Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 13/2010

Nr. 13/2010 8. mars 2010
LÖG
um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
1. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
    a.    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Stjórnin skal gæta þess að hlutaskráin geymi réttar upplýsingar á hverjum tíma.
    b.    Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo: 
               Í hlutaskrána skulu færðar upplýsingar um atkvæðisrétt hluthafa og skal þar jafnframt geta allra þeirra samstæðutengsla sem hlutafélagið er í.

2. gr.
     1. mgr. 63. gr. laganna orðast svo:
    Í stjórn hlutafélags skulu eiga sæti fæst þrír menn. Í stjórnum opinberra hlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í slíkum félögum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust. Náist ekki viðhlítandi niðurstaða má samþykkja nauðsynlega breytingu með nýrri ákvörðun hluthafafundar en ákvæði um þetta efni skal taka upp í samþykktir félags. Í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn. Í hlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, skal jafnframt sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.

3. gr.
    Við 1. mgr. 65. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra og skulu hlutafélagaskrá gefnar upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.

4. gr.
    Við 1. mgr. 70. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Formaður félagsstjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.

5. gr.
    Á eftir 3. mgr. 84. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Félagsstjórn skal gera stutta samantekt og leggja fyrir aðalfund um hlutafjáreign einstakra hluthafa og rétt þeirra til að greiða atkvæði, svo og um þær breytingar sem orðið hafa á árinu. Sambærilegar upplýsingar skulu liggja fyrir um þau samstæðutengsl sem hlutafélagið er í.

6. gr.
    Við 2. málsl. 1. mgr. 91. gr. laganna bætist: og hlutafjáreign einstakra hluthafa og atkvæðisrétt þeirra.

7. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 153. gr. laganna:
    a.    Á eftir orðunum „(2. mgr. 70. gr.)“ kemur: samantekt um samstæðutengsl o.fl. (4. mgr. 84. gr.).
    b.    Í stað orðanna „4. mgr. 84. gr.“ kemur: 5. mgr. 84. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
8. gr.
     1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
    Í stjórn einkahlutafélags skulu eiga sæti fæst þrír menn nema hluthafar séu fjórir eða færri, þá nægir að stjórnina skipi einn eða tveir menn. Ef stjórn félags er skipuð einum manni skal valinn a.m.k. einn varamaður. Þegar stjórnarmenn eru tveir eða þrír í félagi þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Sama gildir um kynjahlutföll meðal varamanna í slíkum félögum en hlutföllin í stjórn og varastjórn skulu þó í heild vera sem jöfnust. Náist ekki viðhlítandi niðurstaða má samþykkja nauðsynlega breytingu með nýrri ákvörðun hluthafafundar en ákvæði um þetta efni skal taka upp í samþykktir félags. Í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn. Í einkahlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, skal jafnframt sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.

9. gr.
    Við 1. mgr. 41. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra og skulu hlutafélagaskrá gefnar upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.

III. KAFLI
Gildistaka.
10. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði 2.–4. málsl. 2. gr. um önnur hlutafélög en opinber hlutafélög og 3.–5. málsl. 8. gr. öðlast gildi 1. september 2013.

Gjört í Reykjavík, 8. mars 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Gylfi Magnússon.

A deild - Útgáfud.: 11. mars 2010