Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 342/2007

Nr. 342/2007 26. mars 2007
REGLUR
um doktorsnám við hugvísindadeild Háskóla Íslands.

1. gr.

Doktorsnám við hugvísindadeild.

Í hugvísindadeild er unnt að stunda nám til doktorsprófs á fræðasviðum þar sem rannsóknanámsnefnd metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi. Markmið doktorsnáms er að veita doktorsnemum vísindalega þjálfun og búa þá undir vísindastörf, t.a.m. háskólakennslu eða sérfræðistörf hjá vísindalegum rannsókna­stofnunum.

2. gr.

Rannsóknanámsnefnd.

Rannsóknanámsnefnd hugvísindadeildar fer með málefni rannsóknanáms deildarinnar í umboði deildarráðs. Nefndin fylgist með því að hæfilegs samræmis sé gætt í meðferð umsókna um doktorsnám, sem og skipulagi þess, inntökuskilyrðum, kröfum til doktors­nema og þjónustu við þá. Hún ræðir og mótar stefnu deildarinnar um doktors­námið eftir því sem deild felur henni. Hún skal fjalla um gæði þessa náms og gera tillögur til deildarráðs um það hvernig rétt sé að meta það og styrkja.

Rannsóknanámsnefnd er kosin af deildarráði til þriggja ára. Í henni skal sitja einn fulltrúi úr hverri skor deildarinnar, einn fulltrúi meistaranema og einn fulltrúi doktorsnema. Deildarráð kýs formann úr hópi nefndarmanna. Starfsmaður á skrifstofu deildarinnar er ritari nefndarinnar. Hlutverk starfsmannsins er m.a. að fylgjast með námsframvindu doktorsnema og afla upplýsinga fyrir nefndina. Hlutverki sínu gegnir nefndin m.a. með því að:

  1. afgreiða umsóknir um doktorsnám að lokinni umfjöllun skorar eða, eftir atvikum, fagráðs,
  2. stuðla að samræmi í kröfum til doktorsnema eftir því sem við á,
  3. fylgjast með því að reglum um doktorsnám sé framfylgt,
  4. samþykkja tillögur skorar, eða eftir atvikum fagráðs, um leiðbeinanda og skipan doktorsnefnda,
  5. gæta réttar doktorsnema.

Stúdent getur skotið ágreiningi við doktorsnefnd til rannsóknanámsnefndar.

3. gr.

Meðferð umsókna um doktorsnám.

Umsóknum skal skilað á sérstöku eyðublaði til skrifstofu hugvísindadeildar. Umsókn skulu fylgja afrit af prófskírteinum, 200 orða greinargerð um faglegar forsendur og markmið, sem og frumdrög að námsáætlun. Einnig er skor eða fagráði heimilt að krefjast sýnishorna af ritgerðum umsækjanda. Fagráð er ígildi skorar þegar doktorsnámið heyrir undir þverfaglegt samstarf skora. Sé óskað eftir tilteknum leiðbeinanda þarf að fylgja samþykki hans til að taka leiðsögn að sér í samræmi við frumdrög að námsáætlun. Æskilegt er að fram komi áætlun um fjármögnun námsins og sé sú áætlun gerð í samráði við væntanlegan leiðbeinanda.

Skrifstofa hugvísindadeildar fer yfir og skráir umsóknir, athugar hvort tilskilin gögn fylgja og gengur eftir því sem á vantar. Umsóknirnar fara síðan til umfjöllunar í viðkomandi skor með athugasemdum ef ástæða þykir til. Skor ber að hafa samráð við doktorsnema um val leiðbeinanda. Skor getur lagt til að umsókn verði hafnað ef námsáætlun um­sækjanda eða aðrir þættir umsóknar hans þykja ófullnægjandi eða ef ekki er tiltækur sér­fræðingur á viðkomandi rannsóknasviði. Sé lagt til að umsókn skuli hafnað skal rökstuðn­ingur fylgja afgreiðslu. Rannsóknanámsnefnd tekur við umsögn skorar og afgreiðir umsóknina.

