Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 25/2009

Nr. 25/2009 31. mars 2009
LÖG
um breyting á lögum nr. 135 11. desember 2008, um embætti sérstaks saksóknara.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
    a.    Í stað 3. málsl. 2. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé þess óskað skulu þessar stofnanir, svo og skilanefndir og aðrir sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi, slitum eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja, láta hinum sérstaka saksóknara í té upplýsingar um stöðu annarra mála en greinir í 1. málsl. og gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum og hinn sérstaki saksóknari telur að hafi þýðingu við rannsókn sakamáls eða ákvarðanatöku um hvort rétt sé að hefja slíka rannsókn. Sama skylda hvílir á þeim fjármálafyrirtækjum sem stofnuð voru um hluta af rekstri framangreindra fjármálafyrirtækja á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, minnisblöð, bókanir og samninga. Skylt er að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, og er slík afhending óháð því hvort meint brot hafi verið kærð til lögreglu.
    b.    Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef skilanefnd, aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, umsjónarmaður með nauðasamningi, bráðabirgðastjórn, slitastjórn við slitameðferð eða skiptastjóri fjármálafyrirtækis fær vitneskju í starfi sínu um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um að fjármálafyrirtæki eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skal tilkynningu um slíkt beint til embættisins í samræmi við ákvæði þetta.

2. gr.
     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er skylt að fylgja 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, við ráðningu þess.

3. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 31. mars 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Ragna Árnadóttir.

A deild - Útgáfud.: 31. mars 2009