Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 704/2010

Nr. 704/2010 27. ágúst 2010
SAMÞYKKT
um hundahald í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Hundahald í sveitarfélögunum sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari.

2. gr.

Dýraeftirlitsmenn.

Sveitarstjórn annast framkvæmd samþykktar þessarar og getur ráðið sérstaka dýraeftirlitsmenn eða falið starfsmönnum sveitarfélagsins hlutverk dýraeftirlitsmanna. Dýraeftirlitsmenn starfa undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðisnefndar.

Dýraeftirlitsmenn geta leitað aðstoðar lögregluyfirvalda, ef og þegar þörf krefur, t.d. ef hundur er að mati eftirlitsmanns hættulegur umhverfi sínu og/eða vörsluaðili hundsins tálmar starfi eftirlitsmanns samkvæmt samþykkt þessari eða þegar nauðsynlegt er vegna almannahagsmuna og/eða heilbrigðissjónarmiða að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja hund.

3. gr.

Dýravernd og ræktun.

Samkvæmt lögum um dýravernd nr. 15/1994 fer Umhverfisstofnun með eftirlit með framkvæmd þeirra laga.

Um ræktun, verslun, geymslu og leigu hunda í atvinnuskyni gilda ákvæði reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni og þarf leyfi Umhverfisstofnunar fyrir slíkri starfsemi.

4. gr.

Skráningarskylda.

Allir hundar eru skráningarskyldir hjá sveitarstjórn. Skylt er að sækja um skráningu hunds til sveitarstjórnar innan tveggja vikna frá því að hundur er tekinn inn á heimili. Hvolpa skal skrá eigi síðar en þegar þeir ná þriggja mánaða aldri.

Dveljist hundur tímabundið á svæðinu í einhverju af sveitarfélögunum skal skrá hann til bráðabirgða, en slík skráning skal þó ekki gilda lengur en í þrjá mánuði. Skráning skal fara fram sem fyrst og ekki seinna en innan tveggja vikna frá því að hundur kom inn í viðkomandi sveitarfélag. Um hunda sem skráðir eru tímabundið gilda öll ákvæði þessarar samþykktar.

Hund skal skrá á nafn og heimili lögráða einstaklings sem hefur lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi og á það heimilisfang þar sem hundurinn er haldinn. Útgefið leyfi er óframseljanlegt. Ekki skal skrá fleiri en tvo hunda á sama heimili.

Við skráningu hunds getur sveitarfélagið leitað umsagnar lögreglu og annarra eftirlitssvæða telji það ástæðu til.

5. gr.

Gögn sem þarf að framvísa við skráningu.

Eftirfarandi gögn skal leggja fram við skráningu hunds:

  1. Undirritaða umsókn á umsóknareyðublöðum sem má nálgast á skrifstofu við­komandi sveitarfélags.
  2. Upplýsingar um heiti, fæðingardag, kyn, tegund og önnur einkenni hunds.
  3. Mynd af hundinum.
  4. Vottorð frá dýralækni um örmerkingu, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.
  5. Vottorð frá dýralækni um ormahreinsun hundsins, sbr. 57. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti.
  6. Staðfesting frá viðurkenndu tryggingafyrirtæki um að umsækjandi hafi gilda ábyrgðartryggingu sem nær til alls þess tjóns sem hundurinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri eða munum.
  7. Samþykki allra íbúðareigenda í fjöleignarhúsi, ef við á, samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. og ákvæði 6. gr. samþykktar þessarar.

Skilyrði fyrir útgáfu leyfisskírteinis er að gögn skv. 1. mgr. hafi verið lögð fram af hálfu umsækjanda og skráningargjald greitt.

Skráður eigandi hunds skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi skriflega innan mánaðar um aðsetursskipti eða fráfall hunds.

Heimilt er að afturkalla skráningu hunds ef vanhöld verða á ormahreinsun, tryggingum eða greiðslu skráningargjalda.

Sveitarstjórn er heimilt að hafna beiðni um skráningu hunds ef umsækjandi hefur áður og/eða ítrekað gerst brotlegur við samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu eða annars staðar.

Umsækjandi á rétt á skriflegum rökstuðningi ef beiðni um leyfi til hundahalds er hafnað. Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda um andmælarétt.

