Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1157/2007

Nr. 1157/2007 15. nóvember 2007
REGLUR
um háskólafund Háskólans á Akureyri.

I. Hlutverk háskólafundar.

1. Háskólafundur er samráðsvettvangur fulltrúa yfirstjórnar skólans, háskóladeilda, háskólaskrifstofu auk fulltrúa nemenda og kennara. Skal fundurinn vera vettvangur fyrir umræðu um fagleg málefni innan skólans sem og varðandi akademíska stefnumótun.

2. Háskólafundur mótar sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans og leitast við að efla og styrkja þróun hans.

3. Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans.

4. Fundurinn telst ályktunarbær um hvaðeina sem snýr að vísinda- og menntastefnu háskólans, sem og um önnur þau málefni sem háskólaráð ákveður sérstaklega að vísa til hans.

5. Háskólafundur tjáir sig um mál í formi ályktana, en um er að ræða umræðuvettvang og ráðgefandi umsagnaraðila um þau mál sem tekin eru til umfjöllunar skv. dagskrá fundarins.

6. Ákvörðunum háskólaráðs eða annarra þar til bærra stofnana háskólans verður ekki skotið til háskólafundar til ákvörðunar.

7. Háskólafund skal halda a.m.k. einu sinni á ári, en rektor stýrir fundi og boðar til hans.

8. Rektor skal kynna ályktanir háskólafundar á vettvangi háskólans.

II. Skipan háskólafundar.

1. Á háskólafundi eiga eftirfarandi fulltrúar rétt til setu:

 

a)

Fulltrúar í háskólaráði, deildarforsetar, staðgenglar deildarforseta, fram­kvæmdastjóri, gæðastjóri og forstöðumenn sviða háskólaskrifstofu.

 

b)

Deildir tilnefna hver um sig einn fulltrúa úr hópi fastra kennara, prófessorar tilnefna einn, félag háskólakennara tilnefnir einn, starfsmenn háskólaskrifstofu tilnefna einn og skulu þeir allir tilnefndir til tveggja ára í senn, auk varamanna þeirra.

 

c)

Af hálfu nemenda formaður og varaformaður FSHA eða staðgenglar þeirra.

III. Framkvæmd háskólafundar.

1. Boða skal til háskólafundar með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara, en með fundarboði skulu fylgja drög að dagskrá fundarins.

2. Ef fulltrúar á háskólafundi vilja leggja fyrir fundinn tillögur til ályktana skulu þær ásamt greinargerð hafa borist til skrifstofu rektors eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðan fund.

3. Endanleg dagskrá ásamt með fundargögnum skal send fulltrúum á háskólafundi eigi síðar en einni viku fyrir boðaðan fund.

4. Á háskólafundi skulu eftirtalin mál jafnan tekin til meðferðar og afgreiðslu:

 

a)

Framsaga af hálfu rektors um sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans.

 

b)

Þau mál sem háskólaráð hefur sérstaklega ákveðið að vísa til háskólafundar.

 

c)

Tillögur að ályktunum um tiltekin málefni frá fulltrúum sem teljast eiga rétt til setu á háskólafundi og bárust skrifstofu rektors í því formi og innan þeirra tímamarka sem áskilið er í 2. mgr.

 

d)

Fulltrúar á háskólafundi geta mælt fyrir um tillögur frá öðrum aðilum sem starfa á vegum háskólans með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í c-lið hér að framan.

IV. Almenn ákvæði.

1. Háskólafundur setur sér nánari reglur um fundarsköp.

2. Ef ágreiningur rís um túlkun þessara reglna skal rektor skera úr, en ágreiningi um slíka ákvörðun rektors má vísa til háskólaráðs til endanlegrar ákvörðunar á vettvangi háskólans.

3. Reglur þessar eru settar af háskólaráði samkvæmt 6. mgr. 12. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 466/2007 og öðlast þegar gildi.

Háskólanum á Akureyri, 15. nóvember 2007.

Þorsteinn Gunnarsson rektor.

Sólveig Ása Árnadóttir,
varaforseti háskólaráðs.

B deild - Útgáfud.: 10. desember 2007