Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 515/2015

Nr. 515/2015 22. maí 2015

STARFSREGLUR
verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar.

1. gr.

Gildissvið.

Starfsreglur þessar gilda um starfsemi verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar skv. lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.

2. gr.

Skipan verkefnisstjórnar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipar verkefnisstjórn, formann hennar og varamenn í sam­ræmi við 8. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. gr.

Hlutverk formanns verkefnisstjórnar.

Formaður er ráðherra til ráðgjafar við undirbúning og gerð tillagna fyrir verndar- og orku­nýtingar­áætlun.

Formaður verkefnisstjórnar ber meginábyrgð á starfsemi verkefnisstjórnar og skal stuðla að opnum samskiptum og virkni í allri ákvarðanatöku hennar. Formaður er tengiliður verk­efnis­stjórnar við umhverfis- og auðlindaráðherra. Hlutverk formanns er m.a. að:

  1. Stýra fundum verkefnisstjórnar og semja dagskrá fyrir fundi verkefnisstjórnar,
  2. fylgja eftir ákvörðunum verkefnisstjórnar,
  3. vera í forsvari fyrir verkefnisstjórn,
  4. tryggja að fulltrúar í verkefnisstjórn fái nauðsynlegar upplýsingar og gögn, að allir fulltrúar fái sömu upplýsingar og að þær séu eins nákvæmar og unnt er,
  5. gera tillögu um endurskoðun starfsreglna þegar þörf er á.

4. gr.

Hlutverk fulltrúa í verkefnisstjórn.

Fulltrúar í verkefnisstjórn skulu þekkja lög og reglur sem varða verndar- og orku­nýtingar­áætlun og verksvið verkefnisstjórnar. Að öðru leyti skulu fulltrúar í verk­efnis­stjórn:

  1. Kynna sér gögn og upplýsingar sem þeir telja sig þurfa til að hafa skilning á við­fangs­efnum verkefnisstjórnar,
  2. gæta þess að persónuleg eða viðskiptatengd málefni þeirra hafi ekki áhrif á niður­stöður,
  3. halda trúnað um þau mál sem rædd eru og tekin til ákvörðunar á fundum verk­efnis­stjórnar og trúnaður þarf að ríkja um.

5. gr.

Verksvið verkefnisstjórnar.

Um verksvið verkefnisstjórnar fer samkvæmt 9. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orku­nýtingaráætlun og skv. erindisbréfi sem umhverfis- og auðlindaráðherra setur verkefnis­stjórninni hverju sinni. Verkefnisstjórn getur falið einstökum fulltrúum í verkefnis­stjórninni, einum eða fleiri, tiltekin mál til athugunar og undirbúnings afgreiðslu á verkefnis­stjórnar­fundi.

Verkefnisstjórn fjallar um virkjunarkosti og landsvæði í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 og tekur m.a. afstöðu til þess hvort endurmeta skuli virkjunarkosti og landsvæði sem gildandi áætlun nær til og beiðni hefur borist um að endurmetnir verði. Einnig getur verkefnisstjórn ákveðið að endurmeta slíka virkjunarkosti að eigin frumkvæði.

6. gr.

Verklag og málsmeðferð verkefnisstjórnar.

Við ákvörðun um endurmat virkjunarkosta og landsvæða sem gildandi áætlun nær til, skal verkefnisstjórn meta hvort til staðar séu nýjar upplýsingar um viðkomandi landsvæði eða virkjunarkosti sem líklegt er að hafi áhrif á mat á verðmætum eða á flokkun virkjunarkosta, svo sem upplýsingar um náttúrufar, breytta tækni, umhverfisáhrif eða aðra breytilega þætti. Sé það niðurstaða verkefnisstjórnar getur hún metið kostinn á ný.

Þegar ákvörðun verkefnisstjórnar liggur fyrir um það hvaða virkjunarkostir og landsvæði skuli metin eða endurmetin skal verkefnisstjórn afhenda faghópum lista yfir viðkomandi kosti, ásamt lýsingu á fyrirhugaðri virkjun sem Orkustofnun lætur verkefnisstjórn í té í sam­ræmi við ákvæði reglugerðar nr. 530/2014 um virkjunarkosti í verndar- og orku­nýt­ingar­áætlun.

