Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 500/2011

Nr. 500/2011 3. maí 2011
REGLUR
um doktorsnám við félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

I. KAFLI

Almennar reglur félagsvísindasviðs.

1. gr.

Doktorsnám á félagsvísindasviði.

Á félagsvísindasviði er unnt að stunda nám til doktorsprófs á fræðasviðum þar sem deildir meta að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi, enda sé viðkomandi deild heimilt að bjóða upp á slíkt nám samkvæmt ákvæðum X. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Markmið námsins er að veita doktorsnemum vísindalega þjálfun og búa þá undir vísindastörf, meðal annars háskólakennslu eða sérfræðingsstörf við rannsóknastofnanir, og önnur ábyrgðarmikil störf í samfélaginu.

Reglur um doktorsnám á félagsvísindasviði eru settar í samræmi við 47., 68. og 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands kallar eftir.

2. gr.

Vísindanefnd félagsvísindasviðs og fastanefndir deilda.

Vísindanefnd félagsvísindasviðs fer með málefni doktorsnáms á fræðasviðinu. Hlutverk nefndarinnar er fyrst og fremst almenn stefnumótun í málefnum rannsóknarnáms á félagsvísindasviði og samstarf, upplýsingamiðlun og samræming reglna og önnur málefni sem deildir kunna að fela nefndinni. Formaður vísindanefndar er tengiliður fræðasviðsins við Miðstöð framhaldsnáms.

Forseti félagsvísindasviðs skipar vísindanefnd og ákveður hver gegnir formannsstörfum. Í vísindanefnd eiga sæti fulltrúar allra deilda á félagsvísindasviði og fulltrúi frá hagsmunasamtökum doktorsnema við Háskóla Íslands. Umboð nefndarinnar er til þriggja ára í senn. Áður en umboð nefndarinnar rennur út skal sitjandi nefnd gera deildum viðvart í tíma og óska eftir tilnefningu nýrra fulltrúa.

Deildir skulu kjósa sérstaka fastanefnd (doktorsnámsnefnd, rannsóknanámsnefnd, vísindanefnd) sem fer með málefni doktorsnáms og hefur umsjón með því, þ.m.t. mat á umsóknum, eftirlit og umfjöllun um ágreiningsmál vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli 10. gr. Deildir geta sett nánari reglur um starfsemi fastanefndar.

3. gr.

Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um doktorsnám er tvisvar á ári, að jafnaði 15. apríl og 15. október en 1. febrúar og 1. september fyrir erlenda umsækjendur utan EES-svæðisins. Heimilt er að taka við umsókn um doktorsnám endranær ef sérstaklega stendur á.

4. gr.

Meðferð umsókna.

Umsókn skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans. Eftir skráningu gagna sendir nemendaskrá umsókn ásamt fylgiskjölum til hlutaðeigandi deildar.

Ferli umsókna er að öðru leyti sem hér segir:

a)

Nemendaskrá sendir umsókn ásamt fylgiskjölum til viðkomandi deildar. Með henni skal fylgja staðfest afrit af prófskírteinum, náms- og starfsferilskrá, tvenn meðmæli, frumdrög að rannsóknaráætlun, greinargerð um faglegar forsendur umsækjanda til þess að leggja stund á námið, verkáætlun ásamt greinargerð um aðstæður umsækjanda til þess að sinna náminu, ósk um tiltekinn leiðbeinanda ef við á og önnur fylgiskjöl í samræmi við leiðbeiningar viðkomandi deildar.

b)

Skrifstofa deildar fer yfir og skráir umsóknir og athugar hvort tilskilin gögn fylgi. Umsókn er að því loknu lögð fyrir fastanefnd viðkomandi deildar sem gefur skriflega umsögn um hana. Nefndinni ber að staðfesta að formleg skilyrði séu uppfyllt. Hún leggur einnig mat á frumdrög að rannsóknaráætlun og forsendur umsækjanda til þess að leggja stund á námið. Ef við á sendir fastanefnd umsókn til umsagnar námsbrautar. Þegar við á er fastanefnd heimilt að taka tillit til ákvörðunar eða reglna deildar um hámarksfjölda doktorsnemenda á leiðbeinanda. Ef umsókn um doktorsnám er hafnað af deild skal fylgja ákvörðuninni rökstuðningur. Deildarskrifstofa svarar umsækjanda skriflega og tilkynnir nemendaskrá um niðurstöðu deildar. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests, eða frá móttöku ef samþykkt er að taka við umsókn á öðrum tíma.

c)

Umsækjandi skal ganga frá innritun og skráningu hjá nemendaskrá. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds vegna náms sem hefst á haustmisseri skal fara fram í síðasta lagi 5. júní, en 30. nóvember fyrir nám á vormisseri, ef við á.

d)

Deildarskrifstofa varðveitir umsóknargögn og námsferilsgögn doktorsnemanda. Um meðferð skjala fer samkvæmt leiðbeiningum Háskóla Íslands um vörslu skjala.

5. gr.

Almenn inntökuskilyrði.

Sá sem hefur lokið meistaraprófi (kandídatsprófi) eða sambærilegu prófi frá Háskóla Íslands eða öðrum háskóla getur sótt um að hefja doktorsnám við deild á félagsvísindasviði. Einnig getur sá sem hefur stundað doktorsnám við annan háskóla sótt um að hefja doktorsnám við félagsvísindasvið. Deildir setja reglur um mat á fyrra námi.

Að jafnaði skal umsækjandi hafa lokið meistaraprófi (kandídatsprófi) eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn.

Sá sem hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur sótt um áður en hann lýkur prófi enda liggi fyrir staðfesting um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri áður en doktorsnám hefst. Doktorsnám getur þó enginn hafið fyrr en meistaranámi er lokið.

