómnefnd heimilt að hafa til hliðsjónar þau gögn sem kunna að vera til um umsækjendur í vörslu háskólans og snerta starfshæfni og vinnuframlag.
  • Meta skal stjórnunarreynslu jafnt innan háskóla sem utan.
  • Dómnefnd er auk þess heimilt að líta til annarrar starfsreynslu umsækjenda sem telja má að nýst geti við það starf sem sótt er um.

16. gr.

Heiti og ákvæði 42. gr. verða: Dómnefndarálit.

Í upphafi dómnefndarálits skal dómnefnd gera grein fyrir þeim forsendum og gögnum sem hún byggir á í mati sínu á umsækjendum og vinnubrögðum sínum við mat á þeim. Í álitinu skal koma fram hvaða gagna dómnefnd hefur aflað um umsækjendur.

Dómnefnd skal eingöngu láta uppi rökstutt álit um hvort umsækjandi telst á grundvelli framangreindra sjónarmiða uppfylla lágmarksskilyrði á hlutaðeigandi fræðasviði til að gegna hinu auglýsta starfi eða því starfi sem hann óskar eftir að flytjast í. Dómnefnd er óheimilt að forgangsraða umsækjendum um auglýst störf. Álit dómnefndar eða meirihluta hennar skal vera afdráttarlaust hvort hún telji umsækjanda uppfylla lágmarksskilyrðin eða ekki. Sé ágreiningur innan dómnefndar skulu atkvæði greidd sérstaklega fyrir hvern umsækjanda og ber hverjum dómnefndarmanni að taka afstöðu. Minnihluta er heimilt að gera grein fyrir afstöðu sinni með rökstuddu séráliti. Sé dómnefnd á einu máli skal hún skila einu áliti.

Í áliti dómnefndar um að umsækjandi uppfylli lágmarksskilyrðin felst það eitt að hann komi til álita við val í starfið.

17. gr.

Heiti og ákvæði 43. gr. verða: Meðferð dómnefndarálits og afgreiðsla máls.

Dómnefnd ber að senda rektor álit sitt dagsett og undirritað af öllum dómnefndar­mönnum, ásamt ferils- og ritaskrá. Um leið og dómnefnd sendir rektor drög að dóm­nefndaráliti skulu öll umsóknargögn ganga til valnefndar.

Telji rektor að drög dómnefndarálits séu ekki í samræmi við lög, eða að málsmeðferð dómnefndar samrýmist ekki lögum ber honum að senda álitið aftur til dómnefndar og skal hún þá bæta úr þeim ágöllum. Í bréfi rektors til dómnefndar skal greina frá því að hvaða leyti hann telur störfum nefndarinnar ábótavant. Sendi rektor dómnefndarálit aftur til nefndar ber honum að tilkynna það umsækjendum.

Rektor skal senda hverjum umsækjanda dómnefndarálitið í heild. Rektor gefur um­sækjendum kost á að gera skriflegar athugasemdir við álitið áður en hann sendir það val­nefnd deildar til meðferðar. Umsækjendur hafa 14 daga frest til að gera athuga­semdir. Telji rektor athugasemdirnar gefa tilefni til getur hann borið þær eða hluta þeirra undir dómnefnd og einnig beðið hana um nánari skýringar á ákveðnum atriðum. Athugasemdir umsækjenda og eftir atvikum fyrirspurn rektors og svar dómnefndar skulu fylgja áliti nefndarinnar þegar það er sent til valnefndar deildar.

Dragi umsækjandi umsókn sína til baka, áður en dómnefndarálitið er sent til valnefndar, á hann rétt á að ekki verði fjallað um hann í áliti dómnefndar, enda fari hann fram á það með skriflegum hætti. Eftir framangreint tímamark verður dómnefndaráliti ekki breytt af þessu tilefni. Þegar rektor sendir dómnefndarálit til valnefndar telst það endanlegt og fullfrágengið.