Umsóknarfrestur um doktorsnám er ákveðinn í deildarráði í janúar ár hvert og skal auglýstur og birtur í kennsluskrá. Deildarskrifstofa svarar umsækjendum eftir að rann­sóknanámsnefnd hefur afgreitt umsóknina. Hafi umsóknin verið samþykkt, varðveitir deildar­skrifstofa umsóknargögn og námsferilsgögn doktorsnema og tilkynnir skrifstofu nem­endaskrár um afgreiðsluna. Loks tilkynnir deildarskrifstofa nemandanum að hann skuli snúa sér til skrifstofu nemendaskrár og ganga þar frá innritun og skráningu.

4. gr.

Inntökuskilyrði.

Stúdent sem hefur lokið M.A.-prófi með fyrstu einkunn eða samsvarandi prófi getur sótt um aðgang að doktorsnámi.

Stúdent sem hefur lokið M.A.-prófi eða öðru samsvarandi prófi í annarri grein en sótt er til, frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi við hugvísindadeild. Eins getur stúdent sem hefur stundað doktorsnám við annan háskóla sótt um aðgang að doktorsnámi við hugvísinda­deild. Í slíkum tilvikum skal meta gögn um nám nemanda og rannsóknir. Skorti á að undirbúningur hans sé jafngildur þeim undirbúningi sem ofangreind próf eiga að tryggja, má gera frekari námskröfur eftir því sem ástæða þykir til.

Ef stúdent ætlar að hefja doktorsnám strax að loknu M.A.-prófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur staðfesting viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri áður en doktorsnám hefst. Doktorsnám getur enginn hafið fyrr en inntökuskilyrðum hefur verið fullnægt til hlítar.

5. gr.

Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við hugvísindadeild er 120 einingar. Skiptist það í 30 eininga almennan hluta og 90 eininga doktorsritgerð. Doktorsnám við hugvísindadeild er fjögurra ára nám.

Doktorsnemi getur tvisvar sótt um undanþágu eitt ár í senn frá tímamörkum til rann­sóknanámsnefndar. Sé undanþága veitt má setja þau skilyrði að doktorsnemi upp­fylli þær kröfur sem þá eru í gildi um doktorsnám þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu. Doktorsnemi skal vera skráður og greiða skráningargjald allan náms­tímann. Hafi doktorsnemi verið skráður í doktorsnám í sex ár en ekki lokið náminu skal það að öllu jöfnu fyrnast.

6. gr.

Tilhögun náms, námsframvinda og námskröfur.

Í upphafi náms gerir doktorsnemi, í samráði við leiðbeinanda, greinargóða áætlun (u.þ.b. 1.000 orð) um almennan hluta námsins, rannsóknarefni og dvöl erlendis, ef við á. Áætlunin skal lögð fyrir skor, sem sendir hana til rannsóknanámsnefndar til samþykktar. Samþykkt áætlun skal send skrifstofu hugvísindadeildar þar sem hún verður hluti af námsferilsskrá doktorsnema. Breytingar á námsáætlun eru háðar samþykki skorar. Skipti doktorsnemi um rannsóknarefni, skal ný áætlun lögð fyrir skor og síðan rann­sóknanámsnefnd.

Til almenna hlutans geta talist til dæmis námsritgerðir, birtar greinar, fyrirlestrar, les­lista­próf, málstofur, námskeið fyrir framhaldsnema, kennsla, rannsóknaráætlun. Skor og leiðbeinandi skulu ákveða skilyrði og innihald almenna hlutans í samráði við doktors­nema við upphaf náms, svo sem segir í síðustu efnisgrein. Skal almenni hluti doktors­námsins tryggja vandaðan undirbúning að ritun doktorsritgerðarinnar.

