Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 77/2012

Nr. 77/2012 29. júní 2012
LÖG
um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (sparisjóðir).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
    2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Sparisjóður skv. 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr.

2. gr.
    2. og 3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé eða hlutafé sparisjóðs skal að lágmarki nema 5 milljónum evra (EUR).
    Stofnfé eða hlutafé sparisjóðs sem starfar á afmörkuðu, staðbundnu starfssvæði og hefur starfsleyfi skv. 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. og starfsheimildir skv. 1.–6., 10., 13. og 14. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal að lágmarki nema 1 milljón evra. Fjármálaeftirlitið ákvarðar hvað telst afmarkað, staðbundið starfssvæði.

3. gr.
    Á eftir orðinu „sparisjóðir“ í 3. mgr. 20. gr. laganna kemur: sem uppfylla ákvæði 2. mgr. 14. gr.

4. gr.
    Á eftir orðinu „sparisjóðum“ í 23. gr. laganna kemur: sem uppfylla ákvæði 2. mgr. 14. gr.

5. gr.
    Í stað 61.–65. gr. laganna kemur nýr undirkafli, A. Sparisjóðir – sameiginleg ákvæði, með fimm greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (61. gr.)
Sparisjóður.
    Til þess að fá starfsleyfi sem sparisjóður og eiga samvinnu um sameiginlega markaðsstarfsemi skal fjármálafyrirtæki skilgreina í samþykktum sínum samfélagslegt hlutverk sitt og hlíta ákvæðum 63. gr. um ráðstöfun hagnaðar og arðgreiðslur. Sparisjóður skal afmarka samfélagslegt hlutverk sitt við tiltekið landsvæði, í lögum þessum nefnt starfssvæði.
    Aðeins fjármálafyrirtæki sem hefur starfsleyfi sem sparisjóður er heimilt að nota orðið „sparisjóður“ í firma sínu eða til skýringar á starfsemi sinni.

    b. (62. gr.)
Rekstrarform.
    Sparisjóður getur verið sjálfseignarstofnun samkvæmt ákvæðum þessa kafla eða hlutafélag. Sparisjóður skal tilgreina rekstrarform í heiti sínu. Nægilegt er að tilgreining rekstrarforms sé gerð með skammstöfun, nota skal skammstöfunina „ses.“ fyrir sjálfseignarstofnun en ákvæði hlutafélagalaga gilda um tilgreiningu á rekstrarformi hlutafélags.

    c. (63. gr.)
Ráðstöfun hagnaðar.
    Sparisjóður skal ráðstafa að lágmarki 5% af hagnaði liðins árs fyrir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu. Sundurliða skal þau verkefni sem sparisjóðurinn hefur stutt í skýringum með ársreikningi þess árs þegar ráðstöfun fer fram og tiltaka móttakendur framlaga.
    Ráðherra sá sem fer með málefni fjármálamarkaðar getur gefið út reglugerð til nánari skýringa á því hvað teljast samfélagsleg verkefni samkvæmt þessari grein.

    d. (64. gr.)
Viðskipti með hluti í sparisjóði.
    Sparisjóðir skulu setja sér reglur um viðskipti með hluti í sparisjóðnum, stofnfjárbréf eða hlutabréf, sem samþykktar skulu af Fjármálaeftirlitinu. Því er heimilt að gefa út leiðbeinandi tilmæli um slík viðskipti.

    e. (65. gr.)
Samstarf sparisjóða.
    Sparisjóðum er heimilt að hafa samstarf m.a. um eftirfarandi verkefni, enda sé slíkt gert á almennum viðskiptalegum forsendum:
    1.    ráðgjöf um áhættustýringu,
    2.    rekstur upplýsingakerfa,
    3.    öryggiseftirlit,
    4.    starfsemi innri endurskoðunardeilda,
    5.    bakvinnslu, bókhald, greiningu og skýrslugerð til eftirlitsstofnana,
    6.    lögfræðiráðgjöf, samninga og samskipti við birgja,
    7.    vöruþróun og markaðssamstarf um sameiginleg vörumerki,
    8.    fræðslu og upplýsingagjöf,
    9.    innlenda og erlenda greiðslumiðlun og þjónustu við erlend viðskipti.
    Í þeim tilfellum að fleiri en einn sparisjóður hafa falið einum og sama aðila verkefni skv. 1. mgr. skulu gerðir samningar á milli hvers einstaks sparisjóðs og þess sem veitir þjónustuna. Slíkir samningar víkja ekki til hliðar skyldum þeim sem hver einstakur sparisjóður ber gagnvart lögum og reglum, eftirlitsaðilum, stofnfjáreigendum, hluthöfum eða öðrum.
    Rísi ágreiningur um hvort starfsemi falli undir 1. mgr. sker Samkeppniseftirlitið úr.

