Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1190/2011

Nr. 1190/2011 8. desember 2011
AUGLÝSING
um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja.

Í samræmi við 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, með síðari breytingum, og ákvæði Nice-samningsins frá 15. júní 1957 um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vörumerkja, með síðari breytingum, gildir eftirfarandi flokkaskrá fyrir vörur og þjónustu vegna skráningar vörumerkja. Flokkaskráin er birt sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.

Flokkaskráin er í samræmi við 10. útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar um flokkun vöru og þjónustu við skráningu vörumerkja samkvæmt Nice-samningnum en þessi útgáfa vöruskrárinnar öðlast gildi 1. janúar 2012. Breytingarnar eru aðallega þær að í flokki 5 koma tilgreiningarnar „sérfæði og næringarefni ætluð til lyflækninga eða dýralækninga“ og „fæðubótarefni fyrir menn og dýr“. Í flokki 9 er nú að finna tilgreiningarnar „geisla­diskar, stafrænir mynddiskar og annar stafrænn upptökubúnaður“ og „tölvuhugbúnaður“. Þá er tilgreiningin „sjálfsalar“ felld úr flokki 9 og verður nú tilgreind í flokki 7.

Auk framangreindra breytinga, sem helgast af breytingum samkvæmt 10. útgáfu alþjóð­legu vöruskrárinnar, þykir rétt að gera eftirfarandi leiðréttingar:

Flokkur 3. Tilgreiningin „dentifrices“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöru­skrárinnar hefur verið þýdd sem tannhirðivörur en réttara þykir að þýða hana sem tannhirðuvörur.

Flokkur 5. Tilgreiningin „pharmaceutical and veterinary preparations“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar hefur verið þýdd sem efnablöndur til lyfja- og dýralækninga en réttara þykir að þýða hana sem lyfjablöndur fyrir menn og blöndur til dýralækninga.

Flokkur 7. Tilgreiningin „motors and engines (except for land vehicles)“ sam­kvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar hefur verið þýdd sem hreyflar (þó ekki í ökutæki) en réttara þykir að þýða hana sem hreyflar og vélar (þó ekki í land­farartæki).

Flokkur 9. Tilgreiningin „apparatus for recording, transmission or reproduction of sound or images“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar hefur verið þýdd sem tæki sem notuð eru til að taka upp eða flytja hljóð eða mynd en réttara þykir að þýða hana sem tæki sem notuð eru til að taka upp, flytja eða fjölfalda hljóð eða mynd. Þá hefur tilgreiningin „recording discs“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar verið þýdd sem gagnadiskar en réttara þykir að þýða hana sem upptökudiskar.

Flokkur 12. Tilgreiningin „vehicles“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöru­skrárinnar hefur verið þýdd sem ökutæki en réttara þykir að þýða hana sem farar­tæki til flutninga á landi.

Flokkur 19. Tilgreiningin „non-metallic rigid pipes for building“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar hefur verið þýdd sem ósveigjanlegar pípur (ekki úr málmi) en réttara þykir að þýða hana sem ósveigjanlegar pípur í byggingar, ekki úr málmi. Þá hefur tilgreiningin „non-metallic transportable buildings“ sam­kvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar verið þýdd sem færanleg hús, ekki úr málmi en réttara þykir að þýða hana sem færanlegar byggingar, ekki úr málmi.

Flokkur 22. Tilgreiningin „padding and stuffing materials (except of rubber or plastics)“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar hefur verið þýdd sem bólstrunarefni (nema úr gúmmíi eða plasti) en réttara þykir að þýða hana sem bólstrunarefni og tróð (nema úr gúmmíi eða plasti).

Flokkur 29. Tilgreiningin „frosnir“ er tekin upp í samræmi við yfirskrift flokks 29 í ensku útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar.

Flokkur 30. Tilgreiningin „tapioca“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöru­skrárinnar hefur verið þýdd sem tapíóka en réttara þykir að þýða hana sem tapíóka­mjöl.

Flokkur 31. Tilgreiningin „grains and agricultural, horticultural and forestry products not included in other classes“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöru­skrárinnar hefur verið þýdd sem landbúnaðar-, garðræktar- og skóg­ræktar­afurðir, svo og korn sem ekki er talið í öðrum flokkum en réttara þykir að þýða hana sem korn og landbúnaðar-, garðræktar- og skógræktarafurðir sem ekki eru taldar í öðrum flokkum.

Flokkur 32. Tilgreiningin „fruit juices“ samkvæmt ensku útgáfu alþjóðlegu vöru­skrárinnar hefur verið þýdd sem ávaxtasafi en réttara þykir að þýða hana sem ávaxtasafar.

Í flokkaskránni er aðeins að finna meginefni hvers flokks. Styðjast verður við enska eða franska útgáfu alþjóðlegu vöruskrárinnar (10. útgáfu) þegar vafi leikur á um hvar flokka skuli tiltekna vöru eða þjónustu.

Auglýsing þessi öðlast gildi 1. janúar 2012. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja, nr. 100/2007.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 8. desember 2011.

Árni Páll Árnason.

Helga Jónsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 23. desember 2011