Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 258/2011

Nr. 258/2011 22. febrúar 2011
REGLUR
fyrir Þjóðmenningarhúsið.

1. gr.

Hlutverk.

Þjóðmenningarhúsið skal þjóna sem vettvangur til að kynna íslenska sögu og menningararf. Jafnframt skal þar látin í té aðstaða fyrir sýningar, fundi, samkomur og aðra viðburði. Notkun hússins skal þó ætíð taka tillit til friðunar þess og sögulegs verðmætis.

2. gr.

Sýningahald.

Starfsemi í húsinu skal einkum felast í sýningahaldi, bæði föstum sýningum og styttri sýningum. Í sýningum skal einkum lögð áhersla á sögu og menningu þjóðarinnar, sjálfstæði landsins og stjórnskipun og bókmenntir þjóðarinnar fyrr og síðar.

Hafa skal samstarf við opinber söfn og stofnanir sem sinna menningarsögu eftir því sem kostur er, m.a. með því að efna til sýninga í samvinnu við aðrar stofnanir, félagasamtök og einkaaðila innanlands, svo og erlenda sýningahaldara.

Forstöðumaður Þjóðmenningarhússins setur gjaldskrá fyrir aðgang að sýningum hússins. Skal hún staðfest af mennta- og menningarmálaráðuneyti.

3. gr.

Önnur starfsemi.

Heimilt er að leigja stofur og sal Þjóðmenningarhússins til funda og annarra samkoma. Um afnot af sal gilda eftirfarandi takmarkanir:

  1. Sýningar. Salurinn er einkum ætlaður til sýningahalds. Almennt skal miða við að sýningar þar séu til skemmri tíma og hægt að víkja þeim til hliðar til að rýma fyrir öðrum afnotum af salnum.
  2. Fundir o.þ.h. Leigja má salinn fyrir fundi, ráðstefnur og minni samkomur svo og veitingar sem tengjast þeim. Jafnan skal innheimt gjald fyrir slík afnot.
  3. Móttökur o.þ.h. Leigja má salinn fyrir móttökur á vegum ráðuneyta eða Alþingis.
  4. Veislur og borðhald. Veita má afnot af salnum fyrir veislur og borðhald með sömu skilyrðum og um getur í staflið b og c.
  5. Gjaldskrá. Forstöðumaður Þjóðmenningarhússins setur gjaldskrá fyrir afnot af salnum.

4. gr.

Forstöðumaður.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar forstöðumann Þjóðmenningarhússins til fimm ára í senn.

Forstöðumaður annast stefnumörkun og ber ábyrgð á framkvæmd hennar. Hann ber ábyrgð á þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu, rekstri þess og fjárhag í samræmi við erindisbréf.

Forstöðumaður skal leitast við að efla samvinnu stofnana á sviði lista og menningarmála. Í því skyni skal honum heimilt að kveðja fulltrúa þeirra sér til samráðs.

5. gr.

Starfsfólk.

Forstöðumaður ræður starfsfólk og ákveður starfssvið þess í samræmi við þarfir stofnunarinnar. Skrifstofustjóri skal vera staðgengill forstöðumanns í fjarveru hans.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 114/2010.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 22. febrúar 2011.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 16. mars 2011