Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 950/2010

Nr. 950/2010 6. desember 2010
REGLUR
um gjaldeyrisjöfnuð.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til lánastofnana sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga, í reglum þessum nefnd einu nafni fjármálafyrirtæki.

2. gr.

Skilgreiningar.

Eiginfjárgrunnur: Eiginfjárgrunnur er reiknaður samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með áorðnum breytingum. Miða skal við eiginfjárgrunn skv. síðasta uppgjöri. Fjármálafyrirtækjum er heimilt að leiðrétta eiginfjárgrunn um mánaðamót vegna breytinga á gengi gjaldmiðla, enda sé Seðlabankanum gerð grein fyrir slíkri breytingu sérstaklega. Hafi heimildin verið notuð skal samsvarandi leiðrétting gerð um hver mánaðamót til hækkunar eða lækkunar.

Eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum: Eignir og skuldir, svo og liðir utan efnahags­reiknings, sem eru í erlendum gjaldmiðli og svo liðir í íslenskum krónum sem taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla.

Framvirk staða: Öll viðskipti í erlendum gjaldmiðlum með uppgjöri eftir þrjá eða fleiri viðskiptadaga, að meðtöldum gjaldmiðlaskiptasamningum og öðrum skiptasamningum.

Heildargjaldeyrisjöfnuður: Samtala þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða er jákvæð (nettó gnóttstaða) að frádreginni samtölu þeirra gjaldmiðla þar sem opin gjaldeyrisstaða er neikvæð (nettó skortstaða).

Nústaða í gjaldmiðli: Eignir og skuldir í viðkomandi gjaldmiðli, þar með talin núviðskipti með uppgjöri innan þriggja viðskiptadaga.

Opin gjaldeyrisstaða í einstökum gjaldmiðlum: Allar eignir og skuldir, svo og liðir utan efnahagsreiknings í viðkomandi gjaldmiðli, þar sem fjármálafyrirtæki ber sjálft gjaldeyris­áhættu. Við skilgreiningu áhættu skal miða við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eftir því sem við á.

3. gr.

Sundurliðun eigna og skulda í erlendum gjaldmiðlum.

Fjármálafyrirtækjum ber að sundurliða nústöðu eigna með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:

  1. Innstæður í Seðlabanka Íslands.
  2. Innstæðubréf Seðlabanka Íslands.
  3. Nostro reikningar.
  4. Önnur innlán og ávöxtunarsamningar.
  5. Skráð skuldabréf og víxlar þar sem útgefandi er ríki, seðlabanki, alþjóðastofnun eða fjölþjóða þróunarbanki, eða bréf sem tryggð eru með ábyrgð þessara aðila, sbr. 11. gr. og 14. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215 frá 2. mars 2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.
  6. Önnur skráð skuldabréf og víxlar.
  7. Skráð hlutabréf.
  8. Óskráð hlutabréf.
  9. Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða.
  10. Skammtímaútlán, til skemmri tíma en eins árs.
  11. Langtímaútlán, til lengri tíma en eins árs.
  12. Núviðskipti með uppgjöri innan þriggja viðskiptadaga.
  13. Aðrar eignir en ofantaldar.

Fjármálafyrirtækjum ber að sundurliða nústöðu skulda með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:

  1. Viðskipti við Seðlabanka Íslands samkvæmt gildandi reglum bankans um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann, að framvirkum viðskiptum undanskildum.
  2. Aðrar skuldir við Seðlabanka Íslands en skv. 1. tölul.
  3. Veðlán og endurhverf viðskipti við aðra en Seðlabanka Íslands.
  4. Útgefnir víxlar.
  5. Útgefin skuldabréf með gjalddaga innan eins árs.
  6. Útgefin skuldabréf með gjalddaga eftir lengri tíma en eitt ár.
  7. Sértryggð skuldabréf útgefin skv. lögum um sértryggð skuldabréf nr. 11/2008.
  8. Sambankalán.
  9. Tvíhliða lánasamningar við fjármálafyrirtæki.
  10. Ávöxtunarsamningar og innlán frá fjármálafyrirtækjum.
  11. Ávöxtunarsamningar og innlán frá lífeyris-, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum.
  12. Almenn innlán.
  13. Núviðskipti með uppgjöri innan þriggja viðskiptadaga.
  14. Aðrar skuldir en ofantaldar.

Fjármálafyrirtækjum ber að sundurliða framvirka stöðu eigna með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:

  1. Framvirkir gjaldmiðlasamningar (e. FX forwards).
  2. Gjaldmiðlaskiptasamningar (e. FX swaps).
  3. Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar (e. Cross-Currency Interest Rate Swaps).
  4. Valréttir.
  5. Aðrar eignir sem mynda framvirka stöðu.

Fjármálafyrirtækjum ber að sundurliða framvirka stöðu skulda með eftirfarandi hætti í mánaðarlegri skýrslu til Seðlabankans:

  1. Framvirkir gjaldmiðlasamningar (e. FX forwards).
  2. Gjaldmiðlaskiptasamningar (e. FX swaps).
  3. Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar (e. Cross-Currency Interest Rate Swaps).
  4. Valréttir.
  5. Aðrar skuldir sem mynda framvirka stöðu.

4. gr.

Útreikningur á opinni gjaldeyrisstöðu.

