Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 422/2009

Nr. 422/2009 16. apríl 2009
SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Farskólann - miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra.

1. gr.

Sjóðurinn heitir Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og er sjálfs­eignarstofnun með sérstaka stjórn. Heimili og varnarþing er í Skagafirði. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum.

2. gr.

Stofnendur að Farskólanum eru eftirfarandi:

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, kt. 431080-0289
Húnaþing vestra, kt. 540598-2829
Húnavatnshreppur, kt. 420106-1300
Blönduósbær, kt. 470169-1769
Sveitarfélagið Skagaströnd, kt. 650169-6039
Sveitarfélagið Skagafjörður, kt. 550698-2349
Akrahreppur, kt. 410169-3209
Fjallabyggð vegna Siglufjarðar, kt. 580706-0880
Aldan stéttarfélag, Skagafirði, kt. 560169-1169
Verslunarmannafélag Skagfirðinga, kt. 690975-2119
Starfsmannafélag Skagafjarðar, kt. 501090-2399
Stéttarfélagið Samstaða, Húnavatnssýslum, kt. 631097-2279
Háskólinn á Hólum í Hjaltadal, kt. 500169-4359
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki, kt. 571297-2139
Fisk Seafood hf., kt. 461289-1269

3. gr.

Fjárhagslegar skuldbindingar skólans eru stofnendum óviðkomandi umfram stofnframlag kr. 852.000 og greiðist jafnt af stofnaðilum. Stofnframlagið er óskerðanlegt.

4. gr.

Heimilt er öðrum aðilum að gerast vildarvinir að skólanum, að fengnu samþykki fulltrúa­ráðs, og skulu þeir þá greiða skólanum vildargjald, samkvæmt ákvörðun stjórnar skólans.

5. gr.

Markmið Farskólans er að efla endur- og símenntun á Norðurlandi vestra. Starfsemi skólans skal miðast við að auka starfshæfni og vellíðan þeirra sem hann sækja. Far­skólinn skal leitast við að greina þarfir fyrir fræðslu á þjónustusvæði sínu og einbeita sér jafnt að atvinnulífinu sem einstaklingum. Farskólinn skal bjóða fram háskólanám með fjarkennslusniði í samstarfi við háskólastofnanir. Kennsluhættir skulu sniðnir að þörfum nemenda hverju sinni.

Til að ná markmiðum sínum skal skólinn sjálfur standa fyrir námi eða gera um það samninga við aðrar fræðslustofnanir.

6. gr.

Við Farskólann skal starfrækja fulltrúaráð, skipað einum fulltrúa frá hverjum stofnaðila skólans og einum til vara. Á hverju ári skal fulltrúaráðið koma tvisvar saman til fundar. Aðalfundur Farskólans skal haldinn fyrir 1. maí, ár hvert.

Í stjórn skulu sitja fimm fulltrúar og fimm til vara frá eftirtöldum aðilum:

einn fulltrúi frá Hólaskóla – háskólanum á Hólum, einn fulltrúi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, einn fulltrúi frá viðkomandi stéttarfélögum sem standa að stofnun Farskólans, einn fulltrúi frá viðkomandi fyrirtækjum og stofnunum sem standa að stofnun Farskólans, og einn fulltrúi frá sveitarfélögum sem standa að stofnun Farskólans og koma þau sér saman um fulltrúa.

Stofnaðilar tilkynna um nýja stjórn á aðalfundi. Stjórnin er valin til tveggja ára. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skal stjórnin skipta með sér verkum.

Stjórnin boðar til aðalfundar Farskólans með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Afgreiðsla reikninga
  3. Breytingar á samþykktum skólans
  4. Kosning stjórnar
  5. Starfsáætlun
  6. Ákvörðun aðildargjalda næsta árs
  7. Önnur mál

Stefnumótunarfundur skal haldinn í byrjun júní fyrir komandi skólaár.

7. gr.

Stjórn Farskólans ber að vinna að markmiðum skólans og kemur fram fyrir hans hönd gagnvart þeim sem veita honum fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum skólans.

8. gr.

Stjórn Farskólans ræður framkvæmdastjóra, sem annast daglegan rekstur, og setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn skólans. Hann undirbýr fjárhagsáætlun, vinnur að fjáröflun og annast reikningsskil. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk skólans að fengnu samþykki stjórnar.

9. gr.

Tekjur Farskólans – miðstöðvar símenntunar á Norðurlandi vestra eru, auk vaxta af stofn­framlagi, framlög frá vildarvinum, ríkisframlag og annað aflafé.

10. gr.

Reikningsár skólans er frá 1. janúar - 31. desember ár hvert. Fyrsta reikningstímabil er frá stofnun sjóðsins til næstu áramóta. Reikningar skólans skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem skipaður er af stjórn til tveggja ára í senn. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun strax að loknum aðalfundi.

11. gr.

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt á aðalfundi og skal þess getið sérstaklega í fundarboði. Tillögur um breytingar á skipulagsskrá skulu hafa borist stjórn fyrir 15. febrúar ár hvert. Senda skal breytingatillögur með fundarboði aðalfundar. Tillögurnar skoðast samþykktar ef 2/3 stjórnarmanna samþykkja.

Skulu breytingar á skipulagsskrá hljóta staðfestingu sýslumannsins á Sauðárkróki.

Starfsemi skólans verður einungis lögð niður með samhljóða samþykki stjórnar á aðal­fundi. Verði starfsemi skólans lögð niður skulu eignir hans renna til eflingar endur- og símenntunar á Norðurlandi vestra.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari sem og breyt­ingum sem kunna að vera gerðar á henni.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Sýslumaðurinn á Sauðárkróki, 16. apríl 2009.

Ríkarður Másson.

Helgi M. Ólafsson.

B deild - Útgáfud.: 4. maí 2009