6. gr.
    Í stað 66.–73. gr. laganna kemur nýr undirkafli, B. Sjálfseignarstofnun sem sparisjóður, með átta greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (66. gr.)
Sjálfseignarstofnun.
    Um sjálfseignarstofnun sem er sparisjóður gilda ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995, að því leyti sem ekki eru settar sérstakar reglur í lögum þessum. Ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eiga ekki við um sjálfseignarstofnun sem er sparisjóður.

    b. (67. gr.)
Samþykktir.
    Í samþykktum sjálfseignarstofnunar sem er sparisjóður skulu vera ákvæði sem varða sérstaklega hlutaðeigandi sparisjóð, svo sem:
      1.    heiti sparisjóðs,
      2.    heimili sparisjóðs og varnarþing,
      3.    tilgang,
      4.    samfélagslegt hlutverk hans og starfssvæði,
      5.    heildarupphæð stofnfjár og skiptingu í stofnfjárhluti,
      6.    kosningu sparisjóðsstjórnar, störf hennar og kjörtímabil,
      7.    hvernig boðað skuli til funda stofnfjáreigenda,
      8.    hvaða mál skuli taka fyrir á aðalfundi,
      9.    hvert skuli vera reikningsár sparisjóðsins,
    10.    hvernig staðið skuli að breytingum á samþykktum,
    11.    hvort stofnfjáreigendur skuli sæta innlausn á hlutum sínum að nokkru leyti eða öllu og eftir hvaða reglum,
    12.    hvort stofnfjáreigendur njóti forgangsréttar til áskriftar við aukningu stofnfjár,
    13.    slit á sparisjóði og ráðstöfun eigin fjár í því sambandi.
    Ekki er heimilt að veita tilteknum stofnfjáreigendum sérréttindi.

    c. (68. gr.)
Stjórnun og fjárhagsleg réttindi tengd stofnfé.
    Fundur stofnfjáreigenda er æðsta vald í málefnum sjálfseignarstofnunar og kýs honum stjórn. Stofnfjáreigendur fara með atkvæði í samræmi við hlutdeild sína í útgefnu stofnfé að frádregnu stofnfé sem kann að vera í eigu sjálfseignarstofnunarinnar.
    Stjórn ræður sparisjóðsstjóra sem er framkvæmdastjóri sparisjóðsins og ber ábyrgð á daglegum rekstri hans.
    Stofnfjáreigendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt og eiga ekki hlutdeild í öðru eigin fé sparisjóðs en bókfærðu stofnfé eins og það er á hverjum tíma. Stofnfjáreigendum er óheimilt að ganga á óráðstafað eigið fé við ákvörðun arðs, sbr. 63. gr., eða ganga að óráðstöfuðu fé sjálfseignarstofnunarinnar með öðrum hætti, svo sem með innlausn eða kaupum sjálfseignarstofnunarinnar á eigin stofnfjárhlutum á hærra verði en nafnverði.

    d. (69. gr.)
Stofnfé og stofnfjárbréf.
    Stjórn sparisjóðs sem er sjálfseignarstofnun gefur út stofnfjárbréf til þeirra sem skráðir eru fyrir stofnfjárhlutum. Stofnfjárbréf má ekki afhenda fyrr en hlutur er að fullu greiddur.
    Stofnfjárbréf skulu hljóða á nafn og tilgreina:
    1.    heiti sparisjóðs og heimilisfang,
    2.    númer og fjárhæð hlutar,
    3.    nafn, heimilisfang og kennitölu stofnfjáreiganda,
    4.    útgáfudag stofnfjárbréfs,
    5.    sérstök atriði er varða réttindi og skyldur stofnfjáreigenda.
    Stjórnin skal færa skrá yfir stofnfjáreigendur og skal hún aðgengileg öllum. Sparisjóðsstjórn skal uppfæra skrána þegar breytingar verða á eignarhaldi stofnfjárbréfa. Stofnfjáreigandi öðlast réttindi samkvæmt stofnfjárbréfi við skráningu í stofnfjáreigendaskrá.
    Stofnfjárbréf er heimilt samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins að gefa út með rafrænum hætti í verðbréfamiðstöð í samræmi við lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
    Framsal og önnur ráðstöfun stofnfjárbréfa í sparisjóði er heimil án takmarkana, sbr. þó ákvæði VI. kafla.

