Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 510/2007

Nr. 510/2007 10. maí 2007
AUGLÝSING
um friðlýsingu hverastrýta á botni Eyjafjarðar, norður af Arnarnesnöfum.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur, að tillögu Umhverfisstofnunar, að fengnu samþykki sjávar­útvegsráðherra og með samþykki sveitarfélagsins Arnarneshrepps ákveðið að friðlýsa hverastrýtur á botni Eyjafjarðar norður af Arnarnesnöfum sem náttúruvætti í samræmi við 2. tölulið 53. gr. og 54. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Við ákvörðun um frið­lýsingu þessa er meðal annars höfð hliðsjón af samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeiró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstæðar jarðmyndanir og lífríki, líffræðilega fjölbreytni og einstök náttúrufyrirbrigði sem felst í myndun hverastrýtnanna, efna­samsetningu, útliti og lögun, þ.m.t. örveruvistkerfi sem þar þrífst við óvenjulegar aðstæður. Hverastrýturnar eru allt að 10 metra háar og standa á 25 - 45 metra dýpi. Verndargildi strýtanna felst einnig í fjölbreytileika þeirra og sérlega miklu lífríki sem hefur hátt vísinda-, fræðslu- og verndargildi.

3. gr.

Mörk náttúruvættisins.

Mörk náttúruvættisins eru sýnd á meðfylgjandi töflu og hnitsettum uppdrætti, en þar sem mörkin liggja næst landi er miðað við netlög, þ.e. 115 m frá stórstraumsfjöruborði. Stærð náttúruvættisins er 101 ha.

 

Gráður

ISN93

 

N-læg breidd

V-læg lengd

y-hnit

x-hnit

Nv

65°52´50˝

18°14´00˝

598389

534971

Na

65°52´50˝

18°13´00˝

598398

535734

Sa

65°51´55˝

18°13´00˝

596693

535755

Sv

65°52´03˝

18°14´00˝

596933

534991

4. gr.

Verndun jarðmyndana, gróðurs, dýralífs o.fl.

Óheimilt er að hrófla við jarðmyndunum eða öðrum náttúruminjum á og við strýturnar og innan náttúruvættisins.

5. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á svæðinu eru óheimilar nema til komi leyfi Umhverfisstofnunar og sveitarstjórnar Arnarneshrepps.

Öll efnistaka í nágrenni við strýturnar og innan marka náttúruvættisins er óheimil.

Hvers konar eldi sjávarfangs er óheimil innan marka verndarsvæðisins.

6. gr.

Veiðar.

Allar veiðar eru bannaðar innan marka náttúruvættisins.

7. gr.

Umferð.

Heimilt er að kafa við bauju/merktan köfunarstað við hverastrýtu á stað 65°52´15 60˝N - 18°13´13 02˝V, (ISN93 535582 597331).

Óheimilt er að kasta akkeri innan marka náttúruvættisins og einnig er óheimilt að setja hvers konar festingar eða merki við eða á hverastrýturnar.

8. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til rannsókna, vöktunar og sýnatöku í tengslum við rannsóknir að fenginni umsögn samráðsnefndar.

9. gr.

Umsjón náttúruvættisins o.fl.

Til ráðuneytis um verndun og umsjón náttúruvættisins skal skipuð samráðsnefnd og tilnefna sveitarstjórn Arnarneshrepps, Hafrannsóknastofnun, Siglingastofnun, Hafnar­samlag Norðurlands, fulltrúi áhugakafara á Norðurlandi og Umhverfisstofnun einn fulltrúa hver.

10. gr.

Undanþágur.

Umhverfisráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Arnarneshrepps, veitt heimild til þess að vikið verði frá reglum þessum í einstökum tilfellum.

11. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn reglum 4.-8. gr. friðlýsingar þessarar varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

12. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 10. maí 2007.

Jónína Bjartmarz.

Magnús Jóhannesson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 11. júní 2007