Verkefnisstjórn og faghópar skulu beita samræmdum viðmiðum og almennt viðurkenndum aðferðum við mat og flokkun á virkjunarkostum og verndar- og nýtingargildi viðkomandi landsvæða. Aðferðir við undirbúning og gerð tillagna skulu taka mið af þeim aðferðum sem þróaðar hafa verið á vegum fyrri verkefnisstjórna og skulu faghópar vinna að endurbótum á þeim eftir því sem aukin þekking og aðrar aðstæður gefa tilefni til. Niðurstöður verk­efnis­stjórnar og faghópa skulu jafnan vera rekjanlegar, þannig að ljóst sé hvernig komist var að viðkomandi niðurstöðu.

Rannsóknir og upplýsingaöflun verkefnisstjórnar og faghópa taki mið af því að um heild­stætt frummat er að ræða. Markmið upplýsingaöflunar skal því fyrst og fremst vera að skapa heildarmynd af verndar- og nýtingargildi landsvæða og áhrifum orkunýtingar.

Áður en virkjunarkostur og landsvæði eru tekin til formlegrar umfjöllunar í faghópum skal fullnægjandi upplýsinga aflað um eftirfarandi þætti:

1) Jarðminjar og vatnafar

  1. berggrunnur
  2. jarðgrunnur
  3. vatnagrunnur
  4. fallvötn
  5. stöðuvötn

2) Lífverur

  1. plöntur
  2. fuglar
  3. fiskar
  4. smádýr í vatni
  5. hitakærar örverur

3) Vistkerfi og jarðvegur

  1. vistgerðir eða gróður
  2. jarðvegur

4) Landslag og víðerni

  1. landslag
  2. víðerni

5) Menningarminjar

  1. fornleifar
  2. saga
  3. þjóðtrú

6) Ferðaþjónusta og útivist

  1. upplifun ferðamanna
  2. afþreyingarmöguleikar
  3. innviðir
  4. notkun (fjöldi ferðamanna, nýting ferðaþjónustunnar)

7) Landnytjar

  1. veiðar í ám
  2. veiðar í vötnum
  3. ræktað land
  4. beitarhlunnindi
  5. aðrar nytjar

Verkefnisstjórn skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúru­fræði­stofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort fyrirliggjandi gögn varðandi einstaka virkjunarkosti eru nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orku­nýtingar­áætluninni. Teljist gögn ófullnægjandi skal verkefnisstjórn láta safna viðbótar­gögnum og vinna úr þeim áður en eiginlegt matsferli hefst.

Að fengnum tillögum faghópa tekur verkefnisstjórn ákvörðun um mörk landsvæða sem til­greind verða í endanlegri tillögu verkefnisstjórnar. Þessi mörk skulu hnitsett. Í rök­stuðn­ingi verkefnisstjórnar fyrir afmörkun landsvæða skal koma fram á hvaða forsendum flokkunin og afmörkun landsvæðanna er byggð.

Verkefnisstjórn leggur fyrir ráðherra rökstuddar tillögur um flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina. Um verklag og málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt 10. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

7. gr.

Fundir verkefnisstjórnar o.fl.

Fundir í verkefnisstjórn skulu haldnir að lágmarki mánaðarlega nema yfir sumarmánuðina. Í lok hvers fundar skal að jafnaði tekin ákvörðun um hvenær næsti fundur skuli haldinn. Formanni ber að kalla saman fund ef tveir fulltrúar í verkefnisstjórn krefjast þess.

Boða skal til fundar í verkefnisstjórn með hæfilegum fyrirvara. Geti aðalmaður ekki sótt fund skal hann boða varamann í sinn stað. Heimilt er að fulltrúar í verkefnisstjórn taki þátt í stjórnarstörfum með fjarfundabúnaði.

Fundarboð skal að jafnaði sent í tölvupósti og skal í því greina dagskrá fundarins. Fundar­gögn um einstök málefni á dagskrá skulu fylgja fundarboði eftir því sem við á, eða þeim dreift á fundi.