6. gr.

Frekari takmarkanir á hundahaldi.

Óheimilt er að halda hund í húsnæði þar sem enginn er búsettur.

Sveitarstjórn getur ákveðið að í húsnæði í eigu sveitarfélags sé ekki heimilt að halda hund.

Um hundahald í fjöleignarhúsum fer skv. 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ef sótt er um að halda hund í fjöleignarhúsi skal skriflegt samþykki allra umráðamanna íbúða í sama stigagangi fylgja umsókn, einnig eigenda viðkomandi húsnæðis sé um leiguhúsnæði að ræða. Sé um að ræða raðhús eða parhús skal samþykki aðliggjandi íbúða (íbúðar) fylgja umsókn. Í fjöleignarhúsi þar sem sér inngangur fylgir íbúð, þarf ekki samþykki allra íbúðareigenda heldur aðeins aðliggjandi íbúða jafnvel þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða sameiginlega lóð, enda er öll viðvera og/eða umferð hunds um slíkt rými stranglega bönnuð. Brot á því telst alvarlegt brot á samþykkt þessari og skilyrðum leyfisins og varðar sviptingu þess. Afla skal samþykkis nýrra íbúðareigenda í íbúðum þar sem hundur er fyrir. Íbúðareigendur geta skriflega afturkallað samþykki sitt. Við afturköllun samþykkis eða synjun nýrra íbúðareigenda skal hundeigandi fá hæfilegan frest til þess að finna hundinum annan samastað.

Óheimilt er að halda hunda í fjöleignarhúsum ef hundurinn sannanlega veldur eða viðheldur sjúkdómum hjá íbúum.

Bannað er að halda hunda af þeim tegundum sem óheimilt er að flytja til landsins skv. ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

7. gr.

Skyldur sveitarfélagsins.

Sveitarfélaginu ber að afhenda umsækjanda um leyfi til hundahalds leyfisskírteini sem staðfestingu á því að hundur hans hafi verið skráður til heimilis í viðkomandi sveitarfélagi.

Sveitarfélag skal tryggja að til staðar sé dýrageymsla sem hefur tilskilin leyfi samkvæmt reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og samkvæmt reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni, til vörslu hunda sem þarf að fanga vegna lausagöngu eða brota á samþykkt þessari.

Sveitarfélag skal afhenda dýraeftirlitsmönnum og heilbrigðiseftirliti lista yfir hunda sem eru á skrá í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn getur ákveðið að merkja ákveðin svæði þar sem ekki má vera með hunda, svo sem á fólkvöngum og útivistarsvæðum. Einnig getur sveitarstjórn ákveðið að láta afmarka ákveðin svæði þar sem sleppa má hundum lausum. Svæði þessi skulu auglýst og kynnt sérstaklega fyrir hundaeigendum.

8. gr.

Skyldur eftirlitsaðila.

Dýraeftirlitsmenn skulu halda og uppfæra skrá yfir hunda í viðkomandi sveitarfélagi. Í skránni skulu koma fram allar upplýsingar er varða skráða hunda og sem dýraeftirlits­maður telur skipta máli þ.m.t. hvenær hundarnir hafa verið ormahreinsaðir og öll afskipti sem eftirlitsaðilar hafa haft af hundum og eigendum þeirra.

Heilbrigðisnefnd, lögregla og eftir atvikum aðrir starfsmenn sveitarfélags skulu tilkynna dýraeftirlitsmanni um kvartanir og/eða afskipti þeirra af hundum í sveitarfélaginu.

Dýraeftirlitsmenn starfa á ábyrgð heilbrigðisnefndar og samkvæmt verklagsreglum sem nefndin samþykkir.

9. gr.

Skyldur eigenda og umráðamanna hunda.

Óheimilt er að hafa hund tjóðraðan án eftirlits ábyrgs aðila. Aðeins er heimilt að tjóðra hunda í undantekningartilvikum ef nauðsyn ber til og þá einungis í stuttan tíma í senn og ekki lengur en sex klukkustundir. Eiganda og umráðamanni hunds ber að sjá til þess að hundur hans sæti að öðru leyti ekki illri meðferð og skal umhirða hundsins vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni.

