Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 496/2012

Nr. 496/2012 18. maí 2012
REGLUR
um vöruval og sölu tóbaks og skilmálar í viðskiptum við birgja.

I. KAFLI

1. gr.

Hlutverk.

Hlutverk reglnanna er að ákveða og skýra vöruval Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) með hliðsjón af ákvæðum laga og eftirspurn kaupenda og tryggja framleiðendum og birgjum möguleika á því að koma vörum í sölu skv. ákvæðum reglugerðar nr. 756/2011 og í samræmi við heildarstefnu ÁTVR.

Reglur þessar eru settar skv. ákvæðum reglugerðar nr. 756/2011 um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og fyrirmælum laga nr. 86/2011 um verslun ríkisins með áfengi og tóbak og fyrirmælum laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir. Reglurnar eru settar eftir sömu meginmarkmiðum og tilgreind eru í reglugerð um vöruval og sölu áfengis og skilmálum í viðskiptum við birgja eftir því sem við á sbr. 7. gr. reglugerðar nr 756/2011. Í reglunum er útfærð stefna fyrirtækisins um samfélagslega ábyrgð sem miðar að því að draga úr neyslu tóbaks með ábyrgri vörumeðhöndlun og stýringu vöru inn á markaðinn.

2. gr.

Orðskýringar.

Söluflokkur: Röðun vöru í hóp eftir rétti til söluframboðs hjá ÁTVR.
Vöruflokkur: Skipan vöru í hóp eftir megineinkennum er tengjast mismunandi framleiðsluaðferðum.
Tóbakstegund: Vara sömu gerðar að efni til þótt einstakar einingar hennar geti verið breytilegar eftir umbúðum.
Sölutegund:
Vara sem er svo frábrugðin öðrum vörum að hún fær sérstakt númer og verð í söluskrám ÁTVR.

3. gr.

Heildsala tóbaks.

ÁTVR hefur einkaleyfi til að selja tóbak innanlands í heildsölu. Um smásölu tóbaks fer eftir ákvæðum laga um tóbaksvarnir.

Allt innflutt tóbak sem ætlað er til aðvinnslu eða sölu innanlands skal geymt í vörslu farmflytjanda, í tollvörugeymslu eða á frísvæði þar til ÁTVR óskar eftir því til heildsöludreifingar.

Vörsluhöfum tóbaks er óheimilt að afhenda öðrum en starfsmönnum ÁTVR innflutt tóbak.

Vörsluhöfum tóbaks er óheimilt að afhenda ÁTVR innflutt tóbak fyrr en að fenginni afhendingarheimild tollstjóra. ÁTVR skal senda farmflytjendum og forstöðumönnum tollvörugeymslna og frísvæða skrá með nöfnum þeirra starfsmanna sem hafa heimild til þess að veita tóbaki viðtöku.

II. KAFLI

4. gr.

Söluflokkar.

Tóbaki er skipt í fjóra söluflokka: Reynsluflokk, kjarna, sérflokk og sérpantanir.

5. gr.

Vöruflokkun.

Tóbaki í kjarna og reynsluflokki er skipt í eftirfarandi vöruflokka:

1. Neftóbak.
2. Reyktóbak.

a. Píputóbak.
b. Annað reyktóbak.
3. Vindlingar.
a. Vindlingar, tjara frá 0 til og með 2 mg.
b. Vindlingar, tjara frá 2 til og með 4 mg.
c. Vindlingar, tjara frá 4 til og með 6 mg.
d. Vindlingar, tjara frá 6 til og með 8 mg.
e. Vindlingar, tjara frá 8 til og með 10 mg.
4. Vindlar.
a. Vindlar ≤ 2,5 g/stk.
b. Vindlar > 2,5 ≤ 3,5 g/stk.
c. Vindlar > 3,5 g/stk.
5. Skro.

6. gr.

Kjarni.

Í kjarna eru sölutegundir sem flust hafa úr reynsluflokki. Kjarninn er endurmetinn á fjögurra mánaða fresti, í janúar, maí og september ár hvert og skal nýtt vöruval koma til framkvæmda í febrúar, júní og í október.

Nái sölutegund í kjarna ekki viðmiðum heildarsölu vöruflokks, fellur hún úr kjarna.

Viðmið heildarsölu eru þessi:

Neftóbak: 4,0%
Píputóbak: 4,0%
Annað reyktóbak: 4,0%
Vindlingar: 0,2%
Vindlar: 0,2%

Miða skal útreikning við sölu á undanförnum 12 mánuðum. Birgðir sölutegundar, sem felld hefur verið úr kjarna, má selja sem um vöru í kjarna væri að ræða.

Séu tvær eða fleiri sölutegundir sömu tóbakstegundar boðnar til sölu og hvorug eða engin þeirra nær tilskildu söluhlutfalli en samanlögð sala tóbakstegundar nær söluhlutfallinu, þá skal sú sölutegund, sem birgir velur, haldast áfram í kjarna en aðrar sölutegundir falla út.

7. gr.

Reynsluflokkur.

