Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 210/2015

Nr. 210/2015 9. febrúar 2015
VERKLAGSREGLUR
og skilyrði fyrir styrkveitingum úr Kolvetnisrannsóknasjóði.

1. gr.

Kolvetnisrannsóknasjóður.

Kolvetnisrannsóknasjóður er mennta- og rannsóknasjóður í tengslum við kolvetnisstarfsemi á Íslandi í samræmi við reglugerð nr. 39/2009.

Sjóðurinn er í vörslu ráðherra.

Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa hvers rannsóknar- og vinnsluleyfis fyrir sig auk fulltrúa ríkisins sem ráðherra skipar og fer sá með formennsku í sjóðnum.

Orkustofnun annast daglega umsýslu Kolvetnisrannsóknasjóðs. Dagleg umsýsla skilgreinist m.a. sem upplýsingagjöf, móttaka styrkumsókna, mat og úrvinnsla styrkumsókna og eftirlit.

Upplýsingar um sjóðinn skulu vera aðgengilegar á vef Orkustofnunar.

2. gr.

Hlutverk Kolvetnisrannsóknasjóðs.

Hlutverk sjóðsins er að stuðla að því að efla rannsóknir og vísindalega þekkingu á kolvetnis­auðlindum á landgrunni Íslands og á skilyrðum til myndunar þeirra, ásamt rannsóknum á tækni sem beita má við þær aðstæður er þar ríkja. Þetta skal gert meðal annars með því að veita:

  1. styrki til rannsóknarverkefna og sérhæfðra námsáfanga með aðild og/eða atbeina íslenskra mennta- og rannsóknastofnana,
  2. einstaklingsstyrki til náms í greinum sem tengjast rannsóknum og vinnslu kolvetnis,
  3. styrki til sérstakra verkefna á sviði kolvetnis, þ.m.t. til fræðslu og upplýsinga­starfsemi,
  4. styrki til rannsókna á sýnum og mæligögnum sem safnað er í tengslum við kolvetnis­leit, og
  5. styrki til að efla alþjóðasamvinnu um verkefni á landgrunni Íslands.

    3. gr.

    Tekjur.

    Tekjur Kolvetnisrannsóknasjóðs eru:

    1. stofnframlög nýrra leyfishafa,
    2. árleg framlög leyfishafa,
    3. vextir af fé sjóðsins.

    Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við aðila, sem hafa leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um umsjón og trygga vörslu fjár sjóðsins. Fé sjóðsins skal ávallt vera tryggilega sérgreint. Allur kostnaður við rekstur Kolvetnisrannsóknasjóðs greiðist af tekjum sjóðsins með stað­festingu stjórnar.

    4. gr.

    Gerð fjárhagsáætlana og ársreikninga.

    Orkustofnun skal á ári hverju semja tekju- og greiðsluáætlun í samræmi við hlutverk sjóðs­ins og ætlaðar tekjur. Skal áætlun þessi send til stjórnarinnar til staðfestingar. Orkustofnun skal gera eða láta útbúa ársreikning fyrir sjóðinn eigi síðar en 1. mars ár hvert fyrir næstliðið ár og leggja fyrir stjórnina til staðfestingar.

    5. gr.

    Hlutverk stjórnar Kolvetnisrannsóknasjóðs.

    Stjórn Kolvetnisrannsóknasjóðs úthlutar styrkjum úr sjóðnum og gerir áætlanir fyrir starfsemi hans í samræmi við hlutverk sjóðsins eins og það er skilgreint í reglugerð nr. 39/2009. Formaður stjórnar hefur neitunarvald séu fyrirhugaðar ákvarðanir stjórnarinnar ekki í samræmi við hlutverk og markmið sjóðsins eins og þau eru skilgreind í reglugerðinni og verklagsreglum þessum:

    1. Stjórnin skal leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu í málum, en sé þess ekki kostur ræður einfaldur meirihluti. Falli atkvæði að jöfnu ræður atkvæði for­manns úrslitum.
    2. Stjórn skal funda að minnsta kosti árlega. Fyrir lok hvers fundar skal ákveða næsta fundar­tíma.
    3. Fundargögn skulu send út eigi síðar en 4 vikum fyrir boðaðan fund.
    4. Óski 2 eða fleiri stjórnarmenn eftir því að halda fund skal boða til fundar innan fjögurra vikna frá því að beiðni berst. Slíkir fundir geta verið haldnir t.d. sem síma­fundur eða á sambærilegan hátt til að tryggja að allir stjórnarmenn geti tekið þátt í fundinum.
    5. Ákvörðunarbær þátttaka í stjórnarfundi skal vera allir stjórnarmenn.
    6. Stjórnarfundi skal halda á Íslandi, eða eftir samkomulagi um staðsetningu hverju sinni.

