Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 725/2008

Nr. 725/2008 18. júlí 2008
REGLUR
um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar.

I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

Reglur þessar taka til fyrirtækja og einstaklinga sem í atvinnuskyni selja vöru eða þjónustu til neytenda, á sölustað eða með húsgöngu- eða fjarsölu, þ.m.t. með rafrænum hætti.

Hafi Neytendastofa ekki sett sérreglur um sölu á tiltekinni vöru eða þjónustu eiga reglur þessar við. Reglur þessar gilda einnig til fyllingar sérreglum Neytendastofu.

Reglur þessar taka ekki til sölu á uppboði.

II. KAFLI
Söluverð og verðmerkingar.

2. gr.
Söluverð.

Á sölustað, þ.m.t. við fjarsölu, er skylt að verðmerkja vöru og þjónustu með endanlegu söluverði í íslenskum krónum. Endanlegt söluverð er verð með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Ef annar kostnaður bætist við söluverðið þarf að taka það sérstaklega fram.

Ef fleiri en ein verðmerking er á vöru eða þjónustu, skal koma skýrt fram hvert er endanlegt söluverð. Seljandi skal selja vöru og þjónustu á því verði sem verðmerkt er einnig þótt um mistök sé að ræða. Þetta á hins vegar ekki við ef kaupanda má vera ljóst að um mistök sé að ræða.

3. gr.
Verðmerkingar.

Verðmerkja skal vöru þar sem hún er höfð til sýnis, þ.m.t. í búðargluggum, og þjónustu þar sem hún er boðin.

Verðmerking skal vera skýr, aðgengileg og greinileg svo augljóst sé til hvaða vöru eða þjónustu verðmerkingin vísar. Óheimilt er við hillumerkingu á vörum að setja aðra vöru við merki en þá sem verðmerkið vísar til.

Hillumerkingar sem uppfylla lágmarksskilyrði staðals ÍST 81:1997 teljast vera í samræmi við reglur þessar.

4. gr.
Verðmerking á vörum.

Gefa skal upp verð á hverri pakkningu eða sölueiningu. Verðið skal setja á vöruna sjálfa, á viðfestan miða eða á umbúðirnar. Einnig er heimilt að verðmerkja vöru með hillumerki, skilti eða verðlista enda uppfylli slíkar verðmerkingar skilyrði 3. gr. þessara reglna.

Auk söluverðs er skylt að gefa upp verð vöru á hverja viðurkennda mælieiningu skv. reglum sem gilda þar um.

Um verðmerkingar á útsölu eða þegar önnur tilboð eru boðin neytendum fer nánar samkvæmt reglum nr., 366/2008um útsölur og aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði.

5. gr.
Verðmerking á þjónustu.

Skýr verðskrá yfir alla framboðna þjónustu skal ávallt vera til staðar þar sem þjónustan er veitt. Skal verðskráin birt með áberandi hætti.

Í þeim tilvikum sem fjöldi þjónustumöguleika gerir seljanda ókleift að birta verðskrá skv. 1. mgr. er skylt að birta með áberandi hætti útdrátt úr verðskrá, þar sem fram kemur verð á helstu þjónustuliðum.

Uppgefið verð á þjónustu skal innifela efniskostnað, eftir því sem við getur átt.

Veitingahús skulu ávallt hafa matseðil með verðskrá við inngöngudyr. Í upplýsingum um drykkjarföng skal jafnframt tilgreina magn.

Kvikmyndahúsum ber að taka sérstaklega fram þegar kvikmynd er auglýst ef verð á aðgöngumiða þeirrar kvikmyndar er hærra en almennt verð aðgöngumiða kvikmyndahússins.

III. KAFLI
Aðrar verðupplýsingar.

6. gr.
Verðupplýsingar í auglýsingum.

Uppgefið verð í auglýsingum skal vera endanlegt verð til neytanda.

Þegar auglýst er útsala eða lækkað verð á vöru eða þjónustu skal koma fram hvert upprunalegt verð var.

Ef einhverjar upplýsingar eru gefnar í auglýsingum um greiðslukjör eða afborganir skal gefa upp staðgreiðsluverð og þá heildarupphæð sem greiða skal, þ.e. samtölu höfuðstóls, vaxta og kostnaðar miðað við þann lánstíma sem auglýstur er.

7. gr.
Verðupplýsingar vegna neytendalána.

Í tilboðum eða auglýsingum lánveitanda um neytendalán skal tilgreina árlega hlutfallstölu kostnaðar svo og höfuðstól, vexti, lántökukostnað og áætlaða heildarfjárhæð til greiðslu. Ef lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal við sama tækifæri einnig gefa upp staðgreiðsluverð sbr. 13. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán.

IV. KAFLI
Eftirlit, málsmeðferð, viðurlög og gildistaka.

8. gr.
Verðmerkingareftirlit Neytendastofu.

Neytendastofa fer með eftirlit með reglum þessum og skipuleggur skoðanir á vettvangi í því skyni að greina frávik frá reglum þessum.

9. gr.
Verðmerkingareftirlit seljenda vöru og þjónustu.

Fyrirtæki og einstaklingar sem selja vöru og þjónustu bera ábyrgð á að framkvæmd verðmerkinga uppfylli ávallt kröfur reglna þessara og að þær séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim.

Seljendum er skylt að tilgreina ábyrgðaraðila verðmerkinga sem er tengiliður verslunar við Neytendastofu geri Neytendastofa kröfu þar um. Ábyrgðaraðilinn sér um að framkvæmd verðmerkinga á sölustað og framsetning verðmerkinga, þ.m.t. með rafrænum hætti, uppfylli skilyrði reglna þessara og að samræmi sé á milli verðs á hillu og í afgreiðslukassa.

10. gr.
Málsmeðferð.

Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum IX. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, eftir því sem við getur átt.

Ákvarðanir Neytendastofu um að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður. Málskot til áfrýjunarnefndar neytendamála frestar aðför.

11. gr.
Viðurlög.

Neytendastofa tekur ákvörðun um beitingu viðurlaga við brotum á reglum þessum í formi stjórnvaldssekta eða dagsekta þegar það á við.

Sektir geta numið allt að 10 milljónum króna, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 57/2005.

Sektarfjárhæðir skulu að öðru leyti taka mið af alvarleika brotsins svo og hvort seljandi hafi ítrekað brotið gegn reglum þessum, lögum nr. 57/2005 og öðrum reglum settum samkvæmt þeim.

Um viðurlög, ábyrgð á greiðslu sektar o.fl. fer nánar samkvæmt IX. kafla laga nr. 57/2005.

12. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 17. og 18. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán og laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Reglur þessar öðlast þegar gildi. Jafnframt eru felldar úr gildi reglur nr. 577/1994, reglur nr. 580/1994, reglur nr. 21/1995, reglur nr. 512/1996 og reglur nr. 580/1998.

Neytendastofu, 18. júlí 2008.

Tryggvi Axelsson.

Þórunn A. Árnadóttir.

B deild - Útgáfud.: 21. júlí 2008