Einstökum deildum félagsvísindasviðs er heimilt að setja skilyrði til viðbótar inntöku­skilyrðum 1. og 2. mgr. sbr. ákvæði 2. - 7. kafla reglna þessara.

Óheimilt er að samþykkja akademískan starfsmann deildar í doktorsnám við viðkomandi deild.

6. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám á félagsvísindasviði er að lágmarki 180 einingar (ECTS), doktorsritgerð og eftir atvikum doktorsnámskeið. Deild ákveður hvort ákveðin námskeið séu hluti námsins, sbr. 2. - 7. kafla reglna þessara. Námskeiðunum skal almennt lokið á fyrstu tveimur árum doktorsnámsins, eða áður en 2/3 hlutum doktorsritgerðar er lokið.

Doktorsnám við félagsvísindasvið er a.m.k. þriggja ára fullt nám. Stundi doktorsnemi námið að hluta getur námið tekið allt að fimm árum. Beiðni um undanþágu frá tímamörkum náms skal lögð fyrir fastanefnd deildar, auk námsbrautar þegar við á. Setja má það skilyrði að nemandi uppfylli þær kröfur sem þá eru í gildi um doktorsnám þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu.

7. gr.

Tengsl meistara- og doktorsnáms.

Óheimilt er að nota meistararitgerð sem uppistöðu í doktorsritgerð. Þó er heimilt að halda áfram rannsóknum sem eru á sama eða skyldu rannsóknarsviði. Námskeið í grunnnámi (BA-námi eða samsvarandi námi) geta aldrei verið hluti af bóknámi doktorsnema.

8. gr.

Leiðbeinandi.

Doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa leiðbeinanda. Leiðbeinandi gegnir hlutverki og skyldum umsjónarkennara samkvæmt reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Leiðbeinandi doktorsnema skal vera fastráðinn kennari (prófessor, dósent eða lektor) við Háskóla Íslands. Leiðsögn með doktorsnemum eiga þeir einir að hafa sem lokið hafa doktorsprófi eða jafngildi þess. Leiðbeinendur skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Miðstöð framhaldsnáms sannreynir hvort leiðbeinendur uppfylla sett viðmið og kröfur, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Verkefni doktorsnema skal vera á sérsviði leiðbeinanda.

Þegar við á getur doktorsnemi haft tvo leiðbeinendur, aðalleiðbeinanda og með­leiðbeinanda. Aðalleiðbeinandi skal ávallt vera fastráðinn kennari við Háskóla Íslands en heimilt er að meðleiðbeinandi starfi utan háskólans.

Hlutverk leiðbeinanda er að veita doktorsnema leiðsögn við vinnslu doktorsverkefnis og fylgjast með vinnu hans. Doktorsnemi ráðfærir sig við leiðbeinanda um gerð rannsóknar­áætlunar, skipulag námsins, val námskeiða, ef við á, og annað sem tengist náminu.

Hætti leiðbeinandi (eftir atvikum meðleiðbeinandi) störfum mun deild leitast við að útvega nýjan leiðbeinanda eftir því sem kostur er. Deildir eru þó ekki skuldbundnar til að útvega nýjan leiðbeinanda.

Deildir setja nánari reglur um samstarf og hlutverk leiðbeinanda, doktorsnema og doktors­nefndar.

9. gr.

Doktorsnefnd: skipan og hlutverk.

Þegar doktorsnemi hefur lagt fram rannsóknaráætlun í samræmi við 10. gr. er skipuð doktorsnefnd samkvæmt reglum deildar, sbr. 2. - 7. kafla reglna þessara.

Doktorsnefnd skal skipuð leiðbeinanda og tveimur til fjórum sérfræðingum á fræðasviði ritgerðar. Leiðbeinandi er formaður doktorsnefndar. A.m.k. einn hinna nefndarmanna skal vera utan deildar (helst frá öðrum viðurkenndum háskóla). Nefndarmenn skulu búa yfir sérfræðiþekkingu á sviði doktorsefnis og hafa doktorspróf eða jafngildi þess. Þegar doktorsnefnd hefur verið skipuð sendir deildarforseti hverjum nefndarmanni skipunarbréf ásamt upplýsingum um hlutverk nefndarinnar ásamt viðeigandi reglum.

Hlutverk doktorsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við rannsóknar- og námsáætlun og tryggja fagleg gæði. Doktorsnefnd kveður doktorsefni á sinn fund eftir því sem þurfa þykir á meðan á náminu stendur og prófar doktorsnemann í almennri fræðilegri þekkingu og rannsóknaraðferðum eða metur nám hans.

Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefnd rökstuddu áliti til deildar um hvort veita skuli doktorsnema heimild til þess að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar. Deild ákveður hvort ritgerð er tæk til varnar.

10. gr.

Tilhögun náms og námsframvinda.

Doktorsnemi gerir, í samráði við leiðbeinanda, nákvæma rannsóknaráætlun, áætlun um námshraða og dvöl erlendis, ef við á. Áætlanir skulu lagðar fyrir hlutaðeigandi doktorsnefnd til samþykktar. Náminu verður því aðeins fram haldið að nefndin samþykki áætlunina.

Doktorsnemi skal virða samþykkta rannsóknaráætlun og tímamörk í námi. Fyrir 15. júní ár hvert skal doktorsnemi skila skýrslu um námsframvindu á sérstöku eyðublaði. Þar skal gera grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið á háskólaárinu og stöðu doktorsverkefnis. Verði einhverjar breytingar á námshraða eða áætlun doktorsnema skal gera grein fyrir þeim í þessari skýrslu. Leiðbeinandi vottar nám doktorsnema eftir hvert misseri á þar til gert eyðublað. Öll eyðublöð og samþykktir varðandi doktorsnema skulu varðveittar á deildarskrifstofu sem hluti af námsferlisskrá nemandans.

