Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 233/2009

Nr. 233/2009 12. febrúar 2009
STARFSREGLUR
fyrir samvinnunefnd um svæðisskipulag Suðurnesja.

1. gr.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitar­félagið Garður og Sveitarfélagið Vogar, skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Varnar­málastofnun Íslands hafa komið á fót samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags Suðurnesja.

Hver sveitarstjórn hefur kosið tvo fulltrúa í nefndina og skipulagsnefnd Keflavíkur­flugvallar og Varnarmálastofnun Íslands sinn hvorn fulltrúann. Hver aðili að nefndinni, sbr. 1. mgr., fer með tvö atkvæði á fundum. Skipulagsstofnun tilnefndir fulltrúa til að starfa með nefndinni og hefur hann full réttindi nefndarmanns önnur en atkvæðis­rétt.

2. gr.

Samvinnunefndin kýs sér formann og varaformann. Framkvæmdastjóri Samtaka sveitar­félaga á Suðurnesjum er ráðinn ritari nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt án atkvæðisréttar.

3. gr.

Hlutverk samvinnunefndar er tvíþætt. Annars vegar að vinna nýtt svæðisskipulag fyrir Suðurnesin og hins vegar að fjalla um og afgreiða breytingar á svæðisskipulagi Suður­nesja.

4. gr.

Fundi í samvinnunefnd skal halda eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Fundargerðir skal senda til nefndarmanna og oddvita sveitarfélaganna. Skulu fundargerðir jafnan lagðar fram á næsta fundi til samþykktar. Formaður boðar til funda með a.m.k. 3 daga fyrirvara. Fundur er lögmætur ef formaður eða varaformaður og helmingur nefndar­manna eru viðstaddir. Leitast skal við að ná samkomulagi um ákvarðanir og afgreiðslur samvinnunefndarinnar, takist það ekki ræður afl atkvæða.

Þó getur nefndin ekki ályktað um mál sem varða sérstaklega hagsmuni eins sveitar­félags, skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar eða Varnarmálastofnunar Íslands að fulltrúum þess fjarstöddum. Samkvæmt 13. gr. skipulags- og byggingarlaga telst svæðis­skipulag, eða breyting á því, samþykkt þegar og að svo miklu leyti sem allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir, skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Varnarmálastofnun Íslands hafa samþykkt það. Samvinnunefnd sendir samþykkta tillögu til Skipulags­stofnunar sem gerir síðan tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu svæðis­skipulagsins.

5. gr.

Samvinnunefnd ræður sér skipulagsráðgjafa til að stýra vinnu við gerð svæðis­skipulags­áætlunar. Við hann skal gerður skriflegur samningur. Samvinnunefnd hefur heimild til að ráða til sín aðra ráðgjafa eftir því sem þörf er á. Kostnaður vegna svæðisskipulags Suðurnesja greiðist, í samræmi við áðurgreindan samning, til helminga á milli Skipulagssjóðs annars vegar og sveitarfélaganna í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2008, skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar og Varnarmálastofnunar Íslands hins vegar: Skipulagssjóður greiðir 50%, Reykjanesbær 28,6%, Grindavíkurbær 6,0%, Sandgerðis­bær 3,7%, Sveitarfélagið Garður 3,1%, Sveitarfélagið Vogar 2,6%, skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar 3,0% og Varnarmálastofnun Íslands 3,0%. Hvert sveitarfélag um sig, skipulags­nefnd Keflavíkurflugavallar, Varnarmálastofnun Íslands og Skipulagsstofnun bera kostnað af þátttöku sinna fulltrúa.

Kostnaður vegna einstakra breytinga, undirbúningur þeirra og kynning, greiðist af viðkomandi sveitarfélagi.

6. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt 4. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 12. febrúar 2009.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.

Logi Kjartansson.

B deild - Útgáfud.: 27. febrúar 2009