Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1062/2014

Nr. 1062/2014 21. nóvember 2014
SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

1. gr.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og starfar skv. lögum nr. 19/1988. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum.

2. gr.

Heimili og varnarþing stofnunarinnar er í Reykjanesbæ.

3. gr.

Markmið Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum er að efla endur- og símenntun Suðurnesjamanna, samstarf atvinnulífs og skóla og tengsl grunn- og endurmenntunar. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum námskeið sem ekki heyra beint undir formlegt námsframboð skóla og er hér einkum átt við frístundanám og starfstengd námskeið og námskeiðaraðir. Kennslu í Miðstöð símennt­unar á Suðurnesjum verður hagað þannig að hún hæfi fullorðnum.

4. gr.

Stofnendur Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum eru: Samband sveitarfélaga á Suður­nesjum, kt. 640479-0279, Reykjanesbær, kt. 470794-2169, Fjölbrautaskóli Suður­nesja, kt. 661176-0169, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, kt. 680269-5729, Iðnsveinafélag Suðurnesja, kt. 660169-3269, Verslunarmannafélag Suður­nesja, kt. 690269-0669, Rafiðnaðarfélag Suðurnesja, kt. 690975-5139, Vélstjóra­félag Suðurnesja, kt. 490272-0709, Útvegsmannafélag Suðurnesja, kt. 480374-0379, Vinnu­veitenda­félag Suðurnesja, kt. 490776-1259, Kaupfélag Suður­nesja, kt. 680169-1019 og Hitaveita Suður­nesja, kt. 680475-0169. Fjárhagslegar skuldbindingar miðstöðvar­innar eru stofn­endum óviðkomandi umfram stofnframlag.

5. gr.

Stofnfé stofnunarinnar er 1.083.000 kr., sem lagt er fram af stofnendum, sbr. 4. gr. Stofn­fé er óskerðanlegt.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim verðmætum er hún kann að eignast síðar. Stofnendur hafa engin sérréttindi í stofnuninni.

Tekjur Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, auk vaxta af stofnframlagi, eru frjáls fram­lög frá ríki og sveitarfélögum, tekjur af þjónustu auk frjálsra framlaga frá einstak­lingum, fyrirtækjum og samtökum og annars aflafjár.

6. gr.

Stjórn Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum er skipuð fimm mönnum til eins árs í senn og fimm til vara. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum tilnefnir einn fulltrúa, Reykja­nes­bær tilnefnir einn fulltrúa, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Iðn­sveina­félag Suðurnesja, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Rafiðnaðarfélag Suður­nesja og Vélstjórafélag Suðurnesja tilnefna sameiginlega einn fulltrúa, Útvegs­manna­félag Suðurnesja, Vinnuveitendafélag Suðurnesja, Kaupfélag Suðurnesja og Hita­veita Suðurnesja tilnefna einn fulltrúa sameiginlega og Fjölbrautaskóli Suðurnesja tilnefnir einn full­trúa. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Stjórn Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum ber að vinna að markmiðum stofn­unar­innar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjár­hags­legan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun stofnunarinnar og setur sér og stofnun­inni starfsreglur. Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef málefnið varðar hann persónulega.

Hver stjórnarmaður getur krafist þess að stjórnarfundur sé haldinn. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

7. gr.

Stjórn Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum ræður forstöðumann, sem annast dag­legan rekstur og setur honum erindisbréf. Forstöðumaðurinn ber ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar. Forstöðumaðurinn undirbýr fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár, sem skal lögð fyrir stjórnina fyrir 1. apríl ár hvert. Forstöðumaðurinn vinnur að fjáröflun og annast reikningsskil. Forstöðumaður ræður starfsfólk stofnunarinnar.

Forstöðumaður á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður, en hann fer þó ekki með atkvæðisrétt. Forstöðumanni ber að veita stjórnarmönnum og endur­skoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir óska eftir og veita ber samkvæmt lögum.

8. gr.

Til þess að stofnunin geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt fyrir hönd stofn­unarinnar að eiga samstarf við aðra og gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum getur með sérstökum samn­ingi tekið að sér fræðsluverkefni sem teljast hliðstæð námsframboði fram­halds­skóla. Halda skal kostnaði af slíkri starfsemi að fullu aðgreindum frá öðrum rekstri miðstöðvarinnar.

9. gr.

Reikningsár Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert og er fyrsta reikningstímabil frá stofnun og til næstu áramóta. Forstöðumaður skal í fyrstu viku marsmánaðar leggja eftirfarandi gögn fyrir stjórn miðstöðvarinnar til afgreiðslu:

  1. Skýrslu um starfsemi síðasta starfsárs.
  2. Endurskoðaðan ársreikning liðins starfsárs.

Reikningar Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum skulu endurskoðaðir af löggiltum endur­skoðanda, sem skipaður er af stjórn til eins árs. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna stofnunarinnar.

Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári.

10. gr.

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt með samhljóða samþykki stjórnar. Skulu breytingar hljóta staðfestingu sýslumannsins á Sauðárkróki.

Stofnuninni verður slitið með sameiginlegri ákvörðun stjórnar.

Verði starfsemi Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum hætt og stofnunin lögð niður skulu eignir hennar renna til eflingar endur- og símenntunar á Suðurnesjum.

Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Til þess að breyta skipulagsskrá þessari, sameina stofnunina annarri sjálfseignarstofnun eða leggja hana niður, þarf samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Sauðárkróki. Komi til niðurlagningar stofnunarinnar skal hreinni eign hennar varið til markmiðanna sem greint er frá í 3. gr. hér að ofan eða skyldra markmiða.

11. gr.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

F.h. sýslumannsins á Sauðárkróki, 21. nóvember 2014,

Björn Ingi Óskarsson.

Auður Steingrímsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 10. desember 2014