Eigi síðar en við lok annars misseris skal doktorsnemi skila til leiðbeinanda síns rann­sóknaráætlun. Hún skal vera 4.000 - 6.000 orða lýsing á væntanlegri doktorsritgerð. Doktors­nemi skal verja rannsóknaráætlunina munnlega að jafnaði innan tveggja vikna frá skilum. Skal rannsóknaráætlunin varin fyrir doktorsnefnd. Í rannsóknaráætluninni skal gera grein fyrir viðfangsefni ritgerðarinnar, þeim spurningum sem bornar verða upp og rannsóknaraðferð. Uppbygging ritgerðarinnar skal útskýrð á greinargóðan hátt. Lýsingu fylgi drög að heimildaskrá. Telst þessi vörn mikilvægasti áfanginn áður en nemandi hefur samningu ritgerðarinnar. Hafi skor samþykkt rannsóknaráætlunina, skal hún send til rannsóknanámsnefndar til endanlegrar samþykktar.

Fyrir lok fjórða misseris skal skila greinargerð í tveimur liðum:

  1. leiðbeinandi og doktorsnemi skili framvinduskýrslu um stöðu rannsóknar (u.þ.b. 1.000 orð);
  2. doktorsnemi skili þeim hluta ritgerðarinnar sem þegar hefur verið saminn.

Þessi greinargerð skal send skor sem sendir mat sitt til rannsóknanámsnefndar. Komi fram alvarlegar athugasemdir annaðhvort hjá skor eða rannsóknanámsnefnd deildar, skal doktorsnema gefinn kostur á að skila endurbættri greinargerð fyrir upphaf fimmta misseris.

Fyrir lok sjötta misseris skal skila sams konar greinargerð og frá greinir í síðustu efnis­grein. Þessi greinargerð skal send skor sem sendir mat sitt til rannsókna­námsnefndar. Komi fram alvarlegar athugasemdir annaðhvort hjá skor eða rann­sókna­námsnefnd deildar, skal doktorsnema gefinn kostur á að skila endurbættri greinar­gerð fyrir upphaf sjöunda misseris.

Fyrir lok áttunda misseris skal doktorsnemi skila handriti að doktorsritgerð til doktors­nefndar sinnar að höfðu samráði við leiðbeinanda.

Teljist það nauðsynlegt er skor heimilt að gera kröfu um að doktorsnemi fullnægi skil­yrðum um kunnáttu í þeim tungumálum sem mest eru notuð innan fræðasviðsins. Skal þá tiltaka hver skilyrðin eru og færa rök fyrir þeim.

7. gr.

Þjálfun doktorsnema.

Leitast skal við að veita doktorsnemum sem víðtækasta og besta þjálfun í doktorsnámi sínu. Í því felst að veita þeim tækifæri til kennslu á háskólastigi. Er skor því heimilt að meta kennslu doktorsnema sem þátt af almenna hluta doktorsnámsins. Við ráðningu doktorsnema til kennslu skal þó hafa í huga að kennslubyrði er líkleg til að draga úr námshraða þeirra. Einnig skal sjá til þess að doktorsnemar fái þjálfun í fyrirlestrahaldi á ráðstefnum og í fræðilegum skrifum. Í því skyni er heimilt að gera að skilyrði að þeir flytji a.m.k. einn fyrirlestur á fræðilegri ráðstefnu og birti a.m.k. eina grein í ritrýndu tímariti á námstímanum. Er skor einnig heimilt að meta þessa vinnu doktorsnema sem þátt af almenna hluta doktorsnámsins.

8. gr.

Tengsl meistara- og doktorsnáms.

Námskeið í grunnnámi (B.A.-námi eða samsvarandi námi) geta ekki verið hluti af hinum 30 eininga almenna hluta doktorsnámsins, nema leiðbeinandi og skor samþykki undan­þágu.

