Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 122/2014

Nr. 122/2014 22. desember 2014
LÖG
um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum (eiginfjármarkmið og ráðstöfun hagnaðar).

HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

1. gr.

    Á eftir k-lið 28. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: Staðfesta ákvörðun bankans um eiginfjármarkmið og ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar, sbr. 34. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:

  1. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Um gerð ársreiknings fer, eftir því sem við á, eftir lögum um ársreikninga, lögum um bókhald og reglum settum á grundvelli þeirra laga.
  2. Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
        Eigið fé sem er innkallanlegt, sbr. 3. mgr. 34. gr., en ekki innborgað skal sýna meðal eiginfjárreikninga. Jafnframt skal dreginn frá sá hluti sem er óinnborgaður.
        Við reikningsskil Seðlabankans er heimilt að halda sérstaka reikninga meðal eiginfjárreikninga sem taka til óinnleystra tekna og gjalda.

3. gr.

    34. gr. laganna orðast svo:

    Seðlabanki Íslands skal búa yfir fjárhagslegum styrk sem geri honum kleift að rækja lögbundið hlutverk sitt. Í því skyni skal Seðlabankinn á hverju ári ákveða eiginfjár­markmið fyrir bankann. Eiginfjármarkmiðið endurspeglar þörf bankans fyrir eigið fé og vaxtaberandi eignir og skal það taka mið af kostnaði af rekstri bankans og þeirri áhættu og óvissu sem bankinn stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Ákvörðun um eiginfjár­markmið, staðfest af bankaráði, skal birt í ársskýrslu bankans, sbr. 30. gr.
    Árlegur hagnaður Seðlabankans á liðnu rekstrarári, að teknu tilliti til óinnleystra reikn­aðra tekna og gjalda, sbr. 3. mgr. 32. gr., skal renna í ríkissjóð svo fremi sem honum er ekki ráðstafað til að efla eigið fé bankans. Greiðsla fer fram eigi síðar en 30. apríl hvert ár. Ákveði bankinn að ráðstafa hagnaði til eflingar á eigin fé, að hluta eða í heild, skal það gert til að uppfylla eiginfjármarkmið, sbr. 1. mgr., og að fenginni umsögn ráðherra. Skal bankinn þá kynna ráðherra mat sitt á eiginfjármarkmiði og ráðstöfun hagnaðar til næstu þriggja ára.
    Ríkissjóður skuldbindur sig, á grundvelli heimildar í fjárlögum, til að leggja Seðla­bankanum til eigið fé í formi markaðshæfra eigna samkvæmt innköllun bankans þar að lútandi, enda telji bankinn það nauðsynlegt í þeim tilgangi að uppfylla lágmarkskröfur um inn­borgað eigið fé. Heildarfjárhæð innkallanlegs eigin fjár samkvæmt þessari máls­grein er 52 milljarðar kr. Eftirstöðvar innkallanlegs eigin fjár færast upp við hver áramót með hækkun vísitölu neysluverðs. Í fjárlögum skal miða gildi vísitölunnar við 1. janúar á því ári þegar frumvarp til þeirra laga er lagt fram. Heimilt er ráðherra, f.h. hönd ríkis­sjóðs, og Seðlabanka Íslands að gera með sér samkomulag um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistökuna verður heimilt að lækka stofnfé ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands um 26 milljarða kr.

Gjört í Reykjavík, 22. desember 2014.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Markús Sigurbjörnsson.

(L. S.)

Bjarni Benediktsson.

A deild - Útgáfud.: 30. desember 2014