Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 170/2006

Nr. 170/2006 20. desember 2006
LÖG
um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

1. gr.
    Í stað orðanna „Bókfært eigið fé fjármálafyrirtækis“ í 8. mgr. 14. gr. laganna kemur: Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis skv. 84. og 85. gr.

2. gr.
    17. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálafyrirtæki skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Hjá fjármálafyrirtæki skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar til að meta nauðsynlega stærð, samsetningu og innri dreifingu eiginfjárgrunns með hliðsjón af þeim áhættum sem starfsemin felur í sér hverju sinni. Innri ferlarnir skulu endurmetnir reglulega til að tryggja að þeir séu fullnægjandi með hliðsjón af eðli, umfangi og margbreytileika starfseminnar.
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypna.

3. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
    a.    Í stað orðanna „eigin fé“ í 1. og 2. mgr. kemur: eiginfjárgrunni.
    b.    4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Tímabundinn eignarhlutur fjármálafyrirtækis, þó ekki eignarhlutur í veltubók, í fyrirtæki í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu í þeim tilgangi að verja kröfur fjármálafyrirtækisins skal undanþeginn við útreikning skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar.
    c.    Í stað orðanna „eigin fjár“ í 3. mgr. kemur: eiginfjárgrunns.
    d.    6. mgr. fellur brott.

4. gr.
    1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.

5. gr.
    65. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreigenda.
    Nú synjar sparisjóður um heimild til sölu stofnfjárhlutar, sbr. 64. gr., eða neytir ekki heimildar til innlausnar hans skv. 1. mgr., og skal hann þá, ef óskað er, hafa milligöngu um sölu hlutarins eða innleysa hann innan árs frá því er skrifleg beiðni kom fram um sölu eða innlausn enda uppfylli sparisjóðurinn eiginfjárkröfur skv. 84. gr. þegar innlausn fer fram.
    Fari innlausn stofnfjárhlutar fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

6. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
    a.    1.–4. mgr. orðast svo: 
               Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. skal á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni. Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu reglulega leggja mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess og skal niðurstaða slíks mats, sem ekki getur verið lægra en skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar, teljast hlutfall eiginfjárgrunns af áhættugrunni. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að fjármálafyrirtæki sem ekki uppfyllir ákvæði þessarar greinar grípi tímanlega til nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta. Til að fylgja eftir kröfum Fjármálaeftirlitsins er því heimilt að mæla fyrir um: 
          a.    hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni, 
          b.    endurbætur á innri ferlum, 
          c.    niðurfærslu á eignum við útreikning á eiginfjárgrunni, 
          d.    hömlur á eða takmörkun á starfsemi fjármálafyrirtækis, 
          e.    að dregið sé úr áhættum sem starfsemi fjármálafyrirtækis felur í sér. 
               Áhættugrunnur er samtala veginna áhættuþátta, svo sem útlánaáhættu, hlutabréfaáhættu, vaxtaáhættu, gjaldmiðlaáhættu, hrávöruáhættu og rekstraráhættu, sem starfsemi fjármálafyrirtækis felur í sér. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um áhættuþætti, áhættuvogir og útreikning á áhættugrunni. Undanþegin mati á rekstraráhættu samkvæmt þessari grein eru verðbréfafyrirtæki sem ekki hafa starfsheimildir skv. b- og d-lið 1. tölul. 25. gr., verðbréfamiðlanir sem ekki hafa heimildir til viðskipta fyrir eigin reikning og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Fjármálafyrirtækjum er heimilt að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins að beita innramatsaðferð við mat á áhættuþáttum í útreikningi á áhættugrunni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um kröfur sem fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá heimild til að beita innramatsaðferð. 
               Eiginfjárgrunnur skv. 1. mgr. skal einnig gilda um samstæðureikning. Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning á eiginfjárgrunni og áhættugrunni fyrir fjármálasamsteypur sem byggjast á tilskipun ráðsins 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu. 
               Eiginfjárgrunnur skv. 1. mgr. skal samsettur af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C, og frádráttarliðum skv. 85. gr. Séu eiginfjárliðir byggðir á árshlutauppgjöri skal það vera áritað sem endurskoðað eða kannað af endurskoðanda. Eftirfarandi takmarkanir gilda um einstaka eiginfjárþætti: 
               1.    Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eiginfjárgrunns fyrir frádrátt skv. 85. gr. 
               2.    Eiginfjárþáttur B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. 
               3.    Eiginfjárþáttur C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má eiginfjárþáttur C hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni vegna markaðsáhættu liða í veltubók skv. 28. gr. og gengisáhættu.
    b.    Í stað orðsins „eign“ í lokamálslið 5. mgr. kemur: eigin fé.
    c.    2. og 3. málsl. 7. mgr. orðast svo: Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárkrafa hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis er undir lágmarkskröfu skv. 1. mgr. eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárkrafan fer undir tilvitnað lágmark. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu ef slík greiðsla veldur því að eiginfjárgrunnur sem hlutfall af áhættugrunni fer niður fyrir mark sem er 2% stigum hærra en lágmarkið skv. 1. mgr.
    d.    Í stað orðanna „eigið fé“ í 1. og 3. málsl. 9. mgr. og „eigin fé“ í 10. mgr. kemur: eiginfjárgrunnur; og: eiginfjárgrunni.
    e.    Tvær nýjar málsgreinar bætast við greinina, svohljóðandi: 
               Fjármálafyrirtæki skal upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um slíka upplýsingagjöf. 
               Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis til viðskiptamanns um lánshæfismat hans þegar ákvörðun um lánveitingu er á því byggð og lánshæfismatið jafnframt notað við mat á lánaáhættu í útreikningi á áhættugrunni samkvæmt innramatsaðferð.

7. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
    a.    1. mgr. orðast svo: 
               Frá eiginfjárgrunni skv. 4. mgr. 84. gr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi kröfum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Þegar um er að ræða eignarhluti sem nema allt að 10% af hlutafé í hverju einstöku fjármálafyrirtæki takmarkast frádrátturinn þó við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi krafna sem er umfram 10% af eiginfjárgrunni eins og hann er reiknaður skv. 4. mgr. 84. gr. fyrir frádrátt samkvæmt þessari grein.
    b.    Í stað orðanna „eigin fé“ í 3. mgr. kemur: eiginfjárgrunni.
    c.    Í stað orðanna „eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 4. mgr. 84. gr.“ í 4. mgr. kemur: eiginfjárgrunni skv. 84. gr.
    d.    Í stað orðanna „eigin fé dragast enn fremur“ í 5. mgr. kemur: eiginfjárgrunni skv. 84. gr. dragast.
    e.    Þrjár nýjar málsgreinar bætast við greinina, svohljóðandi: 
               Frá eiginfjárgrunni skv. 84. gr. dregst neikvæður mismunur á reikningsskilalegri niðurstöðu og niðurstöðu samkvæmt innramatsaðferð, sbr. 2. mgr. 84. gr., á væntu tapi á eignum og skuldbindingum, öðrum en verðbréfuðum stöðum. 
               Frá eiginfjárgrunni skv. 84. gr. dregst enn fremur sá hluti af verðbréfuðum stöðum sem er metinn með 1.250% áhættuvog í útreikningi áhættugrunns. 
               Samtala frádráttarliða samkvæmt þessari grein skal að 50% hluta dragast frá niðurstöðu útreiknings á eiginfjárþætti A skv. 84. gr. og að 50% hluta frá niðurstöðu útreiknings á eiginfjárþætti B skv. 84. gr. Fari frádráttur skv. 1. málsl. umfram fjárhæð eiginfjárþáttar B skal umframfjárhæðin dragast frá eiginfjárþætti A.

8. gr.
    Í stað orðanna „eigið fé“ í 1.–4. mgr. 86. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli:
eiginfjárgrunnur.

9. gr.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
    Fjármálafyrirtækjum, öðrum en þeim sem fengið hafa leyfi til að beita innramatsaðferð við mat á áhættuþáttum, er heimilt við útreikning á eigin fé og áhættugrunni á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2007 að beita þeim ákvæðum sem giltu um eigið fé og áhættugrunn í árslok 2006.

II.
    Eiginfjárkrafa fjármálafyrirtækis, sem fengið hefur leyfi til að beita innramatsaðferð við mat á lánaáhættu eða þróaðri aðferð við mat á rekstraráhættu, skal á árunum 2007, 2008 og 2009 að lágmarki nema, í sömu röð, 95%, 90% og 80% af þeirri eiginfjárkröfu sem ákvæðin um eigið fé og áhættugrunn, sem í gildi voru í árslok 2006, hefðu leitt af sér.

III.
    Við setningu reglna samkvæmt ákvæðum 84. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að vísa til birtingar á viðaukum tilskipana 2006/48/EB og 2006/49/EB í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku.

Gjört í Reykjavík, 20. desember 2006.

Geir H. Haarde.

Sólveig Pétursdóttir.
(L. S.)

Gunnlaugur Claessen.

Jón Sigurðsson.

A deild - Útgáfud.: 29. desember 2006