Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 373/2008

Nr. 373/2008 15. apríl 2008
REGLUR
um bindiskyldu.

1. gr.

Skilgreining hugtaka.

Innlán: Fjárhæðir sem bindiskyldur aðili skuldar viðskiptavinum aðrar en þær sem tilkomnar eru vegna útgáfu framseljanlegra skuldaskjala.

Innlán með umsömdum binditíma: Óframseljanleg innlán sem ekki er hægt að breyta í laust fé fyrir ákveðinn tíma eða er einungis hægt að breyta í laust fé fyrir þann tíma gegn greiðslu kostnaðar.

Innlán sem eru uppsegjanleg eftir tilkynningu: Óframseljanleg innlán sem ekki hafa umsaminn lánstíma og ekki er hægt að breyta í laust fé nema með tilkynningu sem þarf að berast með tilteknum fyrirvara eða er einungis hægt að breyta í laust fé fyrir þann tíma gegn greiðslu kostnaðar.

Endurhverf viðskipti: Mótvirði reiðufjár sem fengið er gegn skiptum á verðbréfum sem bindiskyldur aðili selur á ákveðnu verði með skuldbindingu um endurkaup á sama (eða svipuðu verðbréfi) á föstu verði á ákveðnum degi í framtíðinni.

Útgefin skuldabréf: Verðbréf önnur en hlutafé eða peningamarkaðsbréf sem gefin eru út af bindiskyldum aðila, og eru framseljanleg og verslað er með á eftirmarkaði eða hægt er að nota til mótvægis á markaði og sem veita eiganda ekki eignarrétt í útgáfustofnun. Meðtalin eru verðbréf (að undanskildum peningamarkaðsbréfum) sem gefa rétthafa óskilyrtan rétt til fastra eða samningsákveðinna tekna í formi afborgana og/eða fastrar fjárhæðar á tilteknum degi (eða dögum) eða hefst á tilteknum degi sem ákveðinn er við útgáfu. Meðtalin eru einnig framseljanleg lán sem eru gefin út í miklum fjölda sams konar skjala og sem er verslað með á skipulögðum markaði (eftirmarkaði).

Peningamarkaðsbréf: Markaðsverðbréf sem útgefin eru af fjármálafyrirtækjum og hafa mikið lausafjárgildi vegna þess að verslað er með þau á peningamörkuðum (þ.e. mörkuðum þar sem velta er mikil og fjárhæðir eru háar og hægt er að breyta bréfum án mikils fyrirvara og með litlum tilkostnaði í reiðufé og bréf á slíkum markaði eru ólíkleg til að gjaldfalla og bera óverulega vaxtaáhættu) þar sem þátttakendur eru aðallega fjármálastofnanir.

2. gr.

Bindiskyldir aðilar.

Reglur þessar gilda um útreikning og greiðslu bindiskyldu eftirfarandi fjármálafyrirtækja (lánastofnana):

  1. Fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi skv. 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
  2. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem fengið hafa staðfestu og samsvarandi starfsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 31. gr. laga nr. 161/2002 og starfa hér á landi.
  3. Útibú erlendra fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahags­svæðisins sem fengið hafa heimild Fjármálaeftirlitsins skv. 33. gr. laga nr. 161/2002 enda hafi fyrirtækið hliðstætt starfsleyfi og 1., 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga kveður á um í heimaríkinu, starfsemin sem fyrirtækið stundar hér á landi sé sambærileg og að starfsemi fyrirtækisins sé háð sambærilegu fjármála­eftirliti og lög nr. 87/1998 kveða á um í heimaríkinu.

Bindiskylda nær til viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja sem heimilt er skv. lögum að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar og fjármála­fyrirtækja sem starfa á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 og eru ekki bundin af ákvæðum sérlaga eða fjárlaga hverju sinni um öflun fjár til starfsemi sinnar. Sama gildir um útibú samsvarandi erlendra fjármálafyrirtækja sem starfa hér á landi, sbr. 2. og 3. tl. 1. mgr. 4. gr.

Bindiskylda skal reiknuð út á grundvelli upplýsinga sbr. 7. gr. sem skilað skal á þar til gerðu eyðublaði til upplýsingasviðs Seðlabankans.

Undanþegin bindiskyldu eru útibú íslenskra fjármálafyrirtækja, sbr. 1. tl. 1. mgr. 4. gr. sem starfa utan Íslands. Með útibúi er átt við starfsstöð sem að lögum er hluti af fjármálafyrirtæki og annast beint, að öllu leyti eða að hluta þá starfsemi sem fram fer hjá fjármálafyrirtækjum.

3. gr.

Bindigrunnur.

Eftirfarandi skuldaliðir mynda bindigrunn bindiskylds fjármálafyrirtækis:

  1. Innlán.
  2. Útgefin skuldabréf.
  3. Peningamarkaðsbréf.

Eftirfarandi skuldaliðir teljast ekki með í bindigrunni:

  1. Skuldir við Seðlabanka Íslands
  2. Endurhverf viðskipti.
  3. Skuldir bindiskylds fjármálafyrirtækis við annað bindiskylt fjármálafyrirtæki.

4. gr.

Bindihlutföll.

Bindihlutfall 0% á við um eftirfarandi liði í bindigrunni:

  1. Innlán með umsömdum binditíma lengri en tvö ár.
  2. Innlán sem eru uppsegjanleg með lengri en tveggja ára uppsagnarfresti.
  3. Skuldabréf með umsömdum lánstíma lengri en tvö ár.