Samþykkt rannsóknaráætlun skal send viðkomandi deild með yfirlýsingu doktorsnefndar um samþykki þar sem hún verður hluti af námsferilsskrá doktorsnemans. Skipti doktorsnemi um rannsóknarefni skal ný áætlun lögð fyrir fastanefnd deildar. Breytingar á rannsóknaráætlun eru háðar samþykki doktorsnefndar og staðfestingu Miðstöðvar framhaldsnáms.

Ef rannsóknaráætlun doktorsnema þykir óviðunandi að mati doktorsnefndar getur nefndin gefið honum frest, að hámarki sex mánuði, til að gera úrbætur. Athugasemdir doktorsnefndar skulu vera skriflegar og þeim skulu fylgja leiðbeiningar um það sem betur má fara. Ef doktorsnemi verður ekki við athugasemdum nefndarinnar innan frests er litið svo á að forsendur áframhaldandi náms séu brostnar og námi hafi verið hætt. Ef doktorsnemi telur að athugasemdir doktorsnefndar eigi ekki við rök að styðjast getur hann óskað eftir því að fastanefnd deildar fjalli um málið og gefi umsögn áður en deild tekur ákvörðun um framvindu námsins. Fastanefnd kveður til sérfræðing ef þurfa þykir. Deild skal leita álits doktorsnema áður en hún tekur ákvörðun.

Ef námsframvinda er ófullnægjandi eða að upp kemur ágreiningur eða vafamál í doktorsnefnd eða milli nefndar og doktorsnema skal vísa málinu til fastanefndar deildar til umsagnar. Deild skal leita álits hlutaðeigandi áður en hún tekur ákvörðun. Að öðru leyti gilda ákvæði 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

11. gr.

Mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi doktorsnema.

Deildir geta sett sér viðmið við mat á námskeiðum í doktorsnámi.

12. gr.

Kröfur til doktorsritgerða.

Doktorsnemi lýkur rannsókn með ritgerð. Hún skal uppfylla kröfur um vísindaleg vinnu­brögð og vera sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu. Meginreglan er sú að doktorsritgerð sé eitt heildstætt verk.

Doktorsritgerð skal að öðru jöfnu ekki vera lengri en 100 þúsund orð. Doktorsritgerð skal að jafnaði vera á íslensku eða ensku, sbr. nánar 14. gr.

Heimilt er að leggja fram doktorsritgerð sem byggist á vísindagreinum sem mynda samstæða heild. Sé sú leið valin, skal semja sérstaka yfirlitsgrein þar sem dregið er saman efni hinna einstöku greina, settar fram heildarályktanir og efni þeirra tengt fræðilega. Deildir setja sérstakar reglur um fjölda greina, kröfur um birtingar og hve margar skulu vera ritrýndar, sbr. 2. - 7. kafla reglna þessara.

13. gr.

Andmælendur.

Andmælendur við doktorsvörn skulu vera tveir óháðir aðilar, sem ekki eiga sæti í doktorsnefnd. Þeir skulu valdir af deild að fengnum tillögum fastanefndar deildar og að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms. Einungis þeir sem hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess geta verið andmælendur við doktorsvörn á félagsvísindasviði. Að jafnaði skulu báðir andmælendur vera utan deildar og er æskilegt að þeir komi frá öðrum háskóla eða vísindastofnun.

14. gr.

Skil og frágangur doktorsritgerða.

Þegar doktorsnemi hefur lokið ritgerð sinni skal doktorsnefnd senda deild bréf þess efnis að ritgerð sé tilbúin til varnar.

Telji deild ritgerð tæka til varnar sendir hún andmælendum ritgerðina í vel frágengnu lokahandriti a.m.k. þrem mánuðum áður en fyrirhuguð vörn fer fram. Innan sex vikna skulu þeir hafa sent deildarforseta rökstudda umsögn um hvort ritgerðin sé tæk til varnar og ef við á ábendingar um það sem betur má fara og hvort nauðsynlegt er að gera tilteknar breytingar áður en vörn getur farið fram.

Forsendur þess að doktorsvörn fari fram er að doktorsefnið hafi gert nauðsynlegar lagfæringar og breytingar að dómi andmælenda og leiðbeinanda áður en vörn fer fram. Uni doktorsefni ekki niðurstöðu andmælenda og leiðbeinanda getur hann skotið máli sínu til deildar, sbr. nánar 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Við skil og frágang á doktorsritgerð skal fylgt verklagsreglum félagsvísindasviðs þar að lútandi. Í ritgerðinni skal koma skýrt fram að ritgerðin var unnin við Háskóla Íslands ásamt nafni deildar og fræðasviðs. Geta skal þeirra sjóða Háskólans og annarra aðila sem hafa styrkt verkefnið. Hverri doktorsritgerð skal fylgja útdráttur á íslensku og ensku. Doktorsefni ber ábyrgð á prentun og útgáfu ritgerðar og skal hún liggja fyrir 3 vikum fyrir vörn. Doktorsefni skal skila a.m.k. 15 eintökum til deildar.

15. gr.

Námsferilsyfirlit.

Þegar doktorsritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram námsferilsyfirlit doktors­nema sem deild og nemendaskrá ganga frá og staðfesta.

16. gr.

Skyldur nemanda.

Um réttindi og skyldur nemenda gilda ákvæði reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og siðareglna Háskóla Íslands.

17. gr.

Doktorsvörn.