Doktorsnema er heimilt að sækja námskeið á meistarastigi við Háskóla Íslands eða erlendan háskóla og fá þau metin sem þátt af almenna hluta doktorsnámsins, enda hafi þau ekki áður verið metin sem hluti af meistaranámi hans.

Ekki er heimilt að nota óbreytta meistararitgerð sem uppistöðu í doktorsritgerð, en þó getur verið æskilegt að halda áfram á sama eða svipuðu rannsóknarsviði.

9. gr.

Tengsl við aðra háskóla.

Æskilegt er að þjálfun til rannsókna og efnisöflun fari að hluta fram við viðurkennda erlenda háskóla eða stofnanir og nemi dvöl erlendis að jafnaði ekki skemmri tíma en sem svarar einu misseri. Er leiðbeinanda og skor heimilt að gera doktorsnema að dvelja hluta námsins við viðurkenndan erlendan háskóla eða stofnun, enda sé dvölin skipulögð að höfðu samráði leiðbeinanda og doktorsnema.

Leiðbeinanda og doktorsnefnd ber að stuðla að tengslum doktorsnema við erlenda fræðimenn. Geta þau tengsl falist í þátttöku í málstofum eða ráðstefnum, hvort heldur við Háskóla Íslands eða viðurkenndar erlendar menntastofnanir.

Heimilt er að veita doktorsgráðu sameiginlega með öðrum háskóla.

10. gr.

Leiðbeinandi.

Doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa leiðbeinanda. Hann skal vera úr hópi fastra kennara á viðkomandi fræðasviði og hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess. Skipan hans er háð samþykki rannsóknanámsnefndar hugvísindadeildar og skal samþykkið vera hluti frumafgreiðslu nefndarinnar. Rannsóknanámsnefnd getur samþykkt, að tillögu viðkomandi skorar, að leiðbeinandi sé ekki úr hópi fastra kennara sé hann fræðimaður með doktorspróf á fræðasviði doktorsverkefnis.

Leiðbeinandi skal vera virkur í rannsóknum og viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi fræðasviði, hafa reynslu af leiðsögn framhaldsnema og reynslu af rannsóknasamstarfi með alþjóðlega viðurkenndum sérfræðingum á viðkomandi fræðasviði utan Háskólans.

Hlutverk leiðbeinanda er að fylgjast grannt með vinnu doktorsnemans á öllum stigum náms­ins, veita leiðsögn við doktorsverkefnið og vera formaður doktorsnefndar. Doktors­nemi ráðfærir sig við leiðbeinanda um skipulag almenna hluta doktorsnámsins, gerð rannsóknaráætlunar og annað sem tengist náminu. Skal leiðbeinandi stuðla að því eftir fremsta megni að rannsóknaráætlun nemanda sé raunhæf og miðist við kröfur um doktorsritgerðir, bæði að gerð og umfangi, sbr. 12. gr. Skal hann eiga reglulega fundi með doktorsnema svo tryggt sé að framvinda námsins sé eðlileg. Leiðbeinandi gerir skor grein fyrir framvindu doktorsnemanda fyrir lok hvers námsárs. Skor gerir síðan rannsóknanámsnefnd deildarinnar grein fyrir framvindu doktorsnema sinna að því loknu og fyrir lok hvers námsárs.

Ef leiðbeinandi telur að doktorsnemi standi ekki við þau fyrirheit sem hann hefur gefið má hann segja af sér leiðsögn að fenginni umsögn rannsóknanámsnefndar, enda hafi hann fært rök fyrir afstöðu sinni. Þá skal doktorsnemi finna sér annan leiðbeinanda, ef unnt er, með samþykki skorar og rannsóknanámsnefndar.

Eins skal farið að ef doktorsnemi kýs að skipta um leiðbeinanda, enda hafi hann fært rök fyrir beiðni sinni og kynnt rannsóknanámsnefnd.

11. gr.

Doktorsnefnd.

