Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 977/2014

Nr. 977/2014 31. október 2014
REGLUR
um háskólaráð og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar um háskólaráð og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands eru settar af háskólaráði á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006 og laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Þær eru til fyllingar settum lögum sem um skólann gilda.

2. gr.

Háskólaráð.

Háskólaráð fer með æðsta ákvörðunarvald innan háskólans nema mælt sé á annan veg í lögum, markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum, mótar skipulag, fer með almennt eftirlit og ber ábyrgð á að háskólinn starfi til samræmis við gildandi lög og reglur.

Rektor háskólans er formaður háskólaráðs og boðar til funda í ráðinu og stýrir fundum þess, sbr. 7. gr. laga nr. 85/2008.

Auk rektors eiga sæti í háskólaráði til tveggja ára í senn:

a)

Tveir fulltrúar háskólasamfélagsins, tilnefndir af háskólafundi.

b)

Einn fulltrúi nemenda, tilnefndur af Nemendafélagi LbhÍ.

c)

Einn fulltrúi tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra.

d)

Tveir fulltrúar eru tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Tilnefna skal varamann fyrir sérhvern fulltrúa í liðum a-c og einn varamann fyrir fulltrúa skv. lið d, með sama hætti, en staðgengill rektors er varamaður hans í háskólaráði og gegnir þá störfum formanns, stýrir og boðar til funda og fer með atkvæði formanns í fjarveru hans.

Þeir sem valdir eru sem fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráð skulu, þegar tilnefning á sér stað, vera starfsmenn háskólans í fullu starfi, en kjörgengir eru þó ekki rektor, aðstoðarrektorar, deildarforsetar, rekstrarstjóri og kennslustjóri.

Tilnefning fulltrúa háskólasamfélagsins skal tekin á dagskrá háskólafundar skv. útsendu fundarboði. Samtímis því sem fundarboð er sent út a.m.k. þremur vikum fyrir fund skal auglýst eftir framboðum á vef skólans. Í fundarboði til háskólafundar skal jafnframt lýst eftir framboðum. Skulu framboð berast skrifstofu rektors a.m.k. viku fyrir boðaðan fund.

Háskólafundur kýs á milli þeirra sem eru í kjöri til að taka sæti sem fulltrúar háskóla­samfélagsins í háskólaráði, en fulltrúar nemenda á háskólafundi hafa þó ekki atkvæðis­rétt um það mál.

Nemendafélag LbhÍ annast val á fulltrúa nemenda í háskólaráð og skal rektor f.h. háskóla­ráðs kalla eftir tilnefningu af þess hálfu a.m.k. þremur vikum áður en kjörtímabil nýrra fulltrúa hefst.

Háskólaráð getur sett frekari reglur um val á fulltrúum háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð, en skal rektor þá jafnan afla umsagnar háskólafundar og Nemendafélags LbhÍ áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

Um skipan háskólaráðs og um hlutverk þess að öðru leyti fjallar í 5.-6. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Háskólaráð setur reglur um framhaldsnám á meistarastigi og doktorsstigi við háskólann.

Færa skal til bókar og kunngera með viðeigandi hætti ákvarðanir háskólaráðs.

3. gr.

Rektor.

Rektor er æðsti yfirmaður stjórnsýslu háskólans og er í fyrirsvari fyrir skólann almennt, sbr. 8. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Rektor stýrir daglegri starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum hans. Hann ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starf­semi, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum og annast gerð starfs- og rekstraráætlana.

Rektor ræður akademískt starfsfólk og annað starfsfólk háskólans. Rektor skal enn­fremur sjá til þess að til séu starfslýsingar fyrir allt starfsfólk, að svo miklu leyti sem þær koma ekki fram í lögum eða kjarasamningum.

Rektor hefur yfirumsjón með sjóðum skólans og öðrum eignum nema háskólaráð ákveði annað. Um stjórn sjóða fer að öðru leyti eftir fyrirmælum í stofnskrám og samþykktum.

Rektor boðar til funda eftir reglum háskólans og hefur umsjón með útgáfu ársskýrslu.

Staðgengill er rektor til aðstoðar og gegnir starfinu tímabundið í fjarveru eða forföllum hans. Rektor tilnefnir annan hvorn aðstoðarrektora sem staðgengil sinn og tilkynnir háskólaráði. Falli rektor frá eða láti af störfum áður en starfstími er liðinn sinnir stað­gengill starfinu þar til nýr rektor hefur verið skipaður samkvæmt lögum og reglum um háskól­ann.

4. gr.

Skipun rektors.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.

Við val á rektor skal háskólaráð tilnefna þrjá menn í valnefnd til að meta hæfni umsækj­enda og skal einn þeirra tilnefndur sem formaður nefndarinnar.

Valnefndarmenn skulu hafa lokið doktorsprófi úr háskóla eða aflað sér jafngildrar þekk­ingar og reynslu og hafa auk þess marktæka stjórnunarreynslu á háskólastigi.

Hæfni umsækjenda um embætti rektors skal metin í ljósi heildarmats með tilliti til vísinda- og útgáfustarfa, ferli sem háskólakennara eða í öðrum störfum, stjórn­unar­reynslu og með tilliti til þess hversu menntun og reynsla viðkomandi muni nýtast í starfi rektors.

Engum má veita embætti rektors nema meirihluti valnefndar hafi látið í ljós það álit að viðkomandi teljist hæfur til að gegna starfinu.

Ef sitjandi rektor háskólans sækist eftir endurtilnefningu skal hann víkja af fundi háskóla­ráðs við afgreiðslu málsins.

Háskólaráð skal annast um auglýsingu á lausu starfi rektors og getur ráðið falið sitjandi rektor að annast framkvæmd þar að lútandi.

5. gr.

Gildistaka – endurskoðun.

Reglur þessar, staðfestar af háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, öðlast gildi við birt­ingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Háskólaráð endurskoðar reglur þessar eftir þörfum og sæta þær breytingum af hálfu þess með venjulegum hætti, en þó að teknu tilliti til áskilnaðar laga og stjórnvalds­fyrirmæla.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði skv. a-lið 3. mgr. 2. gr. eru þeir sem kosnir voru á háskólafundi sem fram fór 11. október 2013 út tilnefningartímabil sitt eða þar til annað verður ákveðið á háskólafundi.

Landbúnaðarháskóla Íslands, 31. október 2014.

Björn Þorsteinsson rektor.

B deild - Útgáfud.: 4. nóvember 2014