Doktorsefni skal verja ritgerð sína í heyranda hljóði á þeim degi sem viðkomandi deild ákveður. Ritgerð skal dæmd og varin samkvæmt reglum Háskóla Íslands um doktorspróf. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf, sbr. ákvæði 61. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Félagsvísindasvið setur nánari reglur um framkvæmd doktorsvarna.

18. gr.

Lærdómstitill.

Doktorspróf við félagsvísindasvið, að undangengnu doktorsnámi samkvæmt reglum þessum, veitir lærdómstitilinn Philosophiae Doctor (Ph.D.).

19. gr.

Sameiginlegar doktorsgráður.

Deildum er heimilt að gera samning við aðra háskóla um sameiginlegar doktorsgráður, sbr. 62. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Við upphaf samstarfs skal gerður formlegur samningur um tilhögun náms viðkomandi nemanda. Ákvæði þessara reglna skulu gilda eins og við getur átt.

II. KAFLI

Félags- og mannvísindadeild.

20. gr.

Vísindanefnd.

Vísindanefnd félags- og mannvísindadeildar gegnir hlutverki fastanefndar sbr. 2. gr. Í vísindanefnd eiga sæti einn fulltrúi frá hverri námsbraut deildar og skal formaður hennar vera fulltrúi deildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs. Nefndin er kosin á deildarfundi. Doktorsnemendur við deildina skulu eiga einn fulltrúa í nefndinni. Skipað skal í nefndina til tveggja ára.

21. gr.

Viðbótarinntökuskilyrði.

Til viðbótar inntökuskilyrðum skv. 5. gr. getur námsbraut gert kröfu um að doktorsnemandi taki allt að 60 ECTS í námskeiðum í samráði við leiðbeinanda sé talin þörf á að bæta við undirstöðuþekkingu hans í aðferðafræði rannsókna eða á fræðasviði doktorsnámsins. Þessum einingum skal lokið áður en rannsóknaráætlun fæst samþykkt.

22. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við félags- og mannvísindadeild er 180 ECTS doktorsritgerð og 30 ECTS í námskeiðum á fræðasviði doktorsverkefnis. Doktorsnemendur skulu taka þátt í málstofum doktorsnámsins í samráði við leiðbeinanda.

Doktorsnemendur sem hafa lokið bæði grunn- og framhaldsnámi við íslenska háskóla skulu að jafnaði taka a.m.k. eitt misseri af doktorsnámi sínu við erlendan háskóla.

23. gr.

Skipan leiðbeinanda.

Leiðbeinandi skal vera fastráðinn kennari (prófessor eða dósent) við félags- og mann­vísinda­deild Háskóla Íslands.

24. gr.

Skipan doktorsnefndar.

Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu leiðbeinanda og samþykkt af vísindanefnd félags- og mannvísindadeildar. Að jafnaði skal einn fulltrúi í doktorsnefnd vera frá erlendum háskóla eða erlendri háskólastofnun.

25. gr.

Doktorsritgerð.

Doktorsritgerð skal vera á ensku nema sérstök rök mæli gegn því.

Við félags- og mannvísindadeild er heimilt að leggja fram doktorsritgerð sem byggir á vísindagreinum sem mynda samstæða heild. Sé sú leið valin skal semja yfirlit þar sem fjallað er um kenningar viðfangsefnis rannsóknarinnar og aðferðafræðilega nálgun ásamt því að dregnar eru saman heildarniðurstöður rannsóknarinnar. Samsett doktorsritgerð skal að lágmarki vera fjórar vísindagreinar. Þá er doktorsnemandi fyrsti höfundur tveggja greina hið minnsta og annar höfundur hinna tveggja. Tvær greinar skulu hafa verið samþykktar til birtingar með eða án fyrirvara um breytingar í ritrýndum viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum viðkomandi fræðasviðs. Doktorsnemi skal vera fyrsti höfundur hið minnsta að annarri samþykktu greininni. Tvær greinar skulu hafa verið sendar til ritrýningar.

III. KAFLI

Félagsráðgjafardeild.

26. gr.

Vísindanefnd.

Vísindanefnd félagsráðgjafardeildar gegnir hlutverki fastanefndar sbr. 2. gr. Í vísinda­nefnd deildar eiga sæti þrír fulltrúar frá deild og skal formaður hennar vera fulltrúi deildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs. Nefndin er kosin af deildarfundi. Doktors­nemendur við deildina skulu eiga einn fulltrúa í nefndinni. Skipað skal í nefndina til tveggja ára.

27. gr.

Viðbótarinntökuskilyrði.

Til viðbótar inntökuskilyrðum skv. 5. gr. getur félagsráðgjafardeild gert kröfu um að doktorsnemandi taki allt að 60 ECTS í námskeiðum í samráði við leiðbeinanda sé talin þörf á að bæta við undirstöðuþekkingu hans í aðferðafræði rannsókna eða á fræðasviði doktorsnámsins. Þessum einingum skal lokið áður en rannsóknaráætlun fæst samþykkt.

28. gr.

Einingafjöldi.

Doktorsnám við félagsráðgjafardeild er samsett úr 180 ECTS doktorsritgerð og 30 ECTS í námskeiðum í aðferðafræði og á fræðasviði doktorsverkefnis. Doktorsnemendur sem hafa lokið bæði grunn- og framhaldsnámi við íslenska háskóla skulu taka að minnsta kosti eitt misseri af doktorsnámi sínu við erlendan háskóla.

29. gr.

Málstofur í doktorsnámi.

Á meðan á doktorsnámi stendur skal nemandi gera grein fyrir eða kynna verkefni sitt á þremur málstofum sem hver um sig er forsenda fyrir næsta áfanga. Að málstofunum standa vísindanefnd deildar, leiðbeinandi og fastir kennarar deildar.

