Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1058/2006

Nr. 1058/2006 30. nóvember 2006
REGLUR
um breytingu (29) á reglum nr. 458/2000, fyrir Háskóla Íslands.

I. Breytingar á sameiginlegum reglum Háskólans.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. reglnanna, sem fjallar um sameiginlega stjórnsýslu háskólans:

  1. Í stað heitanna framkvæmdastjóri og deildarstjóri kemur í viðeigandi orðmynd: stjórnendur
  2. Í stað heitisins rekstrar- og framkvæmdasvið kemur: framkvæmda- og tæknisvið, í stað heitisins fjárreiðusvið kemur: fjármálasvið, í stað heitisins rannsóknasvið kemur: vísindasvið og í stað heitisins þróunar- og kynningarsvið kemur: markaðs- og samskiptasvið.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr.:

  1. Við fyrsta lið greinarinnar bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. svohljóðandi: Einnig skulu fylgja með umsókninni umsagnir þriggja aðila um það hvaða þýðingu telja megi að ritgerðin hafi fyrir rannsóknir á viðkomandi sviði og íslenskt fræðasamfélag. Umsagnaraðilar skulu allir þrír vera viðurkenndir sérfræðingar á fræðasviðinu.
  2. Í stað upphafssetningar 2. liðar koma fimm nýjar setningar svohljóðandi: Rannsóknanámsnefnd deildar (fastanefnd, sbr. 1. mgr. 68. gr.) fjallar um umsókn doktorsefnis og umsagnir sem henni fylgja. Nefndin tekur afstöðu til þess hvort umsóknin uppfyllir gæðakröfur m.a. með hliðsjón af viðmiðum sem gilda um doktorsnám. Þess skal sérstaklega gætt að doktorsritgerð hafi að geyma ítarlega umfjöllun um stöðu þekkingar á fræðasviðinu. Nefndin getur aflað viðbótar­umsagna ef þess er þörf til þess að meta megi umsóknina út frá þeim atriðum sem að ofan greinir. Ef úrbóta er þörf að mati nefndarinnar upplýsir hún um­sækj­anda um það, en leggur ella til við deildarforseta að deildin skipi þriggja manna dómnefnd til að meta vísindagildi ritsmíða þeirra, er fylgja umsókninni.
  3. Önnur málsgrein 2. liðar breytist og verður svohljóðandi: Ef dómnefnd er á einu máli um að rit, sem umsækjandi hefur lagt fram fullnægi ekki kröfum þeim sem gera verður til doktorsritgerða skal deildin synja umsækjanda um að ganga undir doktorspróf. Sama gildir ef meirihluti dómnefndar stendur að slíku áliti. Telji meirihluti dómnefndar hins vegar ritið vera fullnægjandi ákveður deild hvort veita skuli umsækjanda kost á að þreyta prófið.

II. Breytingar á kafla lagadeildar.

3. gr.

Fjórða málsgrein 91. gr. breytist og verður svohljóðandi:

Framhaldsnám í lögfræði til meistaraprófs er 60 einingar. Það er ýmist fólgið í náms­greinum sem vega samtals 45 einingar og ritgerð sem vegur 15 einingar eða náms­greinum sem vega samtals 30 einingar og ritgerð sem vegur 30 einingar. Stúdent útskrifast með meistarapróf í lögfræði, magister juris (mag. jur.). Heimilt er að velja áherslusvið í meistaranámi í samræmi við reglur lagadeildar.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 93. gr.:

  1. Á eftir 1. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Stúdent er heimilt að velja áherslusvið í lögfræði til meistaraprófs (mag. jur.) og skal þá ritgerðarefni eða annað lokaverkefni vera á því sviði. Hvert áherslusvið hefur að geyma ákveðnar kjarnagreinar í samræmi við reglur lagadeildar.
  2. Í stað orðanna „því námi“ í 2. máls. 3. mgr. 93. gr. kemur: framhaldsnámi.

III. Breytingar á kafla félagsvísindadeildar.

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 114. gr.:

  1. Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 22. mgr. svohljóðandi:
    Meistaranám í öldrunarfræðum er sjálfstætt 60 eininga nám að loknu B.A.-prófi eða sambærilegu háskólaprófi.
  2. Núverandi 22. – 30. mgr. verða 23. – 31. mgr.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, sem verður 32. mgr. svohljóðandi:
    Diplómanám í öldrunarþjónustu er sjálfstætt 15 eininga nám að loknu B.A.-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Nám þetta er hægt að fá metið inn í M.A.-nám að uppfylltum inntökuskilyrðum.
  4. Núverandi 31. – 32. mgr. verða 33. – 34. mgr.

6. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Ákvæði reglna þessara, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999, og að fengnum tillögum háskóladeilda, öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 30. nóvember 2006.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 21. desember 2006