Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 275/2007

Nr. 275/2007 23. mars 2007
REGLUR
um mat á útvarpsþjónustu í almannaþágu.

1. gr.

Útvarpsþjónusta í almannaþágu.

Með útvarpsþjónustu í almannaþágu er átt við útvarpsþjónustu eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007 og nánar útfærð í 2. gr. samnings um útvarpsþjónustu í almannaþágu (hér eftir nefndur samningurinn) gerðum samkvæmt 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Heimilt er að standa straum af útvarpsþjónustu í almannaþágu með ríkisstyrkjum þegar uppfyllt eru skilyrði 1. mgr. um fjölbreytta dagskrá og annað efni sem ætlað er að fullnægja lýðræðislegum, félagslegum og menningarlegum þörfum íslensks þjóðfélags, sem og fjölræði í menningu og tungumálum, allt innan þeirra marka sem sett eru í 2. mgr. 59. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 og kafla 24C.6.1. í leiðbeinandi reglum ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA um útvarpsþjónustu í almanna­þágu, útg. 23. apríl 2004.

Með nýrri þjónustu er átt við samfellt og viðvarandi framboð þjónustu eftir tiltekinni miðlunaraðferð sem ekki telst falla undir þá þjónustu sem er þegar lýst í 2. gr. samn­ingsins. Útvíkkun á umfangi útvarpsþjónustu í almannaþágu eins og hún er skilgreind í 1. mgr. er ávallt háð undangengnu mati á þáttum sem skilgreindir eru í 2. mgr. og breyt­ingu á skil­greiningu þjónustunnar í 2. gr. samningsins eða 3. gr. laga um Ríkis­útvarpið ohf., eftir því sem við á.

2. gr.

Upptaka nýrrar þjónustu.

Komi fram tillaga af hálfu Ríkisútvarpsins ohf. um upptöku nýrrar þjónustu til viðbótar þjónustu sem þegar er skilgreind í 2. gr. samningsins, skal auglýsa slíka áætlun opin­ber­lega á heimasíðum menntamálaráðuneytisins og félagsins. Í auglýsingunni skal veittur 3 mánaða frestur til að skila athugasemdum til menntamálaráðuneytisins vegna fyrir­hugaðrar þjónustu.

Í umsókn um upptöku nýrrar þjónustu skal tilgreina eftirfarandi:

  1. áætluð áhrif þjónustunnar með tilliti til fjölda notenda og umfangs hennar,
  2. áætlaðan kostnað af því að veita þjónustuna, ásamt greinargerð um hvernig kostnaði af upptöku þjónustunnar verði mætt,
  3. lýsingu á nýnæmi þjónustunnar með tilliti til þeirri þjónustu sem þegar er skil­greind í 2. gr. samningsins, þ.e. að hve miklu leyti er um nýja þjónustu að ræða og að hve miklu leyti er um að ræða framhald af núverandi þjónustu Ríkis­útvarpsins ohf.,
  4. rekstrartímabil þjónustu, þ.e. hvort um sé að ræða þjónustu til skamms eða til lengri tíma, og
  5. önnur atriði er máli kunna að skipta með tilliti til leiðbeinandi reglna ríkisstyrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA um útvarpsþjónustu í almannaþágu, útg. 23. apríl 2004.

3. gr.

Mat á nýrri þjónustu.

Við mat á nýrri þjónustu ber að meta hvort þjónustan falli innan heimildarákvæðis 2. mgr. 59. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 1. gr. og útvarps­þjónustu í almannaþágu eins og hún er skilgreind í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf., að teknu tilliti til þess efnis sem miðlað verður og fyrirhugaðrar miðlunaraðferðar.

Mat skv. þessari grein er á höndum menntamálaráðuneytisins. Með mati á nýrri þjónustu skal leitast við að tryggja að þjónustan uppfylli menningarlegar, lýðræðislegar og félags­legar þarfir íslensks samfélags. Ný þjónusta telst uppfylla framangreindar þarfir þegar þjón­ustan leiðir til virðisauka fyrir samfélagið eða samfélagshópa, og þegar þjónustan er að jafnaði aðgengileg landsmönnum öllum.

Menningarlegar þarfir skv. 1. mgr. teljast uppfylltar þegar þeim er mætt með þjónustu sem varðar alla landsmenn án tillits til áhugasviðs þeirra og sem hefur það að markmiði að veita notendum innsýn í menningu liðins tíma, framtíðar og nútíðar hérlendis sem erlendis, sem og efni sem felur í sér menningarlegt inntak. Hér undir fellur sköpun og miðlun menn­ingarefnis svo sem gerð leikins efnis, kvikmyndagerð, tónlist, leikhús­menning, umfjöllun um íþróttaviðburði og önnur afþreying.

Lýðræðislegar þarfir skv. 1. mgr. teljast uppfylltar með þjónustu sem endurspeglar mis­munandi sjónarhorn í íslensku eða erlendu samfélagi eða öðrum löndum og stuðlar að því að notendur geti áttað sig á þýðingu þeirra fyrir þau samfélög eða önnur lönd, þar með talið stjórnmálaaðstæður innanlands og erlendis, samfélagsgerð og aðstæður ráð­andi afla, sem og fréttaefni almennt. Undir framangreint fellur einnig þjónusta þar sem notendur hafa mögu­leika til að segja hug sinn.

Félagslegar þarfir skv. 1. mgr. teljast uppfylltar með þjónustu sem fangar inntak og heildarmynd íslensks samfélags.

Við mat á nýrri þjónustu skv. þessari grein getur menntamálaráðuneytið leitað umsagnar eða álits hjá Samkeppniseftirlitinu, Póst- og fjarskiptastofnun og útvarpsréttarnefnd eða öðrum þar til bærum sérfræðingum eftir því sem þurfa þykir.

4. gr.

Heimild til upptöku nýrrar þjónustu.

Menntamálaráðherra veitir heimild til upptöku nýrrar þjónustu að undangengnu mati skv. 3. gr. og að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem borist hafa innan frests skv. 1. mgr. 2. gr. Ef þjónusta sem óskað er að taka upp fellur þegar undir útvarpsþjónustu í almannaþágu eins og hún er skilgreind í 2. gr. samningsins skal hún heimiluð án frekari fyrirvara og breytinga á samningnum. Ef fyrirhuguð þjónusta fellur utan samningsins en innan 3. gr. laga um Ríkis­útvarpið ohf. getur ráðherra heimilað upptöku hennar að undangengnum breytingum á samn­ingnum, þegar liðnir eru sex mánuðir frá birtingu aug­lýsingar skv. 1. mgr. 2. gr. Ef fyrirhuguð þjónusta fellur utan 3. gr. laga um Ríkis­útvarpið ohf., verður hún ekki veitt að óbreyttum lögum.

5. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar fela í sér nánari útfærslu á kafla 24C.6.1. í leiðbeinandi reglum ríkis­styrkja- og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA um útvarpsþjónustu í almanna­þágu, útg. 23. apríl 2004 og taka gildi frá og með 1. apríl 2007.

Menntamálaráðuneytinu, 23. mars 2007.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 29. mars 2007