Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 157/2008

Nr. 157/2008 28. janúar 2008
REGLUR
um rannsóknamisseri kennara við Háskólann á Akureyri.

I. Heimild til rannsóknamissera.

1. gr.

  1. Dósentar, lektorar og aðjúnktar við Háskólann á Akureyri geta sótt um rannsóknamisseri á grundvelli kjarasamnings fjármálaráðherra og Háskólans á Akureyri en þar segir í grein 10.1.3: „Heimilt er háskólaráði að lækka eða fella niður kennslu- og stjórnunarskyldu háskólakennara 1 eða 2 misseri í senn til þess að gera honum kleift að verja auknum hluta vinnutíma síns til rannsóknarstarfa. Kennslu- og stjórnunarskylda á starfstíma kennarans að meðtöldum leyfistímanum verði að jafnaði eigi lægri en 50% en háskólaráði er þó heimilt að víkja frá þessu skilyrði þegar sérstaklega stendur á.“ Prófessorum er heimilt að sækja um rannsóknamisseri með sama hætti og dósentar, lektorar og aðjúnktar.
  2. Til þess að geta sótt um rannsóknamisseri skulu samanlögð stig vegna kennslu og rannsókna nema að minnsta kosti 17 stigum á ári þegar um fullt starf er að ræða og þar af skulu a.m.k. 5 stig vera vegna rannsókna. Háskólakennarar í hluta­stöðum skulu eiga rétt á að sækja um rannsóknamisseri á sama hátt og kennarar í fullu starfi. Þegar um skert starfshlutfall er að ræða þá skulu ofangreind viðmiðunarmörk metin með hliðsjón af starfshlutfalli en þó aldrei vera lægri en 10 stig og þar af 5 stig vegna rannsókna. Miðað er við meðaltal síðustu þriggja eða fimm ára eftir því hvort er hagstæðara fyrir viðkomandi.
  3. Deildarforsetar og brautarstjórar ávinna sér rétt til rannsóknamisseris eins og þeir hafi gegnt almennri kennslustöðu. Einungis þeir sem uppfylla ofangreint lágmark geta sótt um rannsóknamisseri.

2. gr.

  1. Prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar verða að vinna a.m.k. fimm misseri (2,5 ár) til að geta sótt um eitt rannsóknamisseri (0,5 ár) eða tíu misseri (5 ár) til að geta sótt um tvö rannsóknamisseri (1 ár). Rétturinn til að sækja um rannsóknamisseri byggist upp línulega sem nemur 1/5 á ári (misseri) og skal hann ákvarðaður út frá starfstíma kennarans við skólann að frátöldum rannsókna­misserum.
  2. Við útreikning launa kennara á meðan á rannsóknamisseri stendur er miðað við meðaltalsráðningarhlutfall síðustu 5 ára (10 missera) eða 2,5 ára (5 missera) eftir því sem við á. Kennarar skulu fá greidda dagpeninga samkvæmt reglum sem gilda um háskólakennara.

3. gr.

  1. Hafi kennari af óviðráðanlegum ástæðum ekki uppfyllt kennsluskyldu sína við Háskólann á Akureyri, t.d. vegna veikinda eða barnsburðarleyfis, hefur það ekki áhrif á rétt hans til rannsóknamisseris. Yfirvinna kennara eykur ekki rétt hans til rannsóknamisseris.
  2. Við útreikning á heimild viðkomandi til rannsóknamisseris má taka mið af starfstíma kennara við Háskólann á Akureyri frá upphafi. Ef kennari sækir ekki um rannsóknamisseri í 10 ár samfellt fyrnist réttur sem er eldri en 10 ára.

4. gr.

  1. Prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar við Háskólann á Akureyri skulu skila árlega stigamatsskýrslum um störf sín við rannsóknir, listsköpun og þróunarverkefni. Til þess að koma til álita varðandi veitingu rannsóknamisseris þurfa umsækjendur að hafa skilað árlega stigamatsskýrslum fyrir a.m.k. sl. þrjú ár.
  2. Skýrsla um síðasta rannsóknamisseri er skilyrði fyrir því að ný umsókn sé tekin til umfjöllunar.

II. Umsóknir.

5. gr.