Telji formaður að ekki sé unnt vegna sérstakra aðstæðna að bíða þess að haldinn verði fundur í verkefnisstjórn getur hann tekið ákvörðun um fund með fjarfundabúnaði eða öðrum hætti eða að málefnið verði kynnt og afgreitt með rafrænum hætti. Ákvarðanir sem þannig eru teknar skulu lagðar fyrir næsta fund til staðfestingar og færðar til bókar.

Verkefnisstjórn fundar reglulega og eigi sjaldnar en ársfjórðungslega með formönnum fag­hópa.

Verkefnisstjórn ræðir reglulega stefnumótun, áherslur og vinnulag verkefnisstjórnarinnar.

8. gr.

Ákvörðunarvald, atkvæðagreiðslur o.fl.

Verkefnisstjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti fulltrúa í verkefnisstjórn sækir fund enda hafi fundurinn verið boðaður í samræmi við 6. gr.

Verkefnisstjórn skal leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu í málum, en sé þess ekki kostur ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum á fundum verkefnisstjórnar. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

9. gr.

Fundargerðir.

Formaður stjórnar skal sjá til þess að rituð sé fundargerð um það sem gerist á fundum verkefnisstjórnar og um ákvarðanir stjórnar.

Sératkvæði fulltrúa í verkefnisstjórn skulu skráð í fundargerð.

Fundargerð skal rituð rafrænt og send fulltrúum í verkefnisstjórn í tölvupósti. Hafi fulltrúar í verkefnisstjórn athugasemdir við drögin skulu þeir senda öðrum fulltrúum í verkefnisstjórn þær eða tilkynna að þeir samþykki fundargerðina. Fundargerð telst staðfest þegar allir fulltrúar í verkefnisstjórn hafa gefið samþykki sitt til kynna í tölvupósti. Fáist slíkt samþykki ekki skal fundargerðin borin upp til samþykktar á næsta fundi verkefnisstjórnar.

Samþykktar fundargerðir skulu birtar á heimasíðu verndar- og orkunýtingaráætlunar.

10. gr.

Þagnar- og trúnaðarskylda.

Fulltrúar í verkefnisstjórn hafa þagnarskyldu um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu í verkefnisstjórninni og leynt skulu fara samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2014 nema um sé að ræða málefni sem stjórn ákveður að gera opinber. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

11. gr.

Skipun faghópa.

Verkefnisstjórn skipar faghópa í samræmi við 1. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun og setur þeim erindisbréf. Faghópar skulu skipaðir sérfræðingum á viðeigandi sviðum eins og kveðið er á um í lögunum. Verkefnisstjórn skal leitast við að velja til setu í faghópum fulltrúa sem spanna þau fræðasvið sem viðkomandi faghópi er ætlað að fjalla um og uppfylla eftirfarandi meginviðmið:

  1. Séu viðurkenndir vísindamenn á sínu fræðasviði,
  2. eigi ekki sæti í verkefnisstjórn, hvorki sem aðalmenn né varamenn,
  3. hafi ekki bein hagsmunatengsl sem haft geti áhrif á hæfi þeirra til starfa í fag­hópnum.

Auk þess sem að framan greinir skal verkefnisstjórn leitast við að velja fulltrúa til setu í faghópum með þeim hætti að:

  1. Fjölda fulltrúa í faghópum sé stillt í hóf,
  2. þess sé gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki lægra en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,
  3. fjölbreytni verði sem mest með tilliti til aldurs, búsetu og starfsvettvangs.

Verkefnisstjórn skipar formenn faghópa.

12. gr.

Hlutverk formanna faghópa.

Formaður faghóps ber meginábyrgð á starfsemi faghópsins og skal stuðla að opnum sam­skiptum og virkni í allri vinnu hans. Formaður er jafnframt tengiliður faghóps við for­mann verkefnisstjórnar. Að auki skal formaður m.a.:

  1. Boða fundi í faghópnum og stýra þeim,
  2. vera tengiliður faghópsins við verkefnisstjórn og gera henni reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti grein fyrir framgangi í vinnu faghópsins,
  3. sjá til þess að fulltrúar í faghópnum fái nauðsynlegar upplýsingar og gögn, að allir fulltrúar fái sömu upplýsingar og að þær séu eins nákvæmar og unnt er.

13. gr.

Hlutverk fulltrúa í faghópum.

