Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 715/2012

Nr. 715/2012 14. ágúst 2012
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Strandasýslu.

I. KAFLI

Stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi tekur til allra afrétta- og fjallskilamála í Strandasýslu. Um þau atriði er hún nær ekki til, gilda ákvæði laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, með síðari breytingum.

2. gr.

Fjallskilaumdæmi og fjallskilanefndir.

Héraðsnefnd Strandasýslu hefur á hendi yfirstjórn allra afrétta- og fjallskilamála í sýslunni. Sveitarstjórnir annast stjórn og framkvæmd þessara mála hver í sínu sveitarfélagi, eða í samvinnu þar sem henta þykir. Heimilt er sveitarstjórnum, einum sér eða í samvinnu að kjósa fjallskilanefndir er sjái um framkvæmd fjallskila á viðkomandi svæði.

II. KAFLI

Notkun upprekstrarlanda o.fl.

3. gr.

Upprekstrarlönd og notkun þeirra.

Sveitarstjórn í hverju sveitarfélagi skal ábyrgjast að þeir fjáreigendur sem ekki hafa nægilegt upprekstrarland fyrir fénað sinn fái upprekstur annars staðar í sveitarfélaginu þar sem fjalllendi er nægilegt. Gjald til eiganda upprekstrarlands fer eftir samningi, eða ef samkomulag næst ekki eftir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar. Þó getur sá aðili sem eigi vill una slíkri ákvörðun krafist mats dómkvaddra manna um gjaldhæð.

Þá er sveitarstjórn skylt að fylgjast með ástandi afrétta og heimalanda. Berist sveitarstjórn rökstuddar ábendingar um að nýtingu lands sé ekki hagað á skynsamlegan hátt, eða um ofbeit sé að ræða skal leita álits gróðurverndarnefndar sýslunnar og Landgræðslu ríkisins um málið og um aðgerðir til úrbóta.

Telji sveitarstjórn beitarlönd einstakra jarða ofsetin getur hún krafist ítölu. Áður skal þó sveitarstjórn leita álits gróðurverndarnefndar sýslunnar.

4. gr.

Ágangur á heimalönd.

Nú verður tilfinnanlegur ágangur búfjár úr einu heimalandi í annað, og getur þá sá er fyrir verður gert viðkomandi sveitarstjórn viðvart. Stafi ágangurinn af búfé sem heimilt er að hafa í heimahögum, skal sveitarstjórn sjá til þess að ágangsfénaður sé fluttur þangað sem hann á að vera á kostnað eiganda. Gangi búfénaður í engi, tún, garðlönd eða önnur afgirt svæði og valdi tjóni skal eigandi gjalda ábúanda bætur. Sé um endurtekinn ágang sama búpenings að ræða er áður skorað á eiganda að afstýra frekari ágangi.

Heimilt er að krefja eiganda uslagjalds, skal það vera mat tveggja dómkvaddra manna.

Sé búpeningur settur inn skal þess gætt að hann sé ekki í svelti. Skal eiganda tilkynnt um innsetninguna samdægurs. Ef innsettur fénaður ferst eða verður fyrir slysi greiðir sá er inn setur eiganda bætur.

Eiganda búfjár í þéttbýli er skylt að hafa fénað sinn í öruggri girðingu sé hann innan þess svæðis sem skipulagt er.

III. KAFLI

Bygging og viðhald rétta.

5. gr.

Bygging og viðhald rétta.

Sveitarstjórnir og fjallskilanefndir sjá um byggingu og viðhald lögrétta og sundurdráttarrétta. Kostnaður við nýbyggingu og viðhald greiðist úr fjallskilasjóði viðkomandi sveitarfélags eða úr sveitarsjóði þess ef fjallskilasjóður er ekki til staðar.

Sveitarstjórn skal sjá til þess að vélknúnum ökutækjum sé fært að lögrétt og aðstaða sé góð til að koma réttarfé á bíla og fjárvagna.

Landeigandi á rétt á bótum fyrir jarðrask vegna réttarbyggingar að mati dómkvaddra manna.

6. gr.

Dilkrými í réttum.

Dilkar í fjárréttum skulu vera svo rúmgóðir að enginn þurfi að hleypa út fé fyrr en sundurdrætti er lokið. Skylt er að sjá utansveitarmönnum fyrir nægilegu dilkarými, þá skal vera aðstaða til að einangra sjúkar kindur. Ómerkingum, óskilafé og línubrjótum skulu ætlaðir sérstakir dilkar.

IV. KAFLI

Mörk og markaskrá.

7. gr.

Mörk.