Fyrsta málstofa er haldin í upphafi doktorsnáms. Þar kynnir nemandi og gerir grein fyrir rannsóknaráætlun. vísindanefnd deildar og leiðbeinandi þurfa að samþykkja rannsóknaráætlun áður en hún er lögð fyrir doktorsnefnd.

Önnur málstofa skal haldin þegar leiðbeinandi og doktorsnemi telja að verkið sé hálfnað. Við þessa málstofu skal vera andmælandi, sem ekki er í doktorsnefnd en er kennari við annan háskóla eða aðra deild. Að lokinni málstofu skilar andmælandi skriflegri greinargerð um efnið, efnistök og gagnasöfnun. Andmælandi er skipaður af vísindanefnd deildar.

Þriðja málstofa skal haldin þegar leiðbeinandi og doktorsnemi telja að doktorsritgerð sé tilbúin til varnar. Í þessari lokamálstofu skal andmælandi vera háskólakennari, sem er ekki í doktorsnefnd og utan deildar. Hann skilar munnlegri og skriflegri greinargerð til doktorsnema og doktorsnefndar. Andmælandi er skipaður af vísindanefnd deildar.

Doktorsnemendur skulu jafnframt taka virkan þátt í málstofum doktorsnámsins í samráði við leiðbeinanda og kynna verk sitt a.m.k. árlega á slíkum málstofum. Doktorsnemandi skal jafnframt taka virkan þátt í umfjöllun um verkefni annarra doktorsnemenda og taka almennt þátt í fræðilegri umræðu á sínu fræðasviði.

Doktorsnemandi gerir doktorsnefnd og deildarskrifstofu grein fyrir námsframvindu doktors­nema á grundvelli málstofa.

30. gr.

Leiðbeinandi og doktorsnefnd.

Doktorsnefnd skal skipuð af deild að tillögu leiðbeinanda og samþykkt af vísindanefnd félagsráðgjafardeildar.

Doktorsnefnd skal skipuð leiðbeinanda og tveimur til fjórum sérfræðingum á fræða­sviðinu. Að minnsta kosti einn þeirra skal vera utan deildar. Leiðbeinandi, sem jafnframt er umsjónarkennari, er formaður doktorsnefndar.

31. gr.

Doktorsritgerð.

Doktorsritgerð skal vera á ensku nema sérstök rök mæli gegn því. Ef doktorsnemandi óskar eftir að skrifa ritgerð á öðru tungumáli þarf hann að sækja um undanþágu til vísindanefndar deildar.

Samsett doktorsritgerð skal að lágmarki vera fjórar vísindagreinar. Þá er doktors­nemandi fyrsti höfundur tveggja greina hið minnsta og að minnsta kosti annar höfundur hinna tveggja. Leiðbeinandi getur verið meðhöfundur tveggja greina. Þrjár greinar skulu hafa verið samþykktar til birtingar í ritrýndum viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum viðkomandi fræðasviðs og sú fjórða skal hafa verið send til ritrýningar. Óski nemandi eftir því að fara þessa leið þarf hann að gera skriflega grein fyrir því og hljóta samþykki leiðbeinanda og vísindanefndar eftir fyrstu málstofu.

IV. KAFLI

Hagfræðideild.

32. gr.

Doktorsnámsnefnd.

Í hagfræðideild starfar doktorsnámsnefnd sem gegnir hlutverki fastanefndar sbr. 2. gr. Í doktorsnámsnefnd sitja deildarforseti, fulltrúi deildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs og a.m.k. tveir aðilar sem kosnir eru á deildarfundi. Skipað skal í nefndina til þriggja ára í senn.

33. gr.

Inntökuskilyrði.

Meistarapróf í hagfræði með góðum árangri er að jafnaði skilyrði fyrir inntöku í doktorsnám við hagfræðideild. Ef um þverfaglegt doktorsnám er að ræða er heimilt að samþykkja umsókn umsækjanda með meistarapróf af öðru fræðasviði. Í slíkum tilvikum skal inntaka nemanda byggjast á sérstökum rökstuðningi fyrir því að skráning í hagfræðideild sé hinu þverfaglega doktorsnámi til framdráttar.

34. gr.

Uppbygging doktorsnáms.

Doktorsnám felst að jafnaði í sérhæfingu í námskeiðum og sjálfstæðri rannsókn sem lýkur með doktorsritgerð. Doktorsnámsnefnd getur, að höfðu samráði við leiðbeinanda, gert kröfu um að nemandi ljúki tilteknum námskeiðum. Verði ágreiningur á milli leið­beinanda og doktorsnámsnefndar, ræður álit doktorsnámsnefndar. Hluti námskeið­anna geta verið lesnámskeið og skal þá doktorsnámsnefnd tilnefna umsjónar­mann eða menn með hverju námskeiði. Umsjónarmenn ákveða kröfur í viðkom­andi námskeiðum og skera úr um hvort nemandi hafi staðist þær. Æskilegt er að doktors­nemi stundi hluta náms síns við viðurkennda erlenda mennta- eða rannsóknar­stofnun.

35. gr.

Doktorsnefnd.

Doktorsnámsnefnd skipar doktorsnemanda doktorsnefnd eftir að hann hefur lagt fram rannsóknaráætlun. Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu umsjónarkennara (aðal­leiðbeinanda) og samþykkt af doktorsnámsnefnd hagfræðideildar. Í doktorsnefnd skal vera a.m.k. einn prófessor.

36. gr.

Námsmat og eftirlit með námsframvindu.

Eftir eins árs nám skal doktorsefni leggja fram rannsóknaráætlun sem hann ver í viðurvist doktorsnefndar og akademískra starfsmanna hagfræðideildar. Áætlunin skal gera ítarlega grein fyrir faglegri vinnu verksins; stöðu þekkingarinnar, heimildum og gögnum sem unnið er með, rannsóknaraðferð og kenningum og væntanlegum niðurstöðum. Lögð er áhersla á að doktorsefnið fái leiðbeiningu og gagnrýni á verk sitt á þessu stigi námsins sem geti nýst vel við rannsóknarvinnuna.

