Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 286/2012

Nr. 286/2012 7. mars 2012
REGLUR
um meistaranám við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.

1. gr.

Nám og markmið.

Á verkfræði- og náttúruvísindasviði er unnt að leggja stund á meistaranám í þeim kennslu­greinum sem tilgreindar eru í XIV. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Markmið meistaranáms er að veita nemendum haldgóða og víðtæka menntun sem dýpkar þekkingu á ákveðnu fræðasviði og nýtist í frekara námi eða starfi.

Meistaranám getur verið lokagráða en einnig undirbúningur fyrir doktorsnám. Hver deild setur hæfniviðmið fyrir þær greinar sem tilheyra henni. Að loknu meistaranámi í verkfræði geta nemendur sótt um leyfi til iðnaðarráðuneytis til að fá að kalla sig verkfræðinga, sbr. lög nr. 8/1996. Starfsheitið er lögverndað.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum við­miðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð fram­halds­náms kallar eftir.

2. gr.

Inntökuskilyrði.

Til að innritast í meistaranám við deild (hér eftir kölluð deild) á verkfræði- og náttúru­vísindasviði (hér eftir kallað svið) skal nemandi hafa lokið viðurkenndu grunnnámi (BS-prófi) á því fagsviði sem sótt er um eða sambærilegu námi sem deildin viðurkennir, með lágmarkseinkunn 6,50 eða sambærilegri einkunn.

3. gr.

Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um meistaranám við deildir sviðsins er sá sami og Háskóli Íslands setur um framhaldsnám.

4. gr.

Framhaldsnámsnefnd deildar.

Framhaldsnámsnefnd deildar er valin af deildarráði. Í nefndinni sitja þrír aðilar. Hún fer með málefni framhaldsnáms við deildina og hefur faglega umsjón með gæðum meistaranáms, stýrir ferli umsókna og annast önnur verkefni sem deild kann að fela henni. Formaður hennar situr í fastanefnd sviðsins um framhaldsnám samkvæmt reglum Háskóla Íslands.

5. gr.

Meðferð umsókna.

Ferli umsókna um meistaranám við deildir sviðsins er eftirfarandi:

a)

Sótt er um inngöngu í meistaranám á rafrænum eyðublöðum nemendaskrár Háskóla Íslands sem aðgengileg eru á vef skólans á umsóknartímabilum. Umsókn um meistaranám skal fylgja stutt greinargerð um áhugasvið og væntingar til námsins. Liggi fyrir drög að umsókn um styrki sem fjármagna eiga námið skulu þau fylgja umsókn.

b)

Skrifstofa sviðsins fær frumgögn umsóknar metin samkvæmt reglum Háskóla Íslands til að staðfesta uppruna þeirra, meta gildi prófskírteina og námsgráða og staðfesta að umsækjandi uppfylli inntökuskilyrði.

c)

Skrifstofa sendir mat á frumgögnum og afrit umsóknar og gagna til framhalds­náms­nefndar deildar.

d)

Framhaldsnámsnefnd deildar mælir með samþykkt eða synjun umsóknar. Fram­halds­náms­nefnd sendir álit sitt til deildarforseta. Deildarforseti samþykkir eða hafnar umsóknum formlega fyrir hönd deildar. Framhaldsnámsnefnd sendir niður­stöð­una til skrifstofu sviðsins.

e)

Skrifstofan tilkynnir umsækjanda niðurstöðu bréflega.

f)

Afgreiðslu umsóknar skal lokið innan þeirra tímamarka sem reglur Háskóla Íslands segja til um. Afgreiðsla umsóknar skal skráð í rafrænt kerfi nemendaskrár þegar hún liggur fyrir.

6. gr.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem leiðbeinir nem­and­anum um skipulag námsins, val námskeiða og hvers konar atriði og reglur sem tengjast náminu. Umsjónarkennari skal ávallt vera akademískur starfsmaður í föstu starfi við viðkomandi deild. Umsjónarkennari er að öllu jöfnu leiðbeinandi nemandans í meistara­verkefninu. Deild getur þó heimilað nemanda að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem skal a.m.k. hafa lokið meistaraprófi.

7. gr.

Meistaraprófsnefnd.

Meistaraprófsnefnd skal skipuð minnst tveimur aðilum og er annar þeirra umsjónar­kennarinn. Þeir sem sitja í meistaraprófsnefnd skulu að lágmarki hafa meistara­gráðu. Deildarforseti skipar meistaraprófsnefnd. Hlutverk meistaraprófsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun og að tryggja fagleg gæði rannsóknar­vinnunnar í samræmi við reglur verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

8. gr.

Prófdómari.

Forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs skipar prófdómara að fenginni tillögu deildar. Prófdómari metur meistaraverkefni ásamt meistaraprófsnefnd, sbr. 12. gr. Prófdómari skal hafa lokið a.m.k. meistaraprófi og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Hann skal ekki vera akademískur starfsmaður við Háskóla Íslands. Ef ekki er völ á prófdómara hérlendis utan Háskóla Íslands, er fullnægi skilyrðum, er forseta fræðasviðs heimilt að skipa akadem­ískan starfsmann innan háskólans til starfans að fenginni tillögu deildar.

9. gr.

Tímalengd náms og einingafjöldi.

Meistaranám að loknu BS-prófi skal jafngilda 120 einingum, þ.e. vera jafngilt tveggja ára námi í fullu starfi hið minnsta.

