Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 78/2014

Nr. 78/2014 28. maí 2014
LÖG
um greiðslur yfir landamæri í evrum.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

Gildissvið.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009 frá 16. september 2009 um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2560/ 2001 skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013, frá 3. maí 2013, sem birt var 31. október 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 61/2013. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012 frá 14. mars 2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 924/2009 skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013, frá 3. maí 2013, sem birt var 31. október 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 61/2013. Reglu­gerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

3. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftir­lits­skylda aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármála­starfsemi.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opin­bert eftirlit með fjármálastarfsemi.

4. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á greiðsluþjónustuveitanda sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli laga þessara:

  1. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um gjöld sem greiðslu­þjónustu­veitandi leggur á notanda greiðsluþjónustu,
  2. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um að greiðsluþjónustuveitandi skuli, þegar við á og án endurgjalds, tilkynna notanda greiðsluþjónustu um alþjóðlegt bankareikningsnúmer notandans (IBAN) og auðkenniskóða banka greiðslu­þjón­ustu­veitandans (BIC),
  3. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um að greiðsluþjónustuveitandi skuli, þegar við á og án endurgjalds, tilgreina alþjóðlegt bankareikningsnúmer notanda greiðsluþjónustu og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitandans á reiknings­yfirlitum, eða í viðauka þeirra,
  4. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009 um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að greiðsluþjónustuveitanda sé heimilt að innheimta viðbótargjöld frá notanda greiðsluþjónustu,
  5. 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um aðgengi að greiðsluþjónustuveitanda vegna greiðslna og beingreiðslna yfir landamæri,
  6. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um þau skilyrði sem greiðslufyrirkomulag sem greiðsluþjónustuveitandi ætlar sér að nota þarf að uppfylla,
  7. 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um kröfur til greiðsluþjónustuveitanda varð­andi millifærslur fjármuna og beingreiðslufærslur,
  8. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um hvenær greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að leggja á millibankagjöld fyrir beingreiðslufærslur,
  9. 9. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 um aðgengi að greiðslum.

     Sektir sem lagðar eru á greiðsluþjónustuveitanda geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglur settar á grundvelli þeirra eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 4. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rann­sóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

5. gr.

Reglur.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um hvað teljist samsvarandi greiðslur í skilningi 1.–2. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 924/2009.

6. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum.

7. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

  1. Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu:
    1. Á eftir orðinu „skal“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: ávallt.
    2. Í stað orðanna „greiðslufjöldi (PV)“ í 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: greiðslumagn (GM).
    3. 1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Aðferð C: Fjárhæð eigin fjár greiðslustofnunar skal vera að minnsta kosti viðeigandi vísir sem skil­greindur er í a- og b-liðum, margfaldaður með margfeldisstuðlinum sem skil­greindur er í c-lið og með kvarðastuðlinum k sem skilgreindur er í 5. mgr.
    4. Í stað orðanna „skal setja reglur“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: setur nánari viðmið.
    5. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: 
          Greiðslustofnun skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðslu­þjón­ustu­veitendum vegna framkvæmdar greiðslu og halda þeim skýrt aðgreind­um frá fjármunum í eigu greiðslustofnunar og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu. Fjármunir teljast tryggilega varð­veittir ef þeir eru geymdir á innlánsreikningi hjá fjármálafyrirtæki eða ef fjárfest er með þeim í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum.
  2. 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, orðast svo: Rafeyrisfyrirtæki skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri og halda þeim skýrt aðgreindum frá fjármunum sínum.

    Ákvæði til bráðabirgða.

        Þrátt fyrir ákvæði laga þessara gilda um greiðsluþjónustuveitendur takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum sem settar eru með stoð í þeim, á hverjum tíma.

     Gjört á Bessastöðum, 28. maí 2014.

    Ólafur Ragnar Grímsson.
    (L. S.)

    Bjarni Benediktsson.

    Fylgiskjöl.
    (sjá PDF-skjal)

    A deild - Útgáfud.: 11. júní 2014