Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 595/2006

Nr. 595/2006 27. júní 2006
REGLUR
um rannsóknarnám í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

I. Almennt.

1. gr.
Námsleiðir.

Við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands er hægt að stunda framhaldsnám til M.S.-prófs, M.A.-prófs, M.Acc.-prófs og doktorsprófs.

II. Um meistaranám.

2. gr.
Meistaranámsnefnd.

Í deildinni starfar meistaranámsnefnd sem hefur yfirumsjón með málefnum M.S.-, M.A.- og M.Acc.-námsleiðanna. Hlutverk hennar er m.a. að fjalla um umsóknir og samþykkja námsáætlanir, hafa eftirlit með gæðum kennslu, tilnefna prófdómara og sinna öðrum málum sem deild kann að fela henni.

3. gr.
Umsóknarfrestur.

Einungis eru teknir inn nýnemar í meistaranám á haustmisseri. Umsóknarfrestur er til 15. apríl.

4. gr.
Meðferð umsókna.

Umsóknum skal skilað til viðskipta- og hagfræðideildar. Meistaranámsnefnd fjallar um umsóknir og tekur faglega afstöðu til þeirra.

Ferli umsókna um meistaranám:

a)   Umsækjandi sækir skriflega um inngöngu í meistaranám og tiltekur á hvaða námsleið hann vill fara.

b)   Meistaranámsefnd fjallar um umsóknina.

c)   Deildin synjar nemanda ef umsókn bendir til ónógs undirbúnings eða samþykkir umsókn og tilkynnir niðurstöðu bréflega.

5. gr.
Inntökuskilyrði.

B.A.-, B.S.- eða cand. oecon.-próf í viðskiptafræði eða hagfræði eða annað sambærilegt próf er skilyrði fyrir inntöku í M.S.-nám en B.A.- eða B.S.-próf í öðrum greinum nægir einnig til inngöngu í M.A.-nám. B.S.-próf í viðskiptafræði með áherslu á fjármál og reikningshald (BS-F) er nægilegur undirbúningur fyrir M.Acc.-nám.

Nemendur þurfa að ljúka grunnnámi eigi síðar en að vori til þess að eiga rétt á að hefja meistaranám að hausti. Í undantekningartilfellum geta nemendur sem ekki ljúka B.S./B.A.-námi í júní fengið frest til 1. september til að ljúka námi.

Að jafnaði er krafist fyrstu einkunnar í grunnnámi. Þeir sem ekki fullnægja þessari almennu kröfu geta átt von á því að kallað verði eftir frekari upplýsingum eða þeir teknir í viðtal þar sem kunnátta, starfsreynsla og annar undirbúningur er metinn.

Meistaranámsnefnd hefur heimild til þess að hafna umsækjendum sem annars teljast hæfir í því skyni að tryggja nemendum fullnægjandi aðstöðu.

Nemendur sem hafa lokið B.A.-prófi, B.S.-prófi eða sambærilegu prófi í öðrum greinum geta sótt undirbúningsnám í viðskiptafræði eða hagfræði og fengið inngöngu í meistaranámið (M.S.- og M.Acc.-nám) að því loknu. Að jafnaði er krafist fyrstu einkunnar úr grunnnámi.

Meistaranámsnefnd ákveður hvaða námskeið hver nemandi þarf að taka á grundvelli fyrra náms og reynslu umsækjanda. Nemendur í undirbúningsnámi þurfa að fullnægja sömu kröfum og nemendur í grunnnámi í einstökum námskeiðum en auk þess er m.a. tekið mið af meðaleinkunn í undirbúningsnámi við ákvörðun um inntöku í meistaranám. Að jafnaði er krafist fyrstu einkunnar í sjálfu undirbúningsnáminu.

6. gr.
Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám (til M.S.- og M.A.-prófs) er 45 eða 60 einingar og M.Acc.- námið 45 einingar. Nemendur í M.S.- og M.A.-námi sitja námskeið til 30 eininga og skrifa auk þess ritgerð sem getur verið ýmist 15 eða 30 einingar.