      6. gr.

      Styrkveitingar.

      1. Í fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins ár hvert skal ákveðið það fjármagn, sem til ráðstöfunar er til styrkveitinga hverju sinni.
      2. Styrkveitingar úr Kolvetnisrannsóknasjóði á að auglýsa í febrúar ár hvert nema stjórnin taki ákvörðun um annað. Auglýst skal á heimasíðu Orkustofnunar. Stjórnin getur ákveðið að auglýsa í fleiri miðlum ef svo ber undir.
      3. Stjórn Kolvetnisrannsóknasjóðs getur ákvarðað fyrir hvert ár eða tímabil í senn, að styrkveitingar sjóðsins takmarkist við verkefni innan afmarkaðs hluta þeirra sviða, sem heimilt er að styrkja samkvæmt 2. gr.
      4. Verkefni skulu að jafnaði ekki vera til lengri tíma en tveggja ára.
      5. Umsækjendur skulu skila umsóknum til sjóðsins á sérstökum umsóknareyðublöðum aðgengilegum á heimasíðu Orkustofnunar.

      Ef fleiri en ein umsókn varðandi svipað efni koma til afgreiðslu á sama tíma getur stjórn sjóðs­ins óskað eftir því að umsækjendur vinni saman að einu verkefni.

      Að umsóknarfresti liðnum flokkar Orkustofnun umsóknir og tryggir að fullnægjandi gögn fylgi umsóknum áður en þær eru lagðar fyrir stjórn til samþykktar. Við flokkun umsókna skal fara eftir sérstöku matsskema samþykktu af stjórn sjóðsins. Öllum umsækjendum verður tilkynnt um niðurstöðu mats á umsókn þeirra innan eðlilegra tímamarka.

      7. gr.

      Skilyrði fyrir greiðslu styrkja úr Kolvetnisrannsóknasjóði.

      Eftirfarandi þarf að liggja fyrir áður en fyrsta greiðsla er heimiluð:

      1. Staðfesting stjórnar Kolvetnisrannsóknasjóðs á styrkveitingunni.
      2. Skrifleg staðfesting á að fjármögnun mótframlags hafi gengið eftir eins og gert var ráð fyrir í umsókn, ef við á.
      3. Undirritaður samningur milli Kolvetnisrannsóknasjóðs og styrkþega um áætlaðan fram­gang verkefnisins, þ.m.t. skýrsluskil og greiðsluáætlun.
      4. Skrifleg staðfesting frá styrkþega um að verk sé hafið.

      Almenna reglan er að styrkir greiðist í þrennu lagi:

      1. Fyrsta greiðsla fer fram við upphaf verks.
      2. Önnur greiðsla þegar framvinduskýrsla/áfangaskýrsla hefur verið samþykkt af Orku­stofnun. Orkustofnun er heimilt að leita til þar til bærra sérfræðinga áður en fram­vindu­skýrsla/áfangaskýrsla er samþykkt.
      3. Þriðja og síðasta greiðsla fer fram þegar styrkþegi hefur skilað lokaskýrslu um verkefnið.
      4. Niðurstöður og lokaskýrslur verkefna sem styrkt hafa verið af Kolvetnis­rannsókna­sjóði skulu öllum aðgengilegar á vefsíðu Orkustofnunar.

      8. gr.

      Lok leyfisstarfsemi.

      Ef til þess kemur að leyfisstarfsemi lýkur á íslenska landgrunninu, þá skulu mögulegar eftir­stöðvar af sjóðnum fluttar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

      9. gr.

      Gildistaka.

      Starfsreglur þessar eru settar með stoð í reglugerð nr. 39/2009 um Kolvetnisrannsóknasjóð, og 10. gr. laga nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, og taka þegar gildi.

      Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. febrúar 2015.

      Ragnheiður Elín Árnadóttir
      iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

      Ingvi Már Pálsson.

      B deild - Útgáfud.: 3. mars 2015