Rannsóknanámsnefnd deildar skal skipa doktorsnefnd á fyrsta námsári og eigi síðar en við lok annars misseris, að höfðu samráði við leiðbeinanda og skor. Í doktorsnefnd sitja leiðbeinandi og tveir til þrír fastir kennarar deildarinnar eða viðurkenndir sérfræðingar á fræðasviðinu. Þeir verða að hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess. Að minnsta kosti einn doktorsnefndarmanna skal vera utan kennarahóps viðkomandi skorar.

Leiðbeinandi fylgist grannt með vinnu doktorsnema og veitir leiðsögn þangað til hann telur að ritgerð sé tilbúin til varnar, sbr. 9. gr. Hinir nefndarmennirnir leggja mat á framvindu, gera athugasemdir við drög að doktorsritgerð, taka þátt í handleiðslu þegar ástæða þykir til og samþykkja að ritgerð sé tilbúin til varnar. Doktorsnefnd kveður doktorsnema á sinn fund eftir því sem þurfa þykir á meðan á náminu stendur. Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefnd rökstuddu áliti til deildarforseta um það hvort veita skuli doktorsnema kost á að leggja ritgerðina fram til doktorsvarnar.

12. gr.

Kröfur til doktorsritgerða.

Doktorsritgerðin skal alla jafnan vera 75.000 - 100.000 orð. Þó má veita skor undanþágu frá þessum lengdarmörkum í sérstökum tilvikum. Skal þá skor kveða nánar á um umfang doktorsritgerða og tiltaka hámarkslengd.

Í doktorsritgerð skal tekið til rannsóknar afmarkað og samstætt viðfangsefni og það kannað rækilega með vísindalegum aðferðum. Í upphafi skal gera grein fyrir við­fangs­efninu, þeim spurningum sem bornar verða upp og rannsóknaraðferðinni. Niður­stöður verður að setja fram skýrt og aðgengilega.

Ef rannsóknin greinist í afmarkaða hluta sem ekki eru að öllu samstæðir skal gera grein fyrir stöðu einstakra hluta rann­sóknar­innar innan heildarinnar og tengja megin­niðurstöður einstakra hluta saman á einum stað.

Almenn krafa til doktorsritgerða er að þar sé fylgt viðurkenndum vísindalegum rann­sóknar­aðferðum og að þær séu sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræða­sviðinu.

Ef hluti verkefnis til doktorsprófs er nákvæm úrvinnsla eða útgáfa frumheimilda eða efnissöfnun af einhverju tagi, t.d. textaútgáfa eða orðfræðilegt viðfangsefni, verður verkefnið alltaf að hafa almennan hluta sem lýtur venjulegum kröfum til doktorsritgerðar að umfangi undanskildu, enda sé hann sprottinn upp úr frumvinnunni og gefi henni fræðilega dýpt eða dragi af mikilvægum þáttum hennar almennar ályktanir.

Doktorsritgerð skal að jafnaði vera skrifuð á íslensku eða ensku. Í hverri ritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku.

Þegar doktorsnemi hefur lokið ritgerð sinni skal senda vel frágengið lokahandrit í fjórum eintökum til deildarforseta með rökstuddu áliti doktorsnefndar um að henni sé lokið. Er þá ritgerðin send til andmælenda í samráði við leiðbeinanda, sbr. 13. gr.

13. gr.

Andmælendur.

Þegar doktorsritgerð hefur verið skilað til deildarforseta, skal hann leggja fram tillögu um tvo andmælendur í deildarráði. Einungis þeir sem hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess geta verið andmælendur við doktorsvarnir hjá hugvísindadeild. Þegar þess er kostur skal einn andmælandi vera kennari eða sérfræðingur við erlendan háskóla eða rannsóknastofnun.