Nemar í doktorsnámi skulu halda hið minnsta eina málstofu á ári í deildinni eftir að rannsóknaráætlun hefur verið varin. Æskilegt er að doktorsefni reyni að koma vinnu sinni á framfæri erlendis og taki þátt í fræðilegum fundum og ráðstefnum sem tengjast efni hans eða hennar.

Leiðbeinandi, doktorsnefnd og doktorsnámsnefnd geta, saman eða hver í sínu lagi, kannað almenna fræðilega þekkingu doktorsefnis á viðkomandi sviði.

37. gr

Kröfur til doktorsritgerða.

Efni lokaritgerða skal vera hæft til útgáfu í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum í hagfræði.

V. KAFLI

Lagadeild.

38. gr.

Skipan rannsóknanámsnefndar.

Deildarfundur í lagadeild kýs þriggja manna rannsóknanámsnefnd sem gegnir hlutverki fastanefndar sbr. 2. gr. Nefndin skal skipuð til tveggja ára í senn og skulu að minnsta kosti tveir nefndarmanna vera úr hópi fastráðinna kennara við deildina. Deildarfundur kýs einnig til tveggja ára í senn tvo nefndarmenn til vara (1. og 2. varamann) úr hópi fastráðinna kennara við deildina. Deildarforseti getur setið fundi nefndarinnar. Deildarfundur velur formann og varaformann nefndarinnar úr hópi fastráðinna kennara. Formaður rannsóknanámsnefndar er fulltrúi lagadeildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs. Varafulltrúi deildarinnar í vísindanefnd er varaformaður rannsóknanámsnefndar.

39. gr.

Hlutverk nefndarinnar.

Hlutverk rannsóknanámsnefndar er að hafa umsjón með rannsóknatengdu námi í laga­deild, í samráði við deildarforseta, eins og nánar greinir í þessum reglum, reglum um meistara­nám í lagadeild og öðrum reglum um einstakar námsleiðir sem veita meistara­gráðu frá lagadeild.

40. gr.

Viðbótarinntökuskilyrði.

Sá sem hefur lokið meistaraprófi (kandídatsprófi) eða sambærilegu prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands eða öðrum háskóla getur sótt um að hefja doktorsnám við lagadeild. Að jafnaði skal umsækjandi hafa hlotið fyrstu einkunn á meistaraprófi. Að fenginni umsögn rannsóknanámsnefndar er heimilt að víkja frá ofangreindu skilyrði. Ef vafi leikur á að undirbúningur samsvari þeim undirbúningi sem framangreind próf eiga að tryggja er væntanlegum leiðbeinanda heimilt, í samráði við rannsóknanámsnefnd, að láta umsækjanda gangast undir hæfnispróf.

Óski umsækjandi eftir því að skrifa doktorsritgerð á öðru tungumáli en íslensku getur rannsóknanámsnefnd gert það að skilyrði að umsækjandi sanni færni sína í viðkomandi tungumáli með því að láta hann gangast undir próf eða leggja fram sérstakt vottorð þar að lútandi.

Sá sem hefur stundað doktorsnám í lögfræði við annan viðurkenndan háskóla getur sótt um að hefja doktorsnám við lagadeild enda liggi fyrir mat rannsóknanámsnefndar á fyrra námi.

41. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við lagadeild er 180 einingar (ECTS). Samhliða samningu ritgerðar, eftir atvikum greinasafns, skal doktorsnemi stunda nám eins og gert er ráð fyrir í náms- og rannsóknaáætlun. Námskeið, verkefni og annað framlag doktorsnema skal að lágmarki jafngilda 30 (ECTS) af 180 einingum. Námskeið sem doktorsnema er skylt að sækja skulu m.a. vera fólgin í fræðslu um undirstöðuþekkingu um aðferðafræði lögfræði, réttarheimildir, lögskýringar og réttarheimspeki. Ef, að mati leiðbeinanda og doktorsnefndar, er talin þörf á að bæta enn frekar við undirstöðuþekkingu doktorsnema er heimilt að gera kröfu um að hann leggi stund á bóknám sem svari til allt að 60 eininga, auk framangreindra 180 eininga.

42. gr.

Mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi doktorsnema.

Við mat á námskeiðum og öðru vinnuframlagi doktorsnema skal fylgja eftirfarandi viðmiðum:

  1. Að jafnaði skal hver heill dagur á námskeiði sem ætlað er doktorsnemum eða heill dagur á sambærilegu námskeiði, metinn sem 2 einingar (ECTS). Þetta á þó ekki við ef undirbúningsvinna er takmörkuð og skal þá dagurinn metinn til 1 einingar.
  2. Eigin rannsóknarverkefni skuli metin til 4 eininga. Þátttaka í rannsóknarverkefnum annarra skal metin til 2 eininga. Með eigin rannsóknarverkefnum er fyrst og fremst átt við birtar ritrýndar greinar.
  3. A.m.k. 12 einingar skulu vera vegna þátttöku í námskeiðum í aðferðafræði og réttarheimspeki (grunnnámskeið) og námskeið og ráðstefnur á fræðasviði doktorsnema.
  4. Námskeið í uppeldis- og kennslufræðum má að hámarki meta til 4 eininga.
  5. Námskeið á meistarastigi eru að jafnaði ekki metin til eininga nema í þeim tilvikum að leiðbeinandi hafi gert doktorsnema skylt að sækja slík námskeið og skal námskeið að hámarki metið til 3 eininga.
  6. Að jafnaði skal styðjast við það mat sem háskólar í Evrópu leggja til grundvallar fyrir námskeið, málstofur o.þ.h. og doktorsnemar lagadeildar taka þátt í. Í þeim tilvikum sem námskeið eru tekin við háskóla sem ekki styðjast við ECTS kerfið skal meta námskeið og málstofur sérstaklega.
  7. Heimilt er að meta aðra vinnu doktorsnema til eininga, t.d. fundarstjórn og skipulagningu ráðstefna og málstofa, rannsóknadags í félagsvísindum (Rannsóknir í félagsvísindum), fyrirlestra á ráðstefnum og málstofum, stjórnarsetu í hagsmunafélögum doktorsnema og aðra sambærilega vinnu.