Stærð rannsóknarverkefna skal vera sem hér segir:

Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild: 30 eða 60 einingar.
Jarðvísindadeild: 60 einingar.
Líf- og umhverfisvísindadeild: 60 eða 90 einingar.
Rafmagns- og tölvuverkfræðideild: 60 einingar.
Raunvísindadeild: 60 eða 90 einingar.
Umhverfis- og byggingarverkfræðideild: 30 eða 60 einingar.
Hámarksfjöldi eininga í lesnámskeiðum í umsjón leiðbeinanda er 15 einingar.

Hámarksnámstími til að ljúka meistaraprófi er sex misseri frá því meistaranemi var skráður í námið. Deildinni er heimilt að veita undanþágu frá þessum tímamörkum þegar sérstaklega stendur á.

Meistaraneminn skal að lágmarki taka helming eininga í meistaranámi við Háskóla Íslands.

10. gr.

Kröfur um námskeið.

Námskeið skulu vera á framhaldsstigi við Háskóla Íslands (M- og F-námskeið) eða aðra viðurkennda rannsóknarháskóla.

Öllum námskeiðum skal ljúka með viðeigandi námsmati í samræmi við skilgreinda námsáætlun. Lágmarkseinkunn fyrir námskeið tekin við Háskóla Íslands sem meta skal til meistaraprófs er 6,0. Námskeiðum sem tekin eru við viðurkennda háskóla aðra en Háskóla Íslands skal ljúka í samræmi við kröfur þess skóla.

Almennt er ekki heimilt að nota námskeið úr grunnnámi (BS-námi) sem hluta meistaranáms (námskeið við HÍ sem merkt eru G). Þverfræðilegar rannsóknir geta þó leitt til þess að grunnnámskeið úr öðrum deildum teljist nauðsynlegur hluti námsins. Miðað er við að 8 einingar af slíkum nauðsynlegum grunnnámskeiðum geti talist til meistaraprófs. Þó má taka allt að 12 einingar af grunnnámskeiðum ef um 30 eininga verkefni er að ræða.

11. gr.

Kröfur um undanfara.

Ef nemandi er með meistaranámi sínu að skipta um fagsvið getur vantað mikilvæga þætti úr grunnnámi. Bætast þá nauðsynlegir undanfarar við námskeiðshluta námsins. Umsjónar­kennari gerir tillögu til framhaldsnámsnefndar deildar um umfang og innihald undan­fara. Tillagan þarfnast samþykkis nefndarinnar. Gera skal grein fyrir undanförum í náms­áætlun.

12. gr.

Námsmat.

Í meistaranámi skal greinargóð lýsing á rannsóknarverkefni og rannsóknaráætlun liggja fyrir í síðasta lagi í lok 1. misseris námsins ef um 90 e verkefni er að ræða, en í lok 2. misseris ef verkefni er 60 e eða 30 e.

Meistaranámi lýkur með því að nemandi leggur fram ritgerð og heldur um hana opinberan fyrirlestur. Meistaraverkefnið skal metið af meistaraprófsnefnd auk prófdómara.

Meistararitgerð, sem stenst kröfur deildar, skal gefin einkunn eftir gæðum. Iðnaðar­verkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild og umhverfis- og byggingar­verkfræði­deild gefa einkunn í heilum og hálfum tölum frá 6,0 til 10,0. Í jarðvísinda­deild, líf- og umhverfisvísindadeild, rafmagns- og tölvuverkfræðideild og raunvísinda­deild er gefin einkunnin staðið eða fallið.

Deildir geta sett sér ítarlegri reglur um framkvæmd námsmats.

13. gr.

Skil og frágangur meistararitgerðar.

Meistararitgerð skal leggja fram fullbúna fyrir meistaraprófsnefnd og fulltrúa deildar/próf­dómara minnst tveimur vikum fyrir próf og lokafyrirlestur meistaranema.

Meistararitgerð skal framfylgja sniðmáti sviðsins fyrir meistararitgerðir.

Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands. Tilgreina skal leið­beinendur, fræðasvið, deild og rannsóknarstofnun, ef við á, og geta þeirra sjóða sem styrkt hafa verkefnið.

Allar einkunnir og eintak af ritgerð þurfa að hafa borist skrifstofu a.m.k. þremur vikum fyrir brautskráningardagsetningu. Skrifstofa sviðsins veitir nánari leiðbeiningar um frágang rit­gerða, fjölda eintaka, kostnað vegna þeirra og skil til Háskólabókasafns.

14. gr.

Lærdómstitill.

Meistarapróf veitir rétt til lærdómstitilsins magister scientarium og notkunar skamm­stöfunar­innar MS.

15. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. einnig 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar hafa verið samþykktar í stjórn verkfræði- og náttúruvísindasviðs að fenginni umsögn deilda og Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast gildi 1. júlí 2012. Frá sama tíma falla úr gildi reglur raunvísindadeildar Háskóla Íslands um rannsóknarnám nr. 315/2003 og reglur verkfræðideildar um meistara­nám nr. 259/2004.

Ákvæði til bráðabirgða.

Varðar 2. gr.: Ákvæði reglna nr. 259/2004 um meistaranám við verkfræðideild Háskóla Íslands gilda um lágmarkseinkunn fyrir þá sem innrituðust í grunnnám í verkfræði og tölvunarfræði fyrir haustmisseri 2012.

Varðar 9. gr.: Nemendur sem innrituðust í meistaranám í tölv­unar­fræði fyrir haustmisseri 2012 geta lokið 90 eininga meistaranámi.

Háskóla Íslands, 7. mars 2012.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 22. mars 2012