Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1143/2011

Nr. 1143/2011 1. desember 2011
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr., um fulltrúa í háskólaráði:

a.

2. mgr. orðast svo:

Í háskólaráði eiga auk rektors sæti eftirtaldir tíu fulltrúar, tilnefndir til tveggja ára í senn:

1.

Þrír fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólaþingi.

2.

Tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann.

3.

Tveir fulltrúar tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðherra.

4.

Þrír fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

b.

Í stað orðsins „Tveir“ í upphafi 4. mgr. kemur: Þrír.

c.

Í stað orðsins „tveimur“ í staflið c í 5. mgr. kemur: þremur.

d.

Stafliður d í 5. mgr. orðast svo:

d.

sá sem flest atkvæði hlýtur í kjöri á háskólaþingi skal tilnefndur sem fulltrúi í háskólaráð. Jafnframt skal sá tilnefndur sem hlýtur næstflest atkvæði og er áskilið að hann sé starfandi á öðru fræðasviði en sá sem flest atkvæði hlýtur. Þriðji fulltrúi háskólasamfélagsins skal vera sá sem flest atkvæði hlýtur á háskólaþingi að hinum tveimur frátöldum og er jafnframt starfandi á öðru fræðasviði en hinir tveir. Varamenn fulltrúanna þriggja eru þeir þrír sem hlotið hafa flest atkvæði að tilnefndum fulltrúum frátöldum. Sá varamaður sem flest atkvæði hlýtur er varamaður þess tilnefnds fulltrúa sem flest atkvæði fékk, annar er varamaður annars aðalmanns og þriðji er varamaður þriðja aðalmanns. Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða. Tilnefning er bindandi og er viðkomandi skylt að taka tilnefningu til setu í háskólaráði til tveggja ára.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr., um hlutverk háskólaþings:

a.

Í stað orðanna „fjallar um og tekur þátt í að móta og setja fram“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: mótar og setur fram.

b.

Í stað orðsins „tvo“ í 4. mgr. kemur: þrjá.

3. gr.

Í stað orðanna „eins árs“ í 2. mgr. 10. gr. kemur: tveggja ára.

4. gr.

Við 4. mgr. 12. gr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi:

Háskólaráði er heimilt að ákveða að í stjórn fræðasviðs sitji einnig fulltrúar tiltekinna kennslugreina sem saman mynda deild. Enn fremur er háskólaráði heimilt að ákveða að í stjórn fræðasviðs sitji fulltrúi opinberrar stofnunar sem er í mjög nánu samstarfi um kennslu og þjálfun nemenda fræðasviðsins.

5. gr.

1. mgr. 29. gr. orðast svo:

Rektor veitir ótímabundin akademísk störf við háskólann og framgang akademískra starfsmanna, sbr. 31. gr. reglna þessara. Forseti fræðasviðs, í umboði rektors, ræður þá akademísku starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið við fræðasvið og stofnanir sem heyra undir fræðasvið, auk aðjúnkta og stundakennara. Forstöðumaður veitir akademísk störf við stofnun sem heyrir undir háskólaráð í umboði rektors. Forseta fræðasviðs og forstöðumanni er ekki heimilt að framselja þetta ákvörðunarvald. Forseti fræðasviðs setur verklagsreglur um undirbúning ráðningar stundakennara.

6. gr.

3. málsl. 3. mgr. 31. gr. fellur niður.

7. gr.

64. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Endurmenntun á vegum háskóladeilda og fræðsla fyrir almenning.

Háskóladeildum er heimilt að bjóða upp á endurmenntun þeirra sem hafa lokið háskóla­prófi í þeim fræðum sem viðurkenning háskólans tekur til. Með hugtakinu endurmenntun er átt við eftirfarandi:

  1. námskeið fyrir háskólamenntað fólk á fagsviði þess,
  2. viðbótarnám fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu.

Háskóladeildum er heimilt að bjóða upp á fræðslu fyrir almenning í þeim fræðum sem viðurkenning háskólans tekur til. Með hugtakinu fræðsla fyrir almenning er átt við eftirfarandi:

  1. fyrirlestrar, fræðsla, málstofur og námskeið um tiltekin málefni, sbr. einnig 65. gr.,
  2. einstök námskeið eða flokkur námskeiða sem myndað geta samstæða heild og eru á faglegri ábyrgð háskóladeilda og eftir atvikum metin til eininga. Slík nám­skeið eru einungis opin þeim er uppfylla inntökuskilyrði samkæmt 47. gr. reglna þessara. Samstæð heild einingabærra námskeiða gegn gjaldi getur aldrei numið fleiri en 60 einingum.

Endurmenntunarnám og einstök námskeið sem metin eru til eininga, sbr. b. lið 2. mgr., á vegum háskóladeilda lúta eftirfarandi skilyrðum:

  1. Við inntöku í námið skal nemandi uppfylla inntökuskilyrði samkvæmt 47. gr. þessara reglna. Deild kveður nánar á um inntökuskilyrði í námið og er í sam­þykktum deildar heimilt að setja strangari inntökuskilyrði.
  2. Námið skal í hverju tilviki vera á faglegri ábyrgð háskóladeildar og er henni heimilt að meta það til eininga.
  3. Deild er heimilt að semja við þriðja aðila um ákveðin framkvæmdaratriði, s.s. skráningu nemenda, fjárreiður, reikningshald, húsnæði, kynningu o.fl., en fagleg ábyrgð skal ávallt vera hjá deildinni.
  4. Deild er heimilt að ákveða að endurmenntunarnámi fyrir háskólamenntað fólk á vegum hennar ljúki með sérstakri prófgráðu. Skal það koma fram í kafla deildar í reglum þessum.
  5. Endurmenntunarnám samkvæmt þessari grein er utan við hefðbundið náms­framboð deildar. Þó er heimilt að bjóða einstök námskeið á meistarastigi, sem eru hluti hefðbundins náms til prófgráðu, sem endurmenntunarnámskeið gegn gjaldi. Fyrir hefðbundið nám er óheimilt að innheimta annað gjald en skrá­setn­ingargjald, sbr. a-lið 24. gr. laga um opinbera háskóla. Óheimilt er að fella skipulagt framhaldsnám samkvæmt ákvæðum 69. gr. þessara reglna undir ákvæði þessarar greinar.
  6. Tilskilið er að forseti viðkomandi fræðasviðs heimili kennurum að sinna þessum verkefnum og ákveði hvort þau teljist hluti af starfsskyldu þeirra.

Um gjaldtöku vegna endurmenntunar og fræðslu fyrir almenning á vegum háskóladeilda fer eftir e. og f. lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla. Háskólaráð skal staðfesta sam­þykktir deilda um endurmenntun á þeirra vegum og gjaldtöku vegna hennar.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 96. gr.:

a.

Fyrirsögn verður: MBA-nám.

b.

4. og 5. mgr. falla niður.

9. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 1. desember 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 16. desember 2011