Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 33/2017

Nr. 33/2017 14. júní 2017

LÖG
um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum (forefni til sprengiefnagerðar, EES-reglur).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

    Á eftir 5. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Með forefnum til sprengiefnagerðar er í lögum þessum átt við efni og/eða blöndur sem sæta takmörkunum eða eru tilkynningarskyld og hægt er að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengi­efna, og sem talin eru upp í reglugerð sem ráðherra setur til innleiðingar á ákvæðum reglu­gerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengi­efna.

2. gr.

    Við c-lið 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: og forefni til sprengiefnagerðar.

3. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Óheimilt er að búa til, varðveita, hafa í fórum sínum, selja, flytja til landsins eða flytja úr landi heimatilbúnar sprengjur.

4. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 27. gr. a – 27. gr. d, svohljóðandi:

    a. (27. gr. a.)

    Almennum borgurum er óheimilt, í öðru skyni en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar, að hafa í fórum sínum og nota forefni til sprengiefnagerðar, sem sæta takmörkunum, í meiri styrkleika en viðmiðunarmörk samkvæmt reglugerð kveða á um.

    Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að heimila almennum borgurum að hafa í fórum sínum og nota tiltekin efni skv. 1. mgr. í styrkleika yfir viðmiðunarmörkum að því tilskildu að sá sem gerir efnin aðgengileg skrái öll viðskipti í samræmi við 27. gr. c.

    Ráðherra getur ákveðið að skrá skuli öll viðskipti með forefni skv. 6. mgr. 1. gr. í samræmi við 27. gr. c.

    b. (27. gr. b.)

    Sá sem framleiðir, flytur inn, flytur út eða verslar með forefni til sprengiefnagerðar getur áskilið sér rétt til að hafna grunsamlegum viðskiptum. Skylt er að tilkynna viðskiptin, eða tilraun til slíkra viðskipta, þar á meðal grunsamlegar fyrirspurnir, án óþarfa tafa, þ.m.t., ef mögulegt er, upp­lýs­ingar um deili á viðskiptamanninum, til tengiliðar á landsvísu sem ákveðinn er af ráðherra í reglu­gerð. Aðeins er skylt að tilkynna ef gildar ástæður eru til að ætla að fyrirhuguð viðskipti með eitt eða fleiri efni sem talin eru upp í reglugerð, eða blöndur eða efni sem innihalda þau, séu grunsam­leg viðskipti með hliðsjón af öllum aðstæðum og einkum þegar tilvonandi viðskiptamaður:

  1. virðist óskýr varðandi fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar, 
  2. virðist ekki vita hver fyrirhuguð notkun efnisins eða blöndunnar er eða getur ekki útskýrt það þannig að trúanlegt sé, 
  3. hyggst kaupa efni í magni, samsetningu eða styrkleika sem er ekki algengt til einkanota, 
  4. er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða hvar hann býr eða 
  5. fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti, þ.m.t. háar fjárhæðir í reiðufé.

    Skylt er að tilkynna um hvarf eða þjófnað á sprengiefni eða miklu magni af forefnum til sprengi­efna­gerðar sem talin eru upp í reglugerð skv. a- og b-lið 27. gr. d, og blöndum eða efnum sem inni­halda þau, til tengiliðar á landsvísu sem ákveðinn er af ráðherra í reglugerð.

    c. (27. gr. c.)

    Nú ákveður ráðherra með reglugerð að viðskipti með forefni til sprengiefnagerðar skuli vera skrán­ingar­skyld eða að tiltekin forefni sem háð eru takmörkunum verði aðgengileg almennum borgurum í styrkleika yfir viðmiðunarmörkum og skulu þá þeir sem gera efnin aðgengileg halda skrá yfir viðskipti með efnin. Viðskiptamenn skulu gera grein fyrir hverjir þeir eru með því að sýna lögleg skilríki.

    Í skránni skulu a.m.k. vera eftirfarandi upplýsingar:

  1. nafn, heimilisfang og, eftir atvikum, annaðhvort kennitala viðskiptamanns eða tegund og númer skilríkis,
  2. heiti efnisins eða blöndunnar, þ.m.t. styrkleiki, 
  3. magn efnisins eða blöndunnar, 
  4. yfirlýsing viðskiptamanns um fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar, 
  5. dagsetning og staður viðskiptanna,
  6. undirskrift viðskiptamanns.

    Skráin skal geymd í fimm ár frá viðskiptadegi. Lögreglustjóri eða tollstjóri getur, hvenær sem er og án sérstakrar heimildar, krafist þess að fá aðgang að skránni.

    Skráin skal geymd á pappír eða öðrum varanlegum miðli og skal aðgengileg til skoðunar hvenær sem er allt tímabilið sem kveðið er á um í 3. mgr. Öll gögn sem geymd eru rafrænt skulu:   

  1. vera í samræmi við snið og innihald samsvarandi pappírsskjala og
  2. vera tiltæk hvenær sem er allt tímabilið sem kveðið er á um í 3. mgr.

    Leyfisveitendur skulu senda tengilið á landsvísu sem ákveðinn er af ráðherra í reglugerð yfirlit yfir útgefin leyfi einu sinni á ári en oftar sé þess óskað.

    d. (27. gr. d.)

    Ráðherra setur reglugerð um forefni til sprengiefnagerðar sem getur m.a. kveðið á um:

  1. tegundir forefna sem sæta takmörkunum,
  2. tegundir forefna sem sæta eingöngu tilkynningarskyldu,
  3. tegundir forefna sem sæta skráningarskyldu,
  4. viðmiðunar- og styrkleikamörk,
  5. skráningu forefna og tilkynningarskyldu,
  6. tengilið á landsvísu,
  7. eftirlit,
  8. heimatilbúnar sprengjur,
  9. merkingar.

5. gr.

    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 frá 12. desember 2014.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört í Reykjavík, 14. júní 2017.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigríður Á. Andersen.


A deild - Útgáfud.: 15. júní 2017