Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 777/2013

Nr. 777/2013 27. ágúst 2013
REGLUGERÐ
um störf og starfsskilyrði endurupptökunefndar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um störf og starfsskilyrði endurupptökunefndar skv. lögum um dóm­stóla.

2. gr.

Beiðni um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í héraði eða í Hæstarétti skal send endurupptökunefnd.

Beiðni um endurupptöku skal vera skrifleg og lögð fram í fjórum eintökum. Í beiðni skal koma fram nafn beiðanda, kennitala hans, heimilisfang og upplýsingar um hvaða dóms­máli óskað er endurupptöku á. Í beiðni skal rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku máls og hvort skilyrði endurupptöku séu uppfyllt.

Með beiðni skulu fylgja í einriti nauðsynleg gögn til stuðnings beiðni. Nefndin kallar eftir frekari gögnum eftir því sem tilefni er til.

3. gr.

Um skilyrði fyrir endurupptöku einkamáls og meðferð beiðna um endurupptöku slíks máls hjá nefndinni fer skv. ákvæðum XXVI. og XXVII. kafla laga um meðferð einkamála.

Um skilyrði fyrir endurupptöku sakamáls og meðferð beiðna um endurupptöku slíks máls hjá nefndinni fer skv. ákvæðum XXXII. og XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála.

4. gr.

Um hæfi nefndarmanna til meðferðar máls gilda ákvæði 5. gr. laga um meðferð einka­mála vegna beiðni um endurupptöku einkamáls og 6. gr. laga um meðferð saka­mála nr. 88/2008 vegna beiðni um endurupptöku sakamáls.

Nefndarmaður gætir sjálfur að hæfi sínu en aðili endurupptökumáls getur einnig krafist þess að nefndarmaður víki sæti. Nefndarmenn taka allir þátt í ákvörðun um hvort einn eða fleiri nefndarmenn skuli víkja sæti.

Varamaður tekur sæti í nefndinni í forföllum aðalmanns og þegar aðalmaður er van­hæfur.

Ef aðalmaður lætur af störfum í nefndinni skal sá aðili, sem tilnefndi hann, tilnefna nýjan aðal­mann og nýjan varamann.

5. gr.

Nefndin skal sjá til þess að aflað verði þeirra gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru við meðferð beiðni um endurupptöku.

6. gr.

Ákvarðarnir nefndarinnar eru teknar með meirihluta atkvæða nefndarmanna. Skal ákvörðun rökstudd og send aðilum máls.

Ákvarðanir nefndarinnar skulu birtar á úrskurðarvef stjórnvalda urskurdir.is tveimur vikum eftir að ákvörðun er send aðilum máls.

Endurupptökunefnd heldur skrá yfir mál sem berast nefndinni, meðferð málanna og niður­stöður þeirra.

7. gr.

Nefndarmönnum ber að gæta þagmælsku um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi og leynt eiga að fara vegna lögmæltra almanna- eða einkahagsmuna. Þagmælska helst þótt látið sé af starfi.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er skv. heimild í 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013 öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 27. ágúst 2013.

Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 28. ágúst 2013