Hundaeigendur skulu færa hunda sína árlega til ormahreinsunar hjá dýralækni og afhenda sveitarfélaginu staðfestingu á að ormahreinsun hafi farið fram.

Hundaeigendum er skylt að ábyrgðartryggja sig gegn tjóni sem hundar þeirra kunna að valda mönnum dýrum, gróðri og munum og skulu árlega framvísa til sveitarfélags staðfestingu frá viðurkenndu tryggingafélagi þar um.

Hundaeigendur skulu árlega greiða skráningargjald fyrir hund þeirra samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið setur að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Þegar hundur er í festi á lóð skal lengd festarinnar við það miðuð að þeir sem réttmætt erindi eiga inn á lóðina geti óhindrað farið um lóðina.

Hundur skal hafa ól um hálsinn og á ólinni skal vera merkiplata með nafni hunds, símanúmeri og heimili eiganda.

Hundur skal aldrei ganga laus heldur vera í taumi í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum eða vera í tryggu gerði innan lóðar.

Utan þéttbýlismarka er heimilt að sleppa hundi lausum undir eftirliti umsjónarmanns, án þess þó að gengið sé á rétt viðkomandi landeiganda. Lausir hundar mega þó ekki vera á skíðasvæðum þegar þau eru notuð sem slík.

Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign eigenda sinna. Að öðru leyti skulu slíkir hundar háðir ákvæðum samþykktar þessarar.

Eiganda eða umráðamanni hunds er alltaf skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.

Eiganda eða umráðamanni hunds er skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða verði mönnum til óþæginda á annan hátt, t.d. með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri.

Ef hundur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða umráðamanni hundsins að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

Hafi eigandi eða umráðamaður hunds ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns.

Eigi er leyfilegt að hafa með sér hunda þó í taumi séu inn í opinberar stofnanir, skólahús, matvöruverslanir eða aðra þá staði sem um ræðir í fylgiskjali 3 í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, matvælafyrirtæki, samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.

Framangreindir staðir eru m.a. eftirfarandi:

  1. Vatnsveitur, vatnsból og verndarsvæði þeirra, brunnar og sjóveitur.
  2. Almennings- og útisalerni.
  3. Hvers konar sorpgeymslur og sorpförgunarstaðir.
  4. Gististaðir, veitingastaðir og matsölustaðir.
  5. Tjald- og hjólhýsasvæði, nema skv. ákvörðun umsjónaraðila.
  6. Húsakynni þar sem geymd eru, framleidd eða seld matvæli.
  7. Skólar, kennslustaðir, barnaheimili og gæsluvellir.
  8. Rakarastofur, hárgreiðslustofur, hvers konar snyrti- og sólbaðsstofur.
  9. Heilbrigðisstofnanir, hæli, heilsuræktar- og íþróttastöðvar og baðstaðir.
  10. Fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna.
  11. Samkomuhús hvers konar og almennar skrifstofur.
  12. Kirkjugarðar, bálstofur, líkhús og líkgeymslur.
  13. Almenn samgöngutæki.

Bannað er að fara með hunda á almennar útisamkomur, brennur og/eða flugelda­sýningar.

Hundaeiganda ber að hlíta lögum og reglum er hundahald varðar svo og fyrirmælum sem heilbrigðisnefnd setur.

10. gr.

Lausagönguhundar.

Hunda sem ganga lausir á almannafæri er heimilt að handsama og færa í sérstaka dýrageymslu.

Handsömun á ómerktum hundi skal auglýsa tryggilega, t.d. í staðarblaði eða á heimasíðu sveitarfélags.

Óheimilt að afhenda hundinn fyrr en búið er að skrá hann í samræmi við 4. gr.

Eigandi hundsins getur fengið hann afhentan að aflokinni skráningu og gegn framvísun á staðfestingu fyrir greiðslu skráningargjalds og handsömunargjalds auk annars áfallins kostnaðar vegna brotsins, sbr. gjaldskrá sveitarfélags.

Gefi eigandi óskráðs hunds sig ekki fram innan sjö sólarhringa getur dýraeftirlitsmaður tekið ákvörðun um að hundur verði aflífaður, ráðstafað honum til nýs ábyrgs eiganda eða selt hann fyrir áföllnum kostnaði.