Búfjármörk eru: eyrnamörk, brennimörk, frostmerki, örmerki og plötumerki í eyra.

Hver búfjáreigandi er skyldur til að merkja greinilega allt búfé, og fara plötumerkingar eftir reglugerð um merkingar búfjár, nr. 289/2005, með síðari breytingum. Búfé skal draga eftir mörkum. Mark helgar markeiganda eignarrétt nema komi full sönnun að annar eigi. Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmark, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Eiganda rétthærra marks er skylt að gera grein fyrir eignarrétti sínum ef eigandi réttlægra marks krefst þess.

8. gr.

Merkingar sauðfjár.

Sérhver sauðfjáreigandi er skyldur til að hafa skýrt eyrnamark á fé sínu, ásamt plötumerki samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár, nr. 289/2005, með síðari breytingum, með númeri bæjar, sveitarfélags og sýslu á annarri hlið. Á hinni hlið merkisins skal skráð númer gripsins og skal litur merkisins í samræmi við reglugerð um sauðfjárveikivarnir.

9. gr.

Númer sveitarfélaga.

Eftirtalda bókstafi og númer skal nota fyrir sveitarfélög á brennimörk og plötumerki:

Bæjarhreppur

T-1

Óspakseyrarhreppur (nú Strandabyggð)

T-2

Fellshreppur (nú Strandabyggð)

T-3

Kirkjubólshreppur (nú Strandabyggð)

T-4

Hólmavíkurhreppur (nú Strandabyggð)

T-5a

Hrófbergshreppur (nú Strandabyggð)

T-5

Nauteyrarhreppur (nú Strandabyggð)

NÍ-6

Kaldrananeshreppur

T-6

Árneshreppur

T-7

10. gr.

Markaskráning.

Héraðsnefnd skal láta prenta markaskrá fyrir sýsluna svo oft sem lög mæla fyrir um og felur markaverði söfnun marka, umsjón með mörkum og gerð og útgáfu markaskráa.

11. gr.

Markagjöld.

Hver markeigandi skal greiða markagjald fyrir innfærslu marks í markaskrá. Miða skal markagjöld við að þau nægi fyrir kostnaði við söfnun marka, útgáfu og prentun markaskrár. Greiða skal gjaldið til markavarðar um leið og tilkynnt er um mark.

12. gr.

Dreifing markaskrár.

Markaskrá skal prenta í svo mörgum eintökum að hver markeigandi fái eitt eintak. Einnig skal henni dreift til oddvita, lögreglustjóra, sláturhúsa, vörslumanna búfjár, markavarða aðliggjandi fjallskilaumdæma og annarra er málið varðar.

13. gr.

Ný mörk o.fl.

Vilji einhver taka upp nýtt mark, nota aðflutt mark eða skrá nýjan eiganda að marki á milli útgáfu markaskráa, skal hann sækja um það til markavarðar, er sendir Bændasamtökum Íslands það til birtingar í landsmarkaskrá. Mörk ganga að erfðum. Gefa má mark og selja. Taka má upp nýtt mark, gerðarmark. Tilkynni tveir eða fleiri fjáreigendur um sama mark til prentunar, er erfðamark rétthæst, síðan gjafamark, svo kaupamark og síðast gerðarmark.

Aðfluttur maður skal breyta marki sínu þótt erfðamark sé, ef sammerkt er eða námerkt innan sýslu. Um skráningu og notkun marka vísast til reglugerðar um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, nr. 200/1998, með síðari breytingum.

V. KAFLI

Göngur og réttir.

14. gr.

Fjallskil.

Fjallskilaskyldur er hver fjáreigandi, ábúandi eða húsráðandi sem á fé eða hross. Einnig er hann fjallskilaskyldur fyrir börn sín, eigi þau fé, einnig fóðrafé. Nú er jörð í eyði og land hennar ekki lagt til upprekstrar eða sameiginlegs bithaga með samningum, og er þá eiganda eða umboðsmanni hans skylt að annast fjallskil jarðarinnar eins og byggð væri.

Nú fellur sveitarfélag eða verulegur hluti þess úr byggð, skal þá héraðsnefnd sjá um að fjallskil séu framkvæmd á eyðilöndum. Kostnaður við þau skiptist þannig, að eigendur bera ½, hreppar þeir sem fjárvon eiga í löndunum ¼, og ríkið ¼. Bændasamtök Íslands úrskurða um kostnaðarreikninga.

15. gr.

Undanþága frá fjallskilaskyldu.

