Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 413/2013

Nr. 413/2013 24. apríl 2013
REGLUR
um úthlutun styrkja úr myndlistarsjóði.

1. gr.

Hlutverk og skipulag.

Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kostun verkefna sem falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs. Þannig skal stuðlað að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist hérlendis sem erlendis.

Sjóðurinn veitir verkefnastyrki sem ætlaðir eru til að auðvelda framkvæmd verkefna á sviði listsköpunar og listrannsókna. Jafnframt veitir sjóðurinn styrki til undirbúnings verk­efna sem falla undir starfssvið sjóðsins.

Myndlistarráð úthlutar styrkjum úr myndlistarsjóði.

Myndlistarráði er heimilt að gera samninga við þar til bæra aðila um almenna umsýslu vegna starfsemi myndlistarsjóðs.

2. gr.

Auglýsingar og umsóknir.

Myndlistarráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr myndlistarsjóði í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Auglýst skal eftir umsóknum tvisvar á ári og skal umsóknar­frestur að jafnaði vera eigi skemmri en sex vikur.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um tilgang og hlutverk sjóðsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum og hvar eyðublöð fyrir umsóknir er að finna. Skil­greina skal umsóknarfrest og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

Myndlistarráði er heimilt að leggja sérstaka áherslu á tiltekna þætti við mat á umsóknum og skal gerð grein fyrir því í auglýsingu.

Umsóknum skal skilað á umsóknareyðublaði myndlistarsjóðs. Í umsókn skal koma fram hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum og eftirfarandi upplýsingar og gögn eftir því sem við á:

  1. Upplýsingar um umsækjanda og samstarfsaðila, ef einhverjir eru. Nafn þess sem er í forsvari fyrir umsókn og annast samskipti við sjóðinn ef um stofnun eða félag er að ræða.
  2. Upplýsingar um starfsferil, faglegan og listrænan bakgrunn aðila verkefnisins.
  3. Lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda sem og gildi verkefnisins með tilliti til hlutverks sjóðsins.
  4. Verk- og tímaáætlun.
  5. Fjárhagsáætlun, þar sem fram koma m.a. upplýsingar um áætlaðan kostnað, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða hefur sótt um.
  6. Staðfest gögn frá samstarfsaðilum og önnur þau gögn sem styðja umsókn.

3. gr.

Mat á umsóknum.

Myndlistarráð metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Við veitingu styrkja skal gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarð­anir séu ávallt reistar á faglegu mati. Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftir­töldum sjónarmiðum eftir því sem við á:

  1. listrænu gildi og mikilvægi verkefnis fyrir eflingu íslenskrar myndlistar,
  2. að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að,
  3. starfsferli, faglegum og/eða listrænum bakgrunni umsækjanda og annarra þátt­takenda,
  4. fjárhagsgrundvelli verkefnisins og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk úr myndlistarsjóði þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrksins til að ný umsókn komi til greina.

Að jafnaði er hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrir­tækja og stofnana, né til verkefna og viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

Við mat á umsóknum getur myndlistarráð leitað umsagnar fagaðila, þegar það telur þess þörf.

4. gr.

Ákvörðun um styrkveitingar og eftirlit.

Myndlistarráð tekur ákvörðun um styrkveitingar úr myndlistarsjóði á grundvelli faglegs mats á umsóknum og hefur eftirlit með því að styrkir séu notaðir til þess sem getið var í umsóknum.

Myndlistarráði er heimilt að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri fram­vindu þeirra verkefna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu nema að uppfylltum þessum skilyrðum. Þá er myndlistarráði heimilt að krefja styrkþega um áfangaskýrslu um framvindu verkefnisins ef þurfa þykir, myndlistarráði að kostn­aðar­lausu.

Lokagreiðsla styrkupphæðar verður að jafnaði ekki innt af hendi fyrr en myndlistarráði hefur borist greinargerð um verkefnið.

Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, getur myndlistarráð tekið ákvörðun um að fella styrkveitingu niður.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur myndlistarráð krafist þess að sjóðnum verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun er tekin um niðurfellingu styrks eða endurgreiðslu styrks skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.

Myndlistarráð tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna. Styrkþegum skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög, ef út af bregður.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sér um greiðslu styrkja. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin.

Að verkefni loknu kynnir styrkþegi árangur og niðurstöður fyrir myndlistarráði með skrif­legri greinargerð í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok þess verkefnis sem styrkur­inn var veittur eða með áfangaskýrslu nái verkefni yfir meira en eitt almanaksár.

Í slíkri skýrslu er óskað upplýsinga um:

  1. framvindu verkefnis sem hlaut styrk úr myndlistarsjóði, árangur þess og afrakst­ur,
  2. nýtingu styrks, sundurliðun kostnaðar, aðra styrki og tekjur,
  3. hvort forsendur verkefnis, markmið, verkáætlun, skipulag og kostnaður hafi breyst og þá hvers vegna.

5. gr.

Styrktímabil.

Styrkir úr myndlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna. Nýti styrkþegi ekki styrk í samræmi við tímaáætlun verkefnisins, fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun á greiðslu hans. Umsókn um frest skal vera skrifleg og rökstudd.

Myndlistarráð getur ákveðið að veita styrki eða vilyrði fyrir áframhaldandi styrkveitingum til verkefna sem taka til lengri tíma en eins árs.

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar skv. heimild í 2. mgr. 12. gr. myndlistarlaga nr. 64/2012 og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 24. apríl 2013.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 2. maí 2013