Miðað við fullan námshraða og 15 eininga lokaritgerð svarar námið til þriggja missera, en fjögurra missera sé ritgerðin 30 einingar. Nemendur í M.Acc.-námi taka 15 námskeið, alls 45 einingar, en skrifa ekki ritgerð.

Til að ljúka tveimur meistaraprófum (M.S. eða M.A.) frá deildinni þarf nemandi að ljúka öllum skyldunámskeiðum á hvoru sviði og sitja samanlagt námskeið til minnst 45 eininga. Þá þarf hann að skrifa tvær sjálfstæðar (15 eða 30 eininga) ritgerðir.

7. gr.
Námskeið í grunnnámi sem hluti af framhaldsnámi.

Ekki er heimilt að nýta námskeið í grunnnámi sem námskeið í meistaranámi.

Þegar sérstaklega stendur á er þó heimilt að meta námskeið sem skilgreint er á meistarastigi, en viðkomandi nemandi hefur tekið sem hluta af B.S.-prófi sínu eða sambærilegri prófgráðu. Meistaranámsnefnd ákveður hverju sinni hvort forsendur eru til þess að meta einstakt námskeið með þessum hætti og skal þá að jafnaði binda ákvörðun sína því skilyrði að nemandi bæti við sig tilteknu námskeiði á B.S.- eða meistarastigi til jafnmargra eininga og hann fær metnar með þessum hætti.

Heimilt er að samnýta að einhverju leyti fyrirlestra fyrir bæði grunnnáms- og meistaranámskeið en námskröfur skulu vera aðrar fyrir meistaranemendur en grunnnámsnemendur.

8. gr.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra kennara á viðkomandi sérsviði, sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Umsjónarmaður námsbrautar í meistaranámi kann þó að taka þetta hlutverk að sér gagnvart nemendum í viðkomandi námsbraut.

Leiðbeinandi leiðbeinir nemanda í lokaverkefni. Umsjónarkennari getur einnig verið leiðbeinandi. Heimilt er að hafa tvo eða fleiri leiðbeinendur og bera þeir þá sameiginlega ábyrgð á að leiðbeina nemandanum.

9. gr.
Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinenda.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi skal ávallt vera lektor, dósent eða prófessor í viðkomandi grein. Verkefni nemandans skal vera á sérsviði leiðbeinandans.

Leiðbeinendur skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Leiðbeinandi meistaranema skal hafa lokið meistaraprófi hið minnsta.

10. gr.
Meistaraprófsnefnd.

Kjósi meistaranemi í M.S.- eða M.A.-námi að skrifa 30 eininga ritgerð skal hann senda umsókn til meistaranámsnefndar. Nefndin tilnefnir mann til að sitja í meistaraprófsnefnd fyrir nemandann ásamt leiðbeinanda hans. Meistaranámsnefndin tilnefnir einnig prófdómara sem leggur mat á ritgerðina ásamt meðlimum meistaraprófsnefndar. Meistaraprófsnefnd skal prófa nemanda munnlega úr efni ritgerðarinnar. Prófdómarar og meðlimir meistaraprófsnefndar skulu vera sérfróðir á viðkomandi fræðasviði og hafa lokið meistaraprófi hið minnsta.

11. gr.
Prófdómarar í meistaranámi.

Prófdómari skal ávallt leggja mat á lokaverkefni meistaranema í M.S.- eða M.A.-námi ásamt meistaraprófsnefnd þegar um 30 eininga ritgerð er að ræða en ásamt leiðbeinanda ef um 15 eininga ritgerð er að ræða. Séu tveir eða fleiri fastir kennarar í deildinni leiðbeinendur nemandans við gerð 15 eininga ritgerðar leggja þeir allir mat á ritgerðina auk prófdómara.

Meistaranámsnefnd tilnefnir prófdómara.

12. gr.
Lærdómstitlar í meistaranámi.

Þeir sem ljúka rannsóknatengdu meistaraprófi í viðskiptafræði eða hagfræði í deildinni fá lærdóms­titilinn Magister Scientiarum (M.S.), þeir sem ljúka rannsókna­tengdu meistara­námi í mannauðs­stjórnun lærdóms­titilinn Magister Artium (M.A.) og þeir sem ljúka meistara­námi í reikningshaldi og endur­skoðun lærdómstitilinn Master of Accounting (M.Acc.)