Í reynsluflokki eru að jafnaði 50% af heildarfjölda allra sölutegunda vöruflokks sem eru í kjarna. Vara er í reynslusölu í allt að 12 mánuði. Þegar vara á reynslusölutímabili hefur náð sölu sem nemur viðmiði heildarsölu viðkomandi vöruflokks flyst hún í kjarna.

Vara sem á reynslusölutímabili nær ekki viðmiði heildarsölu viðkomandi vöruflokks fellur úr reynslusölu. Við útreikning skal miða við sölu í 12 heila mánuði næst á undan síðasta mánuði sölutímans. Skal salan borin saman við heildarsölu vöruflokksins á sama tímabili.

Viðmið vöruflokks í reynslusölu:

Neftóbak: 4,0%
Píputóbak: 4,0%
Annað reyktóbak: 4,0%
Vindlingar: 0,2%
Vindlar: 0,2%

Vara sem fellur úr reynslusölu skv. ákvæðum 3. mgr. 6. gr. verður ekki tekin aftur til reynslu fyrr en a.m.k. 12 mánuðir hafa liðið frá því sölu hennar var hætt.

ÁTVR getur takmarkað fjölda tegunda í hverjum vöruflokki til reynslusölu eða á biðlista til reynslusölu.

8. gr.

Sérflokkur.

Sérflokkur tekur til vöru sem keypt er inn til að auka fjölbreytni í úrvali vindla, píputóbaks og annars reyktóbaks. ÁTVR ákveður hvaða tegundir tóbaks eru falar í sérflokki. Sala vöru í sérflokki telur ekki með þegar metinn er söluárangur í kjarna eða í reynsluflokki.

9. gr.

Sérpantanir.

Tóbak sem fellur ekki undir flokka samkvæmt 6., 7., og 8. gr. er heimilt að sérpanta.

Með sérpöntun á neftóbaki þarf að fylgja staðfesting á að varan uppfylli 6. gr. reglurgerðar nr. 325/2007 um smásölu tóbaks.

ÁTVR sérpantar tóbak af frísvæði eða frá innlendum birgjum fyrir einstaklinga til eigin neyslu. Sérpantaðri vöru verður ekki skilað nema hún teljist ónothæf vegna galla.

Tóbak má því aðeins hafa til sölu eða dreifingar að skráðar séu viðvaranir um skaðsemi vörunnar á umbúðir hennar. ÁTVR skal tryggja að merkingar séu til staðar.

Sala sérpantaðrar vöru telst ekki með, þegar metinn er söluárangur í kjarna eða í reynsluflokki.

III. KAFLI

10. gr.

Stofnsamningur og umsókn um sölu.

ÁTVR og birgir, skulu gera með sér sérstakan stofnsamning um vörukaup. Stofnsamningurinn er heildarsamningur og tekur til allra vörukaupa ÁTVR frá birgja.

Með undirritun stofnsamnings skuldbindur birgir sig til að hlíta í einu og öllu þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um innkaup og sölu á tóbaki hjá ÁTVR.

Vanefni seljandi samningsskyldur sínar, verður gjaldþrota eða ógjaldfær af öðrum ástæðum er ÁTVR heimilt að segja upp öllum samningum aðila fyrirvara- og bótalaust.

ÁTVR samþykkir eða hafnar umsókn innan þriggja vikna frá því að gild umsókn er send. Sé umsókn eða fylgigögnum ábótavant eða ef umsókn er hafnað, skal birgi gerð grein fyrir ágöllum og gefinn kostur á úrbótum og andmælum.

11. gr.

Vörukaupasamningur.

Sérstakur rafrænn vörukaupasamningur er gerður í framhaldi af umsókn um sölu á vöru fyrir hverja vöru um sig. Í vörukaupasamningi er vísað til ákvæða stofnsamnings og gilda þau eftir því sem við á.

Í vörukaupasamningi skal tilgreina hvenær fyrsta afhending vöru til ÁTVR fari fram og hvenær sala skuli hefjast. Verði vara ekki afhent innan 60 daga frá pöntun, hefur ÁTVR heimild til að fella úr gildi vörukaupasamninginn, svo og allar óafgreiddar pantanir á vörunni.

Vörukaupasamningur um reynslusölu skal gerður a.m.k. mánuði áður en sala í reynsluflokki hefst. Takist samningar eigi fyrir þau tímamörk vegna tómlætis birgis, fellur umsókn hans um sölu vörunnar úr gildi. Verði vara sem hefja á reynslusölu á ekki afhent a.m.k. 4 dögum fyrir upphafsdag sölu skv. vörukaupa­samningi, fellur vörukaupa­samningurinn úr gildi. Birgir getur óskað eftir því að seinka söluupphafi vöru vegna sérstakra aðstæðna.

Þegar vara í reynslusölu hefur náð tilskildum árangri til að flytjast í kjarna, fer samkvæmt samningi birgja og ÁTVR hversu mikið af hinni óseldu vöru ÁTVR kaupir.

12. gr.

Sýnishorn.

Sýnishorn, tvær sölueiningar ásamt vöruupplýsingum og vöruvottun, skulu send ÁTVR án endurgjalds, með umsókn um sölu á vöru.

