Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 72/2012

Nr. 72/2012 3. júlí 2012
LÖG
um breytingu á lögum um nauðungarsölu, lögum um aðför, lögum um meðferð einkamála, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (auglýsing nauðungarsölu, mál til heimtu bóta, gjafsókn, vörslusviptingar, úthlutun úr þrotabúi).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.
1. gr.
    Á eftir orðinu „dagblaði“ í 2. mgr. 26. gr. laganna kemur: á vef sýslumanna.

2. gr.
    Á eftir orðinu „dagblaði“ í 1. málsl. 1. mgr. 64. gr. laganna kemur: á vef sýslumanna.

3. gr.
    Í stað orðsins „þrír“ í 88. gr. laganna kemur: sex.

4. gr.
    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Fram til ársloka 2013 skal frestur til að höfða mál til heimtu bóta skv. 88. gr. vera tólf mánuðir.

    b. (II.)
    Sýslumaður skal gæta þess af sjálfsdáðum að uppboðsandvirði verði ekki ráðstafað til greiðslu kröfu ef hún er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána.

II. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
5. gr.
    Í stað orðsins „þrír“ í 98. gr. laganna kemur: sex.

6. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til ársloka 2013 skal frestur til að höfða mál til heimtu bóta skv. 98. gr. vera tólf mánuðir.

III. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991,     með síðari breytingum.
7. gr.
    Í stað 1. mgr. 126. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:
    a.    að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,
    b.    að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.
8. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 2. mgr. 22. gr. er fjármálafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum í slitameðferð ekki heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu með vörslusviptingu ef krafan er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána. Dómari tekur afstöðu til þess hvort réttur fjármálafyrirtækis sé svo ótvíræður að heimila megi vörslusviptingu.
    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæði þessu, sbr. 110. gr.
    Ákvæði þetta gildir til loka árs 2013.

V. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991,
með síðari breytingum.

9. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Skiptastjóri skal, við úthlutun skv. XXII. kafla, gæta þess af sjálfsdáðum að söluvirði eignar verði ekki ráðstafað til greiðslu kröfu ef hún er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána.

10. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 7. gr. gildi 15. júlí 2012.

Gjört á Bessastöðum, 26. júní 2012.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Katrín Jakobsdóttir.

A deild - Útgáfud.: 3. júlí 2012