III. Um doktorsnám.

13. gr.
Doktorsnámsnefnd.

Í deildinni starfar doktorsnámsnefnd sem hefur yfirumsjón með málefnum doktors­námsins. Hlutverk hennar er að hafa yfir­umsjón með náminu, að fjalla um umsóknir og samþykkja náms­áætlanir, að tilnefna próf­dómara og sinna öðrum málum sem deild kann að fela henni.

14. gr.
Umsóknarfrestur.

Tekið er við umsóknum í doktorsnám allt árið.

15. gr.
Meðferð umsókna.

Umsóknum skal skilað til viðskipta- og hagfræðideildar. Doktorsnámsnefnd fjallar um umsóknir og tekur faglega afstöðu til þeirra. Umsóknum skal fylgja ítarleg greinargerð um námsáætlun og rannsóknarverkefnið og samþykki tilvonandi leiðbeinanda.

Ferli umsókna um doktorsnám:

a)   Umsækjandi skrifar rannsóknaráætlun þar sem fram kemur stutt yfirlit yfir viðkomandi fræðasvið og lýsing á fyrirhugaðri rannsókn.

b)   Umsækjandi finnur sér leiðbeinanda.

c)   Umsækjandi sækir um inngöngu í doktorsnám á sérstöku eyðublaði.

d)   Greint skal frá því hvort umsækjandi hyggst sækja um fjárstuðning í tengslum við námið (t.d. til Rannsóknarnámssjóðs). Liggi fyrir drög að umsókn til sjóða skulu þau fylgja umsóknum.

e)   Doktorsnámsnefnd tekur afstöðu til umsóknar.

f)   Deildin synjar nemanda ef umsókn uppfyllir ekki gæðakröfur eða ef enginn hæfur leiðbeinandi er fyrir hendi, en samþykkir umsóknina annars og tilkynnir niðurstöðu bréflega.

16. gr.
Inntökuskilyrði.

Meistarapróf í viðskiptafræði eða hagfræði með framúrskarandi árangri er að jafnaði skilyrði fyrir inntöku í doktorsnám.

Í tilvikum þar sem um þverfaglegt doktorsnám er að ræða getur inntökuskilyrði verið framúrskarandi meistarapróf af öðru fræðasviði. Í slíkum tilvikum byggist inntaka nemanda á sérstökum rökstuðningi fyrir því að skráning í viðskipta- og hagfræðideild sé hinu þverfaglega doktorsnámi til framdráttar.

17. gr.
Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám er 90 einingar hið minnsta og miðað við fullan námshraða tekur það 3 ár. Deild getur að fenginni tillögu doktorsnámsnefndar sett reglur um lágmarks námshraða. Standist nemandi ekki þær reglur getur rannsóknarnámsnefnd fellt niður skráningu nemandans í námið.

18. gr.
Uppbygging doktorsnáms.

Doktorsnám felst einkum í rannsókn sem lýkur með doktorsritgerð. Þó geta bæði doktorsnámsnefnd og leiðbeinandi saman eða hvort í sínu lagi gert kröfu um að nemandi í doktorsnámi ljúki einnig námskeiðum. Leiðbeinandi nemanda gerir þá tillögu að áætlun fyrir þennan hluta námsins og leggur fyrir doktorsnámsnefnd. Hluti námskeiðanna getur verið lesnámskeið og skal þá doktorsnámsnefnd tilnefna umsjónarmann eða menn með hverju námskeiði. Umsjónarmenn ákveða kröfur í viðkomandi námskeiðum og skera úr um hvort nemandi hafi staðist þær.

19. gr.
Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinenda.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi skal ávallt vera lektor, dósent eða prófessor í viðkomandi grein. Verkefni nemandans skal vera á sérsviði leiðbeinandans.

Leiðbeinendur skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Leiðbeinandi skal hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess.

20. gr.
Doktorsnefndir.