Doktorsnemi ber ábyrgð á að halda saman öllum gögnum sem máli skipta, s.s. bréfum, lýsingum á námskeiðum, dagskrám ráðstefna og málstofa, viðurkenningum, staðfest­ingum og öðru sem máli getur skipt vegna matsins.

Doktorsnemi leitar bréflega eftir því að rannsóknanámsnefnd meti vinnu til eininga. Beiðni skal fylgja stutt greinargerð og rökstuðningur ef 7. liður 1. mgr. á við. Senda skal nefndinni beiðni um mat fyrir 15. mars og 15. október.

Að fenginni tillögu rannsóknanámsnefndar um afgreiðslu tekur deildarfundur ákvörðun um hvort doktorsnemi hafi lagt fram fullnægjandi gögn og skýringar og skal deildar­fundur tilkynna ákvörðunina bréflega.

43. gr.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Rannsóknanámsnefnd getur heimilað að doktorsnemi hafi tvo leiðbeinendur, aðal­leiðbeinanda og meðleiðbeinanda. Aðalleiðbeinandi er þá jafnframt umsjónarkennari doktors­nemans. Skipun aðalleiðbeinanda og meðleiðbeinanda ef við á er háð samþykki rannsókna­námsnefndar og skal kynnt á deildarfundi.

44. gr.

Doktorsnefnd, skipan og hlutverk.

Þegar doktorsnemi hefur lagt fram rannsóknaráætlun í samræmi við 10. gr. skipar lagadeild doktorsnefnd að fenginni tillögu frá rannsóknanámsnefnd. Nefndin skal skipuð leiðbeinanda (umsjónarkennara), meðleiðbeinanda ef við á og tveimur sérfræðingum á fræðasviði ritgerðar doktorsnema. Eftir að doktorsnefnd hefur verið skipuð sendir Lagastofnun, fyrir hönd deildarforseta, hverjum nefndarmanni skipunarbréf ásamt upplýsingum um hlutverk nefndarinnar, viðeigandi reglur og gæðaviðmið.

Doktorsnefnd kveður doktorsnema á sinn fund eftir því sem þurfa þykir meðan á náminu stendur og prófar hann í almennri fræðilegri þekkingu og rannsóknaaðferðum eða metur nám hans á sambærilegan hátt. Prófun doktorsnefndar skal fara fram um miðbik námsins.

45. gr.

Tilhögun náms, námsframvinda og námskröfur.

Doktorsnemi sem hefur lokið meistaranámi í lögfræði við íslenskan háskóla skal taka hluta af doktorsnámi sínu við erlendan háskóla. Rannsóknaráætlun skal liggja fyrir eins fljótt og unnt er og í síðasta lagi í lok fyrsta námsárs.

46. gr.

Kröfur til doktorsritgerða.

Doktorsritgerð í lagadeild getur verið viðamikil ritgerð, eða safn ritrýndra og birtra fræðigreina (A-flokkur) sem mynda eina fræðilega heild. Lengd ritgerða skal taka mið af efni og uppbyggingu hverju sinni. Ef birtar fræðigreinar eru lagðar fram sem doktorsritgerð í lagadeild skulu þær að jafnaði vera fimm talsins. Þar að auki skal í upphafi vera sérstök yfirlitsgrein þar sem gerð er grein fyrir meginatriðum greinanna, heildarályktunum og niðurstöðum. Doktorsritgerð má vera á erlendu tungumáli ef rannsóknanámsnefnd samþykkir. Ef doktorsritgerð er skrifuð á íslensku skal útdráttur og samantekt vera á ensku eða öðru tungumáli.

VI. KAFLI

Stjórnmálafræðideild.

47. gr.

Vísindanefnd.

Vísindanefnd stjórnmálafræðideildar gegnir hlutverki fastanefndar sbr. 2. gr. Í vísinda­nefnd eiga sæti þrír fulltrúar deildar og skulu þeir valdir á deildarfundi til tveggja ára í senn.

48. gr.

Viðbótarinntökuskilyrði.

Til viðbótar inntökuskilyrðum skv. 5. gr. getur stjórnmálafræðideild gert kröfu um að doktorsnemandi taki allt að 60 ECTS í námskeiðum í samráði við leiðbeinanda sé talin þörf á að bæta við undirstöðuþekkingu hans í aðferðafræði rannsókna eða á fræðasviði doktorsnámsins. Þessum einingum skal að jafnaði lokið áður en rannsóknaráætlun fæst samþykkt.

49. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við stjórnmálafræðideild samanstendur af 180 ECTS doktorsritgerð og 30 ECTS í námskeiðum á fræðasviðum doktorsverkefnis.

Í lok fyrsta námsárs, eða í samræmi við samþykkta verkáætlun við inntöku, gerir doktorsnemi, í samráði við leiðbeinanda, nákvæma rannsóknaráætlun, áætlun um námshraða og dvöl erlendis, ef við á. Áætlunin skal lögð fyrir hlutaðeigandi doktorsnefnd. Náminu verður því aðeins fram haldið að doktorsnefndin samþykki áætlunina. Samþykkt áætlun skal send skrifstofu stjórnmálafræðideildar þar sem hún verður hluti af námsferilsskrá doktorsnemans.

