Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 344/2007

Nr. 344/2007 26. mars 2007
REGLUR
um nám til M.S.-prófs í lyfjafræði við lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

1. gr.

Um námið.

Lyfjafræðideild veitir kennslu til M.S.-prófs í lyfjafræði. Prófið er embættispróf í lyfja­fræði. Kennsla fer fram í námskeiðum sem metnar eru til námseininga (e). Nám í lyfja­fræði til M.S.-prófs jafngildir 63e (126 ECTS) þar af 15e (30 ECTS) rannsóknar­verkefni.

2. gr.

Inntökuskilyrði.

Aðgang að lyfjafræðinámi til M.S.-prófs hafa þeir sem lokið hafa B.S.-prófi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi í lyfjafræði frá öðrum viðurkenndum háskóla. Til þess að hefja M.S.-námið í lyfjafræði þarf að lágmarki meðaleinkunnina 6,0 í fyrrnefndu grunnnámi.

3. gr.

Námsframvinda.

Nemanda er ekki heimilt að hefja nám í tilteknu námskeiði lyfjafræðideildar án þess að hafa lokið prófi í þeim námskeiðum, sem tilgreind eru í kennsluskrá sem nauðsynlegir undanfarar þess. Þó er deild heimilt að víkja frá þessari reglu í sérstökum tilvikum. Til þess að hefja vinnu við meistaraverkefni skal nemandi hafa lokið a.m.k. 20e (40 ECTS) í M.S.-námi í lyfjafræði.

4. gr.

Hámarkslengd náms.

M.S.-prófi skal lokið ekki seinna en 3 árum eftir að nemandi innritast í námið.

5. gr.

Einkunnir.

Til að standast próf í M.S.-námi í lyfjafræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í hverju námskeiði um sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Sjá nánar í 5. og 6. mgr. 123. gr. í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000. Meðaleinkunn úr öllum námskeiðum skal ekki vera lægri en 6,0.

6. gr.

Meistaraverkefni.

Rannsóknarverkefni til meistaraprófs er 15e (30 ECTS) og skal að jafnaði unnið á síðasta misseri meistaranámsins. Verkefnið samsvarar a.m.k. 15 vikna fullri vinnu af hálfu nemanda. Meistaranámsnefnd lyfjafræðideildar fer með málefni meistaraverkefna í umboði deildarráðs. Nánar er kveðið á um val á rannsóknarverkefni, leiðbeinanda, próf­dómurum, frágang ritgerðar og meistaravörn í sérreglum lyfjafræðideildar.

7. gr.

Tengsl við aðra háskóla.

Nemendur geta tekið hluta meistaranámsins við aðra háskóla að undangengnu samþykki meistaranámsnefndar lyfjafræðideildar.

8. gr.

Lærdómstitlar.

Að loknu M.S.-námi í lyfjafræði hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Master of Science in Pharmacy (M.S. Pharm.).

9. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar sem samþykktar hafa verið af deildarfundi lyfjafræðideildar og hlotið staðfestingu háskólaráðs sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og 68. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi. Reglur um nám til kandídatsprófs í lyfjafræði (cand. pharm.) gilda um stúdenta sem innrituðu sig til grunnnáms samkvæmt eldri skipan lyfjafræðináms sbr. ákvæði til bráðabirgða við reglur nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands. Lyfjafræðideild er þó heimilt að fallast á beiðni stúdents um að nýrri reglur gildi um nám hans.

Háskóla Íslands, 26. mars 2007.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 23. apríl 2007