Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 975/2009

Nr. 975/2009 20. nóvember 2009
REGLUGERÐ
um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um réttindi líffæragjafa til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

2. gr.

Framkvæmdaraðili.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd laga nr. 40/2009, um réttindi lifandi líf­færa­gjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar og reglugerðar þessarar.

3. gr.

Umsókn um greiðslur.

Líffæragjafi sækir um greiðslur samkvæmt lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tíma­bundinnar fjárhagsaðstoðar og reglugerð þessari til Tryggingastofnunar ríkisins. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða með rafrænum hætti á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.

Með umsókn skulu eftirfarandi gögn fylgja eftir því sem við á:

  1. Vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um tímabil óvinnufærni.
  2. Staðfesting frá vinnuveitanda um að líffæragjafinn hafi lagt niður störf á tíma­bilinu, launagreiðslur fallið niður og staðfesting á starfstímabili hans.
  3. Vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um að líffæragjafinn verði að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar.
  4. Vottorð frá skóla um að líffæragjafinn hafi gert hlé á námi sínu og um fyrri námsvist hans.
  5. Aðrar upplýsingar sem Tryggingastofnun ríkisins telur nauðsynlegar.

4. gr.

Mat á umsóknum og greiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli umsóknar og fylgigagna, sbr. 3. gr., hvort og í hversu langan tíma líffæragjafi eigi rétt til greiðslna samkvæmt lögunum og reglu­gerð þessari þegar hann getur hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

5. gr.

Greiðslur.

Tekjutengdar greiðslur fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði skulu inntar af hendi eftir á, fyrsta virka dag hvers mánaðar, enda hafi líffæragjafi skilað inn nauð­syn­legum gögnum til Tryggingastofnunar ríkisins a.m.k. 15 dögum áður en greiðsla skal innt af hendi.

Heimilt er að greiða líffæragjafa í einu lagi eftir á ef hann óskar eftir því.

6. gr.

Kæruheimild.

Kærur vegna ágreiningsefna sem kunna að rísa á grundvelli reglugerðar þessarar skulu berast úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 18. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., 3. mgr. 8. gr., 6. og 8. mgr. 10. gr., 3. mgr. 11. gr., 3. mgr. 13. gr. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 40/2009, um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, öðlast gildi 1. janúar 2010 og eiga ákvæði hennar við um líffæragjafa sem verða óvinnufærir vegna líffæragjafar eftir gildistöku hennar.

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 20. nóvember 2009.

Árni Páll Árnason.

Ágúst Þór Sigurðsson.

B deild - Útgáfud.: 4. desember 2009