    e. (70. gr.)
Hækkun stofnfjár og endurmat.
    Fundur stofnfjáreigenda getur samþykkt aukningu stofnfjár í viðkomandi sparisjóði með útgáfu nýrra stofnfjárhluta. Til þess að heimilt sé að fjalla um aukningu stofnfjár á aðalfundi eða sérstökum fundi stofnfjáreigenda skal hafa verið boðað til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal gera grein fyrir tillögu stjórnar um útgáfu nýrra stofnfjárhluta, þ.m.t. um heildarfjölda hluta, nafnverð hluta og útboðsgengi, greiðslukjör, ef einhver eru, áskriftartíma og áskriftarrétt. Lágmarksverð nýrra stofnfjárhluta skal vera jafnhátt og nafnverð stofnfjárhluta í viðkomandi sparisjóði.
    Aðalfundur stofnfjáreigenda getur samþykkt, að tillögu sparisjóðsstjórnar, að arði til stofnfjáreigenda skuli að hluta eða að öllu leyti varið til hækkunar á nafnverði stofnfjárhluta í sparisjóðnum. Ekki er þó heimilt að hækka nafnverð stofnfjárhluta umfram verðlagsbreytingar miðað við vísitölu neysluverðs frá útgáfu stofnfjárhlutanna.
    Ef sparisjóður hefur gefið út nýtt stofnfé og hafi verið greitt meira en nafnverð fyrir útgáfuna skal fé það sem greitt var umfram nafnverð fært á yfirverðsreikning stofnfjár að frádregnum kostnaði sparisjóðsins af útgáfunni. Hann telst með óráðstöfuðu eigin fé sparisjóðs.

    f. (71. gr.)
Lækkun stofnfjár.
    Að tillögu stjórnar sparisjóðs getur fundur stofnfjáreigenda tekið ákvörðun um lækkun stofnfjár til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt. Til þess að heimilt sé að fjalla um lækkun stofnfjár á fundi stofnfjáreigenda skal hafa verið boðað til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal gera grein fyrir tillögu um lækkun stofnfjár. Fyrir slíkri ákvörðun þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða sem mætt er fyrir á fundi stofnfjáreigenda. Í fundarboði skal greina frá ástæðum fyrir lækkuninni og hvernig hún á að fara fram. Fjármálaeftirlitinu skal tilkynnt fyrir fram um fyrirhugaða lækkun stofnfjár.
    Ákvörðun fundar stofnfjáreigenda um lækkun skv. 1. mgr. tekur gildi þegar Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt hana.
    Ekki þarf að innkalla kröfur vegna lækkunar stofnfjár samkvæmt þessari grein.

