Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 912/2009

Nr. 912/2009 25. september 2009
REGLUR
um framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda.

Markmið gæðaeftirlits.

1. gr.

Markmið gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda er að tryggja að endurskoðendur og endur­skoðunar­fyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, siða­reglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.

Umfang gæðaeftirlits.

2. gr.

Gæðaeftirlit felur í sér könnun á gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis og gæðastjórnun endur­skoðenda sem tryggir að endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.

Gæðaeftirlitið skal fela í sér sannprófanir á að gæðaeftirlitskerfi og gæðastjórnun starfi á full­nægjandi hátt.

3. gr.

Gæðaeftirlitið nær til allra endurskoðenda sem bera ábyrgð á endurskoðunarverkefnum. Gæða­eftirlitið getur beinst að endurskoðunarfyrirtæki í heild sinni ef um sameiginlegt gæða­stjórnunar­kerfi er að ræða í fyrirtækinu.

Gæðaeftirlitið nær að jafnaði til endurskoðenda eigi sjaldnar en á sex ára fresti en endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. laga um endur­skoðendur. Endurskoðendaráð getur ákveðið örara eftirlit vegna sérstakra aðstæðna.

Sinni endurskoðunarfyrirtæki eða endurskoðandi ekki tilmælum um gæðaeftirlit sam­kvæmt 1. mgr. 4. gr., sbr. 7. gr., innan þeirra tímamarka sem fram koma í 6. gr. mun endurskoðendaráð grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur. Koma þá til álita ákvæði 3. tl. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar þessarar, sbr. 17. gr. laga nr. 79/2008.

Framkvæmd gæðaeftirlits.

4. gr.

Félag löggiltra endurskoðenda skal annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda í samráði við endurskoðendaráð sbr. 4. tl. 13. gr. laga um endurskoðendur.

Félag löggiltra endurskoðenda tilnefnir gæðaeftirlitsmenn að fengnu samþykki endur­skoðenda­ráðs. Gæðaeftirlitsmenn skulu vera endurskoðendur með víðtæka reynslu af endur­skoðunar­störfum og óháðir þeim sem eftirlitið beinist að.

Við val gæðaeftirlitsmanna skal gæta að eftirfarandi:

 

a)

Tveir gæðaeftirlitsmenn skulu koma að hverju verkefni.

 

b)

Þeir sem starfa saman að gæðaeftirliti skulu ekki vera samstarfsmenn í endurskoðunarfyrirtæki.

 

c)

Þeir sem veljast til starfa sem gæðaeftirlitsmenn skulu sækja námskeið í gæðaeftirliti áður en gæðaeftirlit hefst.

 

d)

Gæðaeftirlitsmenn skulu staðfesta skriflega óhæði sitt samkvæmt 2. mgr. 5. gr. áður en gæðaeftirlit hefst.

5. gr.

Gæðaeftirlitsmenn eru bundnir þagnarskyldu um allar upplýsingar sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum, sbr. 30. gr. laga um endurskoðendur.

Ákvæði 19. gr. laga um endurskoðendur þar sem fjallað er um vanhæfisástæður skulu einnig gilda um gæðaeftirlitsmenn. Sé gæðaeftirlitsmaður talinn vanhæfur skal varamaður kallaður til í hans stað. Gæðaeftirlitsmaður skal sjálfur upplýsa um aðstæður sem leitt gætu til vanhæfis hans.

6. gr.

Gæðaeftirlitið skal framkvæmt á tímabilinu október til desember ár hvert.

7. gr.

Sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 79/2008 skal endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sem sætir gæða­eftirliti veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir við gæðaeftirlitið. Hann getur ekki borið fyrir sig lagaákvæði um þagnarskyldu í því skyni að takmarka skyldu sína til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

8. gr.

Gæðaeftirlitsmenn skulu taka saman skýrslu um niðurstöður sínar og afhenda til þess aðila sem eftirlitið beinist að innan þriggja vikna frá því að könnun lauk. Sá sem eftirlitið beinist að skal staðfesta móttöku skýrslunnar og gefst þá jafnframt kostur á að koma á framfæri innan þriggja vikna athugasemdum sem gæðaeftirlitsmenn taka afstöðu til. Þessar athugasemdir verða hluti af eftirlitsskýrslunni og skal endanleg skýrsla liggja fyrir þremur vikum síðar. Gæðaeftirlitsskýrslur skulu útbúnar með þeim hætti að nafnleyndar sé gætt. Sá sem eftirlitið beinist að fær afrit af endanlegri skýrslu.

9. gr.

Eftirlitsskýrslur skulu afhentar Félagi löggiltra endurskoðenda í lok gæðaeftirlits og eigi síðar en 1. mars að loknu tímabili gæðaeftirlits sbr. 6. gr.

Félag löggiltra endurskoðenda skal taka saman niðurstöður gæðaeftirlitsins og afhenda endur­skoðenda­ráði eigi síðar en fjórum vikum eftir að eftirlitsskýrslur bárust skv. 1. mgr.

10. gr.

Efni eftirlitsskýrslu er trúnaðarmál.

11. gr.

Endurskoðendaráð ber ábyrgð á varðveislu eftirlitsskýrslna. Skýrslur skulu varðveittar með tryggi­legum hætti eigi skemur en í 7 ár.

Viðbrögð við niðurstöðu gæðaeftirlits.

12. gr.

Endurskoðendaráð metur niðurstöðu gæðaeftirlitsins og tekur afstöðu til frekari meðferðar.

Meðferð á eftirlitsskýrslu getur verið með eftirfarandi hætti:

  1. Ef ekki hafa komið í ljós annmarkar verður eftirlitsskýrsla varðveitt án frekari afskipta.
  2. Ef óverulegir annmarkar hafa komið í ljós skal veita endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem í hlut á hæfilegan frest til að bæta úr þeim sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um endurskoðendur. Árangur skal metinn með sérstakri skoðun á þeim atriðum þar sem úrbóta var þörf.
  3. Nú telur endurskoðendaráð sýnt að endurskoðandi hafi í störfum sínum brotið gegn lögum um endurskoðendur svo að ekki verði við unað og skal endurskoðendaráð í rökstuddu áliti veita viðkomandi aðila áminningu eða leggja til við ráðherra að réttindi endurskoðandans verði felld niður sbr. 2. mgr. 17. gr. laga um endurskoðendur. Endurskoðendaráð skal gefa viðkomandi aðila kost á að tjá sig áður en það tekur endanlega ákvörðun samkvæmt framansögðu.

Kostnaður við gæðaeftirlit.

13. gr.

Félag löggiltra endurskoðenda ber kostnað af framkvæmd gæðaeftirlitsins, sbr. 4. mgr. 12. gr. laga um endurskoðendur.

14. gr.

Reglur þessar, sem eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 79/2008 um endur­skoðendur, öðlast þegar gildi.

Endurskoðendaráði, 25. september 2009.

Bjarnveig Eiríksdóttir.

Guðmundur Guðbjarnason.

Ólafur Kristinsson.

Hildur Árnadóttir.

Helga Harðardóttir.

B deild - Útgáfud.: 13. nóvember 2009