Doktorsnefnd skal skipuð þremur til fimm mönnum sem doktorsnámsnefnd tilnefnir og skal a.m.k. einn þeirra vera utan deildar. Doktorsnefnd kveður doktorsefni á sinn fund eftir því sem þurfa þykir meðan á náminu stendur og prófar doktorsnemann í almennri fræðilegri þekkingu og rannsóknaraðferðum á viðkomandi sviði. Slíkt próf skal fyrst fara fram um miðbik námsins og svo undir lok námsins.

Áður en nemandi getur skilað af sér fullbúinni ritgerð til doktorsvarnar skilar doktorsnefndin rökstuddu áliti til deildar um það hvort gefa skuli doktorsefni kost á að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar.

Meðlimir doktorsnefndar skulu vera sérfróðir á viðkomandi fræðasviði og hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess.

21. gr.
Prófdómarar í doktorsnámi.

Andmælendur við doktorsvörn skulu vera tveir óháðir aðilar, sem ekki eiga sæti í doktorsnefnd. Deildarfundur tilnefnir andmælendur. Annar andmælandinn skal vera utan deildar en hinn má vera innan deildar.

22. gr.
Kynning rannsókna.

Doktorsnemar verja ritgerðir sínar í samræmi við reglur skólans um doktorsvarnir.

23. gr.
Námsmat og eftirlit með námsframvindu.

Nemendur skulu skila framvinduskýrslu til doktorsnámsnefndar fyrir 15. febrúar ár hvert. Leiðbein­endur doktors­nema skulu einnig skila fram­vindu­skýrslu um hvern doktors­nema á sama tíma. Ef fram­vindu­skýrslum er ekki skilað á réttum tíma þá getur doktors­námsnefnd fellt skráningu viðkomandi nem­anda úr gildi. Í því tilviki þarf að sækja sérstak­lega til nefndarinnar um framhald náms. Ef doktor­snámsnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að ástundun doktors­nema sé ófull­nægjandi þá getur hún sett nemandanum frest til þess að bæta ráð sitt. Ef slíkur frestur hefur áður verið veittur en frammistaða telst enn vera ófull­nægjandi þá getur nefndin fellt skráningu nemanda úr gildi.

Nemar í doktorsnámi skulu halda hið minnsta eina málstofu á ári í deildinni nema sérstakar aðstæður komi í veg fyrir slíkt og skal þá senda skriflega skýringu til doktorsnámsnefndar.

Í doktorsnámi eru ekki gefnar einkunnir að öðru leyti en því að lagt er mat á hvort nemandi hafi staðist þær kröfur sem gerðar eru í hverjum hluta námsins.

24. gr.
Skil og frágangur lokaverkefna.

Ritgerðum skal skilað til deildar.

Frestur til að skila fullbúinni doktorsritgerð rennur út tveimur mánuðum fyrir dagsetningu fyrirhugaðrar varnar. Koma skal fram hverjir leiðbeinendur eru og eftir atvikum meðlimir doktorsnefnda.

Doktorsritgerð skal skilað í nægum fjölda eintaka til að meðlimir doktorsnefndar og prófdómarar fái eitt eintak hver og tvö eintök gangi af. Deild varðveitir eitt eintak af doktorsritgerðum.

Hverri doktorsritgerð skal fylgja útdráttur á íslensku og ensku. Koma skal skýrt fram að verkefnið er unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða háskólans sem styrkt hafa verkefnið.

Í öllum tilvikum kemur deildin einu eintaki af ritgerð til Landsbókasafns Íslands -Háskólabókasafns.

25. gr.
Lærdómstitlar.

Þeir sem ljúka doktorsprófi fá lærdómstitilinn Philosophiae Doctor (Ph.D.)

26. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið af deildarfundi í viðskipta- og hagfræðideild og hlotið staðfestingu háskólaráðs, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og ákvæði VI. kafla sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1043/2003, um rannsóknarnám í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 41/1999 skal birta reglur þessar í kafla viðskipta- og hagfræðideildar í kennsluskrá og á heimasíðu deildarinnar.

Háskóla Íslands, 27. júní 2006.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 17. júlí 2006