ÁTVR er heimilt að samþykkja sýnishorn með fyrirvara um viðvörunarmerkingar á íslensku séu fyrstu sýnishorn ekki af endanlegri gerð. Próförk með endanlegu útliti skal þá fylgja umsókn.

IV. KAFLI

13. gr.

Pöntun, greiðsla og verðlagning.

Um vörukaupasamning á vöru gilda ákvæði þessarar reglugerðar. Í vörukaupasamningi skal kveðið á um aðfangaverð og afhendingu vöru.

Verð birgis til ÁTVR er án virðisaukaskatts og tóbaksgjalds. Við verðlagningu vöru hjá ÁTVR fer fram álagning tóbaksgjalds. Virðisaukaskattur leggst á verð birgja, tóbaksgjald og heildsöluálag ÁTVR.

ÁTVR skal greiða vöru í kjarnasölu 15. dag hvers mánaðar og miðast greiðsla við reikninga næsta mánaðar á undan. Þeir sem bjóða vöru í reynslusölu skuldbinda sig til að lána ÁTVR hana reynslutímann. ÁTVR greiðir birgi mánaðarlega, í síðasta lagi 10. dag mánaðar, andvirði seldrar vöru í mánuðinum á undan. Birgjum ber að taka til baka þá vöru sem óseld kann að vera við lok reynslutímans.

Verði vara valin í kjarna fer samkvæmt samningi birgis og ÁTVR hversu mikið af hinni óseldu vöru ÁTVR kaupir.

Í vörukaupasamningi skal tilgreint hvenær sala vöru til ÁTVR hefst. Pöntun skal staðfest formlega og með staðfestingu skulu fylgja upplýsingar um afhendingartíma. Berist ÁTVR ekki staðfesting eða vara er ekki tilbúin til afhendingar af frísvæði innan 60 daga frá pöntun fellur samningur um vöruna úr gildi. Sé vara sem verið er að hefja á sölu í reynsluflokki ekki tilbúin til afhendingar af frísvæði a.m.k. fjórum dögum fyrir upphafsdag sölu skv. samningi fellur samningurinn úr gildi.

VI. KAFLI

14. gr.

Áletranir og umbúðir.

Áletranir og umbúðir verða að vera í samræmi við íslensk lög og reglur og reglur og staðla Evrópusambandsins. Strikamerki, EAN eða UPC, verða að vera á hverri sölueiningu og á hverjum kassa.

ÁTVR skal tryggja að allt tóbak sem flutt er inn frá útlöndum eða framleitt hér á landi, hvort heldur unnið eða óunnið, sé merkt. Um viðvörunarmerkingar á umbúðum tóbaks fer skv. lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

ÁTVR er heimilt að taka gjald sé merkingum ábótavant. Skal gjaldið leggjast við kostnaðaverð sérpantaðrar vöru ef við á.

ÁTVR skal leitast við að innkaup séu í samræmi við alþjóðasáttmála.

ÁTVR tekur ekki við vörum ef texti eða myndmál á umbúðum vörunnar:
geta höfðað til barna og unglinga, m.a. með myndskreytingum og slagorðum,
hvetja til tóbaksneyslu,
fela í sér happdrætti eða tilboð eða geta talist sérstaklega neysluhvetjandi að öðru leyti.

15. gr.

Vörubreytingar.

Vara, sem ÁTVR kaupir, skal vera óbreytt að gerð samningstímann nema ÁTVR samþykki annað. Það telst breyting á vöru fái hún nýtt efnainnihald, breytta stærð og útlit umbúða og gerð sölueiningar. Birgir skal senda inn formlegt erindi óski hann eftir að breyta útliti, stærð eða eiginleikum vöru.

16. gr.

Verðbreytingar.

ÁTVR skal birta verðskrá á heimasíðu sinni. ÁTVR breytir útsöluverði sínu að jafnaði fyrsta dag hvers mánaðar. Tilkynna skal verðbreytingar skriflega til ÁTVR eigi síðar en tuttugasta dag hvers mánaðar á undan verðbreytingadegi.

17. gr.

Ábyrgð og vöruskil.

Birgir skal taka til sín og endurgreiða við móttöku, vöru sem er ósöluhæf vegna gallaðra umbúða eða innihalds. Sæki birgir ekki vöruna innan tveggja vikna frá því að honum var tilkynnt að hann ætti að taka vöruna til sín er ÁTVR heimilt að láta eyða vörunni á hans kostnað. ÁTVR er ennfremur heimilt að skuldajafna þeim kostnaði móti andvirði sölu á vörum birgis.

VII. KAFLI

18. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar koma í stað reglna nr. 1159/2008, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Reykjavík, 18. maí 2012.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins,

Ívar J. Arndal forstjóri.

Með vísan til 7. gr. reglugerðar nr. 756/2011, um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, eru reglur þessar hér með staðfestar og öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 18. maí 2012.

F. h. r.

Maríanna Jónasdóttir.

Guðmundur Jóhann Árnason.

B deild - Útgáfud.: 11. júní 2012