Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 138/2013

Nr. 138/2013 27. desember 2013
LÖG
um stimpilgjald.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Stimpilgjald.
    Greiða skal í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögum þessum.

2. gr.
Upphaf gjaldskyldu og ábyrgð.
    Gjaldskylda stofnast þegar gjaldskylt skjal er undirritað. Ef tveir eða fleiri aðilar undirrita gjaldskylt skjal stofnast gjaldskyldan er hinn síðasti undirritar skjalið.
    Aðili sem byggir rétt á gjaldskyldu skjali ber ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds.

3. gr.
Gjaldskyld skjöl.
    Greiða skal stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi og skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum.
    Greiða skal stimpilgjald vegna eftirrita af dómum, sáttum og lögbókandagerðum er skapa réttindi eða skyldur sem ekki hefur áður verið gert um gjaldskylt skjal, sbr. 1. mgr.
    Gjaldskylda skjals fer eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi.

4. gr.
Gjaldstofn.
    Gjaldstofn stimpilgjalds er verð viðkomandi eignar eins og það er tilgreint í gjaldskyldu skjali. Verðbreyting til hækkunar á skjali sem áður hefur verið greitt af stimpilgjald er gjaldskyld og skal gjaldið þá nema hækkun þeirri er orðið hefði ef hið hærra verð hefði staðið í skjalinu frá upphafi.
    Stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslu fasteignar ákvarðast eftir matsverði eins og það er skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast.
    Stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslur skipa yfir 5 brúttótonnum ákvarðast eftir því verði er fram kemur í kaupsamningi eða öðru skjali um eignaryfirfærslu, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur áhvílandi veðskuldum.
    Þegar fasteign eða skipi yfir 5 brúttótonnum er úthlutað félagsmanni í félagi við félagsslit greiðist stimpilgjald að því marki sem eignarhlutur hans í eigninni verður meiri en eignarhlutur hans var í félaginu.
    Þegar greitt hefur verið stimpilgjald vegna kaupsamnings eða annars skjals um eignaryfirfærslu á fasteign eða skipi yfir 5 brúttótonnum er afsalsbréf til sama kaupanda undanþegið stimpilgjaldi.
    Ef gjaldskylt skjal stofnar til réttinda eða skyldna er meta má til mishárra fjárhæða skal greiða stimpilgjald af hæstu fjárhæðinni.
    Ef í sama skjali felast fleiri en ein tegund gjaldskyldra gerninga eru báðar eða allar tegundir gjaldskyldar.
    Þegar gjaldskyld skjöl eru gefin út í fleiri en einu eintaki er aðeins eitt þeirra gjaldskylt.
    Nú kveður gjaldskylt skjal á um greiðslu í erlendum gjaldmiðli og ákvarðast stimpilgjaldið þá af sölugengi þess gjaldmiðils eins og hann er skráður hér á landi þegar greiðsla stimpilgjalds fer fram. Með sölugengi er átt við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðlabanka Íslands.
    Sýslumaður skal kanna í hverju tilviki hvort gjaldskyld fjárhæð er rétt tilgreind í gjaldskyldu skjali. Sýslumaður getur krafið gjaldanda um allar nauðsynlegar skýringar eða gögn vegna fjárhæðarinnar.
    Ef gjaldandi sinnir ekki áskorun sýslumanns um að gefa skýringar eða leggja fram gögn skv. 10. mgr. eða hin tilgreinda gjaldskylda fjárhæð þykir ósennileg eða tortryggileg skal sýslumaður taka ákvörðun um fjárhæð gjaldsins. Sé þess þörf skal sýslumaður afla umsagnar sérfróðra aðila áður en stimpilgjaldið er ákvarðað.

5. gr.
Gjaldhlutfall.
    Af gjaldskyldum skjölum skal greiða:
    a.    0,8% stimpilgjald ef rétthafi er einstaklingur,
    b.    1,6% stimpilgjald ef rétthafi er lögaðili.
    Ef fasteign eða skip er selt veðhafa við nauðungarsölu greiðir veðhafi hálft stimpilgjald af verðmæti eignarinnar hvort sem hann er einstaklingur eða lögaðili.
    Þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali.
    Skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi skv. 3. mgr. eru eftirfarandi:
    a.    Kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
    b.    Kaupandi íbúðarhúsnæðis verði þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er.
    Séu kaupendur að íbúðarhúsnæði fleiri en einn skal hlutfall stimpilgjalds af hinu gjaldskylda skjali fara eftir eignarhlut þess kaupanda sem uppfyllir skilyrði 4. mgr., sbr. 3. mgr.
    Í þeim tilvikum þegar maki kaupanda eða sambúðaraðili hefur áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur þess sem uppfyllir skilyrði helmingsafsláttar stimpilgjalds skv. 3. mgr. aldrei verða meiri en nemur helmingi af annars ákvörðuðu stimpilgjaldi hins gjaldskylda skjals.
    Sýslumaður skal við ákvörðun um helmingsafslátt stimpilgjalds skv. 3. mgr. kanna hvort skilyrði afsláttarins eru uppfyllt. Í því skyni er honum heimilt að óska eftir gögnum frá kaupanda en að jafnaði skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir:
    a.    Staðfesting úr fasteignaskrá um að kaupandi hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
    b.    Staðfesting um hjúskaparstöðu kaupanda og hvort maki hans eða sambúðaraðili hefur áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
    Með íbúðarhúsnæði í 3.–7. mgr. er eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota.

