Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 461/2013

Nr. 461/2013 25. apríl 2013
AUGLÝSING
um náttúruvættið Álafoss í Varmá í Mosfellsbæ.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Álafoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni.

Hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð og nær yfir fossinn, töluvert svæði ofan og neðan hans og einnig skóglendi í svonefndu Álanesi sem er einn af eldri skógum bæjar­ins.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfells­bæjar. Svæðið er fjölsótt, bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

3. gr.

Mörk náttúruvættisins.

Norðan Varmár liggja mörkin skammt frá ánni um 280 metra til suðausturs í um fimm metra fjarlægð frá vegslóða norðan árinnar. Móts við Álanes liggja mörkin yfir ána og umlykja skóginn í Álanesi. Síðan liggja þau um 160 metra til norðvesturs meðfram skógarjaðrinum, að gömlum vatnstanki sem stendur á árbakkanum ofan við fossinn; þaðan um 100 metra samhliða húsum við Álafossveg nr. 25-33 og að lokum um þrjá metra frá horni Álafossvegar nr. 33, yfir Varmá og í upphafspunkt.

Mörk svæðisins eru nánar skilgreind í hnitatöflu (ISN93) og á meðfylgjandi uppdrætti í fylgiskjali.

Nr.

X

Y

201

369964,335

409836,105

202

369887,710

409869,563

203

369855,761

409909,491

204

369847,014

409919,063

205

369821,177

409895,452

206

369888,948

409821,290

207

369895,210

409827,003

208

369901,061

409820,601

209

369936,779

409756,340

210

369981,639

409683,256

211

369991,657

409691,366

212

370001,002

409708,291

213

370011,428

409717,253

214

370008,725

409763,456

215

370004,251

409789,594

4. gr.

Verndun gróðurs og landslags.

Óheimilt er að spilla jarðmyndunum og gróðri innan náttúruvættisins. Ræktun og dreifing framandi plöntutegunda er óheimil innan marka þess, í samræmi við reglugerð um inn­flutning, ræktun og dreifingu erlendra plöntutegunda nr. 583/2000. Umsjónaraðila, í samráði við Umhverfisstofnun, er heimilt að uppræta framandi tegundir svo sem alaska­lúpínu (Lupinus nootkatensis), skógarkerfil (Anthriscus sylvestris) og spánarkerfil (Myrrhis odorata).

5. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Notkun skotvopna er bönnuð innan marka náttúruvættisins.

6. gr.

Umferð um náttúruvættið.

Almenningi er heimil för um náttúruvættið Álafoss en fylgja skal merktum stígum og leiðum í samræmi við fyrirmæli hverju sinni. Öllum er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið. Umferð vélknúinna farartækja og lausaganga hunda er óheimil innan þess.

7. gr.

Tjöldun og umgengni.

Óheimilt er að tjalda innan náttúruvættisins, þ.m.t. eru tjaldvagnar, fellihýsi, hjólhýsi og húsbílar. Einnig er óheimilt að urða eða henda þar rusli og úrgangi.

8. gr.

Umsjón með náttúruvættinu.

Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum Mosfellsbæjar samkvæmt sér­stökum samningi milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem umhverfisráðherra stað­festir.

Í samningnum skal meðal annars kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, reglu­legt eftirlit og fræðslu.

9. gr.

Verndar- og stjórnunaráætlun.

Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir náttúruvættið Álafoss í samráði við Mosfellsbæ, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Í verndar- og stjórnunaráætlun skal fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, landvörslu og landnýtingu, s.s. aðgengi ferðamanna að svæðinu, stígagerð og uppbyggingu þjón­ustu­mannvirkja.

10. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi innan marka náttúruvættisins eru óheimilar, nema með leyfi Umhverfisstofnunar og Mosfellsbæjar og að teknu tilliti til ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlun og verndar- og stjórnunaráætlun.

11. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

12. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. apríl 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Guðríður Þorvarðardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 16. maí 2013