Fulltrúar í faghópum skulu kynna sér lög og reglur sem varða verndar- og orku­nýtingar­áætlun. Að öðru leyti skulu fulltrúar í faghópum:

  1. Kynna sér öll gögn og upplýsingar sem þeir telja sig þurfa til að hafa fullan skilning á viðfangsefnum hópsins,
  2. stuðla að góðum starfsanda innan faghópsins,
  3. gæta þess að persónuleg eða viðskiptatengd málefni þeirra hafi ekki áhrif á niðurstöður,
  4. halda trúnað um þau mál sem eru rædd og tekin til ákvörðunar á fundum faghópsins og trúnaður þarf að ríkja um.

14. gr.

Verksvið faghópa.

Um verksvið faghópa fer samkvæmt 9. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orku­nýtingar­áætlun og samkvæmt erindisbréfi sem verkefnisstjórn setur faghópunum hverju sinni. Faghópur getur falið einstökum fulltrúum í faghópnum, einum eða fleiri, tiltekin mál til athugunar og undirbúnings afgreiðslu á fundi faghópsins.

Í samræmi við ákvæði 6. gr. afhendir verkefnisstjórn faghópum lista yfir þá virkjunarkosti og landsvæði sem faghópum er ætlað að fjalla um, ásamt lýsingu á fyrirhugaðri virkjun sem Orkustofnun lætur verkefnisstjórn í té í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 530/2014 um virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun.

Í samræmi við 9. gr. laga nr. 48/2011 skulu faghópar fara yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meta þau með stigagjöf og gera tillögur til verkefnisstjórnar um flokkun þeirra eða röðun. Faghópar skulu einnig gera tillögu til verkefnisstjórnar um mörk land­svæða og skulu þessi mörk hnitsett.

Í vinnu sinni skulu faghópar beita samræmdum viðmiðum og viðurkenndum aðferðum til að raða landsvæðum og virkjunarkostum í forgangsröð.

15. gr.

Boðun funda.

Formaður faghóps kallar saman fund í hópnum eftir þörfum.

16. gr.

Ákvörðunarvald, atkvæðagreiðslur o.fl.

Faghópur skal leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu í málum, en sé þess ekki kostur ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum á fundum faghóps. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Fara skal með allar umræður sem trúnaðarmál í hópi fulltrúa í faghópi.

17. gr.

Fundargerðir.

Formaður faghóps skal sjá til þess að rituð sé fundargerð um það sem gerist á fundum faghópsins.

Fundargerð skal rituð rafrænt og send fulltrúum í faghópi í tölvupósti innan fjögurra sólar­hringa til yfirlestrar og samþykktar. Hafi fulltrúar í faghópi athugasemdir við drögin skulu þeir senda formanni og öðrum fulltrúum í faghópnum þær innan tveggja sólarhringa, eða tilkynna að þeir samþykki fundargerðina. Fundargerð telst staðfest þegar allir fulltrúar í faghópi hafa gefið samþykki sitt til kynna í tölvupósti. Fáist slíkt samþykki ekki skal fundar­gerðin borin upp til samþykktar á næsta fundi faghópsins.

Samþykktar fundargerðir skulu sendar til verkefnisstjórnar.

18. gr.

Þagnar- og trúnaðarskylda.

Fulltrúar í faghópum hafa þagnarskyldu um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu í faghópnum og leynt skulu fara samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

19. gr.

Frekari reglur um störf verkefnisstjórnar.

Um ábyrgð, vald og störf verkefnisstjórnar fer að öðru leyti en greinir í starfsreglum þessum samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, svo og öðrum lögum og reglum sem varða verndar- og orkunýtingaráætlun og verksvið verkefnisstjórnar.

20. gr.

Breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar.

Starfsreglur þessar skulu yfirfarnar af verkefnisstjórn að lágmarki einu sinni á ári. Verk­efnis­stjórn gerir tillögur til umhverfis- og auðlindaráðherra um breytingar á starfs­regl­unum, sbr. 6. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

21. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Starfsreglur þessar eru settar samkvæmt 6. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun að höfðu samráði við þann ráðherra er fer með orkumál, sbr. 6. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011.

Starfsreglurnar öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 22. maí 2015.

Sigrún Magnúsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.


B deild - Útgáfud.: 12. júní 2015