6. gr.
Skjöl undanþegin stimpilgjaldi.
    Eftirtalin skjöl eru undanþegin stimpilgjaldi:
    a.    Samningar þess ráðherra er fer með málefni landbúnaðar við bændur um töku jarða til nytjaskógræktar.
    b.    Skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða.
    c.    Skjal sem samkvæmt efni sínu er gjaldskylt í samræmi við ákvæði laga þessara en er undanþegið stimpilgjaldi vegna sambands þess við annað gjaldskylt skjal.

II. KAFLI
Gjalddagi og eindagi stimpilgjalds, staðfesting á greiðslu, álag,
endurgreiðsla og endurákvörðun.

7. gr.
Gjalddagi og staðfesting á greiðslu.
    Sýslumenn annast innheimtu stimpilgjalds.
    Gjalddagi vegna gjaldskylds skjals er þegar gjaldskylda stofnast, sbr. 1. mgr. 2. gr. Eindagi er tveimur mánuðum síðar.
    Ef gjaldskylt skjal er afhent til þinglýsingar skal greiða stimpilgjald vegna þess.
    Sýslumaður gefur út greiðslukvittun til staðfestingar á því að stimpilgjald hafi verið greitt.
    Ráðherra getur falið tilteknu sýslumannsembætti að annast innheimtu stimpilgjalds.

8. gr.
Álag.
    Ef stimpilgjald er ekki greitt á gjalddaga skal greiða álag til viðbótar því stimpilgjaldi sem greiða bar.
    Álag skv. 1. mgr. skal vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Fella má niður álag ef gjaldandi færir gildar ástæður sér til málsbóta og getur sýslumaður metið í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

9. gr.
Endurgreiðsla stimpilgjalds.
    Sýslumaður skal endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði. Ef stimpilgjald af skjali sem ekki er gjaldskylt er af vangá innheimt eða innheimt er of hátt stimpilgjald af gjaldskyldu skjali skal endurgreiða það sem ofgreitt er samkvæmt lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
    Endurgreiðsla samkvæmt þessari grein má aðeins fara fram ef beiðni um hana hefur borist sýslumanni áður en fjögur ár eru liðin frá undirritun þess skjals sem beiðnin varðar. Heimilt er þó að víkja frá þessum fresti við mjög sérstakar aðstæður.
    Ráðherra getur falið tilteknu embætti sýslumanns að annast endurgreiðslur á stimpilgjaldi.

10. gr.
Endurákvörðun stimpilgjalds.
    Komi í ljós að ekki hefur verið greitt stimpilgjald í samræmi við lög þessi hefur sýslumaður heimild til að endurákvarða stimpilgjald. Heimild til endurákvörðunar gildir í sex ár frá því að upphafleg ákvörðun um innheimtu stimpilgjalds var eða mátti vera tekin.
    Hafi gjaldandi látið í té fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta ákvörðun stimpilgjalds á, er heimilt að endurákvarða honum stimpilgjald í tvö ár frá því að upphafleg ákvörðun um innheimtu stimpilgjalds var eða mátti vera tekin.

III. KAFLI
Kæruheimild, refsingar og eftirlit.
11. gr.
Kæruheimild.
    Rísi ágreiningur um stimpilgjald samkvæmt lögum þessum er gjaldanda heimilt að kæra ákvörðun sýslumanns til ráðuneytisins. Kærufrestur skal vera þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar. Kæra til ráðuneytisins frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    Kærunni skal fylgja frumrit eða endurrit ákvörðunar sýslumanns og í kærunni skal koma fram hvaða atriði ákvörðunar sæta kæru ásamt rökstuðningi. Gögn, sem ætluð eru til stuðnings kærunni, skulu fylgja í frumriti eða staðfestu eftirriti.
    Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 2. mgr. skal ráðuneytið beina því til kæranda að bæta úr því innan hæfilegs frests.

12. gr.
Refsingar.
    Hver sá gjaldskyldur aðili sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um stimpilgjald honum viðkomandi skal greiða fésekt allt að tífaldri fjárhæð þess stimpilgjalds sem undan var dregið og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri fjárhæð þess stimpilgjalds sem undan var dregið. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Skýri gjaldskyldur aðili rangt eða villandi frá einhverju er varðar atriði sem skipta máli við ákvörðun og innheimtu stimpilgjalds má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á gjaldskyldu hans eða greiðslu gjaldsins.
    Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur sýslumanni í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi gjaldskyldu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til sýslumanns skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr.
    Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
    Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hvor þessara aðila hafi átt í hlut. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og svipta hann starfsréttindum, enda sé brotið framið til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

13. gr.
Eftirlit.
    Ráðherra er skylt að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og gæta þess að ákvörðun og innheimta stimpilgjalds sé samræmd á landinu öllu.

14. gr.
    Reglugerðarheimild.
    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð, m.a. um frekari skilyrði greiðslukvittana, fyrirkomulag afsláttar af stimpilgjaldi, innheimtu stimpilgjalds og framkvæmd endurgreiðslna.

15. gr.
Gildistaka.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum. Óstimpluð skjöl sem eru gefin út og/eða undirrituð fyrir gildistöku laga þessara eru gjaldskyld samkvæmt lögum þessum.

Gjört á Bessastöðum, 27. desember 2013.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.

A deild - Útgáfud.: 30. desember 2013