Sá er notar land í öðru sveitarfélagi fyrir fénað sinn eða nokkurn hluta hans, skal hafa tilkynnt það sveitarstjórn þar sem hann á heima, áður en 12 vikur eru af sumri, og er hann þá undanþeginn fjallskilaskyldu fyrir þennan fénað. Sama gildir um fénað sem gengur ætíð í öruggum girðingarhólfum eða í eyjum.

16. gr.

Niðurjöfnun fjallskila.

Fjallskilum skal jafna niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búpenings. Fjallskil skulu innt af hendi í vinnu eftir því sem þörf krefur og við verður komið, ella goldin í peningum eftir mati sveitarstjórna. Heimilt er sveitarstjórn að leggja allt að helming áætlaðs kostnaðar fjallskilasjóðs á landverð allra jarða í hreppnum, þar með taldar eyðijarðir, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, miðað við gildandi fasteignamat á hverjum tíma.

17. gr.

Fjallskilasjóður.

Heimilt er að mynda fjallskilasjóð fyrir hvert réttarsvæði. Skal fjallskilareikningur endur­skoðast á sama hátt og sveitarsjóðsreikningar.

18. gr.

Fjallskilaseðill.

Hlutaðeigandi sveitarstjórn eða fjallskilanefnd skal árlega í tæka tíð, semja fjallskilaseðil þar sem mælt er fyrir hvernig fjallskilum skuli hagað. Skal tilnefna leitarstjóra í sveitarfélaginu, einn eða fleiri sem stjórni göngum leitarmanna og annist að leitir fari vel og skipulega fram. Leitarstjórar skulu gæta þess vandlega að allir þeir sem eiga að leggja til menn í fjallleitir sendi svo marga fullgilda menn sem sveitarstjórn hefur fyrirskipað. Ef einhver sendir mann í leit sem leitarstjóri telur óhæfan eða vanbúinn skal vísa honum heim aftur og er sá er slíkan sendir skyldur að borga sem hann hafi engan sent.

Leitarmenn skulu vera vel búnir og klæddir áberandi klæðnaði líkt og björgunar­sveitar­menn nota.

19. gr.

Vanræksla.

Nú vanrækir maður án lögmætra ástæðna að inna fjallskil af hendi, skal hann þá eftir ákvörðun sveitarstjórnar auk greiðslu fyrir fjallskilin eins og þau eru metin, gjalda greiðslu í fjallskilasjóð eða sveitarsjóð þar sem enginn fjallskilasjóður er, allt að helmingi af matsverði fjallskilanna.

20. gr.

Haustleitir.

Aðalhaustleitir skulu tvær á hausti. Viðkomandi sveitarstjórn eða fjallskilanefnd ákveður leitardaga á sínu svæði. Þá skal smala allt það land þar sem fénaður hefur gengið á, sem mest á sama tíma. Þess skal gætt sérstaklega að leitir fari samtímis fram á samliggjandi leitarsvæðum svo eigi verði misgöngur. Skulu leitarstjórar hafa samráð um þá tilhögun er best er talin henta til að tryggja samræmingu við smölun. Sveitarstjórnir eða fjallskilanefndir geta ef þurfa þykir, fyrirskipað þriðju leit og ákveðið leitardag.

Ef veður eða aðrar ástæður hamla leitum eða torvelda fulla gagnsemi þeirra að dómi leitarstjóra getur hann að höfðu samráði við sveitarstjórn frestað leitum þar til betur horfir.

21. gr.

Réttardagar.

Skilaréttir skulu vera þessar, taldar upp í tímaröð. Sú fyrri, eigi síðar en í 22. viku sumars, sú seinni tveim vikum síðar.

Réttir

Fyrri

Seinni

22. vika sumars

24. vika sumars

Í Hrútafirði

Innan Fjarðarhornslínu

laugardagur

sunnudagur

Hvalsárrétt í Hrútafirði

laugardagur

sunnudagur

Í Bitrufirði innan varnarlínu

laugardagur

laugardagur

Í Bitrufirði norðan varnarlínu

sunnudagur

laugardagur

Í Kollafirði

sunnudagur

laugardagur

Kirkjubólsrétt í Tungusveit

sunnudagur

laugardagur

Skeljavíkurrétt við Hólmavík

laugardagur

laugardagur

Staðarrétt í Steingrímsfirði

sunnudagur

sunnudagur

Heimaréttir á Langadalsströnd

sunnudagur

laugardagur

Skarðsrétt í Bjarnarfirði

laugardagur

laugardagur

Kjósarrétt og Melarétt

í Árneshreppi

laugard. í 21. viku

laugard. í 22. viku.