Sé skráður hundur handsamaður skal tilkynna eiganda strax um handsömun hans og hvað vanræksla á að vitja hundsins getur haft í för með sér. Ef eigandi vitjar hunds eigi innan sjö sólarhringa getur dýraeftirlitsmaður tekið ákvörðun um að hundur verði aflífaður án frekari fyrirvara eða ráðstafað honum til nýs ábyrgs eiganda. Áfallinn kostnaður greiðist af eiganda.

11. gr.

Bit og hætta.

Hafi hundur bitið mann, skepnu, gæludýr og/eða er hættulegur getur dýraeftirlitsmaður, í samráði við heilbrigðiseftirlit, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður þegar í stað.

Óski hundaeigandi þess skal leita álits sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem heilbrigðiseftirlit viðurkennir áður en ákvörðun um aflífun er tekin.

Meðan mál hunds er í skoðun er eiganda skylt að hafa hundinn í samþykktri dýrageymslu eða mýla hundinn þegar hann er utandyra.

12. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarstjórn er heimilt að innheimta skráningar- og eftirlitsgjöld í samræmi við gjaldskrá sem viðkomandi sveitarfélag setur samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

Í gjaldskránni skal koma fram hvað er innifalið í skráningargjaldi.

Skráningargjald skal í fyrsta sinn greitt við skráningu hunds og síðan árlega fyrirfram. Í gjaldskránni skal ákveðið handsömunar- og vörslugjald vegna handsömunar lausagönguhunda eða hunda sem teknir eru í vörslu á vegum sveitarfélagsins vegna brota á samþykkt þessari.

Við ákvörðun gjalda skal tekið mið af þeim kostnaði, sem leiðir af framkvæmd þessarar samþykktar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Hundar sem notaðir eru við búrekstur á lögbýlum eru undanþegnir skráningargjaldi, en skylt er að framvísa til sveitarfélags eða dýragæslumanns árlegu vottorði um ormahreinsun og merkingu.

Sveitarstjórn getur fellt niður eða ákveðið lægra gjald fyrir hunda sem notaðir eru til löggæslu- eða björgunarstarfa og minkahunda svo og fyrir hunda sem að læknisráði eru notaðir til aðstoðar blindu fólki og fötluðu.

13. gr.

Þvingunarúrræði og afturköllun leyfa.

Um valdsvið og þvingunarúrræði vísast til VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Eigendur eða umráðamenn hunda sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessar skulu sæta skriflegri áminningu af hálfu heilbrigðisnefndar og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Ef eigandi eða umráðamaður hunds vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um hundahald getur sveitarstjórn bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn.

Sveitarstjórn er heimilt hvenær sem er að afturkalla skráningu/leyfi fyrir einstökum hundum eða öll veitt leyfi telji hún það nauðsynlegt í þágu hollustuhátta og öryggisþátta því tengdu.

Sé um að ræða alvarlegt brot eða ítrekað vegna sama hunds eða sama hundaeiganda skal afturkalla viðkomandi skráningu/leyfi vegna hundahalds.

Sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykkt þessari að ræða eða sinni eigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds getur sveitarstjórn með fulltingi heilbrigðiseftirlits afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert eiganda hunds að mýla hundinn eða að koma hundinum fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila, eða látið fjarlægja hundinn.

Leyfishafa er skylt að greiða kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.

14. gr.

Viðurlög.

Um viðurlög vegna brota á samþykkt þessari vísast til VIII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um kærumeðferð fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að öðlast gildi þegar við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi samþykkt nr. 272/1998 um hunda- og kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað, samþykkt nr. 252/2000 um hundahald í Fjarðabyggð og samþykkt nr. 793/2005 um hundahald á Fljótsdalshéraði.

Ákvæði til bráðabirgða.

Leyfi til hundahalds sem veitt hafa verið fyrir gildistöku samþykktar þessarar skal breytt í skráningu í samræmi við samþykkt þessa eigi síðar en 31. desember 2010. Að öðru leyti gildir samþykktin að fullu um þau leyfi.

Hundar sem ekki eru á skrá í sveitarfélaginu skulu færðir til skráningar fyrir 1. október 2010.

Umhverfisráðuneytinu, 27. ágúst 2010.

F. h. r.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 15. september 2010