Skila skal umsóknum um rannsóknamisseri fyrir hvert almanaksár einu sinni á ári, í síðasta lagi fyrir 1. febrúar ári áður en til rannsóknamisseris kemur. Umsækjendur skulu sækja um tiltekinn tíma á næsta almanaksári, 1 eða 2 misseri. Skal þess sérstaklega getið ef umsækjandi um rannsóknamisseri síðari hluta árs (haustmisseri) sækir einnig um slíkt misseri á næsta ári og skal tekin ákvörðun um það um leið og rannsóknamisseri að hausti.

6. gr.

Umsóknir skulu berast á þar til gerðum eyðublöðum til rannsóknasviðs. Umsóknareyðublöð má finna á vef rannsóknasviðs. Umsóknir ber að staðfesta af deild (deildarforseta) áður en þær berast rannsóknasviði.

7. gr.

Í umsókn skulu gefnar greinargóðar upplýsingar varðandi áform umsækjanda um nýtingu rannsóknamisseris, t.d. um markmið, tengingu við vísindastofnanir jafnt erlendis sem innanlands, áætlaðan afrakstur, birtingu niðurstaðna og kynningar á þeim. Skal miða við að greinargerðin sé 500-1000 orð. Heimilt er að skila fylgiskjölum með umsókninni.

III. Meðferð umsókna.

8. gr.

Þriggja manna nefnd vinnur úr umsóknum og skilar tillögum til rektors um hverjir fái úthlutað rannsóknamisseri. Nefndin er skipuð á eftirfarandi hátt:

  1. Tveir fulltrúar skipaðir af rektor og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Rektor skipar einn varamann fyrir þá.
  2. Félag háskólakennara á Akureyri tilnefnir einn fulltrúa og starfandi prófessorar við Háskólann á Akureyri annan. Skal annar þeirra vera skipaður fulltrúi í nefndinni en hinn varamaður.

9. gr.

  1. Rannsóknasvið kannar hvort þeim gögnum sem um getur í 4. gr. hafi verið skilað og telst umsókn því einungis gild að þau gögn liggi fyrir.
  2. Rannsóknamisserisnefnd yfirfer umsóknir og metur hvort þær standast kröfur sem lýst er í 1. gr. b og 1. gr. c.

10. gr.

  1. Veita skal öllum þeim kennurum rannsóknamisseri sem eiga gildar umsóknir og hafa áunnið sér samanlagt 60 eða fleiri rannsóknarstig á síðustu þremur árum.
  2. Komi til þeirrar stöðu að ekki geti allir sem eiga gildar umsóknir fengið úthlutað rannsóknamisseri raðar nefndin öðrum umsóknum út frá eftirtöldum viðmiðum sem hvert um sig gefur tilgreindan punktafjölda:
    1. Rannsóknavirkni: Hvert rannsóknarstig á síðustu þremur árum gefur 0,1 punkt.
    2. Rannsóknamisseri í fyrsta skipti: 1,5 punktar fyrir umsókn um eitt misseri, 3 punktar fyrir umsókn um tvö misseri.
    3. Ef doktorsverkefni er svo langt komið að líklegt getur talist að því ljúki innan skamms tíma frá því rannsóknamisseri lýkur (aðeins má einu sinni veita hverjum umsækjanda ívilnun vegna þessa): 0,5 punktar.
    4. Uppsafnaður „réttur“ til rannsóknamisseris umfram lágmark, sbr. 2. gr. a og 2. gr. b: 0,5 fyrir hvert misseri.
    5. Umsækjandi hefur á sl. fimm árum verið deildarforseti, 0,75 punktar fyrir hvert ár eða brautarstjóri, 0,25 punktar fyrir hvert ár.
  3. Við mat á umsóknum getur nefndin leitað til sérfræðinga innan eða utan háskólans og til vísindaráðs Háskólans á Akureyri.

IV. Afgreiðsla umsókna um rannsóknamisseri.

11. gr.

  1. Rektor veitir kennurum rannsóknamisseri að fengnu samþykki háskólaráðs.
  2. Rektor getur í undantekningartilvikum og vegna sérstakra aðstæðna veitt rannsóknamisseri utan þess umsóknarferlis sem hér er gerð grein fyrir.

V. Skýrslugerð.

12. gr.