18. gr.

Heiti og ákvæði 44. gr. verða: Skipan valnefndar og málsmeðferð við val á milli umsækjenda sem uppfylla lágmarksskilyrði til þess að gegna starfinu.

Í hverri deild skal starfa valnefnd. Hlutverk hennar er að gera tillögu til rektors um veitingu starfa við deildina og stofnanir sem undir deildina heyra. Þegar um er að ræða störf við stofnanir sem heyra undir háskólaráð fer stjórn viðkomandi stofnunar með hlutverk valnefndar. Námsstjórnir fara með hlutverk valnefndar þegar í hlut eiga störf við þverfræðilegar námsleiðir.

Í valnefnd deildar skulu sitja fimm menn. Í valnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla.

Í skorarskiptum deildum er skipan valnefndar eftirfarandi:

 

a)

Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.

 

b)

Skorarformaður.

 

c)

Einn fulltrúi skorar, sem viðkomandi skor skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

 

d)

Einn fulltrúi deildar, sem viðkomandi deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

 

e)

Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Í deildum sem ekki er skipt í skorir:

 

a)

Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.

 

b)

Einn fulltrúi kosinn af deild til þriggja ára.

 

c)

Tveir fulltrúar, sem deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skulu þeir vera sérfræðingar á sviði starfsins.

 

d)

Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Þegar um er að ræða störf við stofnun sem heyrir undir deild eða störf samkvæmt samstarfssamningi við stofnun utan háskólans:

 

a)

Deildarforseti, sem jafnframt er formaður valnefndar.

 

b)

Einn fulltrúi sem forstöðumaður stofnunar skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

 

c)

Stofustjóri eða sviðsstjóri eða annar fulltrúi stofnunar.

 

d)

Einn fulltrúi deildar, sem deildarráð eða deildarforseti skipar hverju sinni og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins.

 

e)

Einn fulltrúi rektors, skipaður til þriggja ára.

Æskilegt er að meirihluti valnefndar hafi hæfi prófessors og að í valnefndum sitji bæði karlar og konur. Varadeildarforseti er varamaður deildarforseta í valnefnd. Deild, skor, stofnun og rektor velja varamenn fulltrúa sinna.

Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði. Valnefnd er heimilt að boða viðkomandi skor, eða eftir atvikum grein eða stofu, á sinn fund.

Valnefnd og stjórn stofnunar geta ákveðið að valið takmarkist við þá umsækjendur sem best eru taldir uppfylla þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu starfsins. Tilkynna skal umsækjendum um þessa ákvörðun og veita rökstuðning fyrir henni sé eftir því leitað.

Valnefnd skal að jafnaði boða þá umsækjendur til viðtals sem valið stendur á milli. Valnefnd er heimilt að bjóða umsækjendum sem til greina koma að halda fyrirlestur.

Deildarforseti sendir rektor rökstudda tillögu valnefndar um hvern ráða skuli. Tillagan skal send innan 30 daga frá því að gögn bárust valnefnd frá dómnefnd. Valnefnd er einungis skylt að rökstyðja val sitt á hæfasta umsækjandanum. Valnefnd getur lagt til að ekki skuli ráðið í starfið.

Rektor leggur valnefndum til ritara. Valnefnd er heimilt að afla frekari gagna um umsækjendur.

Háskólaráð getur sett valnefndum nánari verklagsreglur.

19. gr.

Heiti og ákvæði 45. gr. verða: Sjónarmið um val á hæfasta umsækjandanum.

Við val á hæfasta umsækjandanum skal höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi. Auk þess skal byggt á sjónarmiðum sem fram koma í 34. og 41. gr.

Valnefnd er heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi er, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild hefur sett sér.

Þá skal valið byggjast á frammistöðu í viðtali og fyrirlestri, ef ákveðið hefur verið að nýta það fyrirkomulag við gagnaöflun.

