Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 156/2008

Nr. 156/2008 28. janúar 2008
REGLUR
um Vinnumatssjóð Háskólans á Akureyri.

1. gr.

Aðjúnktar, lektorar og dósentar sem gegna a.m.k. 20% starfi við Háskólann á Akureyri skulu eiga kost á greiðslum fyrir árangur í rannsóknum og nýsköpun í kennslu umfram vinnuskyldu á liðnu almanaksári. Skulu þeir skila stigamatsskýrslu til stjórnsýslu rannsókna eigi síðar en 1. mars ár hvert sbr. 5. gr. Stjórnsýsla rannsókna metur störf umsækjanda til stiga samkvæmt 1. mgr. 3.5. gr. í stofnanasamningi Félags háskóla­kennara á Akureyri og viðsemjenda þess.

2. gr.

Háskólaráð setur reglur um mat á störfum háskólakennara að fengnum tillögum vísindaráðs. Háskólaráð ákveður framlög í vinnumatssjóð með hliðsjón af fjárveitingu í fjárlögum.

3. gr.

Að jafnaði er greitt úr vinnumatssjóði vegna rannsóknavinnu þegar skýrt kemur fram að umsækjandi sé starfsmaður HA. Greiðslur fyrir hvert rannsóknarstig úr vinnumatssjóði taka mið af starfshlutfalli við aðrar háskólastofnanir. Þannig fær kennari sem er í hálfu starfi við annan háskóla greiddan helming á við þann sem er í fullu starfi við Háskólann á Akureyri fyrir hvert rannsóknarstig umfram vinnuskyldu.

4. gr.

Við útreikning á rannsóknaframlagi háskólakennara sem ekki fá greitt annars staðar fyrir rannsóknastörf skal árleg vinnuskylda kennara miðast við 7 stig. Árleg rannsóknaskylda háskólakennara í hlutastarfi sem einnig fá greitt fyrir rannsóknastörf annars staðar (t.d. við rannsóknastofnanir innan eða utan HA) miðast við 14 stig. Áunnin stig umfram það sem hér um getur teljast því rannsóknaframlag umfram rannsóknaskyldu og verða lögð til grundvallar greiðslu úr vinnumatssjóði.

5. gr.

Stigamatsskýrslu skal skila til stjórnsýslu rannsókna eigi síðar en 1. mars ár hvert. Árlegt mat úr sjóðnum skal liggja fyrir í síðasta lagi 1. júní og skal stjórnsýsla rannsókna úthluta greiðslum úr sjóðnum 1. september ár hvert. Kennari getur fengið greitt úr sjóðnum á árinu eftir að hann hættir störfum við skólann vegna rannsókna sem unnar eru á því ári sem hann lætur af störfum.

6. gr.

Gefinn er kostur á því að skila inn athugasemdum við niðurstöðu mats til stjórnsýslu rannsókna innan 15 daga frá því það liggur fyrir. Stjórnsýsla rannsókna hefur endanlegt úrskurðarvald í slíkum málum en skal leita umsagnar vísindaráðs um atriði sem hafa mikilvægt fordæmisgildi við mat á störfum háskólakennara.

7. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 21. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 466/2007 og gilda vegna starfa á árinu 2008 og skulu endurskoðaðar að því loknu. Reglur þessar öðlast gildi 1. janúar 2008.

Háskólanum á Akureyri, 28. janúar 2008.

Þorsteinn Gunnarsson rektor.

Þóroddur Bjarnason,
ritari háskólaráðs.

B deild - Útgáfud.: 18. febrúar 2008