Tveimur mánuðum eftir að rannsóknamisseri lýkur skal kennari skila skýrslu um misserið til rannsóknasviðs skólans. Þar komi fram í hverju rannsóknavinnan fólst og hvaða árangur hún hefur borið. Æskilegt er að eftirfarandi atriði séu m.a. höfð til hliðsjónar við skýrslugerðina:

  1. Að hvaða verkum var unnið á meðan á rannsóknamisseri stóð?
  2. Hvernig er líklegt að þessi vinna skili sér í birtum rannsóknaverkefnum?
  3. Þátttaka í ráðstefnum, flutt erindi?
  4. Voru rannsóknirnar hluti af langtímarannsóknum?
  5. Var lokið við ákveðin rannsókna- eða þróunarverkefni?
  6. Að hve miklu leyti var lagður grunnur að rannsóknum næstu ára á rannsókna­misseri?
  7. Byggðist rannsóknavinnan á samstarfi við erlenda eða innlenda aðila? Var efnt til nýrrar samvinnu?
  8. Nýting tækja og aðstöðu (rannsóknastofa, bókasafna) á rannsóknamisserinu?
  9. Dvalartími (hvar, hversu lengi og annað sem máli skipti)?

Rannsóknamisseranefnd yfirfer skýrslur og sendir afrit til deildarforseta viðkomandi deildar.

VI. Dagpeningar og fargjöld.

13. gr.

  1. Áætla skal fargjöld og þörf fyrir fjölda þeirra daga sem dvalið er erlendis. Kennari sem fær heimild til tveggja rannsóknamissera getur fengið greidda þjálfunar­dagpeninga vegna dvalar erlendis í allt að 10,5 mánuði (1,5 mánuður reiknast sem sumarleyfi). Fyrir 1 misseri fást þjálfunardagpeningar greiddir í allt að 5,25 mánuði.
  2. Fyrstu 2 mánuðina (60 daga), þegar um tvö misseri er að ræða, eru greiddir fullir þjálfunardagpeningar skv. ákvörðun ferðakostnaðarnefndar fjármála­ráðuneytisins, en eftir það eru greidd 26,2% af þjálfunardagpeningum. Þegar um eitt misseri er að ræða eru greiddir fullir þjálfunardagpeningar í 45 daga, eftir það eru greidd 26,2% af þjálfunardagpeningum.
  3. Heimilt er að greiða fargjöld fram og til baka frá Akureyri til dvalarstaðar erlendis og milli dvalarstaða, enda hafi háskólaráð fallist á dvöl á fleiri en einum stað. Einnig er heimilt að greiða fargjöld og ráðstefnugjöld vegna þátttöku í viðurkenndum vísindaráðstefnum á meðan á rannsóknamisseri stendur. Hámarks kostnaður vegna fargjalda er skv. ákvörðun háskólaráðs á hverjum tíma. Leitast skal við að fá sem hagstæðast fargjald og á almennu farrými flugvéla.
  4. Heimilt er að greiða dagpeninga og fargjöld innanlands vegna nauðsynlegrar dvalar utan vinnusvæðis viðkomandi kennara. Skal þá stuðst við fyrrgreindar reglur, en innlendir dagpeningar reiknaðir í réttu hlutfalli við mun á þjálfunar­dagpeningum vegna dvalar erlendis og almennum dagpeningum erlendis.

VII. Tryggingar.

14. gr.

Kennarar sem dvelja erlendis vegna rannsóknamissera þurfa að huga sérstaklega að tryggingum sínum. Félagsmenn í FHA eru tryggðir fyrir varanlegri örorku og dauða samkvæmt 7. gr. kjarasamnings. Um sjúkrakostnað vegna skyndilegra veikinda eða slysa gilda reglur almannatrygginga sem eru mismunandi milli landa. Mikilvægt er að kynna sér vel ákvæði sem gilda í væntanlegu dvalarlandi og má fá upplýsingar þar að lútandi á skrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins. Til þess að fá það vottorð útgefið þarf að skila staðfestingu til TR um að viðkomandi sé opinber starfsmaður og að hann sé á launum hjá Háskólanum á Akureyri. Launadeild Háskólans á Akureyri gefur þessa staðfestingu út. Einnig þarf að gefa upplýsingar um fjölskyldu ef hún er með í för.

VIII. Gildistaka.

15. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 21. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 466/2007. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Háskólanum á Akureyri, 28. janúar 2008.

Þorsteinn Gunnarsson rektor.

Þóroddur Bjarnason,
ritari háskólaráðs.

B deild - Útgáfud.: 18. febrúar 2008