    g. (72. gr.)
Samruni.
    Heimilt er að sameina sparisjóð sem er sjálfseignarstofnun við annan sparisjóð eða fjármálafyrirtæki þannig að sjálfseignarstofnuninni verði slitið.
    Ef sparisjóður sem er sjálfseignarstofnun er sameinaður annarri sjálfseignarstofnun skal endurgjald til stofnfjáreigenda hans vera í samræmi við hlutdeild stofnfjár í eigin fé sparisjóðsins eins og það var samkvæmt efnahagsreikningi við sameininguna. Ef fyrir hendi er eigið fé umfram stofnfé í sparisjóðnum, hér nefnt óráðstafað eigið fé, skal það leggjast óskert við óráðstafað eigið fé hins sameinaða sparisjóðs. Sé um neikvætt óráðstafað eigið fé að ræða í sparisjóði sem sameinast annarri sjálfseignarstofnun skal stofnfé lækkað til jöfnunar á því áður en til samruna kemur. Við samrunann má óráðstafað eigið fé sameinaðs sparisjóðs ekki verða lægra en samanlagt jákvætt óráðstafað eigið fé þeirra sparisjóða var fyrir samruna.
    Ef sparisjóður sem er sjálfseignarstofnun er sameinaður hlutafélagi með yfirtöku, þannig að hlutafélagið er yfirtökufélag, skal sjálfseignarstofnuninni slitið. Skal endurgjald til stofnfjáreigenda í hinum yfirtekna sparisjóði vera í samræmi við hlutdeild stofnfjár í eigin fé sparisjóðsins. Ef í yfirteknum sparisjóði er jákvætt óráðstafað eigið fé skal endurgjald fyrir það lagt í sérstaka sjálfseignarstofnun. Endurgjaldi fyrir hinn yfirtekna sparisjóð skal þá skipt milli stofnfjáreigenda og sjálfseignarstofnunar miðað við hlutfall þeirra í heildar eigin fé sparisjóðsins. Skal endurgjald til sjálfseignarstofnunarinnar vera í formi peningagreiðslu eða með skuldabréfi til ekki lengri tíma en 10 ára. Óháður aðili skal leggja mat á verðmæti endurgjalds sem fara skal til sjálfseignarstofnunar, með tilliti til þess hvort það sé sanngjarnt, eðlilegt og í réttu hlutfalli miðað við verðmæti endurgjalds sem koma skal í hlut stofnfjáreigenda. Skal Fjármálaeftirlitið staðfesta matið. Stjórn yfirtekins sparisjóðs skal annast um að stofna sjálfseignarstofnun samkvæmt þessari grein og setja henni skipulagsskrá sem skal staðfest sameiginlega af ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál og ráðherra er fer með fræðslumál. Sjálfseignarstofnun þessi skal hafa þann tilgang að rækja og stuðla að framgangi þeirra samfélagslegu verkefna sem samþykktir yfirtekins sparisjóðs kveða á um. Í stjórn sjálfseignarstofnunar samkvæmt þessari málsgrein skulu eiga sæti einn fulltrúi sveitarfélaga á starfssvæði sparisjóðsins, einn fulltrúi skipaður af ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál, sem skal vera formaður stjórnar, og einn fulltrúi tilnefndur af ráðherra er fer með fræðslumál. Ráðherra sem fer með sveitarstjórnarmál getur skipað fulltrúa sveitarfélaga í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar berist ekki sameiginleg tilnefning frá þeim innan frests sem hann hefur sett þeim til að tilnefna sameiginlega stjórnarmann.
    Stjórn yfirtekins sparisjóðs getur einnig, í stað þess að stofna sjálfseignarstofnun, gert tillögu um ráðstöfun á endurgjaldi fyrir óráðstafað eigið fé sparisjóðsins beint til samfélagslegra verkefna sparisjóðsins. Tillaga stjórnar um slíka ráðstöfun skal staðfest sameiginlega af ráðherra er fer með sveitarstjórnarmál og ráðherra er fer með fræðslumál.
    Ekki er heimilt að samþykkja samruna og slíta yfirteknum sparisjóði fyrr en stjórn sjálfseignarstofnunar hefur verið skipuð eða tillaga um ráðstöfun á óráðstöfuðu eigin fé hefur verið staðfest.
    Um samruna sparisjóða fer að öðru leyti eftir ákvæðum 106. gr., þ.m.t. ef sparisjóður sem er sjálfseignarstofnun yfirtekur fjármálafyrirtæki sem er hlutafélag.

    h. (73. gr.)
Breyting sjálfseignarstofnunar í hlutafélag.
    Að tillögu sparisjóðsstjórnar getur fundur stofnfjáreigenda ákveðið með 2/3 hlutum greiddra atkvæða, svo og samþykki stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, að breyta rekstrarformi sparisjóðs úr sjálfseignarstofnun í hlutafélag.
    Skal breyting sjálfseignarstofnunar í hlutafélag framkvæmd þannig að sjálfseignarstofnunin sameinist hlutafélagi sem hún hefur áður stofnað í því skyni. Við samrunann tekur hlutafélagið við rekstri sparisjóðsins, öllum eignum hans og skuldum, réttindum og skuldbindingum og skal sjálfseignarstofnuninni slitið.
    Hlutafélag sem sparisjóðurinn stofnar skv. 2. mgr. skal uppfylla ákvæði 61. gr. Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um fjölda stofnenda í hlutafélagi skv. 2. mgr. Ákvæði 1. mgr. 20. gr. sömu laga um lágmarksfjölda hluthafa gilda ekki um hlutafélag skv. 2. mgr. fram að því að breyting sparisjóðs í hlutafélag skv. 2. mgr. á sér stað.
    Við breytingu sjálfseignarstofnunar í hlutafélag samkvæmt þessari grein heldur starfsleyfi sparisjóðsins gildi sínu.
    Samruni vegna breytingar sjálfseignarstofnunar í hlutafélag skal að öðru leyti fara eftir ákvæðum 3. mgr. 72. gr. og 106. gr.

7. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
    a.    3. mgr. fellur brott.
    b.    Síðari málsliður 7. mgr. fellur brott.

8. gr.
    34.–37. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna orðast svo:
    34.    63. gr. um ráðstöfun arðs,
    35.    64. gr. um að setja og fylgja reglum um viðskipti með hluti í sparisjóði,
    36.    2. mgr. 65. gr. um skyldur sparisjóðs,
    37.    3. mgr. 69. gr. um að halda og uppfæra skrá yfir stofnfjáreigendur.

9. gr.
    23. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna orðast svo: 63. gr. um ráðstöfun arðs.

10. gr.
    Í stað orðanna „1. júlí 2012“ í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 31. desember 2013.

11. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 29. júní 2012.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Svandís Svavarsdóttir.

A deild - Útgáfud.: 4. júlí 2012