II. Breytingar á öðrum sameiginlegum reglum Háskóla Íslands.

20. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglnanna um kosningu, tilnefningu og embættis­gengi rektors:

  • Fjórða mgr. 5. töluliðar verður svohljóðandi:
    Starfsmannasvið háskólans sér um að útbúa kjörskrá starfsmanna háskólans og stofnana hans. Til stofnana háskólans í grein þessari teljast: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, að því tilskildu að kveðið sé á um tengsl þeirra við háskólann í lögum.
  • Lokamálsliður 1. mgr. 6. tl. verður svohljóðandi:
    Starfsmenn Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum teljast til annarra atkvæðisbærra aðila án tillits til þess hvort þeir hafa háskólapróf.

21. gr.

Eftirfarandi málgrein bætist við 13. gr. sem 4. mgr.:

Háskóladeild er ennfremur heimilt, í umboði rektors, að bjóða sérfróðum einstaklingi að gegna akademísku gestastarfi við deildina, sem veiti hliðstæða stöðu og aðjunkt. Um fyrirkomulag slíkra akademískra gestastarfa gilda verklagsreglur sem útfærðar eru af gæðanefnd háskólaráðs og staðfestar af háskólaráði.

22. gr.

Heiti 52. gr. breytist og verður: Námsskipan og mat náms til eininga.

Fremst í 52. bætast við tvær málsgreinar svohljóðandi:

Námi í háskóla er skipað í námsleiðir og styttra diplómanám í samræmi við Viðmið um æðri menntun og prófgráður á Íslandi sem menntamálaráðuneytið gefur út. Hverri námsleið lýkur með prófgráðu sem upp er talin í 54. gr. og veitt er í kennslugrein deildar eða þverfræðilegri kennslugrein. Háskóladeild getur skilgreint mismunandi áherslusvið innan námsleiðar, m.a. þannig að í grunnnámi sé ákveðið að námsleið feli í sér aðalgrein og aukagrein. Er prófgráða þá veitt í aðalgrein nema um sé að ræða tvær aðalgreinar, en prófgráða er við þær aðstæður veitt í báðum aðalgreinum. Áherslusvið (þar á meðal aðalgrein og aukagrein) skal koma fram á prófskírteini með nánari lýsingu í skírteinisviðauka.

Undirbúningur og skipulagning nýrrar námsleiðar eða nýs diplómanáms skal fara fram skv. verklagsreglum sem háskólaráð setur.

Núverandi 1.-4. gr. 52. gr. verða 3.-6. mgr.

23. gr.

Önnur málsgrein 59. gr. breytist og verður svohljóðandi:

Meirihluti nemenda í námskeiði getur með rökstuddu erindi óskað eftir því að skipaður verði prófdómari til þess að fara yfir skriflegar úrlausnir á lokaprófi í námskeiðinu. Þegar prófdómari er skipaður eftir að einkunn kennara hefur verið birt fer hann einungis yfir prófúrlausnir þeirra nemenda sem óskað hafa eftir endurmati. Einnig getur kennari, telji hann til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi og fer hann þá yfir prófúrlausnir allra nemenda í námskeiðinu. Prófdómari verður þó ekki skipaður, ef meira en sex vikur hafa liðið frá birtingu einkunnar og þar til beiðni um skipunina berst.

24. gr.

Við 60. gr. bætast tvær málsgreinar svohljóðandi:

Niðurstaða prófdómara sem skipaður er eftir að einkunn kennara hefur verið birt getur leitt til lækkunar eða hækkunar á birtri einkunn þegar hún er vegin saman við mat kennara sbr. 1. mgr. Þetta gildir þó ekki þegar prófdómari er skipaður eftir á að beiðni kennara. Við þær aðstæður getur niðurstaða prófdómara einungis leitt til hækkunar á þegar birtri einkunn, sé um það að ræða.

Hlutverk prófdómara sem er kallaður til eftir að mat kennara liggur fyrir, er bundið við að fara yfir úrlausnir og fer hann ekki yfir uppbyggingu prófs með tilliti til námsefnis.