Doktorsnemar sem hafa lokið bæði grunn- og meistaranámi við íslenska háskóla skulu taka sem samsvarar a.m.k. einu misseri við erlendan háskóla sem hluta af doktorsnámi.

Doktorsnemendur skulu taka virkan þátt í málstofum doktorsnámsins og m.a. kynna verkefni sín a.m.k. einu sinni á ári, taka þátt í umfjöllun um verkefni annarra og taka almennt þátt í faglegri umræðu á sínu fræðasviði.

50. gr.

Leiðbeinandi.

Skipan leiðbeinanda er háð samþykki deildar. Leiðbeinandi gerir doktorsnefnd grein fyrir námsframvindu doktorsnemenda sinna einu sinni á ári. Ekki er heimilt að hafa fleiri en einn leiðbeinanda.

Að öllu jöfnu má hver leiðbeinandi innan stjórnmálafræðideildar ekki hafa fleiri en fjóra doktorsnema hverju sinni. Ef um sérstakar aðstæður er að ræða má veita undanþágu frá þessari reglu þó þannig að fjöldi nema á hvern leiðbeinanda verði ekki fleiri en sex.

51. gr.

Doktorsnefndir.

Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu leiðbeinanda og samþykkt af vísindanefnd deildar og deildarfundi, eða eftir atvikum deildarráði.

Leiðbeinandi getur lagt til við deild að fleiri en formaður doktorsnefndarinnar gegni leiðandi leiðbeiningarhlutverki og þá skal gerð grein fyrir því til vísindanefndar og deildarfundar stjórnmálafræðideildar. Slík tillaga þarf ítarlegan rökstuðning og nákvæma greinargerð um verkaskiptingu aðila og hlutfall vinnuframlags.

52. gr.

Doktorsritgerð.

Doktorsritgerð skal vera á ensku nema sérstök rök mæli gegn því.

Við stjórnmálafræðideild er heimilt að leggja fram doktorsritgerð sem byggir á vísindagreinum sem mynda samstæða heild. Sé sú leið valin skal semja yfirlit þar sem fjallað er um kenningar viðfangsefnis rannsóknarinnar og aðferðafræðilega nálgun ásamt því að dregnar eru saman heildarniðurstöður rannsóknarinnar. Samsett doktorsritgerð skal að lágmarki vera fjórar vísindagreinar. Þá er doktorsnemandi fyrsti höfundur tveggja greina hið minnsta og annar höfundur hinna tveggja. Tvær greinar skulu hafa verið samþykktar til birtingar með eða án fyrirvara um breytingar í ritrýndum viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum viðkomandi fræðasviðs. Doktorsnemi skal vera fyrsti höfundur hið minnsta að annarri samþykktu greininni. Tvær greinar skulu hafa verið sendar til ritrýningar.

Sé doktorsnemi ekki einn höfundur að grein/um þarf að vera skýrt hvert framlag hans er og meðhöfundar sendi doktorsnefnd staðfestingu þess efnis.

VII. KAFLI

Viðskiptafræðideild.

53. gr.

Doktorsnámsnefnd.

Doktorsnámsnefnd viðskiptafræðideildar gegnir hlutverki fastanefndar sbr. 2. gr. Í doktorsnámsnefnd eru deildarforseti og tveir einstaklingar sem eru kosnir á deildarfundi og skal formaður hennar vera fulltrúi deildar í vísindanefnd félagsvísindasviðs og hinn til vara. Skipað skal í nefndina til þriggja ára.

54. gr.

Einingafjöldi.

Doktorsnám við viðskiptafræðideild er 180 einingar. Doktorsnámskeið eru ákveðin af leiðbeinanda í samráði við nemanda. Leiðbeinandi getur jafnframt farið fram á að doktorsnemi taki námskeið á meistarastigi sem lið í undirbúningi sínum.

55. gr.

Leiðbeinendur.

Hver kennari er að jafnaði ekki aðalleiðbeinandi fyrir fleiri en 4 doktorsnema.

56. gr.

Skipan doktorsnefndar.

Doktorsnefnd skal skipuð að tillögu umsjónarkennara og samþykkt af doktorsnámsnefnd viðskiptafræðideildar. Skal hún skipuð eigi síðar en 18 mánuðum áður en doktorsnemi hyggst ljúka námi.

VIII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

57. gr.

Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar í samræmi við 47. og 68.-69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og með heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar hafa verið samþykktar af deildum félagsvísindasviðs og stjórn fræðasviðsins og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglur þessar öðlast gildi 1. júlí 2011 og falla þá jafnframt úr gildi reglur nr. 134/2005 um doktorsnám og rannsóknanámsnefnd við lagadeild Háskóla Íslands með áorðnum breytingum, reglur nr. 797/2006 um doktorsnám við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og reglur nr. 595/2006 um rannsóknarnám í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Á fyrsta deildarfundi eftir að reglur þessar hafa tekið gildi skal deildarfundur kjósa nýja fastanefnd í samræmi við 3. mgr. 2. gr. og frá sama tíma fellur umboð núverandi nefndar niður.

II.

Doktorsnemar sem stunduðu doktorsnám einu ári fyrir gildistöku þessara reglna en hafa ekki skilað nákvæmri rannsóknaráætlun samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skulu skila viðkomandi doktorsnefnd nákvæmri rannsóknaráætlun í síðasta lagi sex mánuðum eftir gildistöku reglnanna.

Háskóla Íslands, 3. maí 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 18. maí 2011