Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 577/2008

Nr. 577/2008 4. júní 2008
REGLUR
um gjaldeyrisjöfnuð.

Með tilvísun til 13. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, svo og 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, hefur bankastjórn Seðlabankans sett eftirfarandi reglur um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja og annarra sem leyfi hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til fjármálafyrirtækja (móðurfélaga) sem geta átt viðskipti við Seðlabanka Íslands, sbr. nú reglur nr. 35, 17. janúar 2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Einnig taka þær til aðila sem hafa leyfi frá Seðlabankanum til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti þar sem áskilið er að leyfishafi hlíti reglum um gjaldeyrisjöfnuð.

2. gr.

Skilgreiningar.

Til gengisbundinna liða í reglum þessum skal telja eignir og skuldir svo og liði utan efnahagsreiknings sem eru í erlendum gjaldmiðli og liði í íslenskum krónum séu þeir með gengisviðmiðun.

Til nústöðu í gjaldmiðli skal telja gengisbundnar eignir og skuldir í viðkomandi gjaldmiðli þar með talin núviðskipti með uppgjöri innan þriggja viðskiptadaga.

Til framvirkrar stöðu í gjaldmiðli skal telja öll gengisbundin viðskipti með uppgjöri eftir þrjá eða fleiri viðskiptadaga.

Til opinnar gjaldeyrisstöðu fjármálafyrirtækis í einstökum gjaldmiðlum skal telja allar eignir og skuldir og liði utan efnahagsreiknings í viðkomandi gjaldmiðli þar sem fyrirtækið ber sjálft gjaldeyrisáhættuna.

Heildargjaldeyrisjöfnuður fjármálafyrirtækis er samtala þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða þess er jákvæð (nettó gnóttstaða) að frádreginni samtölu þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða er neikvæð (nettó skortstaða).

Eiginfjárgrunnur skal reiknast samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Miða skal við eiginfjárgrunn skv. síðasta birta uppgjöri. Heimilt er að leiðrétta eiginfjárgrunninn um mánaðamót vegna breytinga á gengi gjaldmiðla, enda sé Seðlabankanum gerð grein fyrir slíkri breytingu sérstaklega. Hafi heimildin verið notuð skal samsvarandi leiðrétting gerð um hver mánaðamót til hækkunar eða lækkunar.

3. gr.

Útreikningur á opinni gjaldeyrisstöðu.

Eftirfarandi stöður skal taka með í útreikninginn:

1. Nettó nústöðu, þ.e. allar eignir að frádregnum skuldum að meðtöldum áföllnum ógjaldföllnum vöxtum. Afskriftareikningur útlána skal dreginn frá eignum í þessu sambandi.

2. Nettó framvirka stöðu, þ.e. stöðu fjármálafyrirtækis í framvirkum samningum, stöðluðum framvirkum samningum og gjaldmiðlaskiptasamningum að því marki sem þessir samningar eru ekki með í nettó nústöðu fyrirtækisins. Gjaldmiðlaskiptasamninga skal meðhöndla sem eign í einum gjaldmiðli og sem skuld í öðrum.

3. Óafturkallanlegar ábyrgðir og svipaðar skuldbindingar ef öruggt er talið að á þær reyni og ólíklegt að þær verði endurkrefjanlegar.

4. Samanlagt nettó deltavirði af valréttarsamningum um gjaldeyri. Fjármálafyrirtæki sem eiga í viðskiptum með valréttarsamninga skulu reikna deltavirði í samræmi við ákvæði reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.

5. Markaðsvirði annarra afleiðusamninga í erlendum gjaldmiðli.

Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu í einstökum gjaldmiðlum er skylt að skipta upp samsettum mynteiningum eftir vægi hverrar myntar í viðkomandi mynteiningu.

4. gr.

Gjaldeyrisjöfnuður.

Gjaldeyrisjöfnuður fyrirtækis, sem þessar reglur taka til, skal ávallt vera innan eftirfarandi marka:

1. Almennur gjaldeyrisjöfnuður skal hvorki vera jákvæður né neikvæður um meira en nemur 10% af eiginfjárgrunni.

2. Seðlabankinn getur veitt fyrirtæki heimild til að hafa sérstakan jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð utan við almennan gjaldeyrisjöfnuð, sbr. 1. tl., til varnar áhrifum af breytingum á gengi krónunnar á eiginfjárhlutfall, enda leggi það fram greinargerð þar sem fram koma forsendur og útreikningar til ákvörðunar á stærð hans og greini sérstaklega frá honum í skýrslum til Seðlabankans.

3. Um önnur atriði áhættustýringar varðandi gengisbundna liði, þ.m.t. um opna gjaldeyrisstöðu í einstökum erlendum myntum, skal fyrirtækið hlíta eigin verklagsferlum sem það setur á grundvelli 17. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Víki gjaldeyrisjöfnuður frá þeim mörkum sem hér eru tilgreind skal hlutaðeigandi fyrirtæki grípa til aðgerða til að eyða frávikinu eigi síðar en innan þriggja viðskiptadaga. Takist fyrirtækinu þetta ekki er Seðlabankanum heimilt að reikna dagsektir á þá fjárhæð sem frávikið hefur orðið hæst skv. 1. mgr. 2. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú nr. 389 frá 29. maí 2002.

5. gr.

Skýrsluskil.

Aðilar þeir er reglur þessar ná til skulu skila Seðlabankanum mánaðarlega skýrslum um gjaldeyrisjöfnuð, á því formi sem bankinn ákveður, innan 10 viðskiptadaga frá lokum hvers mánaðar. Við sérstakar aðstæður getur Seðlabankinn krafist tíðari skýrsluskila. Aðilar að millibankamarkaði með gjaldeyri skulu þó skila skýrslum daglega sbr. gildandi reglur þar að lútandi um gjaldeyrismarkað, nú 5. gr. reglna um gjaldeyrismarkað nr. 913/2002, með síðari breytingum.

Seðlabankanum er heimilt að beita dagsektum við vanrækslu á skýrsluskilum skv. reglum um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú nr. 389 frá 29. maí 2002.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka gildi hinn 1. júlí 2008. Jafnframt falla úr gildi reglur um gjaldeyrisjöfnuð nr. 318 frá 25. apríl 2006.

Reykjavík, 4. júní 2008.

Seðlabanki Íslands,

Davíð Oddsson,
formaður bankastjórnar.

Eiríkur Guðnason
bankastjóri.

B deild - Útgáfud.: 20. júní 2008