Útreikningur á opinni gjaldeyrisstöðu skal innihalda eftirfarandi liði:

  1. Allar eignir í erlendum gjaldmiðlum, að frádregnum skuldum í erlendum gjaldmiðlum, en að meðtöldum áföllnum ógjaldföllnum vöxtum (nettó nústaða).
  2. Stöður í framvirkum samningum, stöðluðum framvirkum samningum og gjaldmiðlaskiptasamningum, að því marki sem þessir samningar eru ekki taldir með nettó nústöðu (nettó framvirk staða). Gjaldmiðlaskiptasamninga og framvirka samninga skal meðhöndla sem eign í einum gjaldmiðli og skuld í öðrum.
  3. Óafturkallanlegar ábyrgðir í erlendum gjaldmiðlum, og svipaðar skuldbindingar, ef öruggt er talið að á þær reyni og ólíklegt að þær verði endurkrefjanlegar.
  4. Samanlagt nettó deltavirði af valréttarsamningum um gjaldeyri. Fjármálafyrirtæki sem eiga í viðskiptum með valréttarsamninga skulu reikna deltavirði í samræmi við ákvæði reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.
  5. Markaðsvirði annarra afleiðusamninga í erlendum gjaldmiðli en skv. 2. og 4. lið að ofan.

Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu í einstökum gjaldmiðlum er skylt að skipta samsettum mynteiningum upp eftir vægi hverrar myntar í viðkomandi mynteiningu.

Við útreikning á opinni gjaldeyrisstöðu skal umreikna fjárhæðir miðað við miðgengi íslensku krónunnar eins og það er skráð á heimasíðu Seðlabanka Íslands í lok hvers mánaðar. Viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði er þó heimilt að miða við lokagengi viðkomandi fjármálastofnunar við hver mánaðamót.

5. gr.

Gjaldeyrisjöfnuður.

Gjaldeyrisjöfnuður sem þessar reglur taka til, skal ávallt vera innan eftirfarandi marka:

  1. 1. Opin gjaldeyrisstaða í einstökum erlendum gjaldmiðlum skal hvorki vera jákvæð né neikvæð um hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eiginfjárgrunni fjármála­fyrirtækis samkvæmt síðasta uppgjöri, sbr. þó 1. mgr. 2. gr.
  2. 2. Heildargjaldeyrisjöfnuður skal hvorki vera jákvæður né neikvæður um hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis samkvæmt síðasta uppgjöri, sbr. þó 1. mgr. 2. gr.

Víki gjaldeyrisjöfnuður frá þeim mörkum sem hér eru tilgreind skal hlutaðeigandi fjármála­fyrirtæki grípa til aðgerða til að eyða frávikinu eigi síðar en innan þriggja viðskipta­daga. Takist viðkomandi þetta ekki er Seðlabankanum heimilt að reikna dagsektir á þá fjárhæð sem gjaldeyrisjöfnuður er umfram tilskilda fjárhæð, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglna um beitingu viðurlaga í formi dagsekta nr. 389 frá 29. maí 2002.

6. gr.

Undanþáguheimildir.

Seðlabankinn getur veitt fjármálafyrirtæki heimild til að hafa sérstakan jákvæðan gjaldeyris­jöfnuð utan við almennan gjaldeyrisjöfnuð skv. 5. gr., til varnar áhrifum af breytingum á gengi krónunnar á eiginfjárhlutfall, enda leggi viðkomandi fjármálafyrirtæki fram greinargerð þar sem fram koma forsendur og útreikningar til ákvörðunar á stærð hins sérstaka jákvæða gjaldeyrisjafnaðar, og greini sérstaklega frá honum í skýrslum til Seðlabankans.

7. gr.

Skýrsluskil.

Aðilar þeir er reglur þessar ná til, skulu skila Seðlabankanum skýrslu um gjaldeyrisjöfnuð mán­aðarlega, eftir því sem greinir í 3. gr., sbr. 4. gr., innan 15 daga frá lokum hvers mánaðar.

Seðlabanki Íslands getur krafist tíðari skýrsluskila en hér er kveðið á um. Seðlabankinn getur einnig á hverjum tíma kallað eftir ítarlegri upplýsingum um sundurliðun eigna og skulda skv. 3. gr.

Viðskiptavakar á millibankamarkaði með gjaldeyri skulu að auki skila daglega skýrslu um gjaldeyrisjöfnuð. Í skýrslunni er eingöngu tilgreind heildarnústaða eigna og skulda annars vegar, og framvirk staða eigna og skulda hins vegar.

Vanræki fjármálafyrirtæki að veita Seðlabankanum upplýsingar á tilsettum tíma skv. þessum reglum, getur Seðlabankinn beitt viðkomandi fjármálafyrirtæki dagsektum skv. reglum um beitingu viðurlaga í formi dagsekta, nú nr. 389 frá 29. maí 2002.

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 13. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, svo og 8. gr. laga nr. 87/1992, taka gildi 1. janúar 2011. Jafnframt falla úr gildi reglur um gjaldeyrisjöfnuð nr. 707 frá 14. ágúst 2009.

Ákvæði til bráðabirgða

I.

Vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í kjölfar falls íslenska bankakerfisins, getur Seðlabanki Íslands veitt fjármálafyrirtækjum tímabundna heimild til að hafa sérstakan jákvæðan eða neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð, sé þess þörf. Fjármálafyrirtæki skal leggja til grundvallar umsókn sinni tímasetta áætlun um hvernig það hyggst ná gjaldeyrisjöfnuði sem uppfyllir þessar reglur, þar sem fram komi greinargóð lýsing á því til hvaða aðgerða það hyggst grípa. Undanþágur skv. þessu ákvæði verða ekki veittar til lengri tíma en 1. janúar 2013.

Bráðabirgðaákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2013.

Reykjavík, 6. desember 2010.

Seðlabanki Íslands,

Már Guðmundsson
seðlabankastjóri.

Tryggvi Pálsson
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 9. desember 2010