Bindihlutfall 2% á við um alla aðra liði í bindigrunni.

5. gr.

Bindifjárhæð.

Eftir útreikning bindiskyldu hverju sinni skal bindifjárhæðin, ásamt áföllnum ófærðum vöxtum hennar, vera margfeldi bindigrunns og bindihlutfalls eins og skilgreint er í 3. og 4. gr. reglna þessara.

Vanræki bindiskylt fjármálafyrirtæki að skila sundurliðunarblaði vegna útreiknings bindiskyldu til Seðlabankans innan þeirra tímamarka, sem greind eru í 7. gr. reglna þessara, er bankanum heimilt að úrskurða bindiskylda fjárhæð á grundvelli meðaltals tveggja síðustu sundurliðunarblaða vegna útreiknings bindiskyldu sem borist hafa frá viðkomandi fjármálafyrirtæki auk 10% álags fyrir hvern mánuð og hlutfallslega fyrir brot úr mánuði.

6. gr.

Uppgjör bindingar.

Útreikningur bindifjárhæðar fer fram fyrir 21. hvers mánaðar og miðast við upplýsingar um meðalstöðu bindigrunns sbr. 4., 5. og 7. gr. við lok síðustu tveggja mánaða. Bindi­tímabil er frá og með 21. hvers mánaðar til og með 20. næsta mánaðar og skal bindi­skyldum fjármálafyrirtækjum tilkynnt fyrir upphaf þess um bindifjárhæð.

Bindiskyld fjármálafyrirtæki skulu sjá til þess að innstæða þeirra á viðskiptareikningi í Seðlabankanum sé að meðaltali á hverju binditímabili eigi lægri en tilkynnt bindifjárhæð. Sé innstæða á viðskiptareikningi að meðaltali á binditímabili lægri en tilskilin bindifjárhæð reiknar Seðlabankinn dagsektir skv. 1. mgr. 2. gr. gildandi reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta á þá fjárhæð sem á vantar að meðalinnstæða viðskiptareiknings nái tilskilinni bindifjárhæð og skulu viðurlögin skuldfærð á viðskiptareikning viðkomandi fjármálafyrirtækis að liðnum að minnsta kosti sjö dögum frá því að ákvörðun um dag­sektir var kynnt aðila sbr. 3. mgr. 6. gr. nefndra reglna. Um ákvörðun dagsekta, kæru­heimild og innheimtu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði 6., 7. og 8. gr. ofan­greindra reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta.

Bankastjórn ákveður sérstaklega vexti bindifjár en meðalinnstæða á viðskiptareikningi umfram bindifjárhæð ber vexti sem bankastjórn ákveður fyrir viðskiptareikninga bindi­skyldra fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum.

7. gr.

Skýrsluskil.

Sundurliðunarblað vegna útreiknings bindiskyldu frá bindiskyldum fjármálafyrirtækjum þar sem fram koma upplýsingar um bindigrunn í samræmi við skilgreiningar í 3. og 4. gr. reglna þessara skal hafa borist upplýsingasviði Seðlabankans eigi síðar en 11. dag hvers mánaðar eða næsta dag þar á undan ef skiladag ber upp á almennan frídag banka­manna.

8. gr.

Milliganga um bindiskyldu.

Með samþykki Seðlabankans er einu bindiskyldu fjármálafyrirtæki heimilt að fela öðru bindiskyldu fjármálafyrirtæki að annast bindiskyldu fyrir sína hönd. Eigi að síður skulu öll bindiskyld fjármálafyrirtæki láta Seðlabankanum í té upplýsingar skv. 7. gr. Bankinn mun tilkynna þeim fjármálafyrirtækjum sem annast bindiskyldu fyrir önnur fjármálafyrirtæki bindifjárhæðir þeirra. Heildarbindifjárhæð þess fjármálafyrirtækis, sem fer með bindi­skyldu fyrir önnur bindiskyld fjármálafyrirtæki, skal vera jöfn samtölu bindi­fjárhæðar þess og hvers þess fyrirtækis sem það fer með bindiskyldu fyrir.

Bindiskyld fjármálafyrirtæki sem fela öðrum bindiskyldum fjármálafyrirtækjum að annast uppfyllingu bindiskyldu skulu tilkynna Seðlabankanum þar um með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og uppsögn slíks samkomulags skal tilkynnt bankanum með a.m.k. 3 mánaða fyrirvara. Aðilar að slíku fyrirkomulagi skulu gera með sér sérstakan samning þar sem meðal annars komi fram að vanefndir einstakra aðila á uppfyllingu bindiskyldu beri sömu viðurlög og tilgreind eru í 6. gr. þessara reglna. Samningar þessir skulu háðir stað­festingu Seðlabankans.

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 36/2001, um Seðla­banka Íslands, taka gildi 21. apríl 2008. Frá sama tíma falla úr gildi reglur um bindi­skyldu nr. 879 frá 30. september 2005. Reglurnar gilda fyrst við útreikning bindiskyldu 21. apríl 2008.

Reykjavík, 15. apríl 2008.

Seðlabanki Íslands,

Davíð Oddsson,
formaður bankastjórnar.

Eiríkur Guðnason
bankastjóri.

B deild - Útgáfud.: 18. apríl 2008