Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 450/2007

Nr. 450/2007 4. maí 2007
REGLUR
um Nýsköpunarsjóð námsmanna.

1. gr.

Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi við háskóla til sumarvinnu að rannsókna- og þróunar­verkefnum sem stuðla að nýsköpun og auknum tengslum atvinnulífs, stofnana og háskóla.

2. gr.

Nýsköpunarsjóður er í vörslu sjóðsstjórnar sem skipuð er af menntamálaráðherra til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð eftirtöldum fimm einstaklingum: Einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum stúdenta við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Kennaraháskólann, Háskólann í Reykjavík, Viðskiptaháskólann á Bifröst og Listaháskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, einum fulltrúa tilnefndum af Samtökum iðnaðarins, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúi sem skipaður er án tilnefningar og er hann formaður. Sömu aðilar tilnefna varamenn í stjórn.

3. gr.

Tekjur Nýsköpunarsjóðs eru framlög ríkis, sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja og annarra. Sjóðsstjórn ákveður styrkveitingar úr sjóðnum. Úthlutun fer fram árlega. Auglýsa skal opinberlega eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum með hæfilegum fyrirvara.

4. gr.

Um styrki geta sótt einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki. Umsóknir skulu vera á þar til gerðum eyðublöðum. Umsjónarmaður skal tilgreindur í umsókn og er hann jafnframt ábyrgðarmaður verkefnis.

5. gr.

Styrkir skulu veittir til rannsókna- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Styrkir eru ekki veittir til verkefna sem eingöngu eru unnin af háskólum. Umsóknir um styrki skal meta með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífi og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein. Verkefnin skulu leyst af hendi með sjálfstæðri og faglegri vinnu námsmanns undir leiðsögn ábyrgðarmanna. Styrkir eru ekki veittir til lokaverkefna námsmanna. Stjórn er heimilt að veita forgang verkefnum taki fyrirtæki eða aðrir aðilar þátt í kostnaði.

6. gr.

Afgreiðsla styrks er háð því að fyrir liggi rannsóknaráætlun um verkefnið. Við lok styrktímabils skal ábyrgðarmaður skila lokaskýrslu til sjóðsstjórnar. Sé lokaskýrslu ekki skilað vegna verkefnis getur stjórn sjóðsins ekki veitt styrki til fleiri verkefna sem hlutaðeigandi ábyrgðarmaður á aðild að. Styrkur er afturkræfur komi í ljós að hann hefur sannanlega ekki verið notaður í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins og upplýsingar í umsókn.

7. gr.

Kostnaður við rekstur Nýsköpunarsjóðs, þ.e. laun umsjónarmanns, kynningarefni og annar rekstrarkostnaður, greiðist af ráðstöfunarfé sjóðsins.

8. gr.

Haldið skal bókhald um fjárreiður og getur sjóðsstjórn samið við stofnanir eða fyrirtæki um að annast daglegan rekstur og reikningshald. Í maímánuði ár hvert skal menntamála­ráðuneyti gerð grein fyrir störfum sjóðsins. Þar skal tilgreina og flokka viðfangs­efni veittra styrkja eftir tegund viðtakanda, þ.e. háskóli, stofnun o.s.frv., skiptingu þeirra eftir fræðasviðum og atvinnuvegaflokkum, hlutfall styrkja og umsókna og gera grein fyrir breytingum sem verða á sókn í sjóðinn. Greinargerðinni fylgi endurskoðaðir árs­reikningar.

9. gr.

Reglur þessar öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi reglur um Nýsköpunarsjóð náms­manna frá 1. mars 1996.

Menntamálaráðuneytinu, 4. maí 2007.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 23. maí 2007