Andmælendur fá ritgerðina í hendur a.m.k. fjórum mánuðum áður en fyrirhuguð vörn fer fram. Tveimur mánuðum síðar er gert ráð fyrir að þeir hafi sent rökstudda umsögn um hvort þeir telji að ritgerðin sé tæk til varnar, ásamt ábendingum um nauðsynlegar breyt­ingar, séu þær einhverjar. Það er forsenda þess að doktorsvörn sé haldin að doktors­neminn hafi gert þær lagfæringar sem krafist er af andmælendum og leiðbein­endum.

Ekki er heimilt að andmælendur við doktorsvörn hafi átt sæti í doktorsnefnd.

14. gr.

Doktorsvörn.

Doktorsefni skal verja ritgerð sína við Háskóla Íslands í heyranda hljóði á þeim degi sem hugvísindadeild ákveður. Ritgerðin skal dæmd og varin samkvæmt reglum hugvísinda­deildar og Háskóla Íslands um doktorspróf.

15. gr.

Lokafrágangur doktorsritgerðar og endanleg skil.

Ganga skal frá doktorsritgerð í samræmi við viðurkenndar frágangsreglur á viðkomandi fræðasviði. Í ritgerðinni skal koma fram við hvaða deild Háskóla Íslands verkið var unnið, hvenær því var lokið, hver var leiðbeinandi og hverjir voru í doktorsnefnd. Enn fremur skal geta þeirra sjóða sem styrktu verkefnið, ef því er að skipta.

Eigi síðar en fjórum vikum fyrir vörn skal skila 15 eintökum af doktorsritgerð á skrifstofu hugvísindadeildar, sem sér um að dreifa eintökum til bókasafna og rannsóknastofnana á fræðasviðinu og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns (10 eintök).

Hugvísindastofnun ber kostnað af fjölföldun doktorsritgerðarinnar ásamt doktorsefni, samkvæmt reglum sem Hugvísindastofnun setur.

16. gr.

Lærdómstitlar.

Doktorspróf að loknu skipulegu doktorsnámi við hugvísindadeild veitir lærdómstitilinn philosophiae doctor (skammstafað Ph.D.). Skal segja á skírteini hvaða fræðigrein doktorsprófið tilheyrir.

17. gr.

Almenn viðmið um doktorspróf við hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Hver skor setur viðmið um doktorspróf innan þeirra greina sem tilheyra henni. Skulu þessi viðmið vera hluti doktorsnámsreglna hennar og lýsa nákvæmlega þeim skilyrðum þekkingar og hæfni sem doktorsnemi skal uppfylla. Til að uppfylla almennar kröfur hugvísindadeildar þarf doktorsnemi að hafa sýnt ótvíræðan skilning á fræðasviði sínu og yfirgripsmikla þekkingu. Einnig skal doktorsnemi með doktorsritgerð sinni hafa auðgað fræðasvið sitt með viðamikilli rannsókn og sjálfstæðu framlagi sem telst mikilvægt innan fræðigreinarinnar. Skal þessi rannsókn og aðrir þættir doktorsnámsins sýna að doktors­neminn geti greint og sett fram á skýran hátt flóknar hugmyndir sem krefjast ítar­legrar rannsóknar. Skal hann geta tekið fullan þátt í rökræðu innan sviðsins á fræði­legum vettvangi sem sjálfstæður fræðimaður, miðlað þekkingu sinni bæði í ræðu og riti, og stuðlað að aukinni menntun og þekkingu innan samfélagsins.

18. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem samþykktar hafa verið af deildarfundi í hugvísindadeild og hlotið staðfestingu háskólaráðs, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og 67. og 68. gr. sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, öðlast þegar gildi. Samhliða setningu þessara reglna hafa reglur settar af háskólaráði þann 5. desember 2002, um framhaldsnám í hugvísindadeild, verið endurskoðaðar og gefnar út að nýju sem reglur um meistaranám við hugvísindadeild.

Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 41/1999, skal birta reglur þessar í kafla hugvísindadeildar í kennsluskrá og á heimasíðu deildarinnar.

Háskóla Íslands, 26. mars 2007.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 23. apríl 2007