Sundurdrátt má hafa þar sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða fjallskilanefndir ákveða og skal færa til skilaréttar það fé sem ekki er dregið upp í sundurdráttarrétt. Heimilt er hlutaðeigandi sveitarstjórn eða fjallskilanefnd að ákveða aðra réttardaga ef nauðsyn krefur.

22. gr.

Réttarstjórar.

Sveitarstjórnir skipa réttarstjóra. Þeir skulu sjá um að réttarstörf gangi sem greiðlegast og skulu réttarmenn hlíta fyrirmælum þeirra í hvívetna. Skylt er hverjum þeim sem á fjárvon í skilarétt að mæta þar á réttum tíma eða senda mann fyrir sig til sundurdráttar, eða gera ráðstafanir til að féð sé hirt.

23. gr.

Skyldur fjáreigenda.

Sveitarstjórn eða fjallskilanefnd getur sett um það ákvæði í leitarseðil, telji hún þess þörf, hversu marga menn hver fjáreigandi skal leggja til í réttina. Enginn sem skyldur er að sinna réttarstörfum má fara fyrr en sundurdrætti er lokið nema með leyfi réttarstjóra. Ef einhver fjáreigandi leggur svo illa til réttarstarfa að töf verði að, er réttarstjóra heimilt að ráða menn á hans kostnað til að draga fé hans.

24. gr.

Réttartollur.

Réttarbónda skal árlega gjalda réttartoll úr fjallskilasjóði eða sveitarsjóði þar sem enginn fjallskilasjóður er, geri hann kröfu til þess. Skal gjaldið fara eftir samkomulagi við sveitarstjórn eða mati dómkvaddra manna.

25. gr.

Ómerkingar.

Réttarstjóri skal sjá um að allir ómerkingar séu dregnir í sérstakan dilk og réttarmönnum síðan gefinn kostur á að láta mæður helga sér afkvæmi sín.

26. gr.

Óskilafé og línubrjótar.

Óskilafé er það fé sem finnst enginn eigandi að, ómerkingar þeir sem ær helga sér ekki, mýétið fé og annað fé með ólæsileg mörk. Réttarstjóri skal sjá um að óskilafé og línubrjótar sé dregið í sérstakan dilk og sjúkar kindur settar í einangrun. Óskilafé og línubrjótum skal komið í sláturhús svo fljótt sem verða má. Skal réttarstjóri sjá um að því sé framfylgt. Af sláturverði óskilafjár sem lógað er samkvæmt ákvæðum þessar greinar greiðist áfallinn kostnaður, en viðkomandi sveitarstjórn ákveður ráðstöfun eftirstöðva.

27. gr.

Meðferð búfjár.

Skylt er hverjum manni að greiða sem best fyrir fé annarra. Leitarstjórar og réttarstjórar skulu minna menn á að fara vel með sauðfé og hross í leitum og réttum. Finnist fé sem ekki verður komið lifandi til réttar, slasað eða sjúkt, skal leitarstjóri ákveða hverju sinni hvernig með skuli fara.

28. gr.

Fjallfé eftir haustleitir.

Fé sem finnst á fjalli eftir haustleitir, skal tilkynna réttum eiganda eða oddvita sem gerir þá ráðstafanir á tilskildum tíma, ella skal fénu slátrað. Kostnað sem af þessu leiðir greiðir réttur eigandi.

VI. KAFLI

Ákvæði um hross.

29. gr.

Merkingar hrossa.

Sérhver hrossaeigandi er skyldur til að hafa skýrt eyrnamark, frostmark eða örmerki á öllum hrossum, veturgömlum og eldri.

30. gr.

Hrossasmölun.

Öllum hrossum sem ekki eru í vörslu skal smala til réttar. Sveitarstjórn eða fjallskila­nefnd ákveður réttardag. Með óskilahross skal fara þannig, að þau skulu seld nauðungarsölu með þriggja vikna auglýsingarfresti. Innlausnarfrestur skal vera 12 vikur eftir söludag. Hross eru ekki í ábyrgð kaupanda fyrr en innlausnarfrestur er liðinn.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

31. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn samþykkt þessari varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum refsiheimildum. Renna sektir í fjallskilasjóð þeirrar deildar sem brotið er framið í. Mál sem rísa út af brotum á samþykkt þessari skal fara með að hætti laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

32. gr.

Gildistaka o.fl.

Samþykkt þessi sem héraðsnefnd Strandasýslu hefur samið og samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt heimildum í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi fjallskilasamþykkt fyrir Strandasýslu, nr. 485/1996.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 14. ágúst 2012.

F. h. r.

Óskar Páll Óskarsson.

Hrafn Hlynsson.

B deild - Útgáfud.: 23. ágúst 2012