Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1148/2008

Nr. 1148/2008 5. desember 2008
REGLUGERÐ
um gerð gæðavísa sem notaðir eru til að meta gæði og árangur innan heilbrigðisþjónustunnar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um gerð gæðavísa sem notaðir eru til að meta gæði og árangur í heilbrigðisþjónustu.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um val, notkun og birtingu gæðavísa í þeim tilgangi að stuðla að umbótum innan heilbrigðisþjónustunnar og efla gæði og öryggi.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Gæði í heilbrigðisþjónustu: Að hve miklu leyti heilbrigðisþjónusta eykur líkur á bættri heilsu og auknum lífsgæðum fyrir einstaklinga og samfélag og að hve miklu leyti þjónustan er veitt í samræmi við bestu þekkingu sem völ er á.
  2. Gæðavísir: Mælikvarði sem gefur vísbendingu um gæði þeirrar þjónustu sem veitt er til að meta hvort gæði meðferðar og umönnunar séu í samræmi við viðurkennd viðmið.
  3. Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sér­hæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðis­starfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina og meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga.
  4. Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hlotið hefur leyfi heilbrigðisráðherra til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
  5. Notandi heilbrigðisþjónustu: Sjúklingur.
  6. Meginþættir gæða í heilbrigðisþjónustu: Öryggi, rétt tímasetning, skilvirk þjónusta, jafnræði, notendamiðuð þjónusta og árangursrík þjónusta.

4. gr.

Markmið með notkun gæðavísa.

Markmið með notkun gæðavísa er að fylgjast með gæðum og öryggi heilbrigðis­þjónustunnar og stuðla að því að þessir þættir séu sýnilegir þannig að notendur heilbrigðis­þjónustu, stjórnvöld, stjórnendur heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmenn geti metið gæði þjónustunnar og tekið ákvarðanir á faglegum og upplýstum grundvelli.

Markmið með notkun gæðavísa er ennfremur að veita heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðis­stofnunum aðhald við veitingu heilbrigðisþjónustu, auka gæðavitund þeirra, skapa samkeppni á milli þeirra um árangur og gæði og stuðla þannig að umbótum innan heilbrigðisþjónustunnar.

5. gr.

Meginþættir gæða í heilbrigðisþjónustu.

Gæðavísar sem valdir eru til að mæla gæði og árangur innan heilbrigðisþjónustunnar skulu falla undir einhvern af eftirfarandi meginþáttum gæða í heilbrigðisþjónustu:

  1. Öryggi: Að sjúklingar hljóti ekki skaða af þeirri þjónustu sem ætluð er til að bæta heilsu þeirra og lífsgæði.
  2. Rétt tímasetning: Að biðtími sé styttur og dregið úr seinkunum sem geta verið skaðlegar fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar og að aðgengi að þjónustunni sé gott.
  3. Skilvirk þjónusta: Að aðföng (fjármagn, tækjabúnaður, mannauður) séu nýtt á hagkvæman hátt með það fyrir augum að ná settum markmiðum.
  4. Jafnræði: Réttur sjúklings til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita óháð kynferði, trú, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litar­hætti, efnahag, ætterni og stöðu að öðru leyti.
  5. Notendamiðuð þjónusta: Að heilbrigðisþjónusta sé veitt með virðingu fyrir þörfum og væntingum notenda heilbrigðisþjónustu og að brugðist sé við þeim.
  6. Árangursrík þjónusta: Að heilbrigðisþjónusta byggð á bestu þekkingu sem völ er á sé veitt öllum þeim sem gætu notið góðs af henni en ekki þeim sem líklegt er að þjónustan komi ekki að gagni.

6. gr.

Val á gæðavísum.

Landlæknir skal velja gæðavísa sem lýsa gæðum út frá sjónarhóli notenda, heilbrigðis­starfsmanna, stjórnenda og stjórnvalda.

Eftirtalin viðmið skulu lögð til grundvallar við val á gæðavísum:

  1. Mikilvægi; gæðavísir skal gefa upplýsingar um heilbrigðisþjónustu, sjúkdóma eða líðan sem eru mikilvægar fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og/eða endurspegla mikilvæg heilsufarsvandamál.
  2. Gildi; gæðavísir skal vera þannig að sýnt hafi verið fram á með rannsóknum að hann hafi til að bera áreiðanleika og réttmæti.
  3. Mælanleiki; gæðavísir skal vera mælanlegur.
  4. Möguleikar til að hafa áhrif; gæðavísir skal vera þannig að notkun hans geti leitt til umbóta.
  5. Einsleitni hvað túlkun áhrærir; gæðavísir skal vera samanburðarhæfur.

7. gr.

Birting gæðavísa.

Landlæknir skal gefa heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum fyrirmæli um að nota gæðavísa skv. reglugerð þessari. Fyrirmælin skulu lögð fyrir ráðherra til stað­festingar og birtingar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um landlækni.

Landlæknir skal birta upplýsingar um niðurstöður gæðavísa þannig að þær séu aðgengi­legar fyrir notendur, heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstarfsmenn, stjórnendur og stjórnvöld

8. gr.

Gildistaka

Reglugerð þessi er sett með stoð í 3. mgr. 11. gr. laga um landlækni og öðlast þegar gildi.

Heilbrigðisráðuneytinu, 5. desember 2008.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Vilborg Þ. Hauksdóttir.

B deild - Útgáfud.: 19. desember 2008