Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 28/2014

Nr. 28/2014 4. apríl 2014
LÖG
um breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir (framkvæmd fyrirmæla, tilkynning um viðskipti o.fl.).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skyldur við framkvæmd fyrirmæla á skipulegum verðbréfamarkaði.

    Við framkvæmd viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eru fjármálafyrirtæki ekki skuldbundin til þess að framfylgja skyldum skv. II. kafla þegar viðskipti eru framkvæmd þeirra á milli. Hins vegar skulu fjármálafyrirtæki framfylgja skyldum skv. II. kafla gagn­vart viðskiptavinum sínum þegar þau framkvæma viðskiptafyrirmæli fyrir þeirra hönd á skipulegum verðbréfamarkaði.

2. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna bætist: við upphaf viðskiptasambands.

3. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Fjármálafyrirtæki er skylt að tilkynna um viðskipti með fjármálagerninga skv. 1. mgr. með einkvæmu auðkenni (kennitölu). Sé einkvæmt auðkenni (kennitala) ekki til staðar skal fjármálafyrirtæki tilkynna um viðskipti með fjármálagerninga á öðru formi sem Fjármálaeftirlitið ákveður.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:

  1. Í stað orðanna „skipulegs verðbréfamarkaðar“ í 2. mgr. kemur: markaðstorgs.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

        Ef viðskipti með framseljanleg verðbréf, sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum markaði, fara einnig fram á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) án samþykkis útgefanda er útgefandinn ekki skuldbundinn til að annast viðvarandi eða sérstaka fjárhagslega upplýsingagjöf um verðbréfin á því markaðstorgi.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 110/2007, um kauphallir,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ráðstafanir vegna miðlægs mótaðila og greiðslujöfnunar og uppgjörs.

    Skipulegum verðbréfamörkuðum er heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir vegna mið­lægs mótaðila eða greiðslujöfnunarstöðvar og uppgjörskerfis í öðru ríki á Evrópska efna­hagssvæðinu í því skyni að greiðslujafna eða gera upp sum eða öll viðskipti sem mark­aðs­aðilar í þeirra kerfum ganga frá.
    Lögbært yfirvald skipulegs verðbréfamarkaðar má ekki hamla notkun miðlægs mót­aðila, greiðslujöfnunarstöðva eða uppgjörskerfa í öðru ríki á Evrópska efna­hags­svæðinu nema sýnt sé fram á að það sé nauðsynlegt til að viðhalda skipulegri starf­semi þess skipulega markaðar og að teknu tilliti til tæknilegra skilyrða um uppgjörs­kerfi skv. 27. gr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 4. apríl 2014.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.

A deild - Útgáfud.: 7. apríl 2014