Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 188/2012

Nr. 188/2012 28. febrúar 2012
REGLUR
um inntöku nýnema í hagfræðideild Háskóla Íslands.

1. gr.

Inntökupróf.

Nemendur sem óska eftir að hefja grunnnám í hagfræði skulu gangast undir inntökupróf.

Inntökupróf í hagfræði eru haldin í júní ár hvert, samkvæmt nánari ákvörðun kennslumálanefndar háskólaráðs og hagfræðideildar, að höfðu samráði við sviðsstjóra kennslusviðs Háskóla Íslands. Sjúkrapróf skal haldið viku síðar sé þess þörf. Prófið er haldið á vegum Háskóla Íslands og í húsnæði á hans vegum.

Hagfræðideild auglýsir prófið og birtist sérstök lýsing á framkvæmd þess á heimasíðu deildarinnar.

Þeir nemendur sem ná lágmarkseinkunn á inntökuprófi öðlast rétt til að hefja nám í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands, sbr. 3. gr. þessara reglna. Hagfræðideild er heimilt að veita nemendum sem lokið hafa námi á háskólastigi undanþágu frá inntökuprófi, sbr. 5. gr.

2. gr.

Skráning til inntökuprófs.

Nemendur sem sækja um skrásetningu í hagfræðideild fyrir 5. júní ár hvert eru sjálfkrafa skráðir til inntökuprófs, enda hafi þeir lokið stúdentsprófi og fullnægi öðrum kröfum sem Háskóli Íslands gerir til nýnema og greitt próftökugjald vegna inntökuprófsins ef við á. Þeir nemendur sem ná lágmarkseinkunn 5,0 á inntökuprófi öðlast rétt til að hefja nám í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands. Þessi réttur fellur úr gildi hefji nemandi ekki nám innan þriggja ára frá töku prófsins.

3. gr.

Próftökugjald.

Heimilt er, á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að innheimta próftökugjald til að kosta gerð, fyrirlögn og yfirferð inntökuprófa. Ef próftökugjald er innheimt, fer fjárhæð þess og innheimta eftir sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands.

4. gr.

Framkvæmd og námsefni í inntökuprófi.

Undirbúningur prófsins fer fram af hálfu hagfræðideildar í samstarfi við kennslumálanefnd háskólaráðs. Prófið er í tveimur hlutum sem vegnir eru saman. Annars vegar almennur prófhluti sem byggist meðal annars á túlkun tölulegra upplýsinga, rökhugsun og kunnáttu í íslensku og ensku. Hins vegar sértækur prófhluti, þar sem kannað er hvort nemendur hafi næga þekkingu og kunnáttu í stærðfræði til að takast á við hagfræðinámið.

Prófsefni almenna hlutans er ekki byggt á sérstöku námsefni heldur miðast við að meta almenna námsgetu. Prófsefni stærðfræðihlutans miðast við námsefni í stærðfræði í framhaldsskólum. Þetta efni má m.a. finna í eftirtöldum námsáföngum framhaldsskólanna: Stærðfræði, STÆ 103, 203, 303, 403, 503.

Kennslumálanefnd háskólaráðs hefur umsjón með almenna prófhlutanum.

Hagfræðideild tilnefnir umsjónarmenn með sértæka prófhlutanum.

Forseti félagsvísindasviðs skipar, að fengnum tillögum hagfræðideildar, prófdómara, einn eða fleiri eftir atvikum.

Einkunnir eru reiknaðar með tveimur aukastöfum.

Á heimasíðu hagfræðideildar skal birta sýnishorn af prófspurningum úr hvorum prófhluta um sig til glöggvunar fyrir þá sem hyggjast þreyta prófið.

5. gr.

Undanþágur frá því að þreyta inntökupróf.

Deildarfundi hagfræðideildar er heimilt að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta inntökupróf að því gefnu að nemandi hafi lokið að minnsta kosti 60 eininga námi á háskólastigi.

6. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar hefur háskólaráð sett á grundvelli tillögu hagfræðideildar og með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, sbr. 3. mgr. 47. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Reglur þessar öðlast þegar gildi og verður þeim beitt við inntöku stúdenta í hagfræðideild frá og með háskólaárinu 2012-2013.

Háskóla Íslands, 13. febrúar 2012.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 28. febrúar 2012