25. gr.

Töluliður 2.1 í upptalningu lærdómstitla í 1. mgr. 54. gr. breytist og verður svohljóðandi: Meistarapróf, Magister artium, Magister scientiarum, Magister paedagogiae, Master of Public Administration, Master of Laws, Master of Social Work, Master of Library and Information Science, Master of Health Informatics, Magister juris, Master of Accounting, Master of Pharmaceutical Sciences, Master of Science in Pharmacy, Master of Public Health, M.A. / M.S. / M.Paed. / MPA / LL.M. / MSW / MLIS / MHI / Mag.jur. / M.Acc. / M.S.Pharm.Sci. / M.S.Pharm / MPH, 2 ár að jafnaði að loknu B.A./B.S. eða sambærilegu námi, eða samkvæmt því sem nánar er tilgreint í sérreglum deildar um námið, eða reglum settum af háskólaráði um þverfaglegt nám á meistarastigi.

26. gr.

4. mgr. 61. gr. breytist og verður svohljóðandi:

Jafnframt er heimilt að gefa annaðhvort staðið eða fallið fyrir lokaverkefni (ritgerðir) í framhaldsnámi enda komi efnisleg niðurstaða námsmats fram í umsögn um verkefnið. Ákvörðun deildar, eða skorar í umboði deildar, um að beita þessari heimild gildir um öll lokaverkefni innan hlutaðeigandi námsleiðar. Breyta má þeirri ákvörðun hvenær sem er, og gildir breytt ákvörðun þá um lokaverkefni sem nemendur hefja vinnu við eftir það tímamark. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf.

III. Breytingar á kafla hugvísindadeildar.

27. gr.

Ákvæði 102. gr. breytast og verða svohljóðandi:

Kennslu til B.A.-prófs við hugvísindadeild skal haga þannig, að stúdent sé unnt að ljúka námi á þremur árum. Hámarksnámstími til þess að ljúka B.A.-prófi er níu kennslumisseri (fjögur og hálft ár) frá því er stúdent var skrásettur í deildina. Eðlileg námsframvinda miðast þó við að stúdent ljúki á hverju háskólaári að lágmarki ¾ af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 52. gr. Deildinni er heimilt að setja frekari skilyrði um námsframvindu í einstökum greinum.

Kennslu til M.Paed.-prófs og M.A.-prófs skal haga þannig að stúdent í fullu námi geti lokið námi á tveimur árum að loknu B.A.-prófi. Stúdent í fullu námi til meistaraprófs skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum eftir skráningu í námið. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi skv. 52. gr. og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið.

Deildinni er heimilt að veita nemendum allt að eins árs viðbótarfrest frá ofangreindum tímamörkum 1. og 2. mgr., eða heimila hlé frá námi, ef gildum ástæðum er til að dreifa. Að öðrum kosti fellur niður réttur nemandans til þess að halda áfram námi við deildina ljúki hann ekki námi sínu innan tilgreindra marka. Nemandinn getur sótt um endurinnritun og að fá metin þau námskeið sem hann hefur lokið

Námsmat felst í skriflegum og/eða munnlegum prófum, æfingavinnu, verkefnum eða ritgerðum. Ef prófþættir í námskeiði eru tveir eða fleiri er deildinni heimilt, að tillögu kennara, að ákveða að stúdent teljist ekki hafa staðist próf nema hann hafi í tilteknum prófþáttum náð lágmarkseinkunn námskeiðsins í heild. Slík ákvörðun skal tilgreind í kennsluskrá.

Lágmarkseinkunn í kennslugreinum hugvísindadeildar er 5,0. Skorir hafa heimild til þess að ákveða hærri lágmarkseinkunn í einstökum greinum. Til þess að brautskrást frá hugvísindadeild þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

Deildin setur reglur um viðurkenningu fyrra náms við endurskráningu stúdenta og um­skráningu úr öðrum deildum eða skólum eða milli aðalgreina í hugvísindadeild.

Ekki er hægt að brautskrást með prófgráðu frá deildinni nema viðkomandi hafi lokið a.m.k. helmingi námseininga á vegum deildarinnar.

IV. Breytingar á kafla félagsvísindadeildar.

28. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 114. gr.:

  • Aftast í 9. mgr. greinarinnar koma tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Til að standast próf í námskeiðum á námsleið til kandídatsprófs í sálfræði (cand.psych.) verður stúdent að hljóta minnst einkunnina 7,0. Sama gildir um námsmat á loka­verkefnum í cand.psych. námi. Þegar um er að ræða starfsþjálfun eða loka­verkefni þar sem gefið er staðið/fallið, verður nemandi að standast kröfur sem eru a.m.k. 70% af námsmati.
  • Í stað orðsins „kynjafræði“ í 29. mgr. greinarinnar, sbr. 6. gr. reglna nr. 532/2005, kemur: hagnýtri jafnréttisfræði.
  • Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 33. mgr. svohljóðandi: Diplómanám í bókasafns- og upplýsingafræði er sjálfstætt 15 eininga nám að loknu B.A.-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í meistaranám í bókasafns- og upplýsingafræði (M.A.-nám eða MLIS-nám).
  • Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 34. mgr. svohljóðandi: Meistaranám í hagnýtri þjóðfræði er 45 eininga nám að loknu B.A.-prófi eða sambærilegu háskóla­prófi.
  • Núverandi 33.-34. mgr. verða 35.-36. mgr.

V. Breyting á kafla raunvísindadeildar.

29. gr.

Í stað „jarð- og landfræðiskor“ í upptalningu skora í 2. mgr. 117. gr., sbr. 7. gr. reglna nr. 532/2005, kemur: jarðvísindaskor og land- og ferðamálafræðiskor.

30. gr.

Við ákvæði til bráðabirgða bætast þrjár nýjar málsgreinar svohljóðandi:

Breytingar á námsframvindureglum hugvísindadeildar skv. ákvæðum 2. gr. reglna þessara, sem og ákvæði um lágmarksmeðaleinkunnina 6,0, taka gildi við upphaf haustmisseris 2006 og verður breyttum ákvæðum 102. gr. beitt um nám stúdenta sem innritast við deildina háskólaárið 2007-2008 og síðar.

Breytingar á námsframvindureglum skv. breyttum ákvæðum 102. gr. reglna þessara taka einnig til stúdenta sem skráðir eru við hugvísindadeild háskólaárið 2006-2007, en berist beiðni frá stúdent í þessum hópi um undanþágu frá nýjum námsframvindureglum, er deildinni skylt að taka tillit til þess við afgreiðslu beiðnarinnar, að stúdentinn hóf nám sitt undir öðrum reglum. Heimilt er deildinni í þeim tilvikum að veita lengri viðbótarfrest en eitt ár. Ákvæðið um lágmarksmeðaleinkunnina 6,0 gildir hins vegar ekki um nám stúdenta sem skráðir eru við hugvísindadeild háskólaárið 2006-2007, nema til endur­innritunar komi.

Hærri lágmarkseinkunn í cand.psych.-námi í félagsvísindadeild tekur gildi við upphaf haustmisseris 2007 og verður breyttum ákvæðum 114. gr. reglna þessara beitt um stúdenta sem teknir eru inn í námið háskólaárið 2007-2008 og síðar. Eldri reglur gilda um stúdenta sem fyrr hafa innritast.

VI. Breytingar á kafla lyfjafræðideildar.

31. gr.

Upptalning kennslugreina í 121. gr. breytist og verður svohljóðandi:

Til B.S.-prófs í lyfjafræði. Deildin setur nánari reglur um nám til B.S.-prófs í lyfjafræði.

Til M.S.-prófs í lyfjafræði (jafngilt cand.pharm.-prófi, embættisprófi í lyfjafræði). Deildin setur nánari reglur um nám til meistaraprófs í lyfjavísindum sem háskólaráð staðfestir.

Til M.S.-prófs í lyfjavísindum á fræðasviðum þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistaraprófs í lyfjavísindum sem háskólaráð staðfestir.

Til doktorsprófs í lyfjafræði og lyfjavísindum á fræðasviðum þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til doktorsprófs sem háskólaráð stað­festir.

32. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 123. gr.:

  • Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. svohljóðandi:
    Nemandi skal ljúka a.m.k. 26e (52 ECTS) af 1. námsári áður en hann hefur nám á 2. námsári eða einstökum þáttum þess. Eftir 2. námsár þarf nemandi að hafa lokið prófi í a.m.k. 20e (40ECTS) á 2. námsári, áður en hann hefur nám á 3. námsári eða einstökum þáttum þess, og öllum prófum á 1. námsári.
  • 5. mgr. verður 6. mgr. með svohljóðandi breytingum:
    Til að standast B.S.-próf eða M.S.-próf í lyfjafræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í öllum námskeiðum hverju fyrir sig auk allra nám­skeiðshluta í einstökum námskeiðum. Deildin ákvarðar vægi hvers námskeiðs­hluta í samráði við kennara og birtir tilkynningu um það efni í upphafi kennslumisseris.
  • Núverandi 3.-7. mgr. verða 4.-8. mgr.

33. gr.

Eftirfarandi breyting verður á 124. gr.:

Við 3. mgr. bætist 4. málsliður, svohljóðandi:

Um meistaranám í lyfjafræði gilda sérstakar reglur sem deildin setur og háskólaráð stað­festir.

VI. Breyting á kafla viðskipta- og hagfræðideildar.

34. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 95. gr.:

Ný málsgrein bætist við á eftir 1. mgr. svohljóðandi:

Deildinni er heimilt með samþykki háskólaráðs að bjóða nám til B.S.-prófs í viðskipta­fræði samhliða starfi enda sé farið eftir ákvæðum 14. gr. þessara reglna.

Núverandi 2.-4. mgr. verða 3.-5. mgr.

35. gr.

Lagastoð, gildistaka og skil eldri og yngri reglna.

Ákvæði reglna þessara, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 og að fengnum tillögum háskóladeilda, öðlast gildi sem hér segir:

  • Breytt ákvæði III. kafla reglna nr. 458/2000, sbr. I. kafla reglna þessara, öðlast gildi þann 1. maí 2007 og falla þá jafnframt úr gildi eftirfarandi reglur:
    – Reglur læknadeildar Háskóla Íslands um valnefndir nr. 830/2001, samþykkt í háskólaráði 25. október 2001,
    – Reglur heimspekideildar Háskóla Íslands um veitingu starfa nr. 20/2002, samþykkt í háskólaráði 20. desember 2001 og
    – Reglur raunvísindadeildar Háskóla Íslands um veitingu starfa nr. 18/2002, samþykkt í háskólaráði 20. desember 2001.
    Eldri reglum (ákvæðum III. kafla og sérreglum deilda) verður þó beitt um ráðningu í störf sem auglýst hafa verið laus til umsóknar. Eldri reglum verður ennfremur beitt um umsóknir um framgang sem borist hafa rektor fyrir 1. maí 2007.
  • Ákvæði II. - VI. kafla reglna þessara öðlast þegar gildi.

Ákvæði til skýringar.

Breyting á III. kafla reglna nr. 458/2000, hefur ekki áhrif á sérákvæði um ráðningu í samhliða störf hjá HÍ og LSH, sbr. reglur nr. 385/2003. Er valnefnd í þeim tilvikum skipuð hverju sinni með jafnmörgum mönnum frá hvorri stofnun.

Háskóla